Add parallel Print Page Options

21 Á dögum Davíðs varð hallæri í þrjú ár samfleytt. Gekk þá Davíð til frétta við Drottin, en Drottinn svaraði: "Á Sál og ætt hans hvílir blóðsök fyrir það, að hann drap Gíbeoníta."

Þá lét konungur kalla Gíbeoníta og sagði við þá _ (Gíbeonítar heyrðu ekki til Ísraelsmönnum, heldur leifum Amoríta, og þótt Ísraelsmenn hefðu unnið þeim eiða, leitaðist Sál við að drepa þá, af vandlætingasemi vegna Ísraelsmanna og Júda.) _

Og Davíð sagði við Gíbeoníta: "Hvað á ég að gjöra fyrir yður, og með hverju á ég að friðþægja, til þess að þér blessið arfleifð Drottins?"

Þá sögðu Gíbeonítar við hann: "Það er ekki silfur og gull, sem vér sækjumst eftir af Sál og ætt hans, og engan mann viljum vér feigan í Ísrael." Hann svaraði: "Hvað segið þér, að ég eigi að gjöra fyrir yður?"

Þá sögðu þeir við konung: "Maðurinn sem eyddi oss og hugði að afmá oss, svo að vér værum ekki lengur til í öllu Ísraels landi, _

af niðjum hans skulu oss fengnir sjö menn, svo að vér megum bera þá út fyrir Drottin í Gíbeon á fjalli Drottins." Konungur sagði: "Ég skal fá yður þá."

Konungur þyrmdi þó Mefíbóset, Jónatanssyni, Sálssonar, vegna eiðs þess við Drottin, er þeir höfðu unnið hvor öðrum, Davíð og Jónatan, sonur Sáls.

En konungur tók báða sonu Rispu Ajasdóttur, er hún hafði fætt Sál, Armóní og Mefíbóset, og fimm sonu Merab, dóttur Sáls, er hún hafði fætt Adríel Barsillaísyni frá Mehóla,

og fékk þá í hendur Gíbeonítum. Og þeir báru þá út fyrir Drottin á fjallinu, svo að þeir dóu sjö saman. Voru þeir teknir af lífi fyrstu daga uppskerunnar.

10 En Rispa Ajasdóttir tók hærusekk og breiddi hann út á klettinum handa sér að hvílurúmi, frá byrjun uppskerunnar þar til er regn streymdi af himni yfir þá, og eigi leyfði hún fuglum himinsins að setjast að þeim um daga, né dýrum merkurinnar um nætur.

11 En er Davíð var sagt frá, hvað Rispa Ajasdóttir, hjákona Sáls, hafði gjört,

12 fór Davíð og sótti bein Sáls og bein Jónatans sonar hans til Jabesmanna í Gíleað, en þeir höfðu stolið þeim á torginu í Bet San, þar sem Filistar höfðu hengt þá upp, daginn sem Filistar drápu Sál á Gilbóa.

13 Hann kom þaðan með bein Sáls og bein Jónatans sonar hans. Var síðan safnað saman beinum hinna útbornu

14 og þau grafin með beinum Sáls og beinum Jónatans sonar hans í landi Benjamíns í Sela, í gröf Kíss föður hans. Var allt gjört sem konungur bauð, og eftir það líknaði Guð landinu.

15 Enn áttu Filistar ófrið við Ísrael. Fór Davíð með menn sína til þess að berjast við Filista, og varð Davíð móður.

16 Þá hugði Jisbi Benob, einn af niðjum Refaíta (spjót hans vó þrjú hundruð sikla eirs, og hann var gyrtur nýju sverði), að drepa Davíð.

17 Þá kom Abísaí Serújuson honum til hjálpar og hjó Filistann banahögg. Þá sárbændu menn Davíðs hann og sögðu: "Þú mátt eigi framar með oss fara í hernað, svo að þú slökkvir eigi lampa Ísraels."

18 Seinna tókst enn orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Sibbekaí Húsatíti Saf, sem og var einn af niðjum Refaíta.

19 Og enn tókst orusta hjá Gób við Filista. Þá drap Elkanan, sonur Jaare Orgím frá Betlehem, Golíat frá Gat, en spjótskaft hans var sem vefjarrifur.

20 Og er enn tókst orusta hjá Gat, var þar tröllaukinn maður, er hafði sex fingur á hvorri hendi og sex tær á hvorum fæti, tuttugu og fjögur að tölu. Var hann og kominn af Refaítum.

21 Hann smánaði Ísrael, en Jónatan sonur Símea, bróður Davíðs, drap hann.

22 Þessir fjórir voru komnir af Refaítum í Gat, og féllu þeir fyrir Davíð og mönnum hans.

22 Davíð flutti Drottni orð þessa ljóðs, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.

Hann mælti: Drottinn er bjarg mitt og vígi, hann er sá sem hjálpar mér.

Guð minn er hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín og hæli, frelsari minn, sem frelsar mig frá ofbeldi.

Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.

Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,

snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.

Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Í helgidómi sínum heyrði hann raust mína, óp mitt barst til eyrna honum.

Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður.

Reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.

10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.

11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.

12 Hann gjörði myrkrið í kringum sig að skýli, regnsortann og skýþykknið.

13 Frá ljómanum fyrir honum flugu hagl og eldglæringar.

14 Drottinn þrumaði af himni, hinn hæsti lét raust sína gjalla.

15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði þeim, lét eldingarnar leiftra og hræddi þá.

16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnum Drottins, fyrir andgustinum úr nösum hans.

17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.

18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.

19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.

20 Hann leiddi mig út á víðlendi, hann frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.

21 Drottinn fór með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna galt hann mér,

22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.

23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum og frá boðorðum hans hefi ég ekki vikið.

24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.

25 Drottinn galt mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.

26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,

27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.

28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir alla hrokafulla niðurlúta.

29 Já, þú ert lampi minn, Drottinn, Guð minn lýsir mér í myrkrinu.

30 Fyrir þína hjálp hleyp ég yfir virkisgrafir, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.

31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er skírt. Skjöldur er hann öllum þeim, sem leita hælis hjá honum.

32 Því að hver er Guð, nema Drottinn, og hver er hellubjarg, utan vor Guð?

33 Sá Guð, sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan.

34 Hann gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum.

35 Hann æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.

36 Þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.

37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum og ökklar mínir riðuðu ekki.

38 Ég elti óvini mína og náði þeim, og sneri ekki aftur fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.

39 Ég gjöreyddi þeim og molaði þá sundur, svo að þeir risu ekki upp framar og hnigu undir fætur mér.

40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.

41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, þeim eyddi ég, sem hata mig.

42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.

43 Ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem skarn á strætum.

44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna. Lýður, sem ég þekkti ekki, þjónar mér.

45 Framandi menn smjaðra fyrir mér, óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér.

46 Framandi menn dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.

47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns!

48 Þú Guð, sem veittir mér hefndir og braust þjóðir undir mig,

49 sem hreifst mig úr höndum óvina minna og hófst mig yfir mótstöðumenn mína. Frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.

50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.

51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.

24 Jesús sá það og sagði: "Hve torvelt er þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.

25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."

26 En þeir, sem á hlýddu, spurðu: "Hver getur þá orðið hólpinn?"

27 Hann mælti: "Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð."

28 Þá sagði Pétur: "Vér yfirgáfum allt, sem vér áttum, og fylgdum þér."

29 Jesús sagði við þá: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn Guðs ríkis vegna

30 án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi eilíft líf."

31 Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: "Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum.

32 Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann.

33 Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa."

34 En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.

35 Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði.

36 Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera.

37 Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá.

38 Þá hrópaði hann: "Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!"

39 En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"

40 Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann:

41 "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Hinn svaraði: "Herra, að ég fái aftur sjón."

42 Jesús sagði við hann: "Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér."

43 Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.

Read full chapter