A A A A A
Bible Book List

Síðari bók konunganna 24-25 Icelandic Bible (ICELAND)

24 Á hans dögum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför þangað, og varð Jójakím honum lýðskyldur í þrjú ár. Síðan brá hann trúnaði við hann.

Þá sendi Drottinn í móti Jójakím ránsflokka Kaldea, ránsflokka Sýrlendinga, ránsflokka Móabíta og ránsflokka Ammóníta. Hann sendi þá gegn Júda til þess að eyða landið samkvæmt orði Drottins, því er hann hafði talað fyrir munn þjóna sinna, spámannanna.

Að boði Drottins fór svo fyrir Júda, til þess að hann gæti rekið þá burt frá augliti sínu sakir synda Manasse samkvæmt öllu því, er hann hafði gjört,

svo og sakir þess saklausa blóðs, er hann hafði úthellt, svo að hann fyllti Jerúsalem saklausu blóði _ það vildi Drottinn ekki fyrirgefa.

Það sem meira er að segja um Jójakím og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

Og Jójakím lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Jójakín sonur hans tók ríki eftir hann.

En Egyptalandskonungur fór enga herför framar úr landi sínu, því að konungurinn í Babýlon hafði unnið land allt frá Egyptalandsá að Efratfljóti, það er legið hafði undir Egyptalandskonung.

Jójakín var átján ára gamall, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Nehústa Elnatansdóttir og var frá Jerúsalem.

Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði faðir hans.

10 Um þær mundir fóru þjónar Nebúkadnesars, konungs í Babýlon, herför til Jerúsalem, og varð borgin í umsátri.

11 Og Nebúkadnesar Babelkonungur kom sjálfur til borgarinnar, þá er þjónar hans sátu um hana.

12 Gekk þá Jójakín Júdakonungur út á móti Babelkonungi ásamt móður sinni, þjónum sínum, herforingjum og hirðmönnum, og Babelkonungur tók hann höndum á áttunda ríkisstjórnarári hans.

13 Og hann flutti þaðan alla fjársjóðu musteris Drottins og fjársjóðu konungshallarinnar og tók gullið af öllum áhöldum, er Salómon Ísraelskonungur hafði gjöra látið í musteri Drottins, eins og Drottinn hafði sagt.

14 Og Nebúkadnesar herleiddi alla Jerúsalem og alla höfðingja og alla vopnfæra menn, tíu þúsund að tölu, svo og alla trésmiði og járnsmiði. Ekkert var eftir skilið nema almúgafólk landsins.

15 Og hann herleiddi Jójakín til Babýlon. Og konungsmóður og konur konungsins og hirðmenn hans og höfðingja landsins herleiddi hann og frá Jerúsalem til Babýlon.

16 Svo og alla vopnfæra menn, sjö þúsund að tölu, og trésmiði og járnsmiði, þúsund að tölu, er allir voru hraustir hermenn, _ þá herleiddi Nebúkadnesar til Babýlon.

17 Og konungurinn í Babýlon skipaði Mattanja föðurbróður Jójakíns konung í hans stað og breytti nafni hans í Sedekía.

18 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna.

19 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Jójakím.

20 Vegna reiði Drottins fór svo fyrir Jerúsalem og Júda, uns hann hafði burtsnarað þeim frá augliti sínu. En Sedekía brá trúnaði við Babelkonung.

25 Á níunda ríkisári Sedekía, á tíunda degi hins tíunda mánaðar, kom Nebúkadnesar Babelkonungur með allan sinn her til Jerúsalem og settist um hana, og þeir reistu hervirki hringinn í kringum hana.

Varð borgin þannig í umsátri fram á ellefta ríkisár Sedekía konungs.

Í fjórða mánuðinum, á níunda degi mánaðarins, er hungrið tók að sverfa að borginni og landslýður var orðinn vistalaus,

þá var brotið skarð inn í borgina. Og konungur og allir hermennirnir flýðu um nóttina gegnum hliðið milli beggja múranna, sem er hjá konungsgarðinum, þótt Kaldear umkringdu borgina. Konungur hélt leiðina til sléttlendisins,

en her Kaldea veitti honum eftirför og náði honum á Jeríkóvöllum, er allur her hans hafði tvístrast burt frá honum.

Tóku þeir konung höndum og fluttu hann til Ribla til Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans.

Drápu þeir sonu Sedekía fyrir augum hans, en Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum. Síðan fluttu þeir hann til Babýlon.

Í fimmta mánuði, á sjöunda degi mánaðarins _ það er á nítjánda ríkisári Nebúkadnesars Babelkonungs _ kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem

og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi.

10 En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður múrana umhverfis Jerúsalem.

11 En leifar lýðsins _ þá er eftir voru í borginni _ og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon.

12 En af almúga landsins lét lífvarðarforinginn nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla.

13 Eirsúlurnar, er voru hjá musteri Drottins, og vagna kerlauganna og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu eirinn til Babýlon.

14 Og katlana, eldspaðana, skarbítana, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir.

15 Þá tók og lífvarðarforinginn eldpönnurnar og fórnarskálarnar _ allt sem var af gulli og silfri.

16 Súlurnar tvær, hafið og vagnana, er Salómon hafði gjöra látið í musteri Drottins _ eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn.

17 Önnur súlan var átján álnir á hæð, og eirhöfuð var ofan á henni, og höfuðið var fimm álnir á hæð, og riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á riðna netinu á hinni súlunni.

18 Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og dyraverðina þrjá.

19 Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og fimm menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni _

20 þá tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs.

21 En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamathéraði. Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.

22 Yfir lýðinn, sem eftir varð í Júda, þann er Nebúkadnesar Babelkonungur lét þar eftir verða, yfir þá setti hann Gedalja, son Ahíkams Safanssonar.

23 Og er allir hershöfðingjarnir og menn þeirra fréttu, að Babelkonungur hefði skipað Gedalja landstjóra, fóru þeir til Mispa á fund Gedalja, þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson frá Netófa og Jaasanja frá Maaka ásamt mönnum sínum.

24 Vann Gedalja þeim eið og mönnum þeirra og sagði við þá: "Óttist eigi Kaldea. Verið kyrrir í landinu og þjónið Babelkonungi, og mun yður vel vegna."

25 En á sjöunda mánuði kom Ísmael Netanjason, Elísamasonar, af konungsættinni, og tíu menn með honum, og drápu Gedalja og þá Júdamenn og Kaldea, sem hjá honum voru í Mispa.

26 Þá tók allur lýðurinn sig upp, bæði smáir og stórir, og hershöfðingjarnir og fóru til Egyptalands, því að þeir voru hræddir við Kaldea.

27 Á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, í tólfta mánuðinum, tuttugasta og sjöunda dag mánaðarins, náðaði Evíl Meródak Babelkonungur, árið sem hann kom til ríkis, Jójakín Júdakonung og tók hann úr dýflissunni.

28 Og hann talaði vingjarnlega við hann og setti stól hans ofar stólum hinna konunganna, sem hjá honum voru í Babýlon.

29 Og Jójakín fór úr bandingjafötum sínum og borðaði stöðuglega með konungi meðan hann lifði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Jóhannesarguðspjall 5:1-24 Icelandic Bible (ICELAND)

Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem.

Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng.

Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins.

En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.]

Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár.

Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: "Viltu verða heill?"

Hinn sjúki svaraði honum: "Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér."

Jesús segir við hann: "Statt upp, tak rekkju þína og gakk!"

Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur,

10 og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: "Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna."

11 Hann svaraði þeim: "Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!"`

12 Þeir spurðu hann: "Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk`?"

13 En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum.

14 Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: "Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra."

15 Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann.

16 Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi.

17 En hann svaraði þeim: "Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig."

18 Nú sóttu Gyðingar enn fastar að taka hann af lífi, þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina, heldur kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.

19 Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.

20 Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðu lostnir.

21 Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill.

22 Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm,

23 svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann.

24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes