A A A A A
Bible Book List

Síðari bók konunganna 1-3 Icelandic Bible (ICELAND)

Eftir dauða Akabs braust Móab undan Ísrael.

Ahasía féll ofan um grindurnar á loftsal sínum í Samaríu og varð sjúkur. Þá gjörði hann út sendimenn og sagði við þá: "Farið og gangið til frétta við Baal Sebúb, guðinn í Ekron, hvort ég muni heill verða af þessum sjúkdómi."

En engill Drottins sagði við Elía Tisbíta: "Tak þig upp og far á móti sendimönnum konungsins í Samaríu og seg við þá: ,Það er víst enginn guð til í Ísrael, úr því þér farið til þess að ganga til frétta við Baal Sebúb, guðinn í Ekron?

Fyrir því segir Drottinn svo: Úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, skalt þú ekki rísa, heldur skalt þú deyja."` Síðan fór Elía burt.

Þá er sendimennirnir komu aftur til konungs, sagði hann við þá: "Hví eruð þér komnir aftur?"

Þeir svöruðu honum: "Maður kom á móti oss og sagði við oss: ,Farið og snúið aftur heim til konungsins, er yður sendi, og segið við hann: Svo segir Drottinn: Það er víst enginn guð til í Ísrael, úr því þú sendir til þess að leita frétta hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron. Fyrir því skalt þú eigi rísa úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, heldur skalt þú deyja."`

Þá mælti konungur við þá: "Hvernig var sá maður í hátt, sem kom á móti yður og talaði þessi orð við yður?"

Þeir svöruðu honum: "Hann var í skinnfeldi og gyrður leðurbelti um lendar sér." Þá mælti hann: "Það hefir verið Elía frá Tisbe."

Þá sendi konungur fimmtíumannaforingja og fimmtíu menn hans með honum til Elía. Fór hann þá upp til hans _ en hann sat efst uppi á fjalli _ og sagði við hann: "Þú guðsmaður! Konungur segir: Kom þú ofan!"

10 Elía svaraði og sagði við fimmtíumannaforingjann: "Sé ég guðsmaður, þá falli eldur af himni og eyði þér og þínum fimmtíu mönnum." Féll þá eldur af himni og eyddi honum og mönnum hans fimmtíu.

11 Og konungur sendi aftur til hans annan fimmtíumannaforingja og fimmtíu menn hans með honum. Fór hann upp og sagði við hann: "Þú guðsmaður, svo segir konungur: Kom sem skjótast ofan!"

12 En Elía svaraði og sagði við þá: "Sé ég guðsmaður, þá falli eldur af himni og eyði þér og þínum fimmtíu mönnum." Féll þá eldur Guðs af himni og eyddi honum og mönnum hans fimmtíu.

13 Þá sendi konungur enn þriðja fimmtíumannaforingjann og fimmtíu menn hans með honum. Og fimmtíumannaforinginn þriðji fór upp, og er hann kom þangað, féll hann á kné fyrir Elía, grátbændi hann og mælti til hans: "Þú guðsmaður, þyrm nú lífi mínu og lífi þessara fimmtíu þjóna þinna.

14 Sjá, eldur er fallinn af himni og hefir eytt báðum fyrri fimmtíumannaforingjunum og fimmtíu mönnum þeirra. En þyrm þú lífi mínu."

15 Þá sagði engill Drottins við Elía: "Far þú ofan með honum og ver óhræddur við hann." Stóð hann þá upp og fór ofan með honum til konungs

16 og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Af því að þú gjörðir út sendimenn til þess að leita frétta hjá Baal Sebúb, guðinum í Ekron, _ það er víst enginn guð til í Ísrael, er leita megi frétta hjá _ þá skalt þú eigi rísa úr rekkjunni, sem þú nú ert lagstur í, heldur skalt þú deyja."

17 Og hann dó eftir orði Drottins, því er Elía hafði talað. Og Jóram bróðir hans tók ríki eftir hann á öðru ríkisári Jórams Jósafatssonar, konungs í Júda, því að hann átti engan son.

18 En það sem meira er að segja um Ahasía, hvað hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

Þegar Drottinn ætlaði að láta Elía fara til himins í stormviðri, voru þeir Elía og Elísa á leið frá Gilgal.

Þá sagði Elía við Elísa: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Betel." En Elísa svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá ofan til Betel.

Spámannasveinar þeir, er voru í Betel, gengu út á móti Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"

Þá sagði Elía við hann: "Elísa, vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jeríkó." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá til Jeríkó.

Þá gengu spámannasveinar þeir, er voru í Jeríkó, til Elísa og sögðu við hann: "Veist þú að Drottinn ætlar í dag að nema herra þinn burt yfir höfði þér?" Elísa svaraði: "Veit ég það líka. Verið hljóðir!"

Þá sagði Elía við hann: "Vertu hér kyrr, því að Drottinn hefir sent mig til Jórdanar." Hann svaraði: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir og svo sannarlega sem þú lifir, mun ég eigi við þig skilja." Fóru þeir þá báðir saman.

En fimmtíu manns af spámannasveinunum fóru og námu staðar til hliðar í nokkurri fjarlægð, en hinir báðir gengu að Jórdan.

Þá tók Elía skikkju sína, braut hana saman og sló á vatnið. Skipti það sér þá til beggja hliða, en þeir gengu báðir yfir um á þurru.

En er þeir voru komnir yfir um, sagði Elía við Elísa: "Bið þú mig einhvers, er ég megi veita þér, áður en ég verð numinn burt frá þér." Elísa svaraði: "Mættu mér þá hlotnast tveir hlutar af andagift þinni."

10 Þá mælti Elía: "Til mikils hefir þú mælst. En ef þú sér mig, er ég verð numinn burt frá þér, þá mun þér veitast það, ella eigi."

11 En er þeir héldu áfram og voru að tala saman, þá kom allt í einu eldlegur vagn og eldlegir hestar og skildu þá að, og Elía fór til himins í stormviðri.

12 Og er Elísa sá það, kallaði hann: "Faðir minn, faðir minn, þú Ísraels vagn og riddarar!" Og hann sá hann ekki framar. Þá þreif hann í klæði sín og reif þau sundur í tvo hluti.

13 Síðan tók hann upp skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sneri við og gekk niður á Jórdanbakka,

14 tók skikkju Elía, er fallið hafði af honum, sló á vatnið og sagði: "Hvar er nú Drottinn, Guð Elía?" En er hann sló á vatnið, skipti það sér til beggja hliða, en Elísa gekk yfir um.

15 Þegar spámannasveinarnir í Jeríkó sáu það hinumegin, sögðu þeir: "Andi Elía hvílir yfir Elísa." Gengu þeir í móti honum, lutu til jarðar fyrir honum

16 og sögðu við hann: "Sjá, hér eru fimmtíu röskir menn með þjónum þínum. Lát þá fara og leita að herra þínum, ef andi Drottins kynni að hafa hrifið hann og varpað honum á eitthvert fjallið eða ofan í einhvern dalinn." En Elísa mælti: "Eigi skuluð þér senda þá."

17 En er þeir lögðu mjög að honum, mælti hann: "Sendið þér þá." Sendu þeir þá fimmtíu manns, og leituðu þeir hans í þrjá daga, en fundu hann ekki.

18 Sneru þeir þá aftur til Elísa, og var hann þá enn í Jeríkó. Þá sagði hann við þá: "Sagði ég yður ekki, að þér skylduð ekki fara?"

19 Borgarmenn Jeríkó sögðu við Elísa: "Borg þessi liggur að vísu vel, eins og þú sjálfur sérð, herra, en vatnið er vont, og landið veldur því, að konur fæða fyrir tímann."

20 Hann sagði við þá: "Færið mér nýja skál og látið í hana salt." Þeir gjörðu svo.

21 Og hann gekk út að uppsprettu vatnsins, kastaði saltinu í hana og mælti: "Svo segir Drottinn: Ég gjöri vatn þetta heilnæmt. Upp frá þessu skal það eigi valda dauða né ótímaburði."

22 Þá varð vatnið heilnæmt samkvæmt orði Elísa, því er hann hafði talað, og er svo enn í dag.

23 Þaðan hélt hann til Betel. Og er hann gekk upp veginn, gengu smásveinar út úr borginni, hæddu hann og kölluðu til hans: "Kom hingað, skalli! Kom hingað, skalli!"

24 Sneri hann sér þá við, og er hann sá þá, formælti hann þeim í nafni Drottins. Þá komu tvær birnur út úr skóginum og rifu í sundur fjörutíu og tvo af drengjunum.

25 Þaðan fór hann til Karmelfjalls og sneri þaðan aftur til Samaríu.

Jóram, sonur Akabs, varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á átjánda ríkisári Jósafats Júdakonungs og ríkti tólf ár.

Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og faðir hans og móðir hans, því að hann tók burt Baalsmerkissteinana, sem faðir hans hafði gjöra látið.

En við syndir Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, hélt hann fast og lét ekki af þeim.

Mesa, konungur í Móab, átti miklar hjarðir. Greiddi hann Ísraelskonungi í skatt hundrað þúsund lömb og ull af hundrað þúsund hrútum.

En er Akab var dáinn, braust Móabskonungur undan Ísraelskonungi.

Lagði Jóram konungur þá af stað frá Samaríu og kannaði allan Ísrael.

Hann sendi og þegar til Jósafats Júdakonungs og lét segja honum: "Móabskonungur hefir brotist undan mér. Vilt þú fara með mér í hernað á móti Móabítum?" "Fara mun ég," svaraði hann, "ég sem þú, mín þjóð sem þín þjóð, mínir hestar sem þínir hestar."

Og hann sagði: "Hvaða leið eigum við að fara?" Jóram svaraði: "Leiðina um Edómheiðar."

Fóru þeir nú af stað, Ísraelskonungur, Júdakonungur og konungurinn í Edóm. Og er þeir höfðu farið sjö dagleiðir, hafði herinn ekkert vatn og ekki heldur skepnurnar, sem þeir höfðu með sér.

10 Þá sagði Ísraelskonungur: "Æ, Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum."

11 En Jósafat mælti: "Er hér enginn spámaður Drottins, að vér getum látið hann ganga til frétta við Drottin?" Þá svaraði einn af þjónum Ísraelskonungs og sagði: "Hér er Elísa Safatsson, sem hellt hefir vatni á hendur Elía."

12 Jósafat sagði: "Hjá honum er orð Drottins!" Síðan gengu þeir Ísraelskonungur, Jósafat og konungurinn í Edóm ofan til hans.

13 En Elísa sagði við Ísraelskonung: "Hvað á ég saman við þig að sælda? Gakk þú til spámanna föður þíns og til spámanna móður þinnar." Ísraelskonungur svaraði honum: "Nei, því að Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum."

14 Þá mælti Elísa: "Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna: Væri það ekki vegna Jósafats Júdakonungs, þá skyldi ég ekki renna til þín auga né virða þig viðlits.

15 En sækið þér nú hörpuleikara." Í hvert sinn sem hörpuleikarinn sló hörpuna, hreif hönd Drottins Elísa.

16 Og hann mælti: "Svo segir Drottinn: Gjörið gryfju við gryfju í dal þessum,

17 því að svo segir Drottinn: Þér munuð hvorki sjá vind né regn, og þó mun þessi dalur fyllast vatni, svo að þér megið drekka, svo og her yðar og skepnur.

18 En Drottni þykir þetta of lítið, hann mun og gefa Móabíta í hendur yðar.

19 Og þér munuð vinna allar víggirtar borgir og allar úrvalsborgir, fella öll aldintré og stemma allar vatnslindir, og öllum góðum ökrum munuð þér spilla með grjóti."

20 Morguninn eftir, í það mund er matfórnin er fram borin, kom allt í einu vatn úr áttinni frá Edóm, svo að landið fylltist vatni.

21 En er allir Móabítar heyrðu, að konungarnir væru komnir til þess að herja á þá, var öllum boðið út, er vopnum máttu valda, og námu þeir staðar á landamærunum.

22 En er þeir risu um morguninn og sólin skein á vatnið, sýndist Móabítum álengdar vatnið vera rautt sem blóð.

23 Þá sögðu þeir: "Þetta er blóð! Konungunum hlýtur að hafa lent saman og þeir hafa unnið hvor á öðrum, og nú er að hirða herfangið, Móabítar!"

24 En er þeir komu að herbúðum Ísraels, þustu Ísraelsmenn út og börðu á Móabítum, svo að þeir flýðu fyrir þeim. Síðan brutust þeir inn í landið og unnu nýjan sigur á Móabítum.

25 En borgirnar brutu þeir niður, og á alla góða akra vörpuðu þeir sínum steininum hver og fylltu þá grjóti, og allar vatnslindir stemmdu þeir og öll aldintré felldu þeir, uns eigi var annað eftir en steinmúrarnir í Kír Hareset. Umkringdu slöngvumennirnir hana og köstuðu á hana.

26 En er Móabskonungur sá, að hann mundi fara halloka í orustunni, tók hann með sér sjö hundruð manna, er sverð báru, til þess að brjótast út þar sem Edómkonungur var fyrir, en þeir gátu það ekki.

27 Þá tók hann frumgetinn son sinn, er taka átti ríki eftir hann, og fórnaði honum í brennifórn á múrnum. Kom þá mikil hryggð yfir Ísrael, og héldu þeir burt þaðan og hurfu aftur heim í land sitt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Lúkasarguðspjall 24:1-35 Icelandic Bible (ICELAND)

24 En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið.

Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni,

og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.

Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum.

Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?

Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu.

Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi."

Og þær minntust orða hans,

sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum.

10 Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu.

11 En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki.

12 Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.

13 Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus.

14 Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði.

15 Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim.

16 En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki.

17 Og hann sagði við þá: "Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?" Þeir námu staðar, daprir í bragði,

18 og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: "Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana."

19 Hann spurði: "Hvað þá?" Þeir svöruðu: "Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð,

20 hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann.

21 Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við.

22 Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar,

23 en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa.

24 Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki."

25 Þá sagði hann við þá: "Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað!

26 Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?"

27 Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.

28 Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra.

29 Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: "Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar." Og hann fór inn til að vera hjá þeim.

30 Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim.

31 Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum.

32 Og þeir sögðu hvor við annan: "Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?"

33 Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þá, er með þeim voru, saman komna,

34 og sögðu þeir: "Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni."

35 Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes