A A A A A
Bible Book List

Síðari Kroníkubók 28 Icelandic Bible (ICELAND)

28 Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, svo sem Davíð forfaðir hans,

heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga, og lét auk þess gjöra steypt líkneski, Baölunum til handa.

Hann brenndi og reykelsi í Hinnomssonardal, lét sonu sína ganga gegnum eldinn, og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.

Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.

Þá gaf Drottinn, Guð hans, hann á vald Sýrlandskonungi, og unnu þeir sigur á honum og höfðu burt með sér hernumda fjöldamarga af mönnum hans, og fluttu til Damaskus. Auk þessa var hann og gefinn Ísraelskonungi á vald, og vann hann mikinn sigur á honum.

Og Peka Remaljason drap á einum degi í Júda hundrað og tuttugu þúsundir, allt hrausta menn, af því að þeir höfðu yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna.

En Síkrí, kappi úr Efraím, drap Maaseja konungsson og Asríkam hallarstjóra og Elkana, er næstur gekk konungi.

Og Ísraelsmenn höfðu burt með sér tvö hundruð þúsund af herteknu fólki frá frændum sínum, konur, sonu og dætur, tók af þeim afar mikið herfang og fóru með herfangið til Samaríu.

En þar var spámaður Drottins, er Ódeð hét. Hann fór út, gekk fram fyrir herinn, er kom til Samaríu, og mælti til þeirra: "Sjá, af því að Drottinn, Guð feðra yðar, var reiður Júdamönnum, gaf hann þá yður á vald, svo að þér gátuð drepið þá niður með þeirri reiði, er nær til himins.

10 Og nú hyggið þér að gjöra þessa Júdamenn og Jerúsalembúa að þrælum yðar og ambáttum. En eruð þér þá eigi sjálfir sekir við Drottin, Guð yðar?

11 Hlýðið því á mig og sendið aftur fangana, er þér hafið haft burt hernumda frá frændum yðar, því að hin brennandi reiði Drottins vofir yfir yður."

12 Þá risu nokkrir af höfðingjum Efraímíta, þeir Asarja Jóhanansson, Berekía Mesillemótsson, Hiskía Sallúmsson og Amasa Hadlaíson upp í gegn þeim, er komu úr herförinni,

13 og sögðu við þá: "Þér skuluð eigi fara með fangana hingað, því að þér ætlið að auka við syndir vorar og sekt, í viðbót við sekt þá við Drottin, er á oss hvílir. Því að sekt vor er mikil, og brennandi reiði vofir yfir Ísrael."

14 Þá slepptu hermennirnir föngunum og herfanginu í viðurvist höfuðsmannanna og alls safnaðarins.

15 Gengu þá til menn þeir, er til þess voru kvaddir með nafni, og önnuðust fangana. Klæddu þeir af herfanginu alla þá, er naktir voru meðal þeirra, gáfu þeim klæði og skó og að eta og drekka og smurðu þá, settu alla þá á asna, er uppgefnir voru, og fluttu þá til Jeríkó, pálmaborgarinnar, til frænda þeirra, og sneru síðan heim aftur til Samaríu.

16 Um þessar mundir sendi Akas konungur til Assýríukonunga til þess að biðja sér liðveislu.

17 Þá komu og Edómítar, unnu sigur á Júdamönnum og færðu burt bandingja.

18 En Filistar réðust inn í borgirnar á láglendinu og í Júda sunnanverðu, tóku Bet Semes, Ajalon, Gederót og Sókó og þorpin umhverfis hana, Timna og þorpin umhverfis hana og Gimsó og þorpin umhverfis hana, og settust þar að.

19 Því að Drottinn lægði Júda sakir Akasar Ísraelskonungs, því að hann hafði framið gegndarlausa óhæfu í Júda og sýnt Drottni mikla ótrúmennsku.

20 Þá fór Tílgat-Pilneser Assýríukonungur í móti honum og kreppti að honum, en veitti honum eigi lið.

21 Því að Akas ruplaði musteri Drottins og konungshöllina og höfuðsmennina, og gaf Assýríukonungi, en það kom honum að engu haldi.

22 Og um þær mundir, sem hann kreppti að honum, sýndi hann, Akas konungur, Drottni ótrúmennsku enn að nýju.

23 Hann færði fórnir guðunum í Damaskus, þeim er höfðu unnið sigur á honum, og mæltu: "Það eru guðir Sýrlandskonunga, er hafa hjálpað þeim. Þeim vil ég færa fórnir, til þess að þeir hjálpi mér." En þeir urðu honum og öllum Ísrael til falls.

24 Og Akas safnaði saman áhöldum Guðs húss og braut sundur áhöld Guðs húss. Hann lokaði og dyrunum á musteri Drottins, en gjörði sér ölturu í hverju horni í Jerúsalem.

25 Og í sérhverri Júdaborg gjörði hann fórnarhæðir til þess að brenna reykelsi fyrir öðrum guðum, og egndi þannig Drottin, Guð feðra sinna, til reiði.

26 Það sem meira er að segja um hann og öll fyrirtæki hans, bæði fyrr og síðar, það er ritað í bók Júda- og Ísraelskonunga.

27 Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn í borginni, í Jerúsalem, því að eigi var hann færður í grafir Ísraelskonunga. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Síðari bók konunganna 16-17 Icelandic Bible (ICELAND)

16 Á seytjánda ríkisári Peka Remaljasonar tók ríki Akas, sonur Jótams Júdakonungs.

Akas var tvítugur að aldri, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði ekki það, sem rétt var í augum Drottins, Guðs hans, svo sem Davíð forfaðir hans,

heldur fetaði hann í fótspor Ísraelskonunga. Hann lét jafnvel son sinn ganga gegnum eldinn og drýgði þannig sömu svívirðingarnar og þær þjóðir, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum.

Hann fórnaði og sláturfórnum og reykelsisfórnum á fórnarhæðunum og hólunum og undir hverju grænu tré.

Í þann tíma fóru þeir Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason Ísraelskonungur upp til Jerúsalem til þess að herja á hana. Settust þeir um Akas, en fengu eigi unnið hann.

Um þær mundir vann Resín Sýrlandskonungur Elat aftur undir Edóm og rak Júdamenn burt frá Elat, en Edómítar komu til Elat og hafa búið þar fram á þennan dag.

Akas gjörði sendimenn á fund Tíglat Pílesers Assýríukonungs og lét segja honum: "Ég er þjónn þinn og sonur! Kom og frelsa mig undan valdi Sýrlandskonungs og undan valdi Ísraelskonungs, er ráðist hafa á mig."

Og Akas tók silfrið og gullið, sem var í musteri Drottins og fjárhirslum konungshallarinnar, og sendi Assýríukonungi að gjöf.

Assýríukonungur tók vel máli hans. Síðan fór Assýríukonungur herför til Damaskus, tók borgina herskildi og herleiddi íbúana til Kír, en Resín lét hann af lífi taka.

10 Akas konungur fór nú til Damaskus til fundar við Tíglat Píleser Assýríukonung og sá þá altarið, er var í Damaskus. Sendi þá Akas konungur Úría presti uppdrátt og fyrirmynd af altarinu, er var alveg eins og það.

11 Og Úría prestur reisti altarið. Gjörði Úría prestur með öllu svo sem Akas konungur hafði sent boð um frá Damaskus, áður en hann kom frá Damaskus.

12 Þá er konungur kom frá Damaskus og leit altarið, þá gekk hann að altarinu og

13 fórnaði á því brennifórn sinni og matfórn, dreypti dreypifórn sinni og stökkti blóði heillafórna sinna á altarið.

14 En eiraltarið, er stóð frammi fyrir Drottni, færði hann þaðan sem það var fyrir framan musterið, milli nýja altarisins og musteris Drottins, og setti það að norðanverðu við altarið.

15 Og Akas konungur lagði svo fyrir Úría prest: "Á stóra altarinu skalt þú fórna morgunbrennifórninni og kvöldmatfórninni, brennifórn konungs og matfórn hans, brennifórnum allrar alþýðu í landinu og matfórnum hennar og dreypifórnum. Og öllu blóði brennifórnanna og öllu blóði sláturfórnanna skalt þú stökkva á það. En um eiraltarið ætla ég að skoða huga minn."

16 Og Úría prestur gjörði allt svo sem Akas konungur hafði boðið.

17 Akas konungur lét og brjóta speldin af vögnum kerlauganna og tók kerin ofan af þeim. Þá lét hann og taka hafið ofan af eirnautunum, er undir því stóðu, og setja á steingólfið.

18 Og hvíldardagsganginn, er tjaldaður var, og þeir höfðu gjört í musterinu, og ytri konungsganginn tók hann burt úr musteri Drottins til þess að þóknast Assýríukonungi.

19 Það sem meira er að segja um Akas og það, er hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

20 Og Akas lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Hiskía sonur hans tók ríki eftir hann.

17 Á tólfta ríkisári Akasar Júdakonungs varð Hósea Elason konungur í Samaríu yfir Ísrael og ríkti níu ár.

Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og Ísraelskonungar þeir, er verið höfðu á undan honum.

Salmaneser Assýríukonungur fór herför í móti honum, og varð Hósea lýðskyldur honum og galt honum skatt.

En er Assýríukonungur varð þess var, að Hósea bjó yfir svikum við hann, þar sem hann gjörði menn á fund Só Egyptalandskonungs og greiddi Assýríukonungi eigi framar árlega skattinn, eins og verið hafði, þá tók Assýríukonungur hann höndum og lét fjötra hann í dýflissu.

Og Assýríukonungur herjaði landið allt og fór til Samaríu og sat um hana í þrjú ár.

En á níunda ríkisári Hósea vann Assýríukonungur Samaríu og herleiddi Ísrael til Assýríu. Fékk hann þeim bústað í Hala og við Habór, fljótið í Gósan, og í borgum Meda.

Þannig fór, af því að Ísraelsmenn höfðu syndgað gegn Drottni, Guði sínum, þeim er leiddi þá út af Egyptalandi, undan valdi Faraós Egyptalandskonungs, og dýrkað aðra guði.

Þeir fóru og að siðum þeirra þjóða, er Drottinn hafði stökkt burt undan Ísraelsmönnum, og að siðum Ísraelskonunga, er þeir sjálfir höfðu sett.

Þá gjörðu og Ísraelsmenn það, er rangt var gagnvart Drottni, Guði þeirra, og byggðu sér fórnarhæðir í öllum borgum sínum, jafnt varðmannaturnum sem víggirtum borgum.

10 Þeir reistu sér merkissteina og asérur á öllum háum hólum og undir hverju grænu tré

11 og fórnuðu þar reykelsisfórnum á öllum hæðum eins og þjóðirnar, er Drottinn hafði rekið burt undan þeim. Aðhöfðust þeir það sem illt var og egndu Drottin til reiði.

12 Og þeir dýrkuðu skurðgoð, er Drottinn hafði sagt um við þá: ,Þér skuluð eigi gjöra slíkt.`

13 Og þó hafði Drottinn aðvarað Ísrael og Júda fyrir munn allra spámannanna, allra sjáandanna, og sagt: ,Snúið aftur frá yðar vondu vegum og varðveitið skipanir mínar og boðorð í öllum greinum samkvæmt lögmálinu, er ég lagði fyrir feður yðar, og því er ég bauð yður fyrir munn þjóna minna, spámannanna.`

14 En þeir hlýddu ekki, heldur þverskölluðust eins og feður þeirra, er eigi treystu Drottni, Guði sínum.

15 Þeir virtu að vettugi lög hans og sáttmála, þann er hann hafði gjört við feður þeirra, og boðorð hans, þau er hann hafði fyrir þá lagt, og eltu fánýt goð og breyttu heimskulega að dæmi þjóðanna, er umhverfis þá voru, þótt Drottinn hefði bannað þeim að breyta eftir þeim.

16 Þeir yfirgáfu öll boð Drottins, Guðs síns, og gjörðu sér steypt líkneski, tvo kálfa, og þeir gjörðu asérur, féllu fram fyrir öllum himinsins her og dýrkuðu Baal.

17 Þeir létu sonu sína og dætur ganga gegnum eldinn, fóru með galdur og fjölkynngi og ofurseldu sig til að gjöra það, sem illt var í augum Drottins, til þess að egna hann til reiði.

18 Þá reiddist Drottinn Ísrael ákaflega og rak þá burt frá augliti sínu. Ekkert varð eftir nema Júdaættkvísl ein.

19 Júdamenn héldu ekki heldur boðorð Drottins, Guðs síns. Þeir fóru að siðum Ísraelsmanna, er þeir sjálfir höfðu sett.

20 Fyrir því hafnaði Drottinn öllu Ísraels kyni og auðmýkti þá og gaf þá í hendur ræningjum, þar til er hann útskúfaði þeim frá augliti sínu.

21 Þegar Drottinn hafði slitið Ísrael frá ætt Davíðs og þeir höfðu tekið Jeróbóam Nebatsson til konungs, þá tældi Jeróbóam Ísrael til að snúa sér frá Drottni og kom þeim til að drýgja mikla synd.

22 Og Ísraelsmenn drýgðu allar sömu syndirnar, sem Jeróbóam hafði drýgt. Þeir létu eigi af þeim,

23 þar til er Drottinn rak Ísrael burt frá augliti sínu, eins og hann hafði sagt fyrir munn allra þjóna sinna, spámannanna. Þannig var Ísrael herleiddur burt úr landi sínu til Assýríu og hefir verið þar fram á þennan dag.

24 Assýríukonungur flutti inn fólk frá Babýloníu, frá Kúta, frá Ava, frá Hamat og frá Sefarvaím og lét það setjast að í borgum Samaríu í stað Ísraelsmanna. Tóku þeir Samaríu til eignar og settust að í borgum hennar.

25 En með því að þeir dýrkuðu ekki Drottin, fyrst eftir að þeir voru setstir þar að, þá sendi Drottinn ljón meðal þeirra. Ollu þau manntjóni meðal þeirra.

26 Þá sögðu menn svo við Assýríukonung: "Þjóðirnar, er þú fluttir burt og lést setjast að í borgum Samaríu, vita eigi, hver dýrkun landsguðnum ber. Fyrir því hefir hann sent ljón meðal þeirra, og sjá, þau deyða þá, af því að þeir vita ekki, hvað landsguðnum ber."

27 Þá skipaði Assýríukonungur svo fyrir: "Látið einn af prestunum fara þangað, þeim er ég flutti burt þaðan, að hann fari og setjist þar að og kenni þeim, hver dýrkun landsguðnum ber."

28 Þá kom einn af prestunum, þeim er þeir höfðu flutt burt úr Samaríu, og settist að í Betel. Hann kenndi þeim, hvernig þeir ættu að dýrka Drottin.

29 Samverjar gjörðu sér sína guði, hver þjóðflokkur út af fyrir sig, og settu þá í hæðahofin, er þeir höfðu reist, hver þjóðflokkur út af fyrir sig í sínum borgum, þeim er þeir bjuggu í.

30 Babýloníumenn gjörðu líkneski af Súkkót Benót, Kútmenn gjörðu líkneski af Nergal, Hamatmenn gjörðu líkneski af Asíma,

31 Avítar gjörðu líkneski af Nibkas og Tartak, en Sefarvítar brenndu börn sín til handa Adrammelek og Anammelek, Sefarvaím-guðum.

32 Þeir dýrkuðu einnig Drottin og gjörðu menn úr sínum hóp að hæðaprestum. Báru þeir fram fórnir fyrir þá í hæðahofunum.

33 Þannig dýrkuðu þeir Drottin, en þjónuðu einnig sínum guðum að sið þeirra þjóða, er þeir höfðu verið fluttir frá.

34 Fram á þennan dag fara þeir að fornum siðum. Þeir dýrka ekki Drottin og breyta ekki eftir lögum hans og ákvæðum og lögmáli því og boðorði, er Drottinn lagði fyrir sonu Jakobs, þess er hann gaf nafnið Ísrael.

35 En Drottinn hafði gjört sáttmála við þá og boðið þeim á þessa leið: ,Þér skuluð eigi dýrka neina aðra guði, eigi falla fram fyrir þeim, eigi þjóna þeim né færa þeim fórnir,

36 en Drottin, sem leiddi yður af Egyptalandi með miklum mætti og útréttum armlegg _ hann skuluð þér dýrka, fyrir honum skuluð þér falla fram og honum skuluð þér fórnir færa.

37 En lög þau og ákvæði, lögmál og boðorð, er hann hefir ritað handa yður, skuluð þér varðveita, svo að þér haldið þau alla daga, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði.

38 Og sáttmálanum, er ég hefi við yður gjört, skuluð þér ekki gleyma, og þér skuluð eigi dýrka aðra guði,

39 en Drottin, Guð yðar, skuluð þér dýrka, og mun hann þá frelsa yður af hendi allra óvina yðar.`

40 Samt hlýddu þeir ekki, heldur fóru þeir að fornum siðum.

41 Þannig dýrkuðu þá þessar þjóðir Drottin, en þjónuðu þó um leið skurðgoðum sínum. Börn þeirra og barnabörn breyta og enn í dag eins og feður þeirra breyttu.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes