A A A A A
Bible Book List

Síðari Kroníkubók 19-23 Icelandic Bible (ICELAND)

19 Jósafat Júdakonungur sneri við heim til sín til Jerúsalem, heill á húfi.

Þá gekk Jehú sjáandi Hananíson fyrir hann og mælti til Jósafats konungs: "Hjálpar þú hinum óguðlegu og elskar þú þá, er hata Drottin? Sakir þessa liggur á þér reiði Drottins.

Þó er nokkuð gott fundið í fari þínu, því að þú hefir útrýmt asérunum úr landinu og beint huga þínum að því að leita Guðs."

En Jósafat dvaldist í Jerúsalem nokkurn tíma. Síðan fór hann aftur um meðal lýðsins frá Beerseba allt til Efraímfjalla og sneri heim til Drottins, Guðs feðra þeirra.

Hann skipaði og dómara í landinu, í öllum víggirtum borgum í Júda, í hverri borg.

Og hann sagði við dómarana: "Gætið að, hvað þér gjörið, því að eigi dæmið þér í umboði manna, heldur Drottins, og hann er með yður í dómum.

Veri þá ótti Drottins yfir yður, hafið gát á breytni yðar, því að hjá Drottni, Guði vorum, er ekkert ranglæti eða manngreinarálit, né mútur þegnar."

En einnig í Jerúsalem skipaði Jósafat menn af levítunum og prestunum og ætthöfðingjum Ísraels til þess að gegna dómarastörfum Drottins og réttarþrætum Jerúsalembúa.

Og hann lagði svo fyrir þá: "Svo skuluð þér breyta í ótta Drottins, með trúmennsku og af heilum hug.

10 Og í hverri þrætu, er kemur fyrir yður frá bræðrum yðar, þeim er búa í borgum sínum, hvort sem það er vígsök eða um lögmál eða boðorð eða lög eða ákvæði, þá skuluð þér vara þá við, svo að þeir verði ekki sekir við Drottin, og reiði komi yfir yður og bræður yðar. Svo skuluð þér breyta, að þér verðið ekki sekir.

11 En Amarja höfuðprestur skal vera fyrir yður í öllum málefnum Drottins, og Sebadja Ísmaelsson, höfðingi Júda ættar, í öllum málefnum konungs, og levítana hafið þér fyrir starfsmenn. Gangið öruggir til starfa. Drottinn mun vera með þeim, sem góður er."

20 Svo bar til eftir þetta, að Móabítar og Ammónítar og nokkrir af Meúnítum með þeim fóru á móti Jósafat til bardaga.

Og menn komu og fluttu Jósafat svolátandi tíðindi: "Afar mikill mannfjöldi kemur á móti þér handan yfir hafið, frá Edóm, og eru þeir þegar í Haseson Tamar, það er Engedí."

Þá varð Jósafat hræddur og tók að leita Drottins, og lét boða föstu um allan Júda.

Þá söfnuðust Júdamenn saman til þess að leita Drottins. Komu menn einnig úr öllum Júdaborgum til þess að leita Drottins.

En Jósafat gekk fram í söfnuði Júda og Jerúsalem, í musteri Drottins, úti fyrir nýja forgarðinum

og mælti: "Drottinn, Guð feðra vorra! Þú ert Guð á himnum, þú drottnar yfir öllum ríkjum heiðingjanna. Í þinni hendi er máttur og megin, og fyrir þér fær enginn staðist.

Þú hefir, Guð vor, stökkt íbúum lands þessa undan lýð þínum Ísrael og gefið það niðjum Abrahams vinar þíns um aldur og ævi.

Og þeir settust þar að og byggðu þér þar helgidóm, þínu nafni, og mæltu:

,Ef ógæfa dynur yfir oss, ófriður, refsidómur, drepsótt eða hallæri, þá munum vér ganga fram fyrir þetta hús og fram fyrir þig, því að þitt nafn býr í húsi þessu, og vér munum hrópa til þín í nauðum vorum, að þú megir heyra og hjálpa.`

10 Og sjá, hér eru nú Ammónítar og Móabítar og Seírfjalla-búar. Meðal þeirra leyfðir þú eigi Ísraelsmönnum að koma, þá er þeir komu frá Egyptalandi, heldur hörfuðu þeir frá þeim og eyddu þeim eigi.

11 Og nú launa þeir oss og koma til þess að hrekja oss frá óðali þínu, er þú hefir veitt oss til eignar.

12 Guð vor, munt þú eigi láta dóm yfir þá ganga? Því að vér erum máttvana gagnvart þessum mikla mannfjölda, er kemur í móti oss. Vér vitum eigi, hvað vér eigum að gjöra, heldur mæna augu vor til þín."

13 En allir Júdamenn stóðu frammi fyrir Drottni, ásamt ungbörnum þeirra, konum og sonum.

14 Þá kom andi Drottins yfir Jehasíel Sakaríason, Benajasonar, Jeíelssonar, Mattanjasonar, levíta af Asafsniðjum, þar í söfnuðinum

15 og hann mælti: "Hlýðið á allir Júdamenn og Jerúsalembúar og þú Jósafat konungur: Svo segir Drottinn við yður: Hræðist eigi né skelfist fyrir þessum mikla mannfjölda, því að eigi er yður búinn bardaginn, heldur Guði.

16 Farið í móti þeim á morgun. Þeir munu halda upp Sís-stíginn, og þér munuð mæta þeim í dalbotninum austan við Jerúel-eyðimörk.

17 En eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins við yður, þér Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist eigi og skelfist eigi. Farið í móti þeim á morgun, og Drottinn mun vera með yður."

18 Þá laut Jósafat fram á ásjónu sína til jarðar, og allir Júdamenn og Jerúsalembúar féllu fram fyrir Drottin til þess að tilbiðja Drottin.

19 Síðan stóðu upp levítarnir, er voru af Kahatítaniðjum og Kóraítaniðjum, til þess að lofa Drottin, Guð Ísraels, með afar hárri röddu.

20 Og næsta morgun tóku þeir sig upp í býtið og fóru til Tekóa-eyðimerkur, og er þeir fóru út, gekk Jósafat fram og mælti: "Heyrið mig, þér Júdamenn og Jerúsalembúar! Treystið Drottni, Guði yðar, þá munuð þér fá staðist, trúið spámönnum hans, þá munuð þér giftudrjúgir verða!"

21 Síðan réðst hann um við lýðinn og skipaði söngvara Drottni til handa, að þeir skyldu hefja lofsöngva í helgum skrúða, þá er þeir færu út á undan hermönnunum, og segja: "Lofið Drottin, því að miskunn hans varir að eilífu."

22 En er þeir hófu fagnaðarópið og lofsönginn, setti Drottinn launsátur móti Ammónítum, Móabítum og Seírfjalla-búum, er fóru í móti Júda, og þeir biðu ósigur.

23 Ammónítar og Móabítar hófust gegn Seírfjalla-búum til þess að gjöreyða þeim og tortíma, og er þeir höfðu gjörsigrað Seírbúa, þá hjálpuðu þeir til að tortíma hver öðrum.

24 Og er Júdamenn komu á hæðina, þaðan er sjá mátti yfir eyðimörkina, og lituðust um eftir mannfjöldanum, sjá, þá voru þeir hnignir dauðir til jarðar, og enginn hafði undan komist.

25 En Jósafat kom með mönnum sínum til þess að taka af þeim herfang. Fundu þeir afar mikið af fénaði og munum og klæðum og dýrum áhöldum og rændu handa sér svo miklu, að þeir gátu eigi borið. Og þeir voru þrjá daga að taka af þeim herfang, því að mikið var af því.

26 En á fjórða degi söfnuðust þeir saman í Lofgjörðardal, því að þar lofuðu þeir Drottin. Fyrir því heitir sá staður Lofgjörðardalur fram á þennan dag.

27 Síðan sneru allir Júdamenn og Jerúsalembúar, og Jósafat fremstur í flokki, með fögnuði á leið til Jerúsalem, því að Drottinn hafði veitt þeim fögnuð yfir óvinum þeirra.

28 Og þeir héldu inn í Jerúsalem, í hús Drottins, með hörpum, gígjum og lúðrum.

29 En ótti við Guð kom yfir öll heiðnu ríkin, er menn fréttu, að Drottinn hefði barist við óvini Ísraels.

30 Og friður var í ríki Jósafats, og Guð hans veitti honum frið allt um kring.

31 Og Jósafat ríkti yfir Júda. Hann var þrjátíu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og tuttugu og fimm ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Asúba Sílhídóttir.

32 Hann fetaði í fótspor Asa föður síns og veik eigi frá þeim, með því að hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins.

33 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar, og enn þá sneri lýðurinn eigi hjörtum sínum til Guðs feðra þeirra.

34 Það sem meira er að segja um Jósafat, er frá upphafi til enda ritað í Sögu Jehú Hananísonar, sem tekin er upp í bók Ísraelskonunga.

35 Eftir þetta gjörði Jósafat Júdakonungur samband við Ahasía Ísraelskonung. Hann breytti óguðlega.

36 En Jósafat gjörði samband við hann til þess að gjöra skip, er færu til Tarsis, og þeir gjörðu skip í Esjón Geber.

37 Þá spáði Elíesar Dódavahúson frá Maresa gegn Jósafat og mælti: "Sakir þess að þú gjörðir samband við Ahasía, ónýtir Drottinn fyrirtæki þitt." Og skipin brotnuðu og gátu eigi farið til Tarsis.

21 Og Jósafat lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jóram sonur hans tók ríki eftir hann.

Jóram átti bræður, sonu Jósafats: Asarja, Jehíel, Sakaría, Asarjahú, Míkael og Sefatja. Allir þessir voru synir Jósafats Ísraelskonungs.

Og faðir þeirra hafði gefið þeim miklar gjafir í silfri og gulli og skartgripum, svo og kastalaborgir í Júda, en konungdóminn fékk hann Jóram í hendur, því að hann var frumgetningurinn.

En er Jóram hafði náð völdum yfir ríki föður síns og var orðinn fastur í sessi, þá lét hann drepa alla bræður sína og auk þess nokkra af höfðingjum Ísraels með sverði.

Jóram var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem.

Og hann fetaði í fótspor Ísraelskonunga, eins og Akabsætt gjörði, því að hann var kvæntur dóttur Akabs. Þannig gjörði hann það, sem illt var í augum Drottins.

En Drottinn vildi eigi afmá ætt Davíðs, sakir sáttmála þess, er hann hafði gjört við Davíð, og samkvæmt því, er hann hafði heitið, að gefa honum og niðjum hans lampa alla daga.

Á hans dögum brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og tóku konung yfir sig.

Þá fór Jóram með höfðingjum sínum og öllu vagnliðinu yfir til Saír. Hann tók sig upp um nóttina og barði á Edómítum, sem héldu honum í herkví, svo og á foringjum vagnliðsins.

10 Þannig brutust Edómítar undan yfirráðum Júda og hafa aldrei lotið þeim síðan. Þá braust og Líbna um sama leyti undan yfirráðum hans, af því að hann hafði yfirgefið Drottin, Guð feðra sinna.

11 Einnig hann gjörði fórnarhæðir í Júdaborgum, ginnti Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar og tældi Júda.

12 Þá kom til hans bréf frá Elía spámanni, er svo hljóðaði: "Svo segir Drottinn, Guð Davíðs forföður þíns: Sakir þess að þú fetaðir eigi í fótspor Jósafats föður þíns og Asa Júdakonungs,

13 heldur fetaðir í fótspor Ísraelskonunga og ginntir Júda og Jerúsalembúa til skurðgoðadýrkunar, eins og Akabsætt ginnti menn til skurðgoðadýrkunar, og lést auk þessa drepa bræður þína, ættmenn þína, er betri voru en þú,

14 þá mun Drottinn ljósta lýð þinn, sonu þína og konur og alla eign þína áfelli miklu.

15 En sjálfur munt þú taka sjúkleik, iðrakvöl, uns iður þín loks falla út af sjúkdóminum."

16 Og Drottinn æsti reiði Filista og Araba, þeirra er búa hjá Blálendingum, gegn Jóram,

17 svo að þeir fóru herför gegn Júda, brutust inn og höfðu burt með sér að herfangi allt fémætt, er var í konungshöllinni, og auk þess sonu hans og konur. Varð enginn eftir af sonum hans nema Jóahas, er var yngstur sona hans.

18 En ofan á allt þetta laust Drottinn hann með ólæknandi iðrasjúkleik.

19 Og eftir alllangan tíma, að liðnum nær tveim árum, féllu iður hans út af sjúkdóminum, og dó hann eftir miklar þjáningar. En þjóð hans gjörði ekkert bál honum til heiðurs eins og feðrum hans.

20 Hann var þrjátíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og átta ár ríkti hann í Jerúsalem. Fór hann svo, að enginn óskaði hans aftur, og var hann jarðaður í Davíðsborg, þó eigi í konungagröfunum.

22 Síðan tóku Jerúsalembúar Ahasía, yngsta son hans, til konungs eftir hann, því að ræningjaflokkurinn, er komið hafði til herbúðanna ásamt Aröbunum, hafði drepið alla þá, er eldri voru, og þannig tók Ahasía ríki, sonur Jórams Júdakonungs.

Ahasía var fjörutíu og tveggja ára gamall, þá er hann varð konungur, og eitt ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Atalía, sonardóttir Omrí.

Hann fetaði líka í fótspor Akabsættar, því að móðir hans fékk hann til óguðlegs athæfis með ráðum sínum.

Og hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, eins og ættmenn Akabs, því að þeir voru ráðgjafar hans eftir dauða föður hans, sjálfum honum til tjóns.

Að þeirra ráðum var það og, að hann fór herför með Jóram Akabssyni Ísraelskonungi í móti Hasael Sýrlandskonungi, til Ramót í Gíleað, en Sýrlendingar særðu Jóram.

Þá sneri hann aftur til þess að láta græða sár sín í Jesreel, þau er hann hafði fengið við Rama, þá er hann barðist við Hasael Sýrlandskonung. En Ahasía Jóramsson Júdakonungur fór ofan til Jesreel til þess að vitja um Jóram Akabsson, af því að hann lá sjúkur.

En það var að Guðs tilstilli, til hrakfara fyrir Ahasía, að hann fór til Jórams. Þegar hann var þangað kominn, fór hann með Jóram á móti Jehú Nimsísyni, er Drottinn hafði smyrja látið til þess að afmá Akabs ætt.

Og er Jehú háði dóm yfir Akabsætt, hitti hann hershöfðingja Júdamanna og bræðrasonu Ahasía, er þjónuðu Ahasía, og lét drepa þá.

Síðan lét hann leita Ahasía, og var hann handtekinn, en hann hafði falið sig í Samaríu. Var hann færður Jehú og drepinn. En síðan jörðuðu menn hann, því að þeir sögðu: "Hann er afkomandi Jósafats, þess er leitaði Drottins af öllu hjarta sínu." En enginn var sá af ætt Ahasía, er fær væri um að taka við konungdómi.

10 Þegar Atalía móðir Ahasía sá, að sonur hennar var dauður, fór hún til og lét drepa alla konungsætt Júda.

11 Þá tók Jósabat, dóttir Jórams konungs, Jóas Ahasíason á laun úr hóp konungssonanna, er deyða átti, og fól hann og fóstru hans í svefnherberginu. Þannig fól Jósabat, dóttir Jórams konungs, kona Jójada prests, hann _ því að hún var systir Ahasía _ fyrir Atalíu, svo að hún lét eigi drepa hann.

12 Og hann var hjá þeim á laun sex ár í musteri Guðs, meðan Atalía ríkti yfir landinu.

23 En á sjöunda ári herti Jójada upp hugann og tók hundraðshöfðingjana Asarja Jeróhamsson, Ísmael Jóhanansson, Asarja Óbeðsson, Maaseja Adajason og Elísafat Síkríson sér að bandamönnum.

Fóru þeir um í Júda og stefndu saman levítunum úr öllum Júdaborgum, og ætthöfðingjum Ísraels, og komu þeir til Jerúsalem.

Og allur söfnuðurinn gjörði sáttmála við konung í musteri Guðs. Og hann mælti til þeirra: "Sjá, konungsson skal vera konungur, svo sem Drottinn hefir heitið um niðja Davíðs.

Svo skuluð þér gjöra: Þriðjungur yðar, prestanna og levítanna, þér er heim farið hvíldardaginn, skuluð vera hliðverðir.

Þriðjungur skal vera í konungshöllinni og þriðjungur í Jesód-hliði, en almúgi skal vera í forgörðum musteris Drottins.

En í musteri Drottins má enginn stíga fæti nema prestarnir og levítar þeir, er þjónustu gegna, þeir mega inn ganga, því að þeir eru helgaðir. En allur annar lýður skal gæta fyrirmæla Drottins.

Og levítarnir skulu fylkja sér um konung, allir með vopn í hendi, og hver sá, er vill brjótast inn í musterið, skal drepinn verða. Skuluð þér þannig vera með konungi, þá er hann kemur heim og þá er hann fer út."

Levítarnir og allir Júdamenn fóru með öllu svo sem Jójada prestur hafði um boðið, sóttu hver sína menn, bæði þá er heim fóru hvíldardaginn og þá er út fóru hvíldardaginn, því að Jójada prestur hafði eigi látið flokkana burt fara.

Og Jójada prestur fékk hundraðshöfðingjunum spjótin, buklarana og skjölduna, er átt hafði Davíð konungur og voru í musteri Guðs.

10 Og hann fylkti öllum lýðnum _ hver maður hafði skotvopn í hendi _ allt í kringum konung, frá suðurhlið musterisins að norðurhlið musterisins, frammi fyrir altarinu og frammi fyrir musterinu.

11 Þá leiddu menn konungsson fram og settu á hann kórónuna, fengu honum lögin og tóku hann til konungs, en Jójada og synir hans smurðu hann og hrópuðu: "Konungurinn lifi!"

12 En er Atalía heyrði ópið í lýðnum og varðliðsmönnunum, og hversu þeir fögnuðu konungi, þá kom hún til lýðsins í musteri Drottins.

13 Sá hún þá konung standa við súlu sína við innganginn, og höfuðsmennina og lúðursveinana hjá konungi, og allan landslýðinn fagnandi og blásandi í lúðrana, og söngvarana með hljóðfærunum, er gáfu merki til fagnaðarópsins. Þá reif Atalía klæði sín og mælti: "Samsæri, samsæri!"

14 En Jójada prestur lét hundraðshöfðingjana, fyrirliða hersins, ganga fram og mælti til þeirra: "Leiðið hana út milli raðanna, og hver sem fer á eftir henni skal drepinn með sverði." Því að prestur hafði sagt: "Drepið hana eigi í musteri Drottins."

15 Síðan lögðu menn hendur á hana, og er hún var komin þangað, er leið liggur inn um hrossahliðið að konungshöllinni, þá drápu þeir hana þar.

16 Jójada gjörði sáttmála milli sín og alls lýðsins og konungs, að þeir skyldu vera lýður Drottins.

17 Síðan fór allur lýðurinn inn í musteri Baals og reif það niður. Ölturu hans og líkneskjur brutu þeir, en Mattan, prest Baals, drápu þeir fyrir ölturunum.

18 Síðan setti Jójada varðflokka við musteri Drottins, undir forustu levítaprestanna, er Davíð hafði skipað í flokka til þjónustu við musteri Drottins, til þess að bera fram brennifórnir Drottins, eftir því sem ritað er í Móselögmáli, með fögnuði og söng, samkvæmt fyrirmælum Davíðs.

19 Þá setti hann hliðverði við hliðin á musteri Drottins, til þess að enginn skyldi inn komast, er á einhvern hátt væri óhreinn.

20 Síðan tók hann hundraðshöfðingjana, göfugmennin og yfirmenn lýðsins, svo og landslýðinn allan, og fór með konung ofan frá musteri Drottins. Og er þeir voru komnir inn í konungshöllina um efra hliðið, þá settu þeir konung í konungshásætið.

21 Allur landslýður fagnaði og borgin sefaðist. En Atalíu drápu þeir með sverði.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes