Add parallel Print Page Options

15 Þá kom andi Guðs yfir Asarja Ódeðsson.

Gekk hann fram fyrir Asa og mælti til hans: "Hlýðið á mig, þér Asa og allur Júda og Benjamín. Drottinn er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.

En langan tíma hefir Ísrael verið án hins sanna Guðs, án presta, er fræddu hann, og án lögmáls.

Og er þeir voru í nauðum staddir, sneru þeir sér til Drottins, Ísraels Guðs, og leituðu hans, og hann gaf þeim kost á að finna sig.

Um þær mundir voru engar tryggðir fyrir þá, er fóru eða komu, heldur var hið mesta griðaleysi meðal allra íbúa héraðanna.

Þjóð rakst á þjóð og borg á borg, því að Drottinn hræddi þá með hvers konar nauðum.

En verið þér öruggir og látið yður eigi fallast hendur, því að breytni yðar mun umbun hljóta."

En er Asa heyrði orð þessi og spádóm Ódeðs spámanns, þá herti hann upp hugann og útrýmdi viðurstyggðunum úr öllu landi Júda og Benjamíns, svo og úr borgum þeim, er hann hafði unnið á Efraímfjöllum, en endurnýjaði altari Drottins, það er var frammi fyrir forsal Drottins.

Síðan stefndi hann saman öllum Júda og Benjamín og aðkomumönnum þeim, er hjá þeim voru af Efraím, Manasse og Símeon, því að fjöldi manna af Ísrael hafði gengið honum á hönd, er þeir sáu að Drottinn, Guð hans, var með honum.

10 Og þeir komu saman í Jerúsalem í þriðja mánuði á fimmtánda ríkisári Asa.

11 Og á þeim degi færðu þeir Drottni í sláturfórn af herfanginu, er þeir höfðu fengið: sjö hundruð naut og sjö þúsund sauði.

12 Og þeir bundust þeim sáttmála, að leita Drottins, Guðs feðra þeirra, af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni,

13 og skyldi hver sá, er eigi leitaði Drottins, Guðs Ísraels, líflátinn, yngri sem eldri, karl eða kona.

14 Sóru þeir síðan Drottni eiða með hárri röddu og lustu upp fagnaðarópi, en lúðrar og básúnur kváðu við.

15 Og allur Júda gladdist yfir eiðnum, því að þeir höfðu eið unnið af öllu hjarta sínu og leitað hans af öllum huga sínum. Gaf Drottinn þeim því kost á að finna sig og veitti þeim frið allt um kring.

16 Asa konungur svipti jafnvel Maöku, móður sína, drottningartigninni, fyrir það, að hún hafði gjöra látið hræðilegt aséru-líkneski. Og Asa hjó sundur þetta hræðilega líkneski hennar, muldi það og brenndi það í Kídrondal.

17 En fórnarhæðirnar voru ekki afnumdar úr Ísrael. Þó var hjarta Asa óskipt alla ævi hans.

18 Hann lét og flytja í hús Guðs helgigjafir föður síns, svo og helgigjafir sínar, silfur, gull og áhöld.

19 Og enginn ófriður var fram að þrítugasta og fimmta ríkisári Asa.

16 Á þrítugasta og sjötta ríkisári Asa fór Basa Ísraelskonungur herför á móti Júda og víggirti Rama, svo að enginn maður gæti komist út eða inn hjá Asa Júdakonungi.

Þá tók Asa silfur og gull úr fjárhirslum húss Drottins og konungshallarinnar og sendi Benhadad Sýrlandskonungi, er bjó í Damaskus, með þessari orðsending:

"Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Sjá, ég sendi þér silfur og gull: Skalt þú nú rjúfa bandalag þitt við Basa Ísraelskonung, svo að hann hafi sig á burt frá mér."

Benhadad tók vel máli Asa konungs og sendi hershöfðingja sína móti borgum Ísraels og unnu þeir Íjón, Dan og Abel Maím og öll forðabúr í Naftalí borgum.

Þegar Basa spurði það, lét hann af að víggirða Rama og hætti við starf sitt.

En Asa konungur bauð út öllum Júdamönnum, og fluttu þeir burt steinana og viðinn, sem Basa hafði víggirt Rama með, og víggirti hann með þeim Geba og Mispa.

En um þetta leyti kom Hananí sjáandi til Asa Júdakonungs og sagði við hann: "Sakir þess að þú studdist við Sýrlandskonung, en studdist ekki við Drottin, Guð þinn, sakir þess er her Sýrlandskonungs genginn þér úr greipum.

Voru ekki Blálendingar og Líbýumenn mikill her, með afar marga vagna og riddara? En af því þú studdist við Drottin, gaf hann þá þér á vald.

Því að augu Drottins hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann. Þér hefir farið heimskulega í þessu, því að héðan í frá munu menn stöðugt eiga í ófriði við þig."

10 En Asa rann í skap við sjáandann og setti hann í stokkhúsið, því að hann var honum reiður fyrir þetta. Asa sýndi og sumum af lýðnum ofríki um þessar mundir.

11 Saga Asa er frá upphafi til enda rituð í bókum Júda- og Ísraelskonunga.

12 Á þrítugasta og níunda ríkisári sínu gjörðist Asa fótaveikur, og varð sjúkleiki hans mjög mikill. En einnig í sjúkleik sínum leitaði hann ekki Drottins, heldur læknanna.

13 Og Asa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og dó á fertugasta og fyrsta ríkisári sínu.

14 Og hann var grafinn í gröf sinni, er hann hafði látið höggva út handa sér í Davíðsborg. Og hann var lagður á líkbekk, er fylltur var kryddjurtum og alls konar smyrslum, blönduðum ilmreykelsi, og afar mikil brenna var gjörð honum til heiðurs.

17 Jósafat sonur hans tók ríki eftir hann og efldi sig gegn Ísrael.

Hann setti herlið í allar víggirtar borgir í Júda og lét fógeta í Júdaland og Efraímborgir, þær er Asa faðir hans hafði unnið.

Og Drottinn var með Jósafat, því að hann gekk á hinum fyrri vegum Davíðs forföður síns og leitaði ekki Baalanna,

heldur leitaði Guðs föður síns og fór eftir skipunum hans og breytti ekki sem Ísrael.

Þess vegna staðfesti Drottinn konungdóminn í hendi hans, svo að allur Júda færði Jósafat gjafir, svo að honum hlotnaðist afar mikil auðlegð og sæmd.

Og með því að honum óx hugur á vegum Drottins, þá afnam hann og fórnarhæðirnar og asérurnar úr Júda.

En á þriðja ríkisári sínu sendi hann höfðingja sína Benhaíl, Óbadía, Sakaría, Netaneel og Míkaja til þess að kenna í Júdaborgum,

og með þeim levítana Semaja, Netanja, Sebadja, Asahel, Semíramót, Jónatan, Adónía, Tobía og Tob Adónía levíta, og ásamt þeim prestana Elísama og Jóram.

Þeir kenndu í Júda og höfðu með sér lögbók Drottins, og fóru um allar borgir í Júda og kenndu lýðnum.

10 Og ótti við Drottin kom yfir öll heiðnu ríkin, er voru umhverfis Júda, svo að þau lögðu eigi í ófrið við Jósafat.

11 Og nokkrir af Filistum færðu Jósafat gjafir og silfur í skatt. Einnig færðu Arabar honum fénað: sjö þúsund og sjö hundruð hrúta og sjö þúsund og sjö hundruð geithafra.

12 Og þannig varð Jósafat æ voldugri, svo að yfir tók, og hann reisti hallir og vistaborgir í Júda.

13 Hafði hann afar mikinn vistaforða í Júdaborgum, og hermenn hafði hann í Jerúsalem, hina mestu kappa.

14 Og þetta er tala þeirra eftir ættum þeirra: Af Júda voru þúsundhöfðingjar: Adna höfuðsmaður og þrjú hundruð þúsund hraustir kappar með honum.

15 Honum næstur gekk Jóhanan höfuðsmaður og tvö hundruð og áttatíu þúsund manns með honum.

16 Honum næstur var Amasja Síkríson, er sjálfviljuglega hafði gengið Drottni á hönd, og tvö hundruð þúsund hraustir kappar með honum.

17 En af Benjamín voru: Eljada kappi og tvö hundruð þúsund manns með honum, vopnaðir bogum og buklurum,

18 og honum næstur Jósabad og hundrað og áttatíu þúsund herbúinna manna með honum.

19 Þessir voru þeir, er konungi þjónuðu, auk þeirra, er konungur hafði sett í víggirtar borgir í öllu Júdalandi.

18 Jósafat hlotnaðist afar mikil auðlegð og sæmd, og hann mægðist við Akab.

Eftir nokkur ár fór hann á fund Akabs til Samaríu. Þá slátraði Akab fjölda sauða og nauta handa honum og mönnum þeim, er með honum voru, og ginnti hann að fara með sér til að herja á Ramót í Gíleað.

Þá mælti Akab Ísraelskonungur við Jósafat Júdakonung: "Hvort munt þú fara með mér til Ramót í Gíleað?" Hann svaraði honum: "Eitt skal yfir báða ganga, mig og þig, mína þjóð og þína þjóð. Skal ég fara með þér til bardagans."

Og Jósafat sagði við Ísraelskonung: "Gakk þú fyrst til frétta og vit, hvað Drottinn segir."

Þá stefndi Ísraelskonungur saman spámönnunum, fjögur hundruð manns, og sagði við þá: "Á ég að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða á ég að hætta við það?" Þeir svöruðu: "Far þú, og Guð mun gefa hana í hendur konungi."

En Jósafat mælti: "Er hér ekki enn einhver spámaður Drottins, að vér mættum leita frétta hjá honum?"

Ísraelskonungur mælti til Jósafats: "Enn er einn eftir, er vér gætum látið ganga til frétta við Drottin, en mér er lítið um hann gefið, því að hann spáir mér aldrei góðu, heldur ávallt illu. Hann heitir Míka Jimlason." Jósafat sagði: "Eigi skyldi konungur svo mæla."

Þá kallaði Ísraelskonungur einn af hirðmönnunum og mælti: "Sæk sem skjótast Míka Jimlason."

En Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur sátu hvor í sínu hásæti, skrýddir purpuraklæðum úti fyrir borgarhliði Samaríu, og allir spámennirnir spáðu frammi fyrir þeim.

10 Þá gjörði Sedekía Kenaanason sér horn úr járni og mælti: "Svo segir Drottinn: Með þessum munt þú reka Sýrlendinga undir, uns þú hefir gjöreytt þeim."

11 Og allir spámennirnir spáðu á sömu leið og sögðu: "Far þú til Ramót í Gíleað. Þú munt giftudrjúgur verða, og Drottinn mun gefa hana í hendur konungi."

12 Sendimaðurinn, sem farinn var að sækja Míka, mælti til hans á þessa leið: "Sjá, spámennirnir hafa einum munni boðað konungi hamingju. Mæl þú sem þeir og boða þú hamingju."

13 En Míka mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir: Það sem Guð minn til mín talar, það mun ég mæla."

14 Þegar hann kom til konungs, mælti konungur til hans: "Míka, eigum vér að fara og herja á Ramót í Gíleað, eða eigum vér að hætta við það?" Þá sagði hann: "Farið, þér munuð giftudrjúgir verða, og þeir munu gefnir verða yður á vald!"

15 Þá sagði konungur við hann: "Hversu oft á ég að særa þig um, að þú segir mér eigi annað en sannleikann í nafni Drottins?"

16 Þá mælti hann: "Ég sá allan Ísrael tvístrast um fjöllin eins og hirðislausa sauði, og Drottinn sagði: Þessir hafa engan herra. Fari þeir í friði hver heim til sín."

17 Þá sagði Ísraelskonungur við Jósafat: "Fer nú eigi sem ég sagði þér: Hann spáir mér eigi góðu, heldur illu einu?"

18 Þá mælti hann: "Eigi er svo. Heyrið orð Drottins! Ég sá Drottin sitja í hásæti sínu og allan himins her standa á tvær hendur honum.

19 Og Drottinn sagði: ,Hver vill ginna Akab Ísraelskonung til þess að fara til Ramót í Gíleað og falla þar?` Og einn sagði þetta og annar hitt.

20 Þá gekk fram andi, staðnæmdist frammi fyrir Drottni og mælti: ,Ég skal ginna hann.` Og Drottinn sagði við hann: ,Með hverju?`

21 Hann mælti: ,Ég ætla að fara og verða lygiandi í munni allra spámanna hans.` Þá mælti hann: ,Þú skalt ginna hann, og þér mun takast það. Far og gjör svo!`

22 Þannig hefir þá Drottinn lagt lygianda í munn þessum spámönnum þínum, þar sem Drottinn hefir þó ákveðið að leiða yfir þig ógæfu."

23 Þá gekk að Sedekía Kenaanason, laust Míka kinnhest og mælti: "Hvaða leið hefir andi Drottins farið frá mér til þess að tala við þig?"

24 Þá mælti Míka: "Það munt þú sjá á þeim degi, er þú fer í felur úr einu herberginu í annað."

25 Þá mælti Ísraelskonungur: "Takið Míka og færið hann Amón borgarstjóra og Jóas konungssyni

26 og segið: ,Svo segir konungur: Kastið manni þessum í dýflissu og gefið honum brauð og vatn af skornum skammti, þar til er ég kem aftur heill á húfi."`

27 Þá mælti Míka: "Komir þú aftur heill á húfi, þá hefir Drottinn eigi talað fyrir minn munn." Og hann mælti: "Heyri það allir lýðir!"

28 Síðan fóru þeir Ísraelskonungur og Jósafat Júdakonungur til Ramót í Gíleað.

29 Og Ísraelskonungur sagði við Jósafat: "Ég mun klæðast dularbúningi og ganga í orustuna, en þú skalt vera klæddur búningi þínum." Klæddist þá Ísraelskonungur dularbúningi, og gengu þeir í orustuna.

30 En Sýrlandskonungur hafði boðið foringjunum fyrir vagnliði sínu á þessa leið: "Þér skuluð eigi berjast við neinn, hvorki smáan né stóran, nema Ísraelskonung einan!"

31 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu Jósafat, sögðu þeir: "Þetta er Ísraelskonungurinn!" og umkringdu hann til að berjast við hann. Þá kallaði Jósafat hátt, og Drottinn hjálpaði honum og Guð ginnti þá burt frá honum.

32 Og er foringjarnir fyrir vagnliðinu sáu, að það var ekki Ísraelskonungur, þá hættu þeir að elta hann.

33 En maður nokkur lagði ör á streng og skaut af handahófi, og kom á Ísraelskonung milli brynbeltis og pansara. Þá mælti hann við kerrusveininn: "Snú þú við og kom mér burt úr bardaganum, því að ég er sár."

34 Var bardaginn hinn harðasti um daginn, og Ísraelskonungur stóð í vagninum andspænis Sýrlendingum allt til kvölds, og dó hann um sólsetur.