A A A A A
Bible Book List

Síðari Kroníkubók 15-16 Icelandic Bible (ICELAND)

15 Þá kom andi Guðs yfir Asarja Ódeðsson.

Gekk hann fram fyrir Asa og mælti til hans: "Hlýðið á mig, þér Asa og allur Júda og Benjamín. Drottinn er með yður, ef þér eruð með honum. Ef þér leitið hans, mun hann gefa yður kost á að finna sig, en ef þér yfirgefið hann, mun hann yfirgefa yður.

En langan tíma hefir Ísrael verið án hins sanna Guðs, án presta, er fræddu hann, og án lögmáls.

Og er þeir voru í nauðum staddir, sneru þeir sér til Drottins, Ísraels Guðs, og leituðu hans, og hann gaf þeim kost á að finna sig.

Um þær mundir voru engar tryggðir fyrir þá, er fóru eða komu, heldur var hið mesta griðaleysi meðal allra íbúa héraðanna.

Þjóð rakst á þjóð og borg á borg, því að Drottinn hræddi þá með hvers konar nauðum.

En verið þér öruggir og látið yður eigi fallast hendur, því að breytni yðar mun umbun hljóta."

En er Asa heyrði orð þessi og spádóm Ódeðs spámanns, þá herti hann upp hugann og útrýmdi viðurstyggðunum úr öllu landi Júda og Benjamíns, svo og úr borgum þeim, er hann hafði unnið á Efraímfjöllum, en endurnýjaði altari Drottins, það er var frammi fyrir forsal Drottins.

Síðan stefndi hann saman öllum Júda og Benjamín og aðkomumönnum þeim, er hjá þeim voru af Efraím, Manasse og Símeon, því að fjöldi manna af Ísrael hafði gengið honum á hönd, er þeir sáu að Drottinn, Guð hans, var með honum.

10 Og þeir komu saman í Jerúsalem í þriðja mánuði á fimmtánda ríkisári Asa.

11 Og á þeim degi færðu þeir Drottni í sláturfórn af herfanginu, er þeir höfðu fengið: sjö hundruð naut og sjö þúsund sauði.

12 Og þeir bundust þeim sáttmála, að leita Drottins, Guðs feðra þeirra, af öllu hjarta sínu og allri sálu sinni,

13 og skyldi hver sá, er eigi leitaði Drottins, Guðs Ísraels, líflátinn, yngri sem eldri, karl eða kona.

14 Sóru þeir síðan Drottni eiða með hárri röddu og lustu upp fagnaðarópi, en lúðrar og básúnur kváðu við.

15 Og allur Júda gladdist yfir eiðnum, því að þeir höfðu eið unnið af öllu hjarta sínu og leitað hans af öllum huga sínum. Gaf Drottinn þeim því kost á að finna sig og veitti þeim frið allt um kring.

16 Asa konungur svipti jafnvel Maöku, móður sína, drottningartigninni, fyrir það, að hún hafði gjöra látið hræðilegt aséru-líkneski. Og Asa hjó sundur þetta hræðilega líkneski hennar, muldi það og brenndi það í Kídrondal.

17 En fórnarhæðirnar voru ekki afnumdar úr Ísrael. Þó var hjarta Asa óskipt alla ævi hans.

18 Hann lét og flytja í hús Guðs helgigjafir föður síns, svo og helgigjafir sínar, silfur, gull og áhöld.

19 Og enginn ófriður var fram að þrítugasta og fimmta ríkisári Asa.

16 Á þrítugasta og sjötta ríkisári Asa fór Basa Ísraelskonungur herför á móti Júda og víggirti Rama, svo að enginn maður gæti komist út eða inn hjá Asa Júdakonungi.

Þá tók Asa silfur og gull úr fjárhirslum húss Drottins og konungshallarinnar og sendi Benhadad Sýrlandskonungi, er bjó í Damaskus, með þessari orðsending:

"Sáttmáli er milli mín og þín, milli föður míns og föður þíns. Sjá, ég sendi þér silfur og gull: Skalt þú nú rjúfa bandalag þitt við Basa Ísraelskonung, svo að hann hafi sig á burt frá mér."

Benhadad tók vel máli Asa konungs og sendi hershöfðingja sína móti borgum Ísraels og unnu þeir Íjón, Dan og Abel Maím og öll forðabúr í Naftalí borgum.

Þegar Basa spurði það, lét hann af að víggirða Rama og hætti við starf sitt.

En Asa konungur bauð út öllum Júdamönnum, og fluttu þeir burt steinana og viðinn, sem Basa hafði víggirt Rama með, og víggirti hann með þeim Geba og Mispa.

En um þetta leyti kom Hananí sjáandi til Asa Júdakonungs og sagði við hann: "Sakir þess að þú studdist við Sýrlandskonung, en studdist ekki við Drottin, Guð þinn, sakir þess er her Sýrlandskonungs genginn þér úr greipum.

Voru ekki Blálendingar og Líbýumenn mikill her, með afar marga vagna og riddara? En af því þú studdist við Drottin, gaf hann þá þér á vald.

Því að augu Drottins hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann. Þér hefir farið heimskulega í þessu, því að héðan í frá munu menn stöðugt eiga í ófriði við þig."

10 En Asa rann í skap við sjáandann og setti hann í stokkhúsið, því að hann var honum reiður fyrir þetta. Asa sýndi og sumum af lýðnum ofríki um þessar mundir.

11 Saga Asa er frá upphafi til enda rituð í bókum Júda- og Ísraelskonunga.

12 Á þrítugasta og níunda ríkisári sínu gjörðist Asa fótaveikur, og varð sjúkleiki hans mjög mikill. En einnig í sjúkleik sínum leitaði hann ekki Drottins, heldur læknanna.

13 Og Asa lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og dó á fertugasta og fyrsta ríkisári sínu.

14 Og hann var grafinn í gröf sinni, er hann hafði látið höggva út handa sér í Davíðsborg. Og hann var lagður á líkbekk, er fylltur var kryddjurtum og alls konar smyrslum, blönduðum ilmreykelsi, og afar mikil brenna var gjörð honum til heiðurs.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Jóhannesarguðspjall 12:27-50 Icelandic Bible (ICELAND)

27 Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu:

28 Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!" Þá kom rödd af himni: "Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt."

29 Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: "Engill var að tala við hann."

30 Jesús svaraði þeim: "Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna.

31 Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað.

32 Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín."

33 Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

34 Mannfjöldinn svaraði honum: "Lögmálið segir oss, að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt, að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?"

35 Þá sagði Jesús við þá: "Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið, svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri, veit ekki, hvert hann fer.

36 Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins." Þetta mælti Jesús og fór burt og duldist þeim.

37 Þótt hann hefði gjört svo mörg tákn fyrir augum þeirra, trúðu þeir ekki á hann,

38 svo að rættist orð Jesaja spámanns, er hann mælti: Drottinn, hver trúði boðun vorri, og hverjum varð armur Drottins opinber?

39 Þess vegna gátu þeir ekki trúað, enda segir Jesaja á öðrum stað:

40 Hann hefur blindað augu þeirra og forhert hjarta þeirra, að þeir sjái ekki með augunum né skilji með hjartanu og snúi sér og ég lækni þá.

41 Jesaja sagði þetta af því að hann sá dýrð hans og talaði um hann.

42 Samt trúðu margir á hann, jafnvel höfðingjar, en gengust ekki við því vegna faríseanna, svo að þeir yrðu ekki samkundurækir.

43 Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.

44 En Jesús hrópaði: "Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig,

45 og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig.

46 Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.

47 Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn.

48 Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi.

49 Því ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala.

50 Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes