A A A A A
Bible Book List

Síðari Kroníkubók 11-14 Icelandic Bible (ICELAND)

11 En er Rehabeam kom til Jerúsalem, safnaði hann saman Júdamönnum og Benjamínsættkvísl, hundrað og áttatíu þúsundum einvalaliðs, til þess að berjast við Ísrael og ná konungdóminum aftur undir Rehabeam.

En orð Drottins kom til Semaja guðsmanns, svolátandi:

"Tala þú svo til Rehabeams, sonar Salómons, konungs í Júda, og til allra Ísraelsmanna í Júda og Benjamín:

Svo segir Drottinn: Farið eigi og berjist eigi við bræður yðar. Fari hver heim til sín, því að minni tilhlutun er þetta orðið." Og er þeir heyrðu orð Drottins, hurfu þeir aftur og hættu við að fara á móti Jeróbóam.

Rehabeam bjó síðan í Jerúsalem. Og hann gjörði nokkrar borgir í Júda að köstulum,

og hann gjörði Betlehem, Etam, Tekóa,

Bet Súr, Sókó, Adúllam,

Gat, Maresa, Síf,

Adóraím, Lakís, Aseka,

10 Sorea, Ajalon og Hebron, sem eru í Júda og Benjamín, að kastalaborgum.

11 Gjörði hann kastalana rammgjörva, setti þar höfðingja fyrir og lét þar forða vista, olíu og víns.

12 Og í hverja borg lét hann skjöldu og spjót, og víggirti þær afar rammlega. Og Júda og Benjamín lutu honum.

13 Prestarnir og levítarnir, er voru um allan Ísrael, komu úr öllum héruðum sínum og gengu honum til handa.

14 Því að levítarnir yfirgáfu beitilönd sín og óðul og fóru til Júda og Jerúsalem, því að Jeróbóam og synir hans höfðu rekið þá úr prestþjónustu fyrir Drottni,

15 og hafði hann sjálfur skipað sér presta fyrir fórnarhæðirnar og skógartröllin og kálfana, er hann hafði gjöra látið.

16 Og þeim fylgdu þeir af öllum ættkvíslum Ísraels, er lögðu hug á að leita Drottins, Guðs Ísraels. Komu þeir til Jerúsalem til þess að færa fórnir Drottni, Guði feðra þeirra.

17 Og þeir efldu Júdaríki og styrktu Rehabeam, son Salómons, í þrjú ár. Því að þeir fetuðu í fótspor Davíðs og Salómons í þrjú ár.

18 Og Rehabeam tók sér fyrir konu Mahalat, dóttur Jerímóts Davíðssonar og Abíhaílar, dóttur Elíabs Ísaísonar.

19 Ól hún honum sonu: Jeús, Semarja og Saham.

20 Og eftir hana fékk hann Maöku Absalonsdóttur. Hún ól honum Abía, Attaí, Sísa og Selómít.

21 Og Rehabeam unni Maöku Absalonsdóttur meira en öllum öðrum konum sínum og hjákonum, því að hann hafði tekið sér átján konur og sextíu hjákonur, og gat tuttugu og átta sonu og sextán dætur.

22 Og Rehabeam gjörði Abía, son Maöku, að ætthöfðingja, að höfðingja meðal bræðra sinna, því að hann hugðist mundu gjöra hann að konungi.

23 Og hann fór hyggilega að ráði sínu og skipti öllum sonum sínum niður á öll héruð í Júda og Benjamín, niður á allar kastalaborgir, fékk þeim gnóttir vista og bað þeim fjölda kvenna.

12 En er konungdómur Rehabeams var fastur orðinn, og hann sjálfur orðinn fastur í sessi, þá yfirgaf hann lögmál Drottins og allur Ísrael með honum.

Á fimmta ríkisári Rehabeams fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem _ af því að þeir höfðu sýnt Drottni ótrúmennsku _

með tólf hundruð vögnum og sextíu þúsund riddurum. Mátti eigi koma tölu á fólk það, er með honum kom frá Egyptalandi: Líbýumenn, Súkítar og Blálendingar.

Hann tók kastalaborgirnar, þær er voru í Júda, og komst allt til Jerúsalem.

En Semaja spámaður kom til Rehabeams og höfðingja Júda, er hörfað höfðu fyrir Sísak til Jerúsalem, og mælti til þeirra: "Svo segir Drottinn: Þér hafið yfirgefið mig, svo ofursel ég og yður á vald Sísaks."

Þá auðmýktu þeir sig, höfðingjar Ísraels og konungur, og sögðu: "Réttlátur er Drottinn!"

En er Drottinn sá, að þeir höfðu auðmýkt sig, kom orð Drottins til Semaja, svolátandi: "Þeir hafa auðmýkt sig; ég skal eigi tortíma þeim, heldur fulltingja þeim að nokkru, og eigi hella reiði minni yfir Jerúsalem fyrir Sísak.

Þó skulu þeir verða lýðskyldir honum, að þeir megi læra að þekkja muninn á að þjóna mér og á að þjóna heiðnum konungum."

Síðan fór Sísak Egyptalandskonungur herför móti Jerúsalem og tók fjársjóðu húss Drottins og fjársjóðu konungshallarinnar, tók það allt saman. Hann tók og gullskjölduna, er Salómon hafði gjöra látið.

10 Rehabeam konungur lét í þeirra stað gjöra eirskjöldu og fékk þá höfuðsmönnum lífvarðarins til geymslu, þeim er geyma dyra á höll konungs.

11 Og í hvert sinn, er konungur gekk í hús Drottins, komu varðliðsmennirnir og báru þá, og fóru síðan með þá aftur í herbergi varðliðsmannanna.

12 En er hann auðmýkti sig, hvarf reiði Drottins frá honum og tortímdi honum eigi með öllu; enn þá var þó eitthvað gott til í Júda.

13 Og Rehabeam konungur efldist í Jerúsalem og sat að völdum, því að Rehabeam hafði einn um fertugt, þá er hann varð konungur, og seytján ár ríkti hann í Jerúsalem, borginni sem Drottinn hafði útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels til þess að láta nafn sitt búa þar. En móðir hans hét Naama og var ammónítísk.

14 Og hann breytti illa, því að hann lagði eigi hug á að leita Drottins.

15 En saga Rehabeams, frá upphafi til enda, er rituð í Sögu Semaja spámanns og Íddós sjáanda, í ættartölunum. Og ófriður stóð ávallt milli Rehabeams og Jeróbóams.

16 Og Rehabeam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. Og Abía sonur hans tók ríki eftir hann.

13 Á átjánda ríkisári Jeróbóams varð Abía konungur yfir Júda.

Þrjú ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Maaka Úríelsdóttir frá Gíbeu. En þeir áttu í ófriði saman, Abía og Jeróbóam.

Og Abía hóf ófriðinn með hraustu herliði, fjögur hundruð þúsundum einvalaliðs, en Jeróbóam fylkti til orustu á móti honum átta hundruð þúsundum einvalaliðs, hraustum köppum.

Þá gekk Abía upp á Semaraímfjall í Efraímfjöllum og mælti: "Hlýðið á mig, Jeróbóam og allur Ísrael!

Hvort vitið þér eigi að Drottinn, Ísraels Guð, veitti Davíð ævarandi konungdóm yfir Ísrael, honum og niðjum hans, með saltsáttmála?

En Jeróbóam Nebatsson, þjónn Salómons, sonar Davíðs, hófst handa og gjörði uppreisn gegn herra sínum.

Og að honum söfnuðust lausingjar og hrakmenni, og þeir urðu yfirsterkari Rehabeam syni Salómons, en Rehabeam var ungur og hugdeigur og fékk eigi veitt þeim viðnám.

Og nú hyggist þér munu veita viðnám konungdómi Drottins, þeim er niðjar Davíðs hafa á hendi, af því að þér eruð mjög fjölmennir, og gullkálfarnir, þeir er Jeróbóam hefir gjöra látið yður að guðum, eru með yður.

Hafið þér þá eigi rekið burt presta Drottins, niðja Arons, og levítana, og gjört yður presta að sið heiðinna þjóða? Hver sá, er kom til þess að láta fylla hönd sína með ungt naut og sjö hrúta, hann varð prestur falsguðanna.

10 En vor Guð er Drottinn, vér höfum eigi yfirgefið hann, og niðjar Arons hafa á hendi prestþjónustu fyrir Drottin, og levítar hafa störf á hendi

11 og færa Drottni á hverjum morgni og hverju kveldi brennifórnir og ilmreykelsi og leggja brauð í raðir á borðið úr skíru gulli og kveikja á hverju kveldi á gullstjakanum og lömpum hans. Því að vér gætum ákvæða Drottins, Guðs vors, en þér hafið yfirgefið hann.

12 Og sjá! Guð er með oss í broddi fylkingar og prestar hans með hvellilúðrana til þess að blása til atlögu gegn yður. Þér Ísraelsmenn! Berjist eigi gegn Drottni, Guði feðra yðar, því að þér munuð engu fá framgengt."

13 En Jeróbóam lét þá, er lágu í launsátri, fara í kring til þess að koma að baki þeim. Voru þeir gagnvart Júdamönnum, en launsátursliðið að baki þeim.

14 Og er Júdamenn sneru sér við, sáu þeir að þeim var búinn bardagi bæði að baki og að framan. Þá hrópuðu þeir til Drottins, og prestarnir þeyttu lúðrana,

15 og Júdamenn æptu heróp, og er Júdamenn æptu heróp, þá laust Guð Jeróbóam og allan Ísrael í augsýn Abía og Júda.

16 Og Ísraelsmenn flýðu fyrir Júdamönnum, og Guð gaf þá þeim á vald.

17 Og Abía og lið hans felldu þá unnvörpum, svo að fimm hundruð þúsund einvalaliðs féllu af Ísraelsmönnum, vopnum vegnir.

18 Þannig urðu Ísraelsmenn að lúta í lægra haldi um þær mundir, og Júdamenn urðu yfirsterkari, því að þeir studdust við Drottin, Guð feðra þeirra.

19 En Abía veitti Jeróbóam eftirför og vann af honum borgir: Betel og þorpin umhverfis hana, Jesana og þorpin umhverfis hana og Efron og þorpin umhverfis hana.

20 Og Jeróbóam var máttvana síðan, meðan Abía lifði, og Drottinn laust hann, svo að hann dó.

21 En Abía efldist, og hann tók sér fjórtán konur og gat tuttugu og tvo sonu og sextán dætur.

22 En það sem meira er að segja um Abía, athafnir hans og orð, það er ritað í Skýringum Íddós spámanns.

14 Og Abía lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í Davíðsborg. Og Asa sonur hans tók ríki eftir hann. Á hans dögum var friður í landi í tíu ár.

Asa gjörði það, sem gott var og rétt í augum Drottins, Guðs síns.

Hann afnam hin útlendu ölturu og fórnarhæðirnar, braut sundur merkissteinana og hjó sundur asérurnar.

Og hann bauð Júdamönnum að leita Drottins, Guðs feðra þeirra, og breyta eftir lögmáli hans og skipunum.

Hann afnam hæðirnar og sólsúlurnar úr öllum Júdaborgum, og ríkið naut friðar um hans daga.

Hann reisti kastala í Júda, því að friður var í landi og enginn átti í ófriði við hann þau árin, því að Drottinn veitti honum frið.

Og hann sagði við Júdamenn: "Látum oss reisa borgir þessar og girða um þær með múrum og turnum, hurðum og slagbröndum, því að enn þá er landið oss opið, af því að vér höfum leitað Drottins, Guðs vors. Vér höfum leitað hans, og hann hefir veitt oss frið allt um kring." Byggðu þeir síðan og gekk það vel.

Og Asa hafði her, er skjöld bar og spjót, úr Júda þrjú hundruð þúsund og úr Benjamín tvö hundruð og áttatíu þúsund manna, er buklara báru og boga bentu. Voru þeir allir hinir mestu kappar.

En Sera Blálendingur fór í móti þeim með milljón hermanna og þrjú hundruð vagna og komst allt til Maresa.

10 Fór Asa út í móti honum, og fylktu þeir sér til orustu í Sefatadal hjá Maresa.

11 Og Asa ákallaði Drottin, Guð sinn, og sagði: "Drottinn, enginn nema þú getur hjálpað lítilmagnanum gegn hinum voldugu. Hjálpa þú oss, Drottinn, Guð vor, því að við þig styðjumst vér, og í þínu nafni höfum vér farið á móti þessum mannfjölda. Drottinn, þú ert vor Guð, gagnvart þér er dauðlegur maðurinn máttvana."

12 Og Drottinn lét Blálendingana bíða ósigur fyrir Asa og fyrir Júdamönnum, svo að Blálendingar flýðu.

13 En Asa og lið það, er með honum var, veittu þeim eftirför til Gerar, og féll lið af Blálendingum, svo að enginn þeirra var eftir á lífi, því að þeir féllu unnvörpum fyrir Drottni og fyrir her hans. Höfðu þeir þaðan afar mikið herfang.

14 Þeir unnu og allar borgir umhverfis Gerar, því að ótti við Drottin var kominn yfir þær. Rændu þeir síðan allar borgirnar, því að þar var miklu að ræna.

15 Þá náðu þeir og hjarðtjöldunum og höfðu á burt með sér að herfangi fjölda sauða og úlfalda, og sneru síðan aftur til Jerúsalem.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes