A A A A A
Bible Book List

Síðari Kroníkubók 1-3 Icelandic Bible (ICELAND)

Salómon sonur Davíðs festist í konungdómi, og Drottinn, Guð hans, var með honum og gjörði hann mjög vegsamlegan.

Og Salómon lét boð fara um allan Ísrael, til þúsundhöfðingjanna og hundraðshöfðingjanna, dómaranna og allra höfðingjanna í öllum Ísrael, ætthöfðingjanna,

og fór Salómon síðan og allur söfnuðurinn með honum til fórnarhæðarinnar í Gíbeon, því að þar var samfundatjald Guðs, það er Móse, þjónn Drottins, hafði gjöra látið á eyðimörkinni.

Örk Guðs hafði Davíð þar á móti flutt frá Kirjat Jearím, þangað er Davíð hafði búið henni stað, því að hann hafði reist tjald fyrir hana í Jerúsalem.

Eiraltarið, er Besaleel Úríson, Húrssonar, hafði gjört, var og þar, frammi fyrir bústað Drottins, og Salómon og söfnuðurinn leituðu hans þar.

Og Salómon færði Drottni fórnir þar á eiraltarinu, er heyrði til samfundatjaldinu, og færði hann honum þar þúsund brennifórnir.

Þá nótt vitraðist Guð Salómon og sagði við hann: "Bið þú þess, er þú vilt að ég veiti þér."

Og Salómon svaraði Guði: "Þú auðsýndir Davíð föður mínum mikla miskunn, og þú hefir gjört mig að konungi eftir hann.

Lát þá, Drottinn Guð, fyrirheit þitt til Davíðs föður míns standa stöðugt. Því að þú hefir gjört mig að konungi yfir lýð, sem er margur eins og duft jarðar.

10 Gef mér þá visku og þekkingu, að ég megi ganga út og inn frammi fyrir lýð þessum. Því að hver getur annars stjórnað þessum fjölmenna lýð þínum?"

11 Þá mælti Guð við Salómon: "Sakir þess, að þetta bjó þér í hjarta, og þú baðst eigi um auðlegð, fé og sæmd, eða um líf þeirra, er hata þig, og baðst eigi heldur um langlífi, heldur baðst þér visku og þekkingar, að þú gætir stjórnað lýð mínum, er ég hefi gjört þig að konungi yfir,

12 þá er viska og þekking veitt þér, og auðlegð, fé og sæmd vil ég veita þér, meiri en haft hefir nokkur konungur á undan þér og meiri en nokkur mun hafa eftir þig."

13 Síðan hélt Salómon burt frá fórnarhæðinni í Gíbeon, frá staðnum fyrir framan samfundatjaldið, til Jerúsalem, og ríkti yfir Ísrael.

14 Salómon safnaði vögnum og riddurum, og hafði hann fjórtán hundruð vagna og tólf þúsund riddara. Lét hann þá vera í vagnliðsborgunum og með konungi í Jerúsalem.

15 Og konungur gjörði silfur og gull eins algengt í Jerúsalem og grjót, og sedrusvið eins og mórberjatrén, sem vaxa á láglendinu.

16 Hesta sína fékk Salómon frá Egyptalandi, og sóttu kaupmenn konungs þá í hópum og guldu fé fyrir,

17 svo að hver vagn, er þeir fengu og komu með frá Egyptalandi, kostaði sex hundruð sikla silfurs, en hver hestur hundrað og fimmtíu. Og á þennan hátt voru og hestar fluttir út fyrir milligöngu þeirra til allra konunga Hetíta og konunga Sýrlendinga.

Salómon bauð að reisa skyldi musteri nafni Drottins og konungshöll handa sjálfum sér.

Og Salómon taldi frá sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinhöggvara á fjöllunum, og setti þrjú þúsund og sex hundruð umsjónarmenn yfir þá.

Og Salómon gjörði Húram, konungi í Týrus, svolátandi orðsending: "Eins og þú breyttir við Davíð föður minn, er þú sendir honum sedrustré, svo að hann gæti byggt sér höll til bústaðar,

svo ætla ég nú að reisa musteri nafni Drottins, Guðs míns, er ég ætla að helga honum, til þess að færa ilmreykelsisfórnir frammi fyrir honum, til þess stöðugt að annast um raðsettu brauðin, til þess að færa brennifórn kvelds og morgna, á hvíldardögum, tunglkomudögum og löghátíðum Drottins, Guðs vors. Skal svo vera um aldur og ævi í Ísrael.

Og musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið, því að vor Guð er meiri en allir guðir.

En hver myndi vera fær um að reisa honum hús? Því að himinninn og himnanna himnar taka hann ekki, og hver er ég, að ég reisi honum hús, nema ef vera skyldi til þess að brenna reykelsi frammi fyrir honum.

Send þú mér nú mann, sem er hagur á gull, silfur, eir og járn, kann að vinna úr rauðum purpura, skarlati og bláum purpura, og kann að útskurði, ásamt þeim hagleiksmönnum, er með mér eru í Júda og Jerúsalem og Davíð faðir minn hefir til fengið.

Send þú mér og sedrusvið, kýpresvið og sandelvið frá Líbanon, því að ég veit, að menn þínir kunna að því að höggva tré á Líbanon, og skulu mínir menn vera með þínum mönnum.

Og ég þarf á afar miklum viði að halda, því að musterið, er ég ætla að reisa, á að verða mikið og undursamlegt.

10 En viðarhöggsmönnunum frá þér, þeim er trén höggva, gef ég til matar tuttugu þúsund kór af hveiti og tuttugu þúsund kór af byggi, tuttugu þúsund bat af víni og tuttugu þúsund bat af olíu."

11 Húram, konungur í Týrus, svaraði bréflega og sendi til Salómons: "Af því að Drottinn elskar lýð sinn, hefir hann gjört þig að konungi yfir þeim."

12 Og Húram mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, er gjört hefir himin og jörð, að hann hefir gefið Davíð konungi vitran son, sem hefir til að bera skyn og hyggindi til þess að reisa Drottni musteri og sjálfum sér konungshöll.

13 Og nú sendi ég mann, vitran og velkunnandi, Húram Abí,

14 son konu af Dans ætt, en faðir hans er týrverskur maður. Hann kann að smíða úr gulli, silfri, eiri og járni, steini og tré og að vinna úr rauðum og bláum purpura, baðmull og skarlati, kann að hvers konar útskurði, og getur gjört hverja þá smíð, er honum verður falin, ásamt hagleiksmönnum þínum og hagleiksmönnum Davíðs föður þíns, herra míns.

15 Sendi þá herra minn þjónum sínum hveitið, byggið, olíuna og vínið, sem hann hefir um mælt.

16 En vér skulum höggva tré á Líbanon, eins mikið og þú þarft, og færa þér þau í flotum sjóveg til Jafó, og mátt þú þá flytja þau upp til Jerúsalem."

17 Og Salómon taldi útlenda menn, er voru í Ísraelslandi, eftir tali því á þeim, er Davíð faðir hans hafði gjöra látið, og reyndust þeir að vera hundrað fimmtíu og þrjú þúsund og sex hundruð.

18 Af þeim gjörði hann sjötíu þúsund að burðarmönnum, áttatíu þúsund að steinhöggvurum í fjöllunum og þrjú þúsund og sex hundruð að umsjónarmönnum til þess að halda fólkinu til vinnu.

Salómon byrjaði á að byggja musteri Drottins í Jerúsalem á Móríafjalli, þar sem Drottinn hafði birst Davíð föður hans, á stað þeim, er Davíð hafði búið á þreskivelli Ornans Jebúsíta.

Og hann byrjaði að byggja á öðrum degi í öðrum mánuði á fjórða ríkisári sínu.

Og þessi var grundvöllurinn, er Salómon lagði að musterisbyggingu Guðs: Lengdin var sextíu álnir að fornu máli, og breiddin tuttugu álnir.

Og forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tíu álnir á breidd, en tuttugu álnir á lengd fram með musterisendanum, og hundrað og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði hann innan skíru gulli.

En stærra húsið þiljaði hann með kýpresborðum og lagði það fínu gulli og setti þar á pálma og festar.

Enn fremur bjó hann húsið dýrindis steinum til prýði, en gullið var Parvaímgull.

Og hann lagði húsið, bjálkana, þröskuldana, svo og veggi þess og hurðir gulli, og lét skera kerúba út á veggjunum.

Hann gjörði og Hið allrahelgasta. Var það tuttugu álnir á lengd, eins og musterið var á breiddina, og tuttugu álnir á breidd, og bjó það fínu gulli, sex hundruð talentum.

Og naglarnir vógu fimmtíu sikla gulls, og loftherbergin lagði hann og gulli.

10 En í Hinu allrahelgasta gjörði hann tvo kerúba, haglega skorna og lagði þá gulli.

11 Vængir kerúbanna voru báðir saman tíu álna langir. Annar vængur annars kerúbsins, fimm álna langur, nam húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, nam við væng hins kerúbsins.

12 Annar fimm álna langur vængur hins kerúbsins nam og húsvegginn, en hinn vængurinn, er og var fimm álnir á lengd, snart væng hins kerúbsins.

13 Voru vængir kerúba þessara tuttugu álnir, útbreiddir. Stóðu þeir á fótum sér, og sneru andlit þeirra að húsinu.

14 Og hann gjörði fortjaldið af bláum og rauðum purpura, skarlati og baðmull og gjörði kerúba á því.

15 Hann gjörði og tvær súlur, þrjátíu og fimm álna háar, fyrir framan húsið, en hnúðurinn, er efst var á hvorri, var fimm álnir.

16 Hann gjörði og festar og lét þær á súlnahöfuðin, þá gjörði hann hundrað granatepli og setti á festarnar.

17 Og hann reisti súlurnar fyrir framan aðalhúsið, aðra til hægri og hina til vinstri. Nefndi hann hægri súluna Jakín, en hina vinstri Bóas.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Jóhannesarguðspjall 10:1-23 Icelandic Bible (ICELAND)

10 "Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið, heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi,

en sá sem kemur inn um dyrnar, er hirðir sauðanna.

Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum, og sauðirnir heyra raust hans, og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út.

Þegar hann hefur látið út alla sauði sína, fer hann á undan þeim, og þeir fylgja honum, af því að þeir þekkja raust hans.

En ókunnugum fylgja þeir ekki, heldur flýja frá honum, því þeir þekkja ekki raust ókunnugra."

Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En þeir skildu ekki hvað það þýddi, sem hann var að tala við þá.

Því sagði Jesús aftur: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna.

Allir þeir, sem á undan mér komu, eru þjófar og ræningjar, enda hlýddu sauðirnir þeim ekki.

Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig, mun frelsast, og hann mun ganga inn og út og finna haga.

10 Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess, að þeir hafi líf, líf í fullri gnægð.

11 Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina.

12 Leiguliðinn, sem hvorki er hirðir né sjálfur á sauðina, sér úlfinn koma og yfirgefur sauðina og flýr, og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim.

13 Enda er hann leiguliði og lætur sér ekki annt um sauðina.

14 Ég er góði hirðirinn og þekki mína, og mínir þekkja mig,

15 eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina.

16 Ég á líka aðra sauði, sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

17 Fyrir því elskar faðirinn mig, að ég legg líf mitt í sölurnar, svo að ég fái það aftur.

18 Enginn tekur það frá mér, heldur legg ég það sjálfur í sölurnar. Ég hef vald til að leggja það í sölurnar og vald til að taka það aftur. Þessa skipan fékk ég frá föður mínum."

19 Aftur varð ágreiningur með Gyðingum út af þessum orðum.

20 Margir þeirra sögðu: "Hann hefur illan anda og er genginn af vitinu. Hvað eruð þér að hlusta á hann?"

21 Aðrir sögðu: "Þessi orð mælir enginn sá, sem hefur illan anda. Mundi illur andi geta opnað augu blindra?"

22 Nú var vígsluhátíðin í Jerúsalem og kominn vetur.

23 Jesús gekk um í súlnagöngum Salómons í helgidóminum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes