A A A A A
Bible Book List

Fyrri Samúelsbók 18-20 Icelandic Bible (ICELAND)

18 Þegar Davíð hafði endað tal sitt við Sál, þá lagði Jónatan ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu.

Og Sál tók Davíð að sér upp frá þeim degi og leyfði honum ekki að fara heim aftur til föður síns.

Og Jónatan gjörði fóstbræðralag við Davíð, af því að hann unni honum sem lífi sínu.

Og Jónatan fór úr skikkju sinni, sem hann var í, og gaf Davíð hana, svo og brynjukufl sinn og jafnvel sverð sitt, boga sinn og belti.

Og Davíð fór í leiðangra. Var hann giftudrjúgur, hvert sem Sál sendi hann. Setti Sál hann því yfir hermennina. Og hann var vel þokkaður af öllum lýð og einnig þjónum Sáls.

Þegar þeir komu heim, þá er Davíð hafði lagt Filistann að velli, þá gengu konur úr öllum borgum Ísraels syngjandi og dansandi út í móti Sál konungi, með bumbum, strengleik og mikilli gleði.

Og konurnar stigu dansinn, hófu upp söng og mæltu: Sál felldi sín þúsund, en Davíð sín tíu þúsund.

Þá varð Sál reiður mjög, og honum mislíkuðu þessi orð og hann sagði: "Davíð hafa þær gefið tíu þúsundin, en mér hafa þær gefið þúsundin. Nú vantar hann ekki nema konungdóminn!"

Og Sál leit Davíð öfundarauga ávallt upp frá því.

10 Daginn eftir kom illur andi frá Guði yfir Sál, og æði greip hann inni í húsinu, en Davíð var að leika hörpuna hendi sinni, eins og hann var vanur að gjöra á degi hverjum, og Sál hafði spjót í hendi.

11 Þá reiddi Sál spjótið og hugsaði með sér: "Ég skal reka það gegnum Davíð og inn í vegginn." En Davíð skaut sér tvívegis undan.

12 Sál var hræddur við Davíð, því að Drottinn var með honum, en var vikinn frá Sál.

13 Fyrir því lét Sál hann frá sér og gjörði hann að hersveitarforingja. Var hann nú fyrir liðinu bæði þegar það fór og kom.

14 En Davíð var giftudrjúgur í öllu, sem hann tók sér fyrir hendur, af því að Drottinn var með honum.

15 Og er Sál sá, að hann var giftusamur mjög, tók honum að standa uggur af honum.

16 En allur Ísrael og Júda elskaði Davíð, því að hann gekk jafnan þeirra fremstur.

17 Sál sagði við Davíð: "Sjá, ég vil gefa þér Merab, eldri dóttur mína, fyrir konu. En þú verður að reynast mér hraustur maður og þú verður að heyja bardaga Drottins!" En Sál hugsaði með sér: "Ég skal ekki leggja hönd á hann, en Filistar skulu leggja hönd á hann."

18 Davíð sagði við Sál: "Hver er ég og hvert er kyn mitt, ætt föður míns í Ísrael, að ég skuli verða tengdasonur konungsins?"

19 En er sá tími kom, að gifta skyldi Davíð Merab, dóttur Sáls, þá var hún gefin Adríel frá Mehóla fyrir konu.

20 En Míkal, dóttir Sáls, elskaði Davíð. Og Sál var sagt frá því, og honum líkaði það vel.

21 Þá hugsaði Sál með sér: "Ég vil gefa honum hana, svo að hún verði honum að tálsnöru og Filistar leggi hönd á hann." Og Sál sagði í annað sinn við Davíð: "Þú skalt verða tengdasonur minn í dag."

22 Og Sál bauð þjónum sínum: "Talið leynilega við Davíð og segið: ,Sjá, konungur hefir mætur á þér, og allir þjónar hans elska þig, og því skalt þú mægjast við konung."`

23 Þjónar Sáls töluðu þessi orð í eyru Davíðs. En Davíð sagði: "Sýnist yður það lítils um vert að mægjast við konung, þar sem ég er maður fátækur og lítilsháttar?"

24 Þjónar Sáls báru honum þetta og sögðu: "Slíkum orðum hefir Davíð mælt."

25 Þá sagði Sál: "Mælið svo við Davíð: ,Eigi girnist konungur annan mund en hundrað yfirhúðir Filista til þess að hefna sín á óvinum konungs."` En Sál hugsaði sér að láta Davíð falla fyrir hendi Filista.

26 Og þjónar hans báru Davíð þessi orð, og Davíð líkaði það vel að eiga að mægjast við konung. En tíminn var enn ekki liðinn,

27 er Davíð tók sig upp og lagði af stað með menn sína og drap hundrað manns meðal Filista. Og Davíð fór með yfirhúðir þeirra og lagði þær allar með tölu fyrir konung, til þess að hann næði mægðum við konung. Þá gaf Sál honum Míkal dóttur sína fyrir konu.

28 Sál sá það æ betur og betur, að Drottinn var með Davíð og að allur Ísrael elskaði hann.

29 Þá varð Sál enn miklu hræddari við Davíð. Varð Sál nú óvinur Davíðs alla ævi.

30 Og höfðingjar Filistanna fóru í leiðangur. En í hvert skipti, sem þeir fóru í leiðangur, varð Davíð giftudrýgri en allir þjónar Sáls, svo að nafn hans varð víðfrægt.

19 Sál talaði við Jónatan son sinn og við alla þjóna sína um að drepa Davíð. En Jónatan, sonur Sáls, hafði miklar mætur á Davíð.

Fyrir því sagði Jónatan Davíð frá þessu og mælti: "Sál faðir minn situr um að drepa þig. Ver því var um þig á morgun snemma og fel þig og ver þú kyrr í því leyni.

En ég ætla sjálfur að fara út og nema staðar við hlið föður míns á mörkinni, þar sem þú ert, og ég ætla að tala um þig við föður minn; og ef ég verð nokkurs vísari, mun ég segja þér það."

Jónatan talaði vel um Davíð við Sál föður sinn og sagði við hann: "Syndgast þú ekki, konungur, á Davíð þjóni þínum, því að hann hefir ekki syndgað á móti þér og verk hans hafa verið þér mjög gagnleg.

Hann lagði líf sitt í hættu og felldi Filistann, og þannig veitti Drottinn öllum Ísrael mikinn sigur. Þú sást það og gladdist. Hvers vegna vilt þú syndgast á saklausu blóði með því að deyða Davíð án saka?"

Sál skipaðist við orð Jónatans og sór: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, þá skal hann ekki verða drepinn."

Þá kallaði Jónatan á Davíð og tjáði honum öll þessi orð. Síðan leiddi Jónatan Davíð til Sáls, og hann var hjá honum sem áður.

Er ófriður hófst að nýju, fór Davíð og barðist við Filista og felldi mikinn fjölda af þeim, svo að þeir flýðu fyrir honum.

Þá kom illur andi frá Drottni yfir Sál; en hann sat í húsi sínu og hafði spjót í hendi sér, og Davíð lék hörpuna hendi sinni.

10 Þá reyndi Sál að reka Davíð í gegn með spjótinu upp við vegginn, en hann skaut sér undan Sál, svo að hann rak spjótið inn í vegginn. Og Davíð flýði og komst undan.

11 Hina sömu nótt sendi Sál sendimenn í hús Davíðs til þess að hafa gætur á honum, svo að hann fengi drepið hann um morguninn. En Míkal, kona hans, sagði Davíð frá og mælti: "Ef þú forðar ekki lífi þínu í nótt, þá verður þú drepinn á morgun."

12 Þá lét Míkal Davíð síga niður út um gluggann, og hann fór og flýði og komst undan.

13 Síðan tók Míkal húsgoðið og lagði í rúmið, og hún lagði blæju úr geitarhári yfir höfðalagið og breiddi ábreiðu yfir.

14 Og þegar Sál sendi menn til þess að sækja Davíð, þá sagði hún: "Hann er sjúkur."

15 Þá sendi Sál mennina aftur til að vitja um Davíð og sagði: "Færið mér hann í rúminu, til þess að ég geti drepið hann."

16 En er sendimennirnir komu, sjá, þá lá húsgoðið í rúminu og geitarhársblæjan yfir höfðalaginu.

17 Þá sagði Sál við Míkal: "Hví hefir þú svikið mig svo og látið óvin minn í burt fara, svo að hann hefir komist undan?" Míkal sagði við Sál: "Hann sagði við mig: ,Lát mig komast burt, ella mun ég drepa þig!"`

18 Davíð flýði og komst undan og kom til Samúels í Rama og sagði honum frá öllu, sem Sál hafði gjört honum. Og hann fór með Samúel og þeir bjuggu í Najót.

19 Nú var Sál sagt svo frá: "Sjá, Davíð er í Najót í Rama!"

20 Sendi Sál þá menn til að sækja Davíð. En er þeir sáu hóp spámanna, sem voru í spámannlegum guðmóði, og Samúel standa þar sem foringja þeirra, þá kom Guðs andi yfir sendimenn Sáls, svo að þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð.

21 Og menn sögðu Sál frá þessu, og hann sendi aðra menn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð. Þá sendi Sál enn menn hið þriðja sinn, en þeir komust einnig í spámannlegan guðmóð.

22 Þá fór hann sjálfur til Rama. Og er hann kom að vatnsþrónni miklu í Sekó, þá spurði hann og mælti: "Hvar eru þeir Samúel og Davíð?" Og menn sögðu: "Þeir eru í Najót í Rama."

23 En er hann fór þaðan til Najót í Rama, þá kom og Guðs andi yfir hann, og var hann stöðugt í spámannlegum guðmóði alla leiðina til Najót í Rama.

24 Þá fór hann einnig af klæðum sínum, og hann var líka í spámannlegum guðmóði frammi fyrir Samúel og lá þar nakinn allan þennan dag og alla nóttina. Fyrir því segja menn: "Er og Sál meðal spámannanna?"

20 Davíð flýði frá Najót í Rama og kom til Jónatans og sagði: "Hvað hefi ég gjört? Í hverju hefi ég misgjört og í hverju hefi ég syndgað á móti föður þínum, fyrst hann situr um líf mitt?"

Jónatan sagði við hann: "Það skal aldrei verða! Þú munt eigi lífi týna. Sjá, faðir minn gjörir ekkert, hvorki stórt né smátt, að hann láti mig eigi vita það. Og hví skyldi faðir minn þá leyna mig þessu? Nei, slíkt á sér ekki stað."

Davíð svaraði aftur og mælti: "Faðir þinn veit það vel, að þér þykir vænt um mig, og hugsar með sér: ,Jónatan má eigi vita þetta, það kynni að fá honum hryggðar.` En svo sannarlega sem Drottinn lifir og þú lifir: Milli mín og dauðans er aðeins eitt fótmál."

Jónatan sagði við Davíð: "Hvað sem þú biður um mun ég fyrir þig gjöra."

Þá sagði Davíð við Jónatan: "Sjá, á morgun er tunglkomudagur, og ég get ekki með neinu móti setið til borðs með konunginum. Leyf mér því að fara burt, svo að ég geti falið mig úti á víðavangi til kvelds.

Ef nú faðir þinn saknar mín, þá skalt þú segja: ,Davíð beiddist leyfis af mér að mega bregða sér til Betlehem, föðurborgar sinnar, því að ársfórn allrar ættarinnar fer þar fram.`

Ef hann þá segir: ,Það er gott!` þá er þjóni þínum óhætt, en verði hann reiður, þá vit, að hann hefir illt af ráðið.

Auðsýn nú þjóni þínum kærleika, úr því að þú hefir látið þjón þinn ganga í Drottins-fóstbræðralag við þig. En hafi ég misgjört, þá drep þú mig sjálfur. Hví skyldir þú fara með mig til föður þíns?"

Jónatan mælti: "Lát þér eigi koma það til hugar! Ef ég yrði þess áskynja, að faðir minn hafi illt af ráðið gegn þér, mundi ég þá ekki segja þér frá því?"

10 Davíð sagði við Jónatan: "Hver lætur mig nú vita, hvort faðir þinn svarar þér illu til?"

11 Jónatan sagði við Davíð: "Kom þú, við skulum ganga út á víðavang." Og þeir gengu báðir út á víðavang.

12 En Jónatan sagði við Davíð: "Drottinn, Ísraels Guð, veri vitni: Þegar ég á morgun um þetta leyti hefi komist eftir, hvað föður mínum býr í skapi, og ég sé að þér er óhætt, mun ég senda til þín og láta þig vita.

13 Drottinn láti mig gjalda þess nú og síðar, ef faðir minn hefir illt í huga gegn þér, og ég læt þig ekki vita það. Ég leyfi þér að fara, svo að þú megir fara óhultur. Drottinn mun vera með þér, eins og hann hefir verið með föður mínum.

14 Og vilt þú ekki, verði ég þá enn á lífi, auðsýna mér miskunn Drottins, svo að ég týni eigi lífi?

15 Og svipt hús mitt aldrei miskunn þinni, og þegar Drottinn upprætir alla óvini Davíðs af jörðinni,

16 þá skal nafn Jónatans eigi verða slitið frá húsi Davíðs. Drottinn hefni Davíðs á óvinum hans!"

17 Jónatan vann Davíð enn eið við ást þá, er hann bar til hans, því að hann unni honum hugástum.

18 Og Jónatan sagði við hann: "Á morgun er tunglkomudagur. Þá verður þín saknað, því að sæti þitt mun verða autt.

19 En á þriðja degi mun þín mjög verða saknað. Þá skalt þú fara til þess staðar, þar sem þú fólst þig fyrri daginn, og sestu hjá þeim hól.

20 Ég mun þá á þriðja degi skjóta örvum í hólinn, eins og ég væri að skjóta til marks.

21 Og sjá, ég mun senda sveininn og segja: ,Farðu og sæktu örina.` Ef ég nú kalla til sveinsins: ,Sjá, örin liggur hérnamegin við þig, kom þú með hana!` þá skalt þú koma heim, því að þá er þér óhætt og ekkert er að, svo sannarlega sem Drottinn lifir.

22 En ef ég kalla svo til piltsins: ,Örin liggur hinumegin við þig!` þá far þú, því að Drottinn hefir þá sent þig burt.

23 En viðvíkjandi því, sem við höfum talað, ég og þú, þá er Drottinn vitni milli mín og þín að eilífu."

24 Þá fól Davíð sig úti á víðavangi. Er tunglkomudagurinn kom, settist konungur undir borð að máltíð.

25 Sat konungur í sæti sínu, eins og vant var, í sætinu við vegginn, en Jónatan sat gegnt honum, og Abner sat við hliðina á Sál. En sæti Davíðs var autt.

26 Þó sagði Sál ekkert þann dag, því að hann hugsaði: "Það er tilviljun: hann er ekki hreinn. Hann hefir ekki látið hreinsa sig."

27 En daginn eftir tunglkomuna var sæti Davíðs enn autt. Þá sagði Sál við Jónatan son sinn: "Hvers vegna hefir sonur Ísaí ekki komið til máltíðar, hvorki í gær né í dag?"

28 Jónatan svaraði Sál: "Davíð beiddist þess af mér að mega fara til Betlehem.

29 Hann sagði: ,Leyf mér að fara, því að vér ætlum að halda ættarfórn í borginni, og bræður mínir hafa beðið mig að koma, og hafi ég fundið náð í augum þínum, þá lofaðu mér að komast burt, svo að ég geti heimsótt bræður mína.` Fyrir því hefir hann ekki komið að konungsborði."

30 Þá reiddist Sál Jónatan og sagði við hann: "Þú sonur þrjóskrar móður! Ætli ég viti ekki að þú ert vinur Ísaísonar, þér til skammar, og blygðun móður þinnar til skammar!

31 Því að alla þá stund, sem Ísaísonur er lifandi á jörðinni, munt þú og konungdómur þinn eigi fastur standa. Send því nú og lát koma með hann til mín, því að hann er dauðamaður."

32 Þá svaraði Jónatan Sál föður sínum og sagði við hann: "Hví skal deyða hann? Hvað hefir hann gjört?"

33 Þá snaraði Sál að honum spjótinu og ætlaði að leggja hann í gegn. Sá Jónatan þá, að faðir hans hafði fastráðið að drepa Davíð.

34 Og Jónatan stóð upp frá borðinu ævareiður og neytti ekki matar annan tunglkomudaginn, því að hann tók sárt til Davíðs, af því að faðir hans hafði smánað hann.

35 Morguninn eftir gekk Jónatan út á víðavang á þeim tíma, er þeir Davíð höfðu til tekið, og var ungur sveinn með honum.

36 Og hann sagði við svein sinn: "Hlauptu og sæktu örina, sem ég ætla að skjóta." Sveinninn hljóp af stað, en hann skaut örinni yfir hann fram.

37 En er sveinninn kom þar að, er örin lá, sem Jónatan hafði skotið, þá kallaði Jónatan á eftir sveininum og sagði: "Örin liggur hinumegin við þig!"

38 Og Jónatan kallaði enn á eftir sveininum: "Áfram, flýttu þér, stattu ekki kyrr!" Og sveinn Jónatans tók upp örina og færði húsbónda sínum.

39 En sveinninn vissi ekki neitt. Þeir Jónatan og Davíð vissu einir, hvað þetta átti að þýða.

40 Og Jónatan fékk sveini sínum vopn sín og sagði við hann: "Farðu með þau inn í borgina."

41 Sveinninn fór nú heim, en Davíð reis upp undan hólnum, féll fram á ásjónu sína til jarðar og laut þrisvar sinnum, og þeir kysstu hvor annan og grétu hvor með öðrum, þó Davíð miklu meir.

42 Og Jónatan sagði við Davíð: "Far þú í friði. En viðvíkjandi því, sem við báðir höfum unnið eið að í nafni Drottins, þá sé Drottinn vitni milli mín og þín, og milli minna niðja og þinna niðja að eilífu." Síðan hélt Davíð af stað og fór burt, en Jónatan gekk inn í borgina.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Sálmarnir 11 Icelandic Bible (ICELAND)

11 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Hjá Drottni leita ég hælis. Hvernig getið þér sagt við mig: "Fljúg sem fugl til fjallanna!"

Því að nú benda hinir óguðlegu bogann, leggja örvar sínar á streng til þess að skjóta í myrkrinu á hina hjartahreinu.

Þegar stoðirnar eru rifnar niður, hvað megna þá hinir réttlátu?

Drottinn er í sínu heilaga musteri, hásæti Drottins er á himnum, augu hans sjá, sjónir hans rannsaka mennina.

Drottinn rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega, og þann er elskar ofríki, hatar hann.

Á óguðlega lætur hann rigna glóandi kolum, eldur og brennisteinn og brennheitur vindur er þeirra mældi bikar.

Því að Drottinn er réttlátur og hefir mætur á réttlætisverkum. Hinir hreinskilnu fá að líta auglit hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Sálmarnir 59 Icelandic Bible (ICELAND)

59 Til söngstjórans. Lag: Spill eigi. Miktam eftir Davíð, þá er Sál sendi menn og þeir héldu vörð um húsið til þess að drepa hann.

Frelsa mig frá óvinum mínum, Guð minn, bjarga mér frá fjendum mínum.

Frelsa mig frá illgjörðamönnunum og hjálpa mér gegn morðingjunum,

því sjá, þeir sitja um líf mitt, hinir sterku áreita mig, þótt ég hafi ekki brotið eða syndgað, Drottinn.

Þótt ég hafi eigi misgjört, hlaupa þeir að og búast til áhlaups. Vakna þú mér til liðveislu og lít á!

En þú, Drottinn, Guð hersveitanna, Ísraels Guð, vakna þú til þess að vitja allra þjóðanna, þyrm eigi neinum fráhverfum syndara. [Sela]

Á hverju kvöldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.

Sjá, það freyðir úr munni þeirra, sverð eru á vörum þeirra, því að _ "Hver heyrir?"

En þú, Drottinn, hlærð að þeim, þú gjörir gys að öllum þjóðunum.

10 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín.

11 Guð kemur í móti mér með náð sinni, Guð lætur mig sjá óvini mína auðmýkta.

12 Drep þá eigi, svo að lýður minn gleymi eigi, lát þá reika fyrir veldi þínu og steyp þeim af stóli, þú Drottinn, skjöldur vor,

13 sakir syndar munns þeirra, orðsins af vörum þeirra, og lát þá verða veidda í hroka þeirra, og sakir formælinga þeirra og lygi, er þeir tala.

14 Afmá þá í reiði, afmá þá, uns þeir eru eigi framar til, og lát þá kenna á því, að Guð ríkir yfir Jakobsætt, allt til endimarka jarðar. [Sela]

15 Á hverju kveldi koma þeir aftur, ýlfra eins og hundar og sveima um borgina.

16 Þeir reika um eftir æti og urra, ef þeir verða eigi saddir.

17 En ég vil kveða um mátt þinn og fagna yfir náð þinni á hverjum morgni, því að þú hefir gjörst háborg mín og athvarf á degi neyðar minnar.

18 Vígi mitt, um þig vil ég kveða, því að Guð er háborg mín, minn miskunnsami Guð.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes