A A A A A
Bible Book List

Fyrri Samúelsbók 15-16 Icelandic Bible (ICELAND)

15 Samúel sagði við Sál: "Drottinn sendi mig til þess að smyrja þig til konungs yfir lýð sinn Ísrael. Hlýð því boði Drottins.

Svo segir Drottinn allsherjar: Ég vil hefna þess, er Amalek gjörði Ísrael, að hann gjörði honum farartálma, þá er hann fór af Egyptalandi.

Far því og vinn sigur á Amalek og helgaðu hann banni og allt, sem hann á. Og þú skalt ekki þyrma honum, heldur skalt þú deyða bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga, naut og sauðfé, úlfalda og asna."

Sál bauð þá út liði og kannaði það í Telam: tvö hundruð þúsundir fótgönguliðs og tíu þúsundir Júdamanna.

Og Sál kom til höfuðborgar Amaleks og setti launsát í dalinn.

Og Sál sagði við Keníta: "Komið, víkið undan, farið burt frá Amalekítum, svo að ég tortími yður ekki með þeim, því að þér sýnduð öllum Ísraelsmönnum góðvild, þá er þeir fóru af Egyptalandi." Þá viku Kenítar burt frá Amalek.

Sál vann sigur á Amalek frá Havíla suður undir Súr, sem liggur fyrir austan Egyptaland.

Og Agag, konung Amaleks, tók hann höndum lifandi, en fólkið allt bannfærði hann með sverðseggjum.

Þó þyrmdi Sál og fólkið Agag og bestu sauðunum og nautunum, öldu og feitu skepnunum, og öllu því, sem vænt var, og vildu ekki bannfæra það. En allt það af fénaðinum, sem var lélegt og rýrt, bannfærðu þeir.

10 Þá kom orð Drottins til Samúels svohljóðandi:

11 "Mig iðrar þess, að ég gjörði Sál að konungi, því að hann hefir snúið baki við mér og eigi framkvæmt boð mín." Þá reiddist Samúel og hrópaði til Drottins alla nóttina.

12 Og Samúel lagði snemma af stað næsta morgun til þess að hitta Sál. Og Samúel var sagt svo frá: "Sál er kominn til Karmel, og sjá, hann hefir reist sér minnismerki. Því næst sneri hann við og hélt áfram og er farinn ofan til Gilgal."

13 Þegar Samúel kom til Sáls, mælti Sál til hans: "Blessaður sért þú af Drottni, ég hefi framkvæmt boð Drottins."

14 En Samúel mælti: "Hvaða sauðajarmur er það þá, sem ómar í eyru mér, og hvaða nautaöskur er það, sem ég heyri?"

15 Sál svaraði: "Þeir komu með það frá Amalekítum, af því að fólkið þyrmdi bestu sauðunum og nautunum til þess að fórna þeim Drottni Guði sínum, en hitt höfum vér bannfært."

16 Samúel sagði við Sál: "Hættu nú, og mun ég kunngjöra þér það, sem Drottinn hefir talað við mig í nótt." Sál sagði við hann: "Tala þú!"

17 Samúel mælti: "Er ekki svo, að þótt þú sért lítill í þínum augum, þá ert þú þó höfuð Ísraels ættkvísla, því að Drottinn smurði þig til konungs yfir Ísrael?

18 Og Drottinn sendi þig í leiðangur og sagði: ,Far þú og bannfær syndarana, Amalekíta, og berst við þá, uns þú hefir gjöreytt þeim.`

19 Hvers vegna hefir þú þá ekki hlýtt boði Drottins, heldur fleygt þér yfir herfangið og gjört það, sem illt var í augum Drottins?"

20 Þá mælti Sál við Samúel: "Ég hefi hlýtt boði Drottins og hefi farið í leiðangur þann, er Drottinn sendi mig í, og hefi komið hingað með Agag, Amaleks konung, og Amalek hefi ég banni helgað.

21 En fólkið tók sauði og naut af herfanginu, hið besta af því bannfærða, til þess að fórna því í Gilgal Drottni Guði þínum til handa."

22 Samúel mælti: "Hefir þá Drottinn eins mikla velþóknun á brennifórnum og sláturfórnum eins og á hlýðni við boð sín? Nei, hlýðni er betri en fórn, gaumgæfni betri en feiti hrútanna.

23 Þrjóska er ekki betri en galdrasynd, og þvermóðska er ekki betri en hjáguðadýrkun og húsgoð. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir hann og hafnað þér og svipt þig konungdómi."

24 Sál mælti við Samúel: "Ég hefi syndgað, þar eð ég hefi brotið boð Drottins og þín fyrirmæli, en ég óttaðist fólkið og lét því að orðum þess.

25 Fyrirgef mér nú synd mína og snú þú við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni."

26 Samúel svaraði Sál: "Ég sný ekki við með þér. Af því að þú hefir hafnað skipun Drottins, þá hefir og Drottinn hafnað þér og svipt þig konungdómi yfir Ísrael."

27 Samúel sneri sér nú við og ætlaði að ganga burt. Þá greip Sál í lafið á skikkju hans, og rifnaði það af.

28 Þá mælti Samúel til hans: "Rifið hefir Drottinn frá þér í dag konungdóminn yfir Ísrael og gefið hann öðrum, sem er betri en þú.

29 Ekki lýgur heldur vegsemd Ísraels, og ekki iðrar hann, því að hann er ekki maður, að hann iðri."

30 Sál mælti: "Ég hefi syndgað, en sýn mér þó þá virðingu frammi fyrir öldungum þjóðar minnar og frammi fyrir Ísrael að snúa við með mér, svo að ég megi falla fram fyrir Drottni Guði þínum."

31 Þá sneri Samúel við og fór með Sál, og Sál féll fram fyrir Drottni.

32 Og Samúel mælti: "Færið mér Agag, Amaleks konung." Og Agag gekk til hans kátur. Og Agag mælti: "Sannlega er nú beiskja dauðans á brott vikin."

33 Þá mælti Samúel: "Eins og sverð þitt hefir gjört konur barnlausar, svo skal nú móðir þín vera barnlaus öðrum konum framar." Síðan hjó Samúel Agag banahögg frammi fyrir Drottni í Gilgal.

34 Því næst fór Samúel til Rama, en Sál fór heim til sín í Gíbeu Sáls.

35 Og Samúel sá ekki Sál upp frá því allt til dauðadags, því að Samúel var sorgmæddur út af Sál, og Drottin iðraði þess, að hann hafði gjört Sál konung yfir Ísrael.

16 Drottinn sagði við Samúel: "Hversu lengi ætlar þú að vera sorgmæddur út af Sál, þar sem ég hefi þó hafnað honum og svipt hann konungdómi yfir Ísrael? Fyll þú horn þitt olíu og legg af stað; ég sendi þig til Ísaí Betlehemíta, því að ég hefi kjörið mér konung meðal sona hans."

Samúel svaraði: "Hversu má ég fara? Frétti Sál það, mun hann drepa mig." En Drottinn sagði: "Tak þú með þér kvígu og segðu: ,Ég er kominn til þess að færa Drottni fórn.`

Og bjóð þú Ísaí til fórnarmáltíðarinnar, og ég skal sjálfur láta þig vita, hvað þú átt að gjöra, og þú skalt smyrja mér þann, sem ég mun segja þér."

Samúel gjörði það, sem Drottinn sagði. Og er hann kom til Betlehem, gengu öldungar borgarinnar í móti honum hræddir í huga og sögðu: "Kemur þú góðu heilli?"

Hann svaraði: "Já, ég er kominn til þess að færa Drottni fórn. Helgið yður og komið með mér til fórnarmáltíðarinnar." Og hann helgaði Ísaí og sonu hans og bauð þeim til fórnarmáltíðarinnar.

En er þeir komu, sá Samúel Elíab og hugsaði: "Vissulega stendur hér frammi fyrir Drottni hans smurði."

En Drottinn sagði við Samúel: "Lít þú ekki á skapnað hans og háan vöxt því að ég hefi hafnað honum. Guð lítur ekki á það, sem mennirnir líta á. Mennirnir líta á útlitið, en Drottinn lítur á hjartað."

Þá kallaði Ísaí á Abínadab og leiddi hann fyrir Samúel. En hann mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."

Þá leiddi Ísaí fram Samma. En Samúel mælti: "Ekki hefir Drottinn heldur kjörið þennan."

10 Þannig leiddi Ísaí fram sjö sonu sína fyrir Samúel, en Samúel sagði við Ísaí: "Engan af þessum hefir Drottinn kjörið."

11 Og Samúel sagði við Ísaí: "Eru þetta allir sveinarnir?" Hann svaraði: "Enn er hinn yngsti eftir, og sjá, hann gætir sauða." Samúel sagði við Ísaí: "Send eftir honum og lát sækja hann, því að vér setjumst ekki til borðs fyrr en hann er kominn hingað."

12 Þá sendi hann eftir honum og lét hann koma, en hann var rauðleitur, fagureygur og vel vaxinn. Og Drottinn sagði: "Statt þú upp, smyr hann, því að þessi er það."

13 Þá tók Samúel olíuhornið og smurði hann mitt á meðal bræðra hans. Og andi Drottins kom yfir Davíð upp frá þeim degi. En Samúel tók sig upp og fór til Rama.

14 Andi Drottins var vikinn frá Sál, en illur andi frá Drottni sturlaði hann.

15 Þá sögðu þjónar Sáls við hann: "Illur andi frá Guði sturlar þig.

16 Herra vor þarf ekki nema að skipa; þjónar þínir standa frammi fyrir þér og munu leita upp mann, sem kann að leika hörpu. Þá mun svo fara, að þegar hinn illi andi frá Guði kemur yfir þig, og hann leikur hörpuna hendi sinni, þá mun þér batna."

17 Og Sál sagði við þjóna sína: "Finnið mér mann, sem vel leikur á strengjahljóðfæri, og færið mér hann."

18 Þá svaraði einn af sveinunum og mælti: "Sjá, ég hefi séð son Ísaí Betlehemíta, sem kann að leika á strengjahljóðfæri og er hreystimenni og bardagamaður, vel máli farinn og vaxinn vel, og Drottinn er með honum."

19 Þá gjörði Sál menn til Ísaí og lét segja honum: "Sendu Davíð son þinn til mín, þann er sauðanna gætir."

20 Þá tók Ísaí tíu brauð, vínbelg og einn geithafur og sendi Sál með Davíð syni sínum.

21 Og Davíð kom til Sáls og þjónaði honum. Lagði Sál mikinn þokka á hann og gjörði hann að skjaldsveini sínum.

22 Þá sendi Sál til Ísaí og lét segja honum: "Lát þú Davíð ganga í þjónustu mína, því að hann fellur mér vel í geð."

23 Og jafnan þegar hinn illi andi frá Guði kom yfir Sál, þá tók Davíð hörpuna og lék hana hendi sinni. Þá bráði af Sál og honum batnaði, og hinn illi andi vék frá honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

Lúkasarguðspjall 10:25-42 Icelandic Bible (ICELAND)

25 Lögvitringur nokkur sté fram, vildi freista hans og mælti: "Meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"

26 Jesús sagði við hann: "Hvað er ritað í lögmálinu? Hvernig lest þú?"

27 Hann svaraði: "Elska skalt þú Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum, og náunga þinn eins og sjálfan þig."

28 Jesús sagði við hann: "Þú svaraðir rétt. Gjör þú þetta, og þú munt lifa."

29 En hann vildi réttlæta sjálfan sig og sagði við Jesú: "Hver er þá náungi minn?"

30 Því svaraði Jesús svo: "Maður nokkur fór frá Jerúsalem ofan til Jeríkó og féll í hendur ræningjum. Þeir flettu hann klæðum og börðu hann, hurfu brott síðan og létu hann eftir dauðvona.

31 Svo vildi til, að prestur nokkur fór ofan sama veg og sá manninn, en sveigði fram hjá.

32 Eins kom og levíti þar að, sá hann og sveigði fram hjá.

33 En Samverji nokkur, er var á ferð, kom að honum, og er hann sá hann, kenndi hann í brjósti um hann,

34 gekk til hans, batt um sár hans og hellti í þau viðsmjöri og víni. Og hann setti hann á sinn eigin eyk, flutti hann til gistihúss og lét sér annt um hann.

35 Daginn eftir tók hann upp tvo denara, fékk gestgjafanum og mælti: ,Lát þér annt um hann og það sem þú kostar meiru til, skal ég borga þér, þegar ég kem aftur.`

36 Hver þessara þriggja sýnist þér hafa reynst náungi þeim manni, sem féll í hendur ræningjum?"

37 Hann mælti: "Sá sem miskunnarverkið gjörði á honum." Jesús sagði þá við hann: "Far þú og gjör hið sama."

38 Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt, og kona að nafni Marta bauð honum heim.

39 Hún átti systur, er María hét, og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans.

40 En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: "Herra, hirðir þú eigi um það, að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér."

41 En Drottinn svaraði henni: "Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu,

42 en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes