Add parallel Print Page Options

10 Þá tók Samúel buðk með olífuolíu og hellti yfir höfuð honum og minntist við hann og mælti: "Nú hefir Drottinn smurt þig til höfðingja yfir lýð sinn Ísrael, og þú skalt drottna yfir lýð Drottins og þú skalt frelsa hann af hendi óvina hans. Og þetta skalt þú til marks hafa um, að Drottinn hefir smurt þig til höfðingja yfir arfleifð sína:

Þegar þú ert farinn frá mér í dag, munt þú hitta tvo menn við gröf Rakelar á Benjamíns landamærum hjá Selsa, og þeir munu segja við þig: ,Ösnurnar, sem þú fórst að leita að, eru fundnar. En faðir þinn er hættur að hugsa um ösnurnar og farinn að undrast um ykkur og segir: Hvað á ég að gjöra viðvíkjandi syni mínum?`

Og þegar þú nú heldur áfram þaðan og kemur að Taboreik, þá munu þrír menn mæta þér þar, sem eru á leið upp til Guðs í Betel. Einn þeirra ber þrjú kið, annar ber þrjá brauðhleifa og hinn þriðji ber vínlegil.

Þeir munu heilsa þér og gefa þér tvö brauð; skalt þú þiggja þau af þeim.

Eftir það munt þú koma til Gíbeu Guðs, þar sem súla Filista stendur. Og þegar þú kemur inn í borgina, þá munt þú mæta hóp spámanna, sem eru á leið ofan af fórnarhæðinni með hörpur, bumbur, hljóðpípur og gígjur á undan sér og sjálfir eru í spámannlegum guðmóði.

Þá mun andi Drottins koma yfir þig, svo að þú munt komast í spámannlegan guðmóð með þeim og verða annar maður.

Og þegar þú sér þessi tákn koma fram, þá neyt þess færis, sem þér býðst, því að Guð er með þér.

Og þú skalt fara á undan mér ofan til Gilgal. Og sjá, ég mun koma heim til þín og bera fram brennifórnir og fórna heillafórnum. Þú skalt bíða í sjö daga, þar til er ég kem til þín, og þá skal ég láta þig vita, hvað þú átt að gjöra."

Þegar Sál nú sneri sér við og gekk burt frá Samúel, þá umbreytti Guð hjarta hans, og öll þessi tákn komu fram þennan sama dag.

10 Er þeir komu til Gíbeu, kom hópur spámanna á móti honum. Og andi Guðs kom yfir hann, svo að hann komst í spámannlegan guðmóð meðal þeirra.

11 En þegar allir þeir, sem þekkt höfðu hann áður, sáu, að guðmóður var kominn á hann eins og á spámennina, þá sögðu menn hver við annan: "Hvað kemur að syni Kíss? Er og Sál meðal spámannanna?"

12 Þá svaraði maður nokkur þaðan og sagði: "Hver er þá faðir þeirra?" Þaðan er máltækið komið: "Er og Sál meðal spámannanna?"

13 En er hinn spámannlegi guðmóður var af honum, þá fór hann heim til sín.

14 Þá sagði föðurbróðir Sáls við hann og við svein hans: "Hvert fóruð þið?" Og hann sagði: "Að leita að ösnunum. Og þegar við fundum þær hvergi, þá fórum við til Samúels."

15 Þá sagði föðurbróðir Sáls: "Seg mér frá, hvað Samúel sagði við ykkur."

16 Og Sál sagði við föðurbróður sinn: "Hann sagði okkur, að ösnurnar væru fundnar." En það, sem Samúel hafði sagt um konungdóminn, frá því sagði hann honum eigi.

17 Samúel kallaði lýðinn saman til Drottins í Mispa

18 og sagði við Ísraelsmenn: "Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: Ég hefi leitt Ísrael út af Egyptalandi, og ég hefi frelsað yður undan valdi Egypta og undan valdi allra þeirra konungsríkja, er kúguðu yður.

19 En þér hafið í dag hafnað Guði yðar, sem hjálpað hefir yður úr öllum nauðum yðar og þrengingum, og sagt: ,Nei, heldur skalt þú setja konung yfir oss.` En gangið nú fram fyrir Drottin eftir ættkvíslum yðar og þúsundum."

20 Síðan lét Samúel allar ættkvíslir Ísraels ganga fram, og féll hlutur á Benjamíns ættkvísl.

21 Þá lét hann Benjamíns ættkvísl ganga fram eftir kynþáttum hennar, og féll hlutur á kynþátt Matríta. Þá lét hann kynþátt Matríta ganga fram mann fyrir mann, og féll hlutur á Sál Kísson. Var hans þá leitað, en hann fannst ekki.

22 Þá spurðust þeir enn fyrir hjá Drottni: "Er maðurinn kominn hingað?" Drottinn svaraði: "Sjá, hann hefir falið sig hjá farangrinum."

23 Þá hlupu þeir þangað og sóttu hann. Og er hann gekk fram meðal lýðsins, þá var hann höfði hærri en allur lýður.

24 Og Samúel sagði við allan lýðinn: "Hafið þér séð, að hann sem Drottinn hefir útvalið, er slíkur, að enginn er hans líki meðal alls fólksins?" Þá æpti allur lýðurinn og sagði: "Konungurinn lifi!"

25 Og Samúel sagði lýðnum réttindi konungdómsins og skrifaði þau í bók og lagði hana til geymslu frammi fyrir Drottni. Síðan lét Samúel allan lýðinn burt fara, hvern heim til sín.

26 Þá fór og Sál heim til Gíbeu, og með honum fóru hraustmennin, sem Guð hafði snortið hjartað í.

27 En hrakmenni nokkur sögðu: "Hvað ætli þessi hjálpi oss?" Og þeir fyrirlitu hann og færðu honum engar gjafir, en hann lét sem hann vissi það ekki.

11 Nahas Ammóníti fór og settist um Jabes í Gíleað. Þá sögðu allir Jabesbúar við Nahas: "Gjör þú sáttmála við oss, og munum vér þjóna þér."

Nahas Ammóníti svaraði þeim: "Með þeim kostum vil ég gjöra sáttmála við yður, að ég stingi út á yður öllum hægra augað og gjöri öllum Ísrael háðung með því."

Öldungarnir í Jabes sögðu við hann: "Gef oss sjö daga frest, og munum vér senda sendiboða um allt Ísraels land, og ef enginn þá hjálpar oss, munum vér gefast upp fyrir þér."

Þegar sendiboðarnir komu til Gíbeu Sáls og báru upp erindi sitt í áheyrn lýðsins, þá hóf allur lýðurinn upp raust sína og grét.

Og sjá, þá kom Sál á eftir nautunum utan af akri. Og Sál mælti: "Hvað ber til þess, að fólkið er að gráta?" Og þeir sögðu honum erindi Jabesmanna.

Þá kom andi Guðs yfir Sál, er hann heyrði þessi tíðindi, og varð hann reiður mjög.

Og hann tók tvo uxa og brytjaði þá og sendi stykkin um allt Ísraels land með sendiboðunum og lét þá orðsending fylgja: "Svo skal farið með naut hvers þess manns, er eigi fylgir Sál og Samúel í hernað." Þá kom ótti Drottins yfir fólkið, svo að þeir lögðu af stað sem einn maður.

Og hann kannaði liðið í Besek, og voru þá Ísraelsmenn þrjú hundruð þúsund og Júdamenn þrjátíu þúsund.

Og þeir sögðu við sendiboðana, sem komnir voru: "Segið svo mönnunum í Jabes í Gíleað: Á morgun um hádegisbil skal yður koma hjálp." Og sendimennirnir komu og sögðu Jabesbúum frá þessu, og urðu þeir glaðir við.

10 Og Jabesbúar sögðu við Nahas: "Á morgun munum vér gefast upp fyrir yður. Þá getið þér gjört við oss hvað sem yður gott þykir."

11 En morguninn eftir skipti Sál liðinu í þrjá flokka, og brutust þeir inn í herbúðirnar um morgunvökuna og felldu Ammóníta fram til hádegis. Og þeir, sem af komust, dreifðust víðsvegar, svo að ekki urðu eftir af þeim tveir saman.

12 Þá sagði fólkið við Samúel: "Hverjir voru það, sem sögðu: ,Á Sál að verða konungur yfir oss?` Framseljið þá menn, svo að vér getum drepið þá."

13 En Sál sagði: "Engan mann skal deyða á þessum degi, því að í dag hefir Drottinn veitt Ísrael sigur."

14 Samúel sagði við lýðinn: "Komið, vér skulum fara til Gilgal og endurnýja þar konungdóminn."

15 Þá fór allur lýðurinn til Gilgal og gjörði Sál þar að konungi frammi fyrir Drottni í Gilgal. Og þeir fórnuðu þar heillafórnum frammi fyrir Drottni, og Sál og allir Ísraelsmenn glöddu sig þar mikillega.

12 Samúel mælti til alls Ísraels: "Sjá, ég hefi látið að orðum yðar í öllu því, sem þér hafið beiðst af mér, og ég hefi sett yfir yður konung.

Og sjá, nú gengur konungurinn frammi fyrir yður, en ég er orðinn gamall og grár fyrir hærum, og synir mínir eru meðal yðar. En ég hefi gengið fyrir augliti yðar frá barnæsku fram á þennan dag.

Hér er ég, vitnið á móti mér frammi fyrir Drottni og hans smurða: Hvers uxa hefi ég tekið? Og hvers asna hefi ég tekið? Og hvern hefi ég féflett? Hverjum hefi ég sýnt ofríki? Og af hverjum hefi ég þegið mútu eða jafnvel eina skó? Vitnið móti mér, og mun ég gjalda yður það aftur."

Þeir svöruðu: "Eigi hefir þú féflett oss, og eigi hefir þú sýnt oss ofríki, og við engu hefir þú af nokkurs manns hendi tekið."

Hann sagði við þá: "Drottinn sé vitni móti yður, og hans smurði sé vitni í dag, að þér hafið ekkert fundið í minni hendi." Og þeir sögðu: "Já, þeir skulu vera vitni!"

Þá sagði Samúel við lýðinn: "Drottinn sé vitni, hann sem skóp Móse og Aron og leiddi feður yðar út af Egyptalandi.

Gangið nú fram, til þess að ég deili á yður frammi fyrir Drottni og minni yður á allar velgjörðir Drottins, sem hann hefir auðsýnt yður og feðrum yðar.

Þegar Jakob var kominn til Egyptalands, þjáðu Egyptar þá. Þá hrópuðu feður yðar til Drottins, og Drottinn sendi Móse og Aron, og þeir leiddu feður yðar út af Egyptalandi, og hann fékk þeim bústað í þessu landi.

En þeir gleymdu Drottni, Guði sínum. Þá seldi hann þá í hendur Sísera, hershöfðingja Jabíns konungs í Hasór, og í hendur Filistum og í hendur Móabskonungi, svo að þeir herjuðu á þá.

10 En þeir hrópuðu til Drottins og sögðu: ,Vér höfum syndgað, þar sem vér höfum yfirgefið Drottin og þjónað Baölum og Astörtum; en frelsa oss nú af hendi óvina vorra, þá skulum vér þjóna þér.`

11 Þá sendi Drottinn Jerúbbaal, Barak, Jefta og Samúel og frelsaði yður af hendi óvina yðar allt í kring, svo að þér bjugguð óhultir.

12 En er þér sáuð, að Nahas, konungur Ammóníta, fór í móti yður, þá sögðuð þér við mig: ,Nei, konungur skal drottna yfir oss!` _ en Drottinn, Guð yðar, er þó konungur yðar.

13 Þarna er nú konungurinn, sem þér hafið valið, sem þér hafið beðið um. Drottinn hefir nú sett yfir yður konung.

14 Ef þér óttist Drottin og þjónið honum og hlýðið hans raustu og óhlýðnist ekki skipun Drottins, og ef þér, bæði þér sjálfir og konungurinn, sem ríkir yfir yður, fylgið Drottni, Guði yðar, þá fer vel,

15 en ef þér hlýðið ekki raustu Drottins og óhlýðnist skipun Drottins, þá mun hönd Drottins vera á móti yður og konungi yðar.

16 Gangið nú fram og sjáið þann mikla atburð, er Drottinn lætur verða fyrir augum yðar.

17 Er nú ekki hveitiuppskera? Ég ætla að biðja Drottin að senda þrumur og regn. Þá skuluð þér kannast við og skilja, hversu mikið illt þér gjörðuð í augum Drottins, er þér beiddust að fá konung."

18 Og Samúel ákallaði Drottin, og Drottinn sendi þrumur og regn þennan sama dag. Þá varð lýðurinn mjög hræddur við Drottin og við Samúel.

19 Og allur lýðurinn sagði við Samúel: "Bið til Drottins Guðs þíns fyrir þjónum þínum, svo að vér deyjum ekki, því að vér höfum bætt þeirri misgjörð ofan á allar syndir vorar, að vér höfum beiðst konungs."

20 Samúel sagði við lýðinn: "Óttist ekki. Þér hafið að vísu framið þessa misgjörð, en víkið nú ekki frá Drottni og þjónið Drottni af öllu hjarta yðar

21 og eltið ekki fánýtin, sem að engu liði eru og eigi frelsa, því að fánýt eru þau.

22 Því að Drottinn mun eigi útskúfa lýð sínum vegna síns mikla nafns, af því að Drottni hefir þóknast að gjöra yður að sínum lýð.

23 Og fjarri sé það mér að syndga á móti Drottni með því að hætta að biðja fyrir yður. Ég vil kenna yður hinn góða og rétta veg.

24 Óttist aðeins Drottin og þjónið honum trúlega af öllu hjarta yðar, því sjáið, hversu mikið hann hefir fyrir yður gjört.

25 En ef þér breytið illa, þá verður bæði yður og konungi yðar í burtu kippt."

37 Daginn eftir, er þeir fóru ofan af fjallinu, kom mikill mannfjöldi á móti honum.

38 Og maður nokkur úr mannfjöldanum hrópar: "Meistari, ég bið þig að líta á son minn, því að hann er einkabarnið mitt.

39 Það er andi, sem grípur hann, og þá æpir hann skyndilega. Hann teygir hann svo að hann froðufellir, og víkur varla frá honum og er að gjöra út af við hann.

40 Ég bað lærisveina þína að reka hann út, en þeir gátu það ekki."

41 Jesús svaraði: "Ó, þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá yður og umbera yður? Fær þú hingað son þinn."

42 Þegar hann var að koma, slengdi illi andinn honum flötum og teygði hann ákaflega. En Jesús hastaði á óhreina andann, læknaði sveininn og gaf hann aftur föður hans.

43 Og allir undruðust stórum veldi Guðs. Þá er allir dáðu allt það, er hann gjörði, sagði hann við lærisveina sína:

44 "Festið þessi orð í huga: ,Mannssonurinn verður framseldur í manna hendur."`

45 En þeir skildu ekki þessi orð, og þetta var þeim hulið, svo að þeir skynjuðu það ekki. Og þeir þorðu ekki að spyrja hann um þetta.

46 Sú spurning kom fram meðal þeirra, hver þeirra væri mestur.

47 Jesús vissi, hvað þeir hugsuðu í hjörtum sínum, og tók lítið barn, setti það hjá sér

48 og sagði við þá: "Hver sem tekur við þessu barni í mínu nafni, tekur við mér, og hver sem tekur við mér, tekur við þeim, er sendi mig. Því að sá sem minnstur er meðal yðar allra, hann er mestur."

49 Jóhannes tók til máls: "Meistari, vér sáum mann reka út illa anda í þínu nafni, og vildum vér varna honum þess, af því að hann fylgir oss ekki."

50 En Jesús sagði við hann: "Varnið þess ekki. Sá sem er ekki á móti yður, er með yður."

51 Nú fullnaðist brátt sá tími, er hann skyldi upp numinn verða. Beindi hann þá augum til Jerúsalem, einráðinn að fara þangað.

52 Og hann lét sendiboða fara á undan sér. Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum gistingu.

53 En þeir tóku ekki við honum, því hann var á leið til Jerúsalem.

54 Þegar lærisveinar hans, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: "Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?"

55 En hann sneri sér við og ávítaði þá [og sagði: "Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð.

56 Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa."] Og þeir fóru í annað þorp.

57 Þegar þeir voru á ferð á veginum, sagði maður nokkur við hann: "Ég vil fylgja þér, hvert sem þú ferð."

58 Jesús sagði við hann: "Refar eiga greni og fuglar himins hreiður, en Mannssonurinn á hvergi höfði sínu að að halla."

59 Við annan sagði hann: "Fylg þú mér!" Sá mælti: "Herra, leyf mér fyrst að fara og jarða föður minn."

60 Jesús svaraði: "Lát hina dauðu jarða sína dauðu, en far þú og boða Guðs ríki."

61 Enn annar sagði: "Ég vil fylgja þér, herra, en leyf mér fyrst að kveðja fólk mitt heima."

62 En Jesús sagði við hann: "Enginn, sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur, er hæfur í Guðs ríki."

Read full chapter