Add parallel Print Page Options

Á fjögur hundruð og áttugasta ári frá því, er Ísraelsmenn fóru af Egyptalandi, fjórða árið, sem Salómon ríkti yfir Ísrael, í sívmánuði _ það er öðrum mánuðinum _ reisti hann Drottni musterið.

Musterið, sem Salómon konungur reisti Drottni, var sextíu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð.

Forsalurinn fyrir framan musterishúsið var tuttugu álnir á breidd fram með musterisendanum og tíu álnir á dýpt fram af musterinu.

Hann gjörði glugga á musterið með föstum grindum fyrir.

Og upp að musterisveggnum hringinn í kring reisti hann þriggja hæða hliðarhús _ upp að musterisveggjunum, hringinn í kringum aðalhúsið og innhúsið og gjörði stúkur allt í kring.

Fyrsta hæð þessa hliðarhúss var fimm álnir á breidd, miðhæðin sex álnir á breidd, og efsta hæðin sjö álnir á breidd, því að hann hafði sett stalla utan á musterið hringinn í kring, til þess að bitarnir skyldu ekki ganga inn í musterisveggina.

Þegar musterið var reist var byggt úr steinum, sem höfðu verið höggnir til, er grjótið var tekið, svo að hvorki heyrðist hamarshljóð né axar, né nokkurs annars járntóls, meðan á byggingu musterisins stóð.

Dyrnar á fyrstu hæð hliðarhússins voru á suðurhlið musterisins, og var gengið upp um hringstiga upp á miðhæðina og þaðan upp á efstu hæð.

Þannig reisti hann musterið og lauk við það og þakti musterið með bjálkum og þiljum úr sedrusviði.

10 Hann reisti hliðarhús utan um allt musterið, fimm álnir á hæð hver hæð, og tengdi þau við musterið með sedrusviði.

11 Þá kom orð Drottins til Salómons svolátandi:

12 "Þú hefir byggt þetta hús. Ef þú gengur eftir boðorðum mínum og breytir eftir lögum mínum og varðveitir allar skipanir mínar með því að ganga eftir þeim, þá mun ég efna heit mitt við þig, er ég gaf Davíð föður þínum,

13 og ég mun búa meðal Ísraelsmanna og eigi yfirgefa lýð minn Ísrael."

14 Þannig byggði Salómon musterið og lauk við það.

15 Salómon þiljaði musterisveggina að innan með sedrusviði. Frá gólfi hússins upp að loftbjálkum þiljaði hann það að innan með viði og lagði gólf í húsið úr kýpresviðarborðum.

16 Og hann þiljaði tuttugu álnir aftan af húsinu neðan frá gólfi og upp undir bjálka með sedrusviði. Gjörði hann þannig úr því að innan innhús, það er Hið allrahelgasta.

17 Húsið var fjörutíu álnir, það er aðalhúsið fyrir framan innhúsið.

18 Innan á musterinu var sedrusviður, útskorinn með hnöppum og blómstrum. Var það allt af sedrusviði, og sá hvergi í stein.

19 Hann bjó út innhús, Hið allrahelgasta, inni í musterinu, til þess að þangað mætti flytja sáttmálsörk Drottins.

20 Og fyrir framan innhúsið _ en það var tuttugu álnir á lengd, tuttugu álnir á breidd og tuttugu álnir á hæð, og hann lagði það skíru gulli _ gjörði hann altari af sedrusviði.

21 Salómon lagði musterið með skíru gulli að innan, og dró gullfestar fyrir kórinn og lagði hann gulli.

22 Og allt húsið lagði hann gulli _ algjörlega allt húsið. Einnig lagði hann gulli allt altarið, sem tilheyrði innhúsinu.

23 Hann gjörði í innhúsinu tvo kerúba af olíuviði, tíu álna háa.

24 Hvor vængur annars kerúbsins var fimm álnir, og hvor vængur hins kerúbsins fimm álnir, svo að tíu álnir voru frá enda annars vængsins til enda hins vængsins.

25 Báðir kerúbarnir voru tíu álnir, báðir voru þeir jafnstórir og eins að gerð.

26 Annar kerúbinn var tíu álnir á hæð, svo og hinn kerúbinn.

27 Og hann setti kerúbana upp inni í Hinu allrahelgasta, og breiddu þeir út vængina, svo að annar vængur annars nam við vegginn og hinn vængur hins kerúbsins nam við hinn vegginn, en í miðju húsinu námu vængir þeirra hvor við annan.

28 Og hann lagði kerúbana gulli.

29 Hann lét skera út á veggina hringinn í kring kerúba, pálma og blómfléttur, inni og fyrir utan.

30 Gólf hússins lagði hann og gulli, inni og fyrir utan.

31 Fyrir dyr innhússins lét hann gjöra vængjahurð úr olíuviði. Umgjörðin yfir dyrunum og dyrastafirnir mynduðu fimmhyrning.

32 Á báðar vængjahurðirnar, sem voru úr olíuviði, lét hann skera kerúba, pálma og blómfléttur og leggja gulli, en kerúbana og pálmana lagði hann slegnu gulli.

33 Og fyrir dyr aðalhússins lét hann sömuleiðis gjöra ferstrenda dyrastafi af olíuviði

34 og tvær vængjahurðir af kýpresviði. Var hvor vængurinn um sig gjörður af tveimur hlerum, er léku á hjörum.

35 Og hann lét skera kerúba, pálma og blómfléttur á þá og lagði það gulli, sem út var skorið.

36 Hann gjörði vegginn um innri forgarðinn úr þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum.

37 Á fjórða ári var grundvöllurinn lagður að húsi Drottins, í sívmánuði.

38 Og á ellefta ári, í búlmánuði _ það er áttunda mánuðinum _ var húsið fullgjört í öllum greinum, með öllu sem því tilheyrði. Í sjö ár var hann að byggja það.

Höll sína var Salómon að byggja í þrettán ár og fullgjörði þannig allt sitt hús.

Hann byggði Líbanonsskógarhúsið, er var hundrað álnir á lengd, fimmtíu álnir á breidd og þrjátíu álnir á hæð á þrem sedrussúlnaröðum, og á súlunum hvíldu bjálkar af sedrusviði.

Og það var þakið sedrusviði uppi yfir hliðarherbergjunum, er hvíldu á fjörutíu og fimm súlum, fimmtán í hverri röð.

Gluggaraðirnar voru þrjár, og ljóri gegnt ljóra þrem sinnum.

Og allar dyr og allir ljórar voru ferhyrndir, og ljóri var gegnt ljóra þrem sinnum.

Hann gjörði súlnasal, fimmtíu álnir á lengd og þrjátíu álnir á breidd, og forsal þar fyrir framan og súlur og pall þar fyrir framan.

Hann byggði hásætissal, þar sem hann kvað upp dóma _ dómhöllina _, og hún var þiljuð sedrusviði frá gólfi til lofts.

Og hús hans sjálfs, þar er hann bjó, í öðrum garðinum, inn af forsalnum, var gjört á sama hátt. Salómon gjörði og hús, eins og forsalinn, handa dóttur Faraós, er hann hafði gengið að eiga.

Allt þetta var byggt af úthöggnum steinum, er voru höggnir til eftir máli, sagaðir með sög innan og utan, frá undirstöðum og upp á veggbrúnir, og að utan allt að forgarðinum mikla.

10 Og undirstaðan var úr úthöggnum steinum, stórum steinum, tíu álna steinum og átta álna steinum.

11 Og þar á ofan voru úthöggnir steinar, höggnir eftir máli, og sedrusviður.

12 Og forgarðurinn mikli var gjörður allt um kring af þrem lögum af höggnum steini og einu lagi af sedrusbjálkum, svo og innri forgarður musteris Drottins og forgarðurinn að súlnasal hallarinnar.

13 Salómon konungur sendi menn og lét sækja Híram frá Týrus.

14 Hann var sonur ekkju nokkurrar af ættkvísl Naftalí, en faðir hans var ættaður frá Týrus og var koparsmiður. Var hann fullur hagleiks, skilnings og kunnáttu til að gjöra alls konar smíðar af eiri. Hann kom til Salómons konungs og smíðaði allar smíðar fyrir hann.

15 Híram steypti báðar súlurnar af eiri. Önnur súlan var átján álnir á hæð, og tólf álna langan þráð þurfti til þess að ná utan um hana. Súlan var fjögurra fingra þykk, hol að innan. Á sama hátt gjörði hann hina súluna.

16 Og hann gjörði tvö höfuð steypt af eiri til þess að setja ofan á súlurnar. Var hvort höfuð fimm álnir á hæð.

17 Á höfðunum, sem voru á súlunum, var sem riðið net og fléttur, gjörðar af festum, sjö fyrir hvort höfuð.

18 Og hann gjörði granatepli, tvær raðir allt í kring, utan á öðru netinu, til þess að hylja höfuðin, sem voru ofan á súlunum, eins gjörði hann á hinu höfðinu.

19 Höfuðin, sem voru ofan á súlunum í forsalnum, voru liljumynduð, fjórar álnir.

20 Á báðum súlunum voru höfuð, einnig að ofan, hjá bungunni undir riðna netinu. Granateplin voru tvö hundruð að tölu, í röðum hringinn í kringum hitt höfuðið.

21 Hann reisti súlurnar við forsal aðalhússins. Hann reisti hægri súluna og kallaði hana Jakín, og hann reisti vinstri súluna og kallaði hana Bóas.

22 Og efst voru súlurnar liljumyndaðar. Þannig var súlnasmíðinu lokið.

23 Og Híram gjörði hafið, og var það steypt af eiri. Það var tíu álnir af barmi og á, kringlótt og fimm álnir á dýpt, og þrjátíu álna snúra lá um það.

24 En neðan á barminum allt í kring voru hnappar, tíu á hverri alin, er mynduðu hring utan um hafið, tvær raðir af hnöppum, og voru þeir samsteyptir hafinu.

25 Það stóð á tólf nautum. Sneru þrjú í norður, þrjú í vestur, þrjú í suður, þrjú í austur. Hvíldi hafið á þeim, og sneru allir bakhlutir þeirra inn.

26 Það var þverhandarþykkt og barmur þess í laginu sem barmur á bikar, líkt og liljublóm. Það tók tvö þúsund bat.

27 Híram gjörði og vagnana, tíu að tölu, af eiri. Var hver vagn fjórar álnir á lengd, fjórar álnir á breidd og þrjár álnir á hæð.

28 En hver vagnanna var svo gjörður: Á þeim voru speld milli brúnalistanna.

29 En á speldunum, sem voru milli brúnalistanna, voru ljón, naut og kerúbar, og eins á brúnalistunum. Og bæði fyrir ofan og fyrir neðan ljónin og nautin voru hangandi blómfestar.

30 Á hverjum vagni voru fjögur hjól af eiri og öxlar af eiri. Á fjórum hornum hvers vagns voru þverslár. Voru þverslárnar steyptar undir kerið. Gegnt hverri þeirra voru blómfestar.

31 Opin á kerunum voru fyrir innan þverslárnar, alin á hæð, og voru þau kringlótt, hálf önnur alin. Og einnig á börmum opsins voru grafnar myndir. Speldin voru ferskeytt, ekki kringlótt.

32 Hjólin fjögur voru undir speldunum og hjólhaldararnir festir við vagninn. En hvert hjól var hálf önnur alin á hæð.

33 Og hjólin voru gjörð eins og vagnhjól. Haldarar þeirra, hringir, spelir og nafir, _ allt var það steypt.

34 Á fjórum hornum hvers vagns voru fjórar þverslár. Gengu þverslárnar upp af vögnunum.

35 Uppi á hverjum vagni var eins konar standur, hálf alin á hæð, alls staðar sívalur. Og ofan á vagninum voru haldarar hans og speld og gengu upp úr honum.

36 Á fleti haldara hans og á speld hans gróf hann kerúba, ljón og pálma, eftir því sem rúm var til á hverju, og blómfestar í kring.

37 Á þennan hátt gjörði hann vagnana tíu. Þeir voru allir eins steyptir, jafnstórir og af sömu gerð.

38 Þá gjörði hann tíu ker af eiri. Tók hvert ker fjörutíu bat, og var hvert þeirra fjórar álnir að þvermáli. Eitt ker var á hverjum pallanna tíu.

39 Og hann setti fimm vagnanna hægra megin í húsið og fimm vinstra megin. En hafið setti hann hægra megin við húsið, í austur, gegnt suðri.

40 Og Híram gjörði kerin, eldspaðana og fórnarskálarnar, og þannig lauk hann við allar þær smíðar, er hann hafði gjört fyrir Salómon konung í hús Drottins:

41 tvær súlur og tvær kúlur á súlnahöfðunum og bæði riðnu netin, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum,

42 og fjögur hundruð granateplin á bæði netin, tvær raðir af granateplum á hvort net, er hylja áttu báðar kúlurnar á súlnahöfðunum.

43 Enn fremur vagnana tíu og kerin tíu á vögnunum,

44 og hafið og tólf nautin undir hafinu,

45 og katlana, eldspaðana og fórnarskálarnar. Öll þessi áhöld, er Híram hafði gjört fyrir Salómon konung í hús Drottins, voru úr skyggðum eiri.

46 Lét konungur steypa þau á Jórdansléttlendinu í leirmótum, milli Súkkót og Saretan.

47 Salómon lét áhöldin vera óvegin, af því að þau voru afar mörg. Þyngd eirsins var eigi rannsökuð.

48 Og Salómon gjörði öll þau áhöld, sem voru í húsi Drottins: gullaltarið og borðið, sem skoðunarbrauðin lágu á, af gulli,

49 og ljósastikurnar, fimm hægra megin og fimm vinstra megin, fyrir framan innhúsið af skíru gulli, og blómin, lampana og ljósasöxin af gulli,

50 og katlana, skarbítana, fórnarskálarnar, bollana, eldpönnurnar af skíru gulli. Hjarirnar á vængjahurðum innsta hússins, Hins allrahelgasta, og á vængjahurðum musterisins, aðalhússins, voru og af gulli.

51 Og er öllu því verki var lokið, er Salómon konungur lét gjöra í húsi Drottins, þá flutti hann helgigjafir Davíðs föður síns inn í það, silfrið og gullið, en áhöldin lét hann í féhirslur Drottins húss.

27 Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

28 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, að deyi maður kvæntur, en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.

29 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus.

30 Gekk þá annar bróðirinn

31 og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö, og létu þeir engin börn eftir sig, er þeir dóu.

32 Síðast dó og konan.

33 Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana."

34 Jesús svaraði þeim: "Börn þessarar aldar kvænast og giftast,

35 en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast.

36 Þeir geta ekki heldur dáið framar, þeir eru englum jafnir og börn Guðs, enda börn upprisunnar.

37 En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ,Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`

38 Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir."

39 Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: "Vel mælt, meistari."

40 En þeir þorðu ekki framar að spyrja hann neins.

41 Hann sagði við þá: "Hvernig geta menn sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?

42 Davíð segir sjálfur í sálmunum: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar,

43 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.

44 Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?"

45 Í áheyrn alls lýðsins sagði hann við lærisveina sína:

46 "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.

47 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."

Read full chapter