Add parallel Print Page Options

19 Akab sagði Jesebel frá öllu því, sem Elía hafði gjört og hversu hann hafði drepið alla spámennina með sverði.

Þá sendi hún mann á fund Elía og lét segja honum: "Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja nú og síðar: Á morgun í þetta mund skal ég fara svo með líf þitt, sem farið hefir verið með líf sérhvers þeirra."

Þá varð hann hræddur, tók sig upp og hélt af stað til þess að forða lífi sínu. Hann kom til Beerseba, sem er í Júda. Þar lét hann eftir svein sinn.

En sjálfur fór hann eina dagleið á eyðimörku og kom þar sem gýfilrunnur var og settist undir hann. Þá óskaði hann sér að hann mætti deyja og mælti: "Mál er nú, Drottinn, að þú takir líf mitt, því að mér er eigi vandara um en feðrum mínum."

Síðan lagðist hann fyrir undir gýfilrunninum og sofnaði. Og sjá, engill snart hann og mælti til hans: "Statt upp og et."

Litaðist hann þá um og sá, að eldbökuð kaka lá að höfði honum og vatnskrús. Át hann þá og drakk og lagðist síðan aftur fyrir.

En engill Drottins kom aftur öðru sinni, snart hann og mælti: "Statt upp og et, því að annars verður leiðin þér of löng."

Stóð hann þá upp, át og drakk og hélt áfram fyrir kraft fæðunnar fjörutíu daga og fjörutíu nætur, uns hann kom að Hóreb, fjalli Guðs.

Þar gekk hann inn í helli og hafðist þar við um nóttina. Þá kom orð Drottins til hans: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?"

10 Hann svaraði: "Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt."

11 Þá sagði Drottinn: "Gakk þú út og nem staðar á fjallinu frammi fyrir mér." Og sjá, Drottinn gekk fram hjá, og mikill og sterkur stormur, er tætti fjöllin og molaði klettana, fór fyrir Drottni, en Drottinn var ekki í storminum.

12 Og eftir storminn kom landskjálfti, en Drottinn var ekki í landskjálftanum. Og eftir landskjálftann kom eldur, en Drottinn var ekki í eldinum. En eftir eldinn heyrðist blíður vindblær hvísla.

13 Og er Elía heyrði það, huldi hann andlit sitt með skikkju sinni, gekk út og nam staðar við hellisdyrnar. Sjá, þá barst rödd að eyrum honum og mælti: "Hvað ert þú hér að gjöra, Elía?"

14 Hann svaraði: "Ég hefi verið vandlætingasamur vegna Drottins, Guðs allsherjar, því að Ísraelsmenn hafa virt að vettugi sáttmála þinn, rifið niður ölturu þín og drepið spámenn þína með sverði, svo að ég er einn eftir orðinn, og sitja þeir nú um líf mitt."

15 En Drottinn sagði við hann: "Far þú aftur leiðar þinnar til Damaskuseyðimerkur og far inn í borgina og smyr Hasael til konungs yfir Sýrland.

16 Jehú Nimsíson skalt þú smyrja til konungs yfir Ísrael, og Elísa Safatsson frá Abel Mehóla skalt þú smyrja til spámanns í þinn stað.

17 Hvern þann, er kemst undan sverði Hasaels, mun Jehú drepa, og hvern þann, er kemst undan sverði Jehú, mun Elísa drepa.

18 Þó vil ég láta eftir verða í Ísrael sjö þúsundir, öll þau kné, sem eigi hafa beygt sig fyrir Baal, og alla þá munna, er eigi hafa kysst hann."

19 Síðan fór Elía þaðan og hitti Elísa Safatsson. Hann var að plægja. Gengu tólf sameyki á undan honum, og sjálfur var hann með hinu tólfta. Þá gekk Elía til hans og lagði skikkju sína yfir hann.

20 Þá skildi hann eftir yxnin, rann eftir Elía og mælti: "Leyf þú mér fyrst að minnast við föður minn og móður, síðan skal ég fara með þér." Elía svaraði honum: "Far og snú aftur, en mun hvað ég hefi gjört þér."

21 Þá sneri hann aftur og skildi við hann, tók sameykin og slátraði þeim og sauð kjötið af þeim við aktygin af yxnunum og gaf fólkinu að eta. Síðan tók hann sig upp og fór á eftir Elía og gjörðist þjónn hans.

20 Benhadad konungur á Sýrlandi dró saman allan her sinn. Voru þrjátíu og tveir konungar með honum, með hestum og vögnum, og hann fór, settist um Samaríu og gjörði áhlaup á hana.

Og hann sendi menn til Akabs Ísraelskonungs inn í borgina

og lét segja honum: "Svo segir Benhadad: Silfur þitt og gull er mitt, svo og hinar fegurstu konur þínar og synir."

Ísraelskonungur svaraði og sagði: "Eins og þú vilt vera láta, minn herra konungur. Ég er þinn og allt, sem ég á."

Og sendimennirnir komu aftur og sögðu: "Svo segir Benhadad: Ég hefi gjört þér þessa orðsending: Þú skalt gefa mér silfur þitt og gull, konur þínar og sonu.

Þegar ég á morgun í þetta mund sendi menn mína til þín, munu þeir rannsaka hús þitt og hús þinna manna, og skulu þeir taka og hafa á burt með sér sérhvað það, sem þeir ágirnast."

Þá kallaði Ísraelskonungur alla öldunga landsins fyrir sig og mælti: "Hyggið að og sjáið, að hann býr yfir illu, því að hann sendi til mín eftir konum mínum og sonum, silfri mínu og gulli, og synjaði ég honum þess ekki."

Þá sögðu allir öldungarnir og allur lýðurinn við hann: "Gegn þú eigi þessu og samþykk þú það eigi."

Þá sagði Akab við sendimenn Benhadads: "Segið mínum herra konunginum: Allt það, sem þú gjörðir þjóni þínum orð um í fyrstu, vil ég gjöra, en þetta get ég ekki gjört." Þá fóru sendimennirnir og færðu honum svarið.

10 Þá sendi Benhadad til hans og lét segja: "Guðirnir gjöri mér hvað sem þeir vilja, nú og síðar: Rykið í Samaríu mun eigi nægja til þess að fylla lúkurnar á öllu þessu liði, sem með mér er."

11 En Ísraelskonungur svaraði og sagði: "Segið honum: Eigi skyldi sá, er hervæðist, hrósa sér sem sá, er leggur af sér vopnin."

12 Þegar Benhadad heyrði þetta svar, þar sem hann sat að drykkju með konungunum í laufskálunum, mælti hann til sinna manna: "Færið fram hervélarnar." Og þeir færðu þær fram gegnt borginni.

13 En spámaður nokkur gekk fyrir Akab Ísraelskonung og mælti: "Svo segir Drottinn: Sér þú allan þennan mikla manngrúa? Hann gef ég þér í hendur í dag, svo að þú viðurkennir, að ég er Drottinn."

14 Þá mælti Akab: "Fyrir hvers fulltingi?" Spámaðurinn svaraði: "Svo segir Drottinn: Fyrir fulltingi sveina héraðshöfðingjanna." Þá spurði Akab: "Hver á að hefja orustuna?" Hinn svaraði: "Þú."

15 Þá kannaði Akab sveina héraðshöfðingjanna, og voru þeir tvö hundruð þrjátíu og tveir. Og að því búnu kannaði hann allt liðið, alla Ísraelsmenn, sjö þúsund manns.

16 Um hádegið réðu þeir til útgöngu, en Benhadad sat þá ölvaður að drykkju í laufskálunum, hann og þeir þrjátíu og tveir konungar, er komnir voru honum til liðs.

17 Sveinar héraðshöfðingjanna fóru fremstir. Þá sendi Benhadad menn til að njósna. Þeir sögðu honum svo frá: "Menn fara út frá Samaríu."

18 Þá sagði hann: "Hvort sem þeir fara út til þess að biðjast friðar eða til þess að berjast, þá takið þá höndum lifandi."

19 Og er sveinar héraðshöfðingjanna og liðið, sem þeim fylgdi, fóru út af borginni

20 drápu þeir hver sinn mann. Flýðu þá Sýrlendingar, en Ísraelsmenn eltu þá. Og Benhadad Sýrlandskonungur komst undan á vagnhesti með nokkra riddara.

21 En Ísraelskonungur fór út og náði hestunum og vögnunum. Og hann vann mikinn sigur á Sýrlendingum.

22 Þá gekk spámaður fyrir Ísraelskonung og mælti til hans: "Ver hugrakkur og hygg vandlega að, hvað þú skulir gjöra, því að næsta ár mun Sýrlandskonungur fara með her á hendur þér."

23 Menn Sýrlandskonungs sögðu við hann: "Guð Ísraelsmanna er fjallaguð, þess vegna urðu þeir oss yfirsterkari, en ef vér mættum berjast við þá á jafnsléttu, mundum vér vissulega vinna sigur á þeim.

24 En gjör þú þetta: Vík öllum konungunum frá völdum og set jarla í þeirra stað.

25 Safna síðan að þér jafnfjölmennu liði sem það lið var, er þú misstir, og jafnmörgum hestum og jafnmörgum vögnum sem þú misstir, og skulum vér berjast við þá á jafnsléttu, og munum vér vissulega sigrast á þeim." Fór hann að ráðum þeirra og gjörði svo.

26 Árið eftir kannaði Benhadad Sýrlendinga og hélt til Afek til þess að berjast við Ísraelsmenn.

27 En Ísraelsmenn voru og kannaðir og birgðir að vistum, og fóru þeir í móti þeim, og settu Ísraelsmenn herbúðir gegnt þeim. Voru þeir sem tveir geitfjárhópar, en Sýrlendingar fylltu landið.

28 Þá gekk guðsmaður nokkur fram, talaði til Ísraelskonungs og mælti: "Svo segir Drottinn: Sakir þess að Sýrlendingar hafa sagt: ,Drottinn er fjallaguð, en enginn dalaguð` _ þá vil ég gefa þennan mikla manngrúa í þínar hendur, svo að þér kannist við, að ég er Drottinn."

29 Þannig lágu þeir í herbúðunum, hverir gegnt öðrum, í sjö daga, en á sjöunda degi tókst orusta, og felldu Ísraelsmenn hundrað þúsundir fótgönguliðs af Sýrlendingum á einum degi.

30 En þeir, sem eftir urðu, flýðu til Afek, inn í borgina, en þá féll borgarmúrinn á þau tuttugu og sjö þúsund manns, sem eftir voru. Benhadad var og flúinn og komst inn í borgina, úr einu herberginu í annað.

31 Þá sögðu menn hans við hann: "Vér höfum heyrt, að konungar Ísraelshúss séu miskunnsamir konungar. Skulum vér nú gyrðast hærusekk um lendar vorar og vefja bandi um höfuð vor og ganga síðan fyrir Ísraelskonung. Má vera að hann gefi þér líf."

32 Síðan gyrtust þeir hærusekk um lendar sér, vöfðu bandi um höfuð sér og gengu síðan á fund Ísraelskonungs og sögðu: "Þjónn þinn Benhadad segir: Gef þú mér líf." Akab svaraði: "Er hann enn á lífi? Hann er bróðir minn."

33 Þetta þótti mönnunum góðs viti, og flýttu þeir sér að taka hann á orðinu og sögðu: "Benhadad er bróðir þinn!" En Akab mælti: "Farið og sækið hann." Þá gekk Benhadad út til hans, og hann lét hann stíga upp í vagninn til sín.

34 Og Benhadad sagði við hann: "Borgunum, sem faðir minn tók frá föður þínum, skal ég skila aftur, og þú mátt gjöra þér torg í Damaskus, eins og faðir minn gjörði í Samaríu." "Hvað mig snertir," mælti Akab, "þá vil ég láta þig lausan með þessum skilmálum." Og hann gjörði við hann sáttmála og lét hann í brott fara.

35 Maður nokkur af spámannasveinunum sagði við félaga sinn eftir orði Drottins: "Slá þú mig!" En maðurinn færðist undan að slá hann.

36 Þá sagði spámaðurinn við hann: "Sökum þess að þú hlýddir ekki raust Drottins, þá mun ljón ljósta þig jafnskjótt og þú gengur burt frá mér." Og er hann gekk í burt frá honum, mætti ljón honum og drap hann.

37 Og spámaðurinn hitti annan mann og mælti: "Slá þú mig!" Og maðurinn sló hann, svo að hann varð sár.

38 Síðan fór spámaðurinn burt og gekk í veg fyrir konung og gjörði sig ókennilegan með því að binda fyrir augun.

39 En er konungur fór fram hjá, kallaði hann til konungs og mælti: "Þjónn þinn fór í bardagann. Þá gekk maður fram úr fylkingunni, færði mér mann og sagði: ,Geymdu þennan mann. Komist hann í burt, þá skal líf þitt við liggja, eða þú skalt greiða talentu silfurs.`

40 En svo fór, að þar sem þjónn þinn hafði í hinu og þessu að snúast, þá varð maðurinn allur á burtu." Ísraelskonungur sagði við hann: "Það er þinn dómur. Þú hefir sjálfur kveðið hann upp."

41 Þá tók hann í skyndi bandið frá augunum, og Ísraelskonungur þekkti hann, að hann var einn af spámönnunum.

42 Spámaðurinn mælti þá til hans: "Svo segir Drottinn: Sökum þess að þú slepptir þeim manni úr hendi þér, sem ég hafði banni helgað, þá skal líf þitt koma fyrir hans líf og þín þjóð fyrir hans þjóð."

43 Og Ísraelskonungur hélt heim til sín, hryggur og reiður, og kom til Samaríu.

23 Þá stóð upp allur skarinn og færði hann fyrir Pílatus.

Þeir tóku að ákæra hann og sögðu: "Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur."

Pílatus spurði hann þá: "Ert þú konungur Gyðinga?" Jesús svaraði: "Þú segir það."

Pílatus sagði við æðstu prestana og fólkið: "Enga sök finn ég hjá þessum manni."

En þeir urðu því ákafari og sögðu: "Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað."

Þegar Pílatus heyrði þetta, spurði hann, hvort maðurinn væri Galílei.

Og er hann varð þess vís, að hann var úr umdæmi Heródesar, sendi hann hann til Heródesar, er þá var og í Jerúsalem á þeim dögum.

En Heródes varð næsta glaður, er hann sá Jesú, því hann hafði lengi langað að sjá hann, þar eð hann hafði heyrt frá honum sagt. Vænti hann nú að sjá hann gjöra eitthvert tákn.

Hann spurði Jesú á marga vegu, en hann svaraði honum engu.

10 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ákærðu hann harðlega.

11 En Heródes óvirti hann og spottaði ásamt hermönnum sínum, lagði yfir hann skínandi klæði og sendi hann aftur til Pílatusar.

12 Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir, en áður var fjandskapur með þeim.

13 Pílatus kallaði nú saman æðstu prestana, höfðingjana og fólkið

14 og mælti við þá: "Þér hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í yðar viðurvist, en enga þá sök fundið hjá honum, er þér ákærið hann um.

15 Ekki heldur Heródes, því hann sendi hann aftur til vor. Ljóst er, að hann hefur ekkert það drýgt, er dauða sé vert.

16 Ætla ég því að hirta hann og láta lausan." [

17 En skylt var honum að gefa þeim lausan einn bandingja á hverri hátíð.]

18 En þeir æptu allir: "Burt með hann, gef oss Barabbas lausan!"

19 En honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir upphlaup nokkurt, sem varð í borginni, og manndráp.

20 Pílatus talaði enn til þeirra og vildi láta Jesú lausan.

21 En þeir æptu á móti: "Krossfestu, krossfestu hann!"

22 Í þriðja sinn sagði Pílatus við þá: "Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan."

23 En þeir sóttu á með ópi miklu og heimtuðu, að hann yrði krossfestur. Og hróp þeirra tóku yfir.

24 Þá ákvað Pílatus, að kröfu þeirra skyldi fullnægt.

25 Hann gaf lausan þann, er þeir báðu um og varpað hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og manndráp, en Jesú framseldi hann, að þeir færu með hann sem þeir vildu.

Read full chapter