A A A A A
Bible Book List

Fyrri Kroníkubók 21-23 Icelandic Bible (ICELAND)

21 Satan hófst í gegn Ísrael og egndi Davíð til þess að telja Ísrael.

Þá mælti Davíð við Jóab og höfðingja lýðsins: "Farið og teljið Ísrael frá Beerseba til Dan og látið mig vita það, svo að ég fái að vita tölu á þeim."

Jóab svaraði: "Drottinn margfaldi lýðinn _ hversu margir sem þeir nú kunna að vera _ hundrað sinnum. Þeir eru þó, minn herra konungur, allir þjónar herra míns. Hví æskir herra minn þessa? Hvers vegna á það að verða Ísrael til áfellis?"

En Jóab mátti eigi gjöra annað en það, sem konungur bauð. Lagði Jóab þá af stað og fór um allan Ísrael og kom síðan aftur til Jerúsalem.

Og Jóab sagði Davíð töluna, er komið hafði út við manntalið: Í öllum Ísrael voru ein milljón og hundrað þúsundir vopnaðra manna, og í Júda fjögur hundruð og sjötíu þúsundir vopnaðra manna.

En Leví og Benjamín taldi hann eigi, því að Jóab hraus hugur við skipun konungs.

En þetta verk var illt í augum Guðs, og laust hann Ísrael.

Þá sagði Davíð við Guð: "Mjög hefi ég syndgað, er ég framdi þetta verk, en nú, tak þú burt misgjörð þjóns þíns, því að mjög óviturlega hefir mér til tekist."

En Drottinn talaði til Gaðs, sjáanda Davíðs, á þessa leið:

10 "Far þú og mæl svo við Davíð: Svo segir Drottinn: Þrjá kosti set ég þér, kjós einn af þeim, og mun ég svo við þig gjöra."

11 Þá gekk Gað til Davíðs og sagði við hann: "Svo segir Drottinn: Kjós þér,

12 annaðhvort að hungur verði í þrjú ár, eða að þú verðir að flýja í þrjá mánuði fyrir óvinum þínum og sverð fjandmanna þinna nái þér, eða að sverð Drottins og drepsótt geisi í landinu í þrjá daga og engill Drottins valdi eyðingu í öllu Ísraelslandi. Hygg nú að, hverju ég eigi að svara þeim, er sendi mig."

13 Davíð svaraði Gað: "Ég er í miklum nauðum staddur. Falli ég þá í hendur Drottins, því að mikil er miskunn hans, en í manna hendur vil ég ekki falla."

14 Drottinn lét þá drepsótt koma í Ísrael, og féllu sjötíu þúsundir manns af Ísrael.

15 Og Guð sendi engil til Jerúsalem til þess að eyða hana, og er hann var að eyða hana, leit Drottinn til og hann iðraði hins illa, og sagði við engilinn, er eyddi fólkinu: "Nóg er að gjört! Drag nú að þér höndina!" En engill Drottins var þá hjá þreskivelli Ornans Jebúsíta.

16 Og Davíð hóf upp augu sín og sá engil Drottins standa milli himins og jarðar með brugðið sverð í hendi, er hann beindi gegn Jerúsalem. Þá féll Davíð og öldungarnir fram á andlit sér, klæddir hærusekkjum.

17 Og Davíð sagði við Guð: "Var það eigi ég, er bauð að telja fólkið? Það er ég, sem hefi syndgað og breytt mjög illa, en þetta er hjörð mín, _ hvað hefir hún gjört? Drottinn, Guð minn, lát hönd þína leggjast á mig og ættmenn mína, en eigi á lýð þinn til þess að valda mannhruni."

18 En engill Drottins bauð Gað að segja Davíð, að Davíð skyldi fara upp eftir til þess að reisa Drottni altari á þreskivelli Ornans Jebúsíta.

19 Og Davíð fór upp eftir að boði Gaðs, því er hann hafði talað í nafni Drottins.

20 Og er Ornan sneri sér við, sá hann konung koma og fjóra sonu hans með honum, en Ornan var að þreskja hveiti.

21 Og er Davíð kom til Ornans, leit Ornan upp og sá Davíð. Gekk hann þá út af þreskivellinum og laut á ásjónu sína til jarðar fyrir Davíð.

22 Þá mælti Davíð við Ornan: "Lát þú þreskivöllinn af hendi við mig, svo að ég geti reist Drottni þar altari _ skalt þú selja mér það fullu verði _ og plágunni megi létta af lýðnum."

23 Ornan svaraði Davíð: "Tak þú það. Minn herra konungurinn gjöri sem honum þóknast. Sjá, ég gef nautin til brennifórnar og þreskisleðana til eldiviðar og hveitið til matfórnar, allt gef ég það."

24 En Davíð konungur sagði við Ornan: "Eigi svo, en kaupa vil ég það fullu verði, því að eigi vil ég taka það sem þitt er Drottni til handa og færa brennifórn, er ég hefi kauplaust þegið."

25 Síðan greiddi Davíð Ornan sex hundruð sikla gulls fyrir völlinn.

26 Og Davíð reisti Drottni þar altari og fórnaði brennifórnum og heillafórnum, og er hann ákallaði Drottin, svaraði hann honum með því að senda eld af himnum á brennifórnaraltarið.

27 Og Drottinn bauð englinum að slíðra sverð sitt.

28 Þá er Davíð sá, að Drottinn svaraði honum á þreskivelli Ornans Jebúsíta, þá færði hann þar fórnir.

29 En bústaður Drottins, er Móse hafði gjört í eyðimörkinni, og brennifórnaraltarið voru um það leyti á hæðinni í Gíbeon.

30 En Davíð gat eigi gengið fram fyrir það til þess að leita Guðs, því að hann var hræddur við sverð engils Drottins.

22 Og Davíð mælti: "Þetta sé hús Drottins Guðs, og þetta sé altari fyrir brennifórnir Ísraels."

Og Davíð bauð að stefna saman útlendingum þeim, er voru í Ísraelslandi, og hann setti steinhöggvara til þess að höggva til steina, til þess að reisa af musteri Guðs.

Davíð dró og að afar mikið af járni í nagla á hliðhurðirnar og í spengurnar, og svo mikið af eiri, að eigi varð vegið,

og sedrustré, svo að eigi varð tölu á komið, því að Sídoningar og Týrverjar færðu Davíð afar mikið af sedrustrjám.

Davíð hugsaði með sér: "Salómon sonur minn er ungur og óþroskaður, en musterið, er Drottni á að reisa, á að vera afar stórt, til frægðar og prýði um öll lönd. Ég ætla því að viða að til þess." Og Davíð viðaði afar miklu að fyrir andlát sitt.

Síðan kallaði hann Salómon son sinn, og fól honum að reisa musteri Drottni, Guði Ísraels.

Og Davíð mælti við Salómon: "Sonur minn! Ég hafði í hyggju að reisa musteri nafni Drottins, Guðs míns.

En orð Drottins kom til mín, svolátandi: Þú hefir úthellt miklu blóði og háð miklar orustur. Þú skalt eigi reisa musteri nafni mínu, því að miklu blóði hefir þú hellt til jarðar fyrir augliti mínu.

En þér mun sonur fæðast. Hann mun verða kyrrlátur maður, og ég mun veita honum ró fyrir öllum fjandmönnum hans allt um kring, því að Salómon skal hann heita, og ég mun veita frið og kyrrð í Ísrael um hans daga.

10 Hann skal reisa musteri nafni mínu, hann skal vera mér sonur og ég honum faðir, og ég mun staðfesta konungsstól hans yfir Ísrael að eilífu.

11 Drottinn sé nú með þér, sonur minn, svo að þú verðir auðnumaður og reisir musteri Drottins, Guðs þíns, eins og hann hefir um þig heitið.

12 Veiti Drottinn þér aðeins hyggindi og skilning og skipi þig yfir Ísrael, og að þú megir varðveita lögmál Drottins, Guðs þíns.

13 Þá munt þú auðnumaður verða, ef þú varðveitir setninga þá og boðorð og breytir eftir þeim, er Drottinn lagði fyrir Móse um Ísrael. Ver þú hughraustur og öruggur! Óttast ekki og ver hvergi hræddur.

14 Sjá, þrátt fyrir þrautir mínar hefi ég dregið að til musteris Drottins hundrað þúsund talentur gulls, milljón talentur silfurs, og svo mikið af eiri og járni, að eigi verður vegið, því að afar mikið er af því. Viða og steina hefi ég einnig aflað, og mátt þú þar enn við auka.

15 Með þér er og margt starfsmanna, steinhöggvarar, steinsmiðir og trésmiðir og alls konar hagleiksmenn til alls konar smíða

16 af gulli, silfri, eiri og járni, er eigi verður tölu á komið. Upp nú, og tak til starfa og Drottinn sé með þér."

17 Og Davíð bauð öllum höfðingjum Ísraels að liðsinna Salómon syni sínum og mælti:

18 "Drottinn Guð yðar er með yður og hefir veitt yður frið allt um kring, því að hann hefir selt frumbyggja landsins mér á vald, og landið er undirokað fyrir augliti Drottins og fyrir augliti lýðs hans.

19 Beinið þá hjörtum yðar og hug yðar að því að leita Drottins, Guðs yðar. Takið yður til og reisið helgidóm Drottins Guðs, svo að þér getið flutt sáttmálsörk Drottins og hin helgu áhöld Guðs í musterið, er reisa á nafni Drottins."

23 Þá er Davíð var gamall orðinn og saddur lífdaga, gjörði hann Salómon son sinn að konungi yfir Ísrael.

Og hann stefndi saman öllum höfðingjum Ísraels, prestunum og levítunum.

Levítarnir voru taldir, þrítugir og þaðan af eldri, og höfðatala þeirra var þrjátíu og átta þúsund karlmenn.

"Af þeim skulu tuttugu og fjögur þúsund vera fyrir verkum við hús Drottins, sex þúsund skulu vera embættismenn og dómarar,

fjögur þúsund hliðverðir, og fjögur þúsund skulu lofa Drottin með áhöldum þeim, er ég hefi látið gjöra til þess að vegsama með," sagði Davíð.

Davíð skipti þeim í flokka eftir þeim Gerson, Kahat og Merarí, Levísonum.

Til Gersonsniðja töldust Laedan og Símeí.

Synir Laedans voru: Jehíel, er var fyrir þeim, Setam og Jóel, þrír alls.

Synir Símeí voru: Selómít, Hasíel og Haran, þrír alls. Voru þeir ætthöfðingjar Laedansættar.

10 Og synir Símeí: Jahat, Sína, Jeús og Bería. Þessir voru synir Símeí, fjórir alls.

11 Var Jahat fyrir þeim, þá Sína, en Jeús og Bería áttu eigi margt barna, svo að þeir töldust ein ætt, einn flokkur.

12 Synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel, fjórir alls.

13 Synir Amrams: Aron og Móse. En Aron var greindur frá hinum, til þess að hann skyldi verða vígður sem háheilagur ásamt sonum sínum, um aldur og ævi, til þess að þeir skyldu brenna reykelsi frammi fyrir Drottni, þjóna honum og lofa nafn hans um aldur og ævi.

14 Og að því er snertir guðsmanninn Móse, þá voru synir hans taldir til Levíkynkvíslar.

15 Synir Móse voru Gersóm og Elíeser.

16 Sonur Gersóms: Sebúel höfðingi.

17 En sonur Elíesers var Rehabja höfðingi. Aðra sonu átti Elíeser eigi, en synir Rehabja voru afar margir.

18 Sonur Jísehars: Selómít höfðingi.

19 Synir Hebrons: Jería höfðingi, annar Amarja, þriðji Jehasíel, fjórði Jekameam.

20 Synir Ússíels: Míka höfðingi, annar Jissía.

21 Synir Merarí: Mahlí og Músí. Synir Mahlí: Eleasar og Kís.

22 En Eleasar dó svo, að hann átti enga sonu, heldur dætur einar, og tóku þeir Kíssynir, frændur þeirra, þær sér að konum.

23 Synir Músí voru: Mahlí, Eder og Jeremót, þrír alls.

24 Þessir eru þeir Levíniðjar eftir ættum þeirra, ætthöfðingjar þeir, er taldir voru af þeim, eftir nafnatölu og höfða, er höfðu það starf á hendi að þjóna í musteri Drottins, tvítugir og þaðan af eldri.

25 Davíð mælti: "Drottinn, Guð Ísraels, hefir veitt lýð sínum hvíld, og býr nú að eilífu í Jerúsalem.

26 Levítarnir þurfa því ekki lengur að bera búðina og öll þau áhöld, er að starfi hennar lúta." (

27 Því að eftir síðustu fyrirmælum Davíðs voru levítar taldir, tvítugir og þaðan af eldri).

28 Embætti þeirra er að aðstoða Aronsniðja, gegna þjónustu við musteri Drottins, hafa umsjón með forgörðunum og klefunum og ræstingu á öllum hinum helgu munum, og gegna störfunum við hús Guðs,

29 annast um raðsettu brauðin, hveitimjölið í matfórnirnar, hin ósýrðu flatbrauð, pönnuna og hið samanhrærða, og hvers konar mæli og stiku,

30 og að koma fram á hverjum morgni til þess að lofa og vegsama Drottin, og eins á kveldin,

31 og að færa Drottni hverja brennifórn á hvíldardögum, tunglkomudögum og löghátíðum, allar þær, sem ákveðið er að stöðugt skuli færa Drottni.

32 Hafa þeir störf á hendi við samfundatjaldið og störf við helgidóminn og störf hjá Aronsniðjum, frændum sínum, við þjónustuna í musteri Drottins.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society

  Back

1 of 1

You'll get this book and many others when you join Bible Gateway Plus. Learn more

Viewing of
Cross references
Footnotes