Add parallel Print Page Options

Ég hóf aftur upp augu mín og sá bókrollu, sem var á flugi.

Þá sagði hann við mig: "Hvað sér þú?" Ég svaraði: "Ég sé bókrollu á flugi, tuttugu álna langa og tíu álna breiða."

Þá sagði hann við mig: "Þetta er bölvunin, sem út gengur yfir gjörvallt landið, því að sérhverjum sem stelur, verður samkvæmt henni sópað héðan, og sérhverjum sem meinsæri fremur, verður samkvæmt henni sópað héðan."

Ég hefi látið hana út ganga _ segir Drottinn allsherjar _ til þess að hún komi inn í hús þjófsins og inn í hús þess, sem meinsæri fremur við nafn mitt, og staðnæmist inni í húsi hans og eyði því bæði að viðum og veggjum.

Þessu næst gekk fram engillinn, er við mig talaði, og sagði við mig: "Hef upp augu þín og sjá, hvað þar kemur fram!"

Ég sagði: "Hvað er þetta?" Þá sagði hann: "Þetta er efan, sem kemur í ljós." Þá sagði hann: "Þetta er misgjörð þeirra í öllu landinu."

Þá lyftist allt í einu upp kringlótt blýlok, og sat þar kona ein niðri í efunni.

Þá sagði hann: "Þetta er Vonskan!" _ kastaði henni ofan í efuna og kastaði blýlokinu ofan yfir opið.

Síðan hóf ég upp augu mín og sá allt í einu tvær konur koma fram, og stóð vindur undir vængi þeim _ því að þær höfðu vængi sem storksvængi _ og hófu þær efuna upp milli jarðar og himins.

10 Þá sagði ég við engilinn, sem við mig talaði: "Hvert fara þær með efuna?"

11 Hann svaraði mér: "Þær ætla að reisa henni hús í Sínearlandi, og þegar það er búið, þá setja þær hana þar á sinn stað."