Add parallel Print Page Options

En á þriðja degi skrýddist Ester konunglegum skrúða og gekk inn í hinn innri forgarð konungshallarinnar, gegnt konungshöllinni, en konungur sat í konungshásæti sínu í konungshöllinni gegnt dyrum hallarinnar.

En er konungur leit Ester drottningu standa í forgarðinum, fann hún náð í augum hans, og konungur rétti út í móti Ester gullsprotann, er hann hafði í hendi sér. Þá gekk Ester nær og snart oddinn á sprotanum.

Og konungur sagði við hana: "Hvað er þér á höndum, Ester drottning, og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal þér það veita."

Þá mælti Ester: "Ef konunginum þóknast svo, þá komi konungurinn, ásamt Haman, í dag til veislu þeirrar, er ég hefi búið honum."

Þá sagði konungur: "Sækið Haman í skyndi, svo að vér megum gjöra það, sem Ester hefir um beðið." Þegar nú konungur, ásamt Haman, var kominn til veislunnar, er Ester hafði búið,

sagði konungur við Ester, þá er þau voru sest að víndrykkjunni: "Hver er bæn þín? Hún skal veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið."

Þá svaraði Ester og sagði: "Bæn mín og beiðni er þessi:

Hafi ég fundið náð í augum konungsins og þóknist konunginum að veita mér bæn mína og gjöra það, er ég beiðist, þá komi konungurinn og Haman til veislu þeirrar, er ég mun búa þeim. Mun ég þá á morgun gjöra það, sem konungurinn hefir óskað."

Þann dag gekk Haman burt glaður og í góðu skapi. En er Haman sá Mordekai í konungshliðinu og að hann hvorki stóð upp fyrir honum né hrærði sig, þá fylltist Haman reiði gegn Mordekai.

10 Þó stillti Haman sig. En er hann kom heim til sín, sendi hann og lét sækja vini sína og Seres konu sína.

11 Sagði Haman þeim frá hinum miklu auðæfum sínum og fjölda sona sinna og frá öllum þeim frama, sem konungur hafði veitt honum, og hversu konungur hefði hafið hann til vegs framar öðrum höfðingjum sínum og þjónum.

12 Og Haman mælti: "Já, Ester drottning lét engan koma með konungi til veislu þeirrar, er hún gjörði, nema mig. Hún hefir og boðið mér á morgun með konunginum.

13 En allt þetta er mér ekki nóg, meðan ég sé Mordekai Gyðing sitja í konungshliði."

14 Þá sagði Seres kona hans við hann og allir vinir hans: "Lát reisa fimmtíu álna háan gálga, og talaðu á morgun um það við konung, að Mordekai verði festur á hann. Far síðan glaður með konungi til veislunnar." Þetta ráð líkaði Haman vel og lét hann reisa gálgann.