Add parallel Print Page Options

19 Kyrja þú upp harmljóð yfir höfðingjum Ísraels

og seg: Hvílík ljónynja var móðir þín meðal ljóna. Hún lá meðal ungra ljóna, ól upp ljónshvolpa sína.

Og hún kom upp einum af hvolpum sínum, hann varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn.

Þá höfðu þjóðirnar útboð í móti honum, hann var veiddur í gröf þeirra, og þeir teymdu hann á nasahring til Egyptalands.

En er hún sá, að hún hafði breytt heimskulega, að von hennar var horfin, tók hún annan af hvolpum sínum og gjörði hann að ungljóni.

Og hann gekk meðal ljóna og varð ungljón. Hann lærði að ná sér í bráð, hann át menn.

Og hann gjörði margar meðal þeirra að ekkjum og eyddi borgir þeirra, svo að landið fylltist skelfingu og allt, sem í því var, vegna öskurs hans.

Þá settu þjóðir sig móti honum, úr héruðunum umhverfis, og köstuðu neti sínu yfir hann, í gröf þeirra varð hann veiddur.

Og þeir drógu hann á nasahring í búr og fluttu hann til Babelkonungs og settu hann í dýflissu, til þess að rödd hans heyrðist ekki framar á Ísraels fjöllum.

10 Móðir þín var eins og vínviður, sem gróðursettur var hjá vatni. Hann varð ávaxtarsamur og fjölgreinóttur af vatnsgnóttinni.

11 Þá spratt fram sterk grein og varð veldissproti og óx hátt upp í milli þéttra greina og var frábær fyrir hæðar sakir, því að angar hennar voru svo margir.

12 Þá var vínviðinum rykkt upp í heift og varpað til jarðar, og austanvindurinn skrældi ávöxt hans. Hin sterka grein hans skrælnaði, eldur eyddi henni.

13 Og nú er hann gróðursettur í eyðimörk, í þurru og vatnslausu landi.

14 Og eldur braust út frá grein hans, sem eyddi öngum hans, og engin sterk grein var framar á honum, enginn veldissproti. Þetta eru harmljóð og voru sungin sem harmljóð.