Add parallel Print Page Options

14 Takið að yður hina óstyrku í trúnni, án þess að leggja dóm á skoðanir þeirra.

Einn er þeirrar trúar, að alls megi neyta en hinn óstyrki neytir einungis jurtafæðu.

Sá, sem neytir kjöts, fyrirlíti ekki hinn, sem lætur þess óneytt, og sá, sem lætur þess óneytt, dæmi ekki þann, sem neytir þess, því að Guð hefur tekið hann að sér.

Hver ert þú, sem dæmir annars þjón? Hann stendur og fellur herra sínum. Og hann mun standa, því að megnugur er Drottinn þess að láta hann standa.

Einn gjörir mun á dögum, en annar metur alla daga jafna. Sérhver hafi örugga sannfæringu í huga sínum.

Sá, sem tekur tillit til daga, gjörir það vegna Drottins. Og sá, sem neytir kjöts, gerir það vegna Drottins, því að hann gjörir Guði þakkir. Sá, sem lætur óneytt, hann lætur óneytt vegna Drottins og gjörir Guði þakkir.

Því að enginn af oss lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér.

Ef vér lifum, lifum vér Drottni, og ef vér deyjum, deyjum vér Drottni. Hvort sem vér þess vegna lifum eða deyjum, þá erum vér Drottins.

Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi, að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi.

10 En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Allir munum vér verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.

11 Því að ritað er: "Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skulu öll kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð."

12 Því skal þá sérhver af oss lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig.

13 Dæmum því ekki framar hver annan. Ásetjið yður öllu heldur að verða bróður yðar ekki til ásteytingar eða falls.

14 Ég veit það og er þess fullviss, af því að ég lifi í samfélagi við Drottin Jesú, að ekkert er vanheilagt í sjálfu sér, nema þá þeim, sem heldur eitthvað vanheilagt, honum er það vanheilagt.

15 Ef bróðir þinn hryggist sökum þess, sem þú etur, þá ertu kominn af kærleikans braut. Hrind ekki með mat þínum í glötun þeim manni, sem Kristur dó fyrir.

16 Látið því ekki hið góða, sem þér eigið, verða fyrir lasti.

17 Því að ekki er Guðs ríki matur og drykkur, heldur réttlæti, friður og fögnuður í heilögum anda.

18 Hver sem þjónar Kristi á þann hátt, hann er Guði velþóknanlegur og vel metinn manna á meðal.

19 Keppum þess vegna eftir því, sem til friðarins heyrir og til hinnar sameiginlegu uppbyggingar.

20 Brjóttu ekki niður verk Guðs vegna matar! Allt er að sönnu hreint, en það er þó illt þeim manni, sem etur öðrum til ásteytingar.

21 Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á.

22 Halt þú þeirri trú, sem þú hefur með sjálfum þér fyrir Guði. Sæll er sá, sem þarf ekki að áfella sig fyrir það, sem hann velur.

23 En sá sem er efablandinn og etur þó, hann er dæmdur af því að hann etur ekki af trú. Allt sem ekki er af trú er synd.

15 Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku og hugsa ekki um sjálfa oss.

Sérhver af oss hugsi um náungann og það sem honum er gott og til uppbyggingar.

Kristur hugsaði ekki um sjálfan sig, heldur eins og ritað er: "Lastyrði þeirra, sem löstuðu þig, lentu á mér."

Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.

En Guð, sem veitir þolgæðið og huggunina, gefi yður að vera samhuga að vilja Krists Jesú,

til þess að þér allir saman einum munni vegsamið Guð og föður Drottins vors Jesú Krists.

Takið því hver annan að yður, eins og Kristur tók yður að sér, Guði til dýrðar.

Ég segi, að Kristur sé orðinn þjónn hinna umskornu til að sýna orðheldni Guðs, til þess að staðfesta fyrirheitin, sem feðrunum voru gefin,

en heiðingjarnir vegsami Guð sakir miskunnar hans, eins og ritað er: "Þess vegna skal ég játa þig meðal heiðingja og lofsyngja þínu nafni."

10 Og enn segir: "Fagnið, þér heiðingjar, með lýð hans,"

11 og enn: "Lofið Drottin, allar þjóðir, og vegsami hann allir lýðir,"

12 og enn segir Jesaja: "Koma mun rótarkvistur Ísaí og sá, er rís upp til að stjórna þjóðum, á hann munu þjóðir vona."

13 Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.

14 En ég er líka sjálfur sannfærður um yður, bræður mínir, að þér og sjálfir eruð fullir góðgirni, auðgaðir alls konar þekkingu og færir um að áminna hver annan.

15 En ég hef sums staðar ritað yður full djarflega, til þess að minna yður á sitthvað. Ég hef gjört það vegna þess að Guð hefur gefið mér þá náð

16 að vera helgiþjónn Krists Jesú hjá heiðingjunum og inna af hendi prestþjónustu við fagnaðarerindi Guðs, til þess að heiðingjarnir mættu verða Guði velþóknanleg fórn, helguð af heilögum anda.

17 Ég hef þá fyrir samfélag mitt við Krist Jesú það, sem ég get hrósað mér af: Starf mitt í þjónustu Guðs.

18 Ekki mun ég dirfast að tala um neitt annað en það, sem Kristur hefur látið mig framkvæma, til að leiða heiðingjana til hlýðni, með orði og verki,

19 með krafti tákna og undra, með krafti heilags anda. Þannig hef ég lokið við að flytja fagnaðarerindið um Krist frá Jerúsalem og allt í kring til Illyríu.

20 Það hefur þannig verið metnaður minn að láta fagnaðarerindið óboðað þar sem Kristur hafði áður nefndur verið, til þess að ég byggði ekki ofan á grundvelli annars,

21 alveg eins og ritað er: "Þeir skulu sjá, sem ekkert var um hann sagt, og þeir, sem ekki hafa heyrt, skulu skilja."

22 Því er það, að mér hefur hvað eftir annað verið meinað að koma til yðar.

23 En nú á ég ekki lengur neitt ógjört á þessum slóðum, og mig hefur auk þess í mörg ár langað til að koma til yðar,

24 þegar ég færi til Spánar. Ég vona, að ég fái að sjá yður, er ég fer um hjá yður, og að þér búið ferð mína þangað, er ég fyrst hef nokkurn veginn fengið nægju mína hjá yður.

25 En nú fer ég á leið til Jerúsalem til að flytja hinum heilögu hjálp.

26 Því að Makedónía og Akkea hafa ákveðið að gangast fyrir samskotum handa fátæklingum meðal hinna heilögu í Jerúsalem.

27 Sjálfir ákváðu þeir það, enda eru þeir í skuld við þá. Fyrst heiðingjarnir hafa fengið hlutdeild í andlegum gæðum þeirra, þá er þeim og skylt að fulltingja þeim í líkamlegum efnum.

28 En þegar ég hef lokið þessu og tryggilega afhent þeim þennan ávöxt, mun ég fara um hjá yður til Spánar.

29 En ég veit, að þegar ég kem til yðar, mun ég koma með blessun Krists í fullum mæli.

30 En mikillega bið ég yður, bræður, fyrir sakir Drottins vors Jesú Krists og fyrir sakir kærleika andans, að þér stríðið með mér með því að biðja til Guðs fyrir mér,

31 til þess að ég frelsist frá hinum vantrúuðu í Júdeu, og hjálpin, sem ég fer með til Jerúsalem, verði vel þegin af hinum heilögu.

32 Þá get ég, ef Guð lofar, komið til yðar með fögnuði og endurhresstst ásamt yður.

33 Guð friðarins sé með yður öllum. Amen.

16 Ég fel yður á hendur Föbe, systur vora, sem er þjónn safnaðarins í Kenkreu.

Veitið henni viðtöku í Drottni eins og heilögum hæfir og liðsinnið henni í hverju því, sem hún þarf yðar við, því að hún hefur verið bjargvættur margra og mín sjálfs.

Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú.

Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig, og fyrir það votta ég þeim ekki einn þakkir, heldur og allir söfnuðir meðal heiðingjanna.

Heilsið einnig söfnuðinum, sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða, sem er frumgróði Asíu Kristi til handa.

Heilsið Maríu, sem mikið hefur erfiðað fyrir yður.

Heilsið Andróníkusi og Júníasi, ættmönnum mínum og sambandingjum. Þeir skara fram úr meðal postulanna og hafa á undan mér gengið Kristi á hönd.

Heilsið Amplíatusi, mínum elskaða í Drottni.

Heilsið Úrbanusi, samverkamanni vorum í Kristi, og Stakkýsi, mínum elskaða.

10 Heilsið Apellesi, sem hefur reynst hæfur í þjónustu Krists. Heilsið heimilismönnum Aristóbúls.

11 Heilsið Heródíon, ættingja mínum. Heilsið þeim á heimili Narkissusar, sem tilheyra Drottni.

12 Heilsið Trýfænu og Trýfósu, sem hafa lagt hart á sig fyrir Drottin. Heilsið Persis, hinni elskuðu, sem mikið hefur starfað fyrir Drottin.

13 Heilsið Rúfusi, hinum útvalda í Drottni, og móður hans, sem er mér einnig móðir.

14 Heilsið Asýnkritusi, Flegon, Hermes, Patróbasi, Hermasi og bræðrunum, sem hjá þeim eru.

15 Heilsið Fílólógusi og Júlíu, Nerevs og systur hans og Ólympasi og öllum heilögum, sem með þeim eru.

16 Heilsið hver öðrum með heilögum kossi. Allir söfnuðir Krists senda yður kveðju.

17 Ég áminni yður um, bræður, að hafa gát á þeim, er vekja sundurþykkju og tæla frá þeirri kenningu, sem þér hafið numið. Sneiðið hjá þeim.

18 Því að slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi, heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna.

19 Hlýðni yðar er alkunn orðin. Því gleðst ég yfir yður og ég vil, að þér séuð vitrir í því, sem gott er, en einfaldir í því, sem illt er.

20 Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum yðar. Náðin Drottins vors Jesú Krist sé með yður.

21 Tímóteus, samverkamaður minn, Lúkíus, Jason og Sósípater, ættmenn mínir, biðja að heilsa yður.

22 Ég, Tertíus, sem hef ritað bréfið, bið að heilsa yður í Drottni.

23 Gajus, sem ljær mér og öllum söfnuðinum hús, biður að heilsa yður; Erastus, gjaldkeri borgarinnar, og bróðir Kvartus biðja að heilsa yður.

25 Honum, sem megnar að styrkja yður með fagnaðarerindinu, sem ég boða, og í prédikuninni um Jesú Krist samkvæmt opinberun þess leyndardóms, sem frá eilífum tíðum hefur verið dulinn,

26 en nú er opinberaður og fyrir spámannlegar ritningar, eftir skipun hins eilífa Guðs, kunngjörður öllum þjóðum til að vekja hlýðni við trúna,