Add parallel Print Page Options

16 Drottinn talaði við Móse eftir dauða tveggja sona Arons, er þeir gengu fram fyrir Drottin og dóu.

Og Drottinn sagði við Móse: "Seg þú Aroni bróður þínum, að hann megi ekki á hverjum tíma sem er ganga inn í helgidóminn inn fyrir fortjaldið, fram fyrir lokið, sem er yfir örkinni, ella muni hann deyja, því að ég mun birtast í skýinu yfir lokinu.

Með þetta skal Aron koma inn í helgidóminn: Með ungneyti í syndafórn og hrút í brennifórn.

Hann skal klæðast helgum línkyrtli og hafa línbrækur yfir holdi sínu og gyrða sig línbelti og setja á sig vefjarhött af líni. Þetta eru helg klæði. Og skal hann lauga líkama sinn í vatni og klæðast þeim.

Af söfnuði Ísraelsmanna skal hann taka tvo geithafra í syndafórn og einn hrút í brennifórn.

Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt.

Þá skal hann taka báða geithafrana og færa þá fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins.

Og Aron skal leggja hluti á báða hafrana, einn hlut fyrir Drottin og hinn annan hlut fyrir Asasel.

Og Aron skal leiða fram hafurinn, sem hlutur Drottins féll á, og fórna honum í syndafórn.

10 En hafurinn, sem hlutur Asasels féll á, skal færa lifandi fram fyrir Drottin, til þess að friðþæging fari fram yfir honum og honum sé sleppt til Asasels út á eyðimörkina.

11 Aron skal leiða fram uxann, sem honum er ætlaður til syndafórnar, og friðþægja fyrir sig og hús sitt, og hann skal slátra uxanum, sem honum er ætlaður til syndafórnar.

12 Hann skal taka eldpönnu fulla af eldsglóðum af altarinu frammi fyrir Drottni og lúkur sínar fullar af smámuldu ilmreykelsi og bera inn fyrir fortjaldið.

13 Og hann skal láta reykelsið á eldinn frammi fyrir Drottni, svo að reykelsisskýið hylji lokið, sem er yfir sáttmálinu, og hann deyi ekki.

14 Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og stökkva því með fingri sínum ofan á lokið framanvert, og fyrir framan lokið skal hann stökkva sjö sinnum nokkru af blóðinu með fingri sínum.

15 Þessu næst skal hann slátra hafrinum, er ætlaður er lýðnum til syndafórnar, og bera blóð hans inn fyrir fortjaldið og fara með blóðið úr honum á sama hátt, eins og hann fór með blóðið úr uxanum, og stökkva því á lokið og fyrir framan lokið,

16 og friðþægja þannig fyrir helgidóminn, vegna óhreinleika Ísraelsmanna og vegna misgjörða þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað. Og eins skal hann fara með samfundatjaldið, sem stendur meðal þeirra, mitt í óhreinleika þeirra.

17 Enginn maður má vera inni í samfundatjaldinu, er hann gengur inn til þess að friðþægja í helgidóminum, til þess er hann fer út og hefir friðþægt fyrir sig og hús sitt og fyrir allan Ísraels söfnuð.

18 Hann skal ganga út að altarinu, sem stendur frammi fyrir Drottni, og friðþægja fyrir það. Og hann skal taka nokkuð af blóði uxans og nokkuð af blóði hafursins og ríða á horn altarisins allt í kring.

19 Og hann skal stökkva nokkru af blóðinu á það sjö sinnum með fingri sínum og hreinsa það og helga það vegna óhreinleika Ísraelsmanna.

20 Er hann þannig hefir lokið friðþægingu helgidómsins, samfundatjaldsins og altarisins, skal hann leiða fram lifandi hafurinn.

21 Og Aron skal leggja báðar hendur sínar á höfuð hins lifandi hafurs og játa yfir honum öll afbrot Ísraelsmanna og allar misgjörðir þeirra, í hverju sem þeir kunna að hafa syndgað. Og hann skal leggja þær á höfuð hafursins og senda hann út á eyðimörk með manni, sem til þess er ferðbúinn.

22 Og hafurinn skal bera á sér öll afbrot þeirra til óbyggða, og hann skal sleppa hafrinum á eyðimörk.

23 Og Aron skal ganga inn í samfundatjaldið og færa sig úr línklæðunum, sem hann fór í, er hann gekk inn í helgidóminn, og skilja þau þar eftir.

24 Og hann skal lauga líkama sinn í vatni á helgum stað og fara í klæði sín, ganga síðan út og fórna brennifórn sjálfs sín og brennifórn lýðsins, og friðþægja fyrir sig og fyrir lýðinn.

25 Og mör syndafórnarinnar skal hann brenna á altarinu.

26 Og sá, er fór burt með hafurinn til Asasels, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar.

27 En syndafórnaruxann og syndafórnarhafurinn, hverra blóð var borið inn til friðþægingar í helgidóminum, skal færa út fyrir herbúðirnar og brenna í eldi skinnin af þeim, kjötið og gorið.

28 Og sá, er brennir þetta, skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni. Síðan gangi hann í herbúðirnar.

29 Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: Í sjöunda mánuðinum, á tíunda degi mánaðarins skuluð þér fasta og ekkert verk vinna, hvorki innbornir menn né útlendingar, er meðal yðar búa.

30 Því að á þessum degi skal friðþægt verða fyrir yður til þess að hreinsa yður. Af öllum syndum yðar skuluð þér hreinir vera fyrir Drottni.

31 Það skal vera yður algjör hvíldardagur, og þér skuluð fasta. Það er ævarandi lögmál.

32 En friðþæginguna skal gjöra sá prestur, er smyrja á og vígjast skal til þess, að hann þjóni í prestsembætti í stað föður síns, og skal hann klæðast línklæðunum, hinum helgu klæðum.

33 Hann skal friðþægja fyrir hið helgasta, og hann skal friðþægja fyrir samfundatjaldið og altarið, og hann skal friðþægja fyrir prestana og allt fólk safnaðarins.

34 Þetta skal vera yður ævarandi lögmál: að friðþægja einu sinni á ári fyrir Ísraelsmenn vegna allra synda þeirra." Og hann gjörði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

17 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú við Aron og sonu hans og alla Ísraelsmenn og seg við þá: Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið og sagt:

Hver sá af húsi Ísraels, sem slátrar nautgrip eða sauðkind eða geitsauð í herbúðunum, eða slátrar því fyrir utan herbúðirnar,

og leiðir það ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að færa Drottni það að fórnargjöf fyrir framan búð Drottins, sá maður skal vera blóðsekur. Hann hefir úthellt blóði, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni,

til þess að Ísraelsmenn færi sláturfórnir sínar, er þeir eru vanir að fórna á bersvæði, _ að þeir færi þær prestinum að dyrum samfundatjaldsins Drottni til handa og fórni þeim í heillafórnir Drottni til handa.

Prestur skal stökkva blóðinu á altari Drottins við dyr samfundatjaldsins og brenna mörinn til þægilegs ilms fyrir Drottin.

Og þeir skulu eigi framar færa fórnir skógartröllunum, er þeir nú taka fram hjá með. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál frá kyni til kyns.

Og þú skalt segja við þá: Hver sá af húsi Ísraels eða af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem fórnar brennifórn eða sláturfórn

og færir hana ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að fórna Drottni henni, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.

10 Hver sá af húsi Ísraels og af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem neytir nokkurs blóðs, _ gegn þeim manni, sem neytir blóðs, vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni.

11 Því að líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu.

12 Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta, né heldur skal nokkur útlendingur, er býr meðal yðar, neyta blóðs.`

13 Og hver sá Ísraelsmanna og þeirra manna útlendra, er meðal yðar búa, sem veiðir villidýr eða fugl ætan, hann skal hella niður blóðinu og hylja það moldu.

14 Því að svo er um líf alls holds, að saman fer blóð og líf, og fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki neyta blóðs úr nokkru holdi, því að líf sérhvers holds, það er blóð þess. Hver sá, er þess neytir, skal upprættur verða.`

15 Og hver sá, er etur sjálfdauða skepnu eða dýrrifna, hvort heldur er innborinn maður eða útlendur, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. Þá er hann hreinn.

16 En þvoi hann þau ekki og laugi ekki hold sitt, þá bakar hann sér sekt."

18 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú við Ísraelsmenn og seg við þá: Ég er Drottinn, Guð yðar.

Þér skuluð ekki gjöra að háttum Egyptalands, þar sem þér bjugguð, og þér skuluð ekki gjöra að háttum Kanaanlands, er ég mun leiða yður inn í, né heldur skuluð þér breyta eftir setningum þeirra.

Lög mín skuluð þér halda og setningar mínar skuluð þér varðveita, svo að þér breytið eftir þeim. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Þér skuluð því varðveita setningar mínar og lög. Sá sem breytir eftir þeim skal lifa fyrir þau. Ég er Drottinn.

Enginn yðar skal koma nærri nokkru nánu skyldmenni til þess að bera blygðan þeirra. Ég er Drottinn.

Þú skalt eigi bera blygðan föður þíns og blygðan móður þinnar. Hún er móðir þín, þú skalt eigi bera blygðan hennar.

Þú skalt eigi bera blygðan konu föður þíns, það er blygðan föður þíns.

Blygðan systur þinnar, dóttur föður þíns eða dóttur móður þinnar, hvort heldur hún er fædd heima eða utan heimilis, _ blygðan þeirra skalt þú eigi bera.

10 Blygðan sonardóttur þinnar eða dótturdóttur, blygðan þeirra skalt þú eigi bera, því að það er þín blygðan.

11 Blygðan dóttur konu föður þíns, afkvæmis föður þíns _ hún er systir þín _, blygðan hennar skalt þú eigi bera.

12 Eigi skalt þú bera blygðan föðursystur þinnar, hún er náið skyldmenni föður þíns.

13 Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar, því að hún er náið skyldmenni móður þinnar.

14 Eigi skalt þú bera blygðan föðurbróður þíns, eigi koma nærri konu hans, því að hún er sifkona þín.

15 Eigi skalt þú bera blygðan tengdadóttur þinnar. Hún er kona sonar þíns, eigi skalt þú bera blygðan hennar.

16 Eigi skalt þú bera blygðan konu bróður þíns. Það er blygðan bróður þíns.

17 Eigi skalt þú bera blygðan konu og dóttur hennar. Sonardóttur hennar eða dótturdóttur skalt þú eigi taka til þess að bera blygðan þeirra. Þær eru náin skyldmenni; það er óhæfa.

18 Né heldur skalt þú taka konu auk systur hennar, henni til eljurígs, með því að bera blygðan hennar auk hinnar, meðan hún er á lífi.

19 Eigi skalt þú koma nærri konu til að bera blygðan hennar, þá er hún er óhrein af klæðaföllum.

20 Þú skalt og eigi hafa holdlegt samræði við konu náunga þíns, svo að þú saurgist af.

21 Eigi skalt þú gefa nokkurt afkvæmi þitt til þess, að það sé helgað Mólok, svo að þú vanhelgir eigi nafn Guðs þíns. Ég er Drottinn.

22 Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.

23 Þú skalt ekki eiga samlag við nokkra skepnu, svo að þú saurgist af. Né heldur skal kona standa fyrir skepnu til samræðis við hana. Það er svívirðing.

24 Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig, sem ég mun reka á burt undan yður.

25 Og landið saurgaðist, og fyrir því vitjaði ég misgjörðar þess á því, og landið spjó íbúum sínum.

26 Varðveitið því setningar mínar og lög og fremjið enga af þessum viðurstyggðum, hvorki innborinn maður né útlendingur, er býr meðal yðar, _

27 því að allar þessar viðurstyggðir hafa landsbúar, er fyrir yður voru, framið, og landið saurgaðist _,

28 svo að landið spúi yður ekki, er þér saurgið það, eins og það spjó þeirri þjóð, er fyrir yður var.

29 Því að hver sá, er fremur einhverja af þessum viðurstyggðum, þær sálir, sem það gjöra, skulu upprættar verða úr þjóð sinni.

30 Varðveitið því boðorð mín, svo að þér fylgið eigi neinum af þeim andstyggilegu venjum, er hafðar voru í frammi fyrir yðar tíð, og saurgið yður ekki með því. Ég er Drottinn, Guð yðar."