Add parallel Print Page Options

38 Þá fréttu þeir Sefatja Mattansson, Gedalja Pashúrsson, Júkal Selemjason og Pashúr Malkíason þau orð, er Jeremía talaði til alls lýðsins:

"Svo segir Drottinn: Þeir, sem verða kyrrir í þessari borg, munu deyja fyrir sverði, af hungri og af drepsótt, en þeir, sem fara út til Kaldea, munu lífi halda og hljóta líf sitt að herfangi og lifa.

Svo segir Drottinn: Þessi borg mun vissulega verða gefin her Babelkonungs á vald og hann mun vinna hana!"

Þá sögðu höfðingjarnir við konung: "Lát drepa mann þennan! Því að hann gjörir hermennina, sem eftir eru í þessari borg, huglausa og allan lýðinn með því að tala slík orð til þeirra, því að þessi maður leitar ekki þess, sem þessum lýð er til heilla, heldur þess, sem honum er til ógæfu."

En Sedekía konungur svaraði: "Sjá, hann er á yðar valdi, því að konungurinn megnar ekkert á móti yður."

Þá tóku þeir Jeremía og köstuðu honum í gryfju Malkía konungssonar, sem var í varðgarðinum, og létu þeir Jeremía síga niður í böndum, en í gryfjunni var ekkert vatn, heldur leðja, og Jeremía sökk ofan í leðjuna.

En er Ebed-Melek, blálenskur geldingur, sem var í konungshöllinni, frétti, að þeir hefðu varpað Jeremía í gryfjuna, _ en konungur sat þá í Benjamínshliði _,

þá gekk Ebed-Melek út úr konungshöllinni og mælti til konungs á þessa leið:

"Minn herra konungur! Illverk hafa þessir menn framið með öllu því, er þeir hafa gjört við Jeremía spámann, sem þeir köstuðu í gryfjuna, svo að hann hlýtur að deyja þar úr hungri, því að ekkert brauð er framar til í borginni."

10 Þá skipaði konungur Ebed-Melek Blálendingi á þessa leið: "Tak héðan með þér þrjá menn og drag Jeremía spámann upp úr gryfjunni, áður en hann deyr."

11 Og Ebed-Melek tók mennina með sér og fór inn í konungshöllina, inn undir féhirsluna, og tók þar sundurrifna fataræfla og klæðaslitur og lét síga í böndum niður í gryfjuna til Jeremía.

12 Síðan mælti Ebed-Melek Blálendingur til Jeremía: "Legg rifnu og slitnu fataræflana undir hendur þér undir böndin!" Og Jeremía gjörði svo.

13 Og þeir drógu Jeremía upp með böndunum og hófu hann upp úr gryfjunni. Og sat nú Jeremía í varðgarðinum.

14 Sedekía konungur sendi menn og lét sækja Jeremía spámann til sín að þriðju dyrunum, sem eru í musteri Drottins, og konungur mælti til Jeremía: "Ég vil spyrja þig nokkurs, leyn mig engu!"

15 En Jeremía mælti til Sedekía: "Hvort munt þú ekki deyða mig, ef ég segi þér það? Og þótt ég ráðleggi þér eitthvað, þá hlýðir þú mér ekki!"

16 Þá vann Sedekía konungur Jeremía eið á laun og mælti: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er skapað hefir í oss þetta líf, skal ég ekki deyða þig né selja þig á vald þessara manna, sem sitja um líf þitt."

17 Þá sagði Jeremía við Sedekía: "Svo segir Drottinn, Guð allsherjar, Ísraels Guð: Ef þú gengur á vald höfðingjum Babelkonungs, þá munt þú lífi halda og borg þessi eigi verða brennd í eldi, og þú munt lífi halda og fólk þitt.

18 En gangir þú ekki á vald höfðingjum Babelkonungs, þá mun borg þessi seld verða á vald Kaldea, og þeir munu brenna hana í eldi, og þú munt ekki heldur komast undan þeim."

19 Þá sagði Sedekía konungur við Jeremía: "Ég óttast þá Júdamenn, sem þegar hafa hlaupist yfir til Kaldea, að menn kynnu að selja mig þeim á vald og þeir draga dár að mér!"

20 En Jeremía sagði: "Þeir munu eigi framselja þig. Hlýð þú boði Drottins í því, er ég segi þér, þá mun þér vel vegna og þú lífi halda.

21 En ef þú færist undan að ganga á vald þeirra, þá hefir Drottinn birt mér þetta:

22 Sjá, allar þær konur, sem eftir munu verða í höll Júdakonungs, munu fluttar verða til höfðingja Babelkonungs, og þær munu segja: ,Menn, sem voru í vináttu við þig, hafa ginnt þig og orðið þér yfirsterkari. Þegar fætur þínir sukku í foræðið, hörfuðu þeir aftur á bak!`

23 Og allar konur þínar og börn þín munu færð verða Kaldeum, og ekki munt þú heldur komast undan þeim, heldur munt þú gripinn verða og seldur á vald Babelkonungs, og þessi borg mun brennd verða í eldi."

24 Þá sagði Sedekía við Jeremía: "Enginn maður má vita af þessum viðræðum, ella verður það þinn bani.

25 En þegar höfðingjarnir frétta, að ég hafi talað við þig, og þeir koma til þín og segja við þig: ,Seg oss, hvað þú talaðir við konung, _ leyn oss engu, ella drepum vér þig _ og hvað konungur talaði við þig,`

26 þá seg við þá: ,Ég bað konung auðmjúklega að láta mig ekki fara aftur í hús Jónatans til þess að deyja þar."`

27 Og allir höfðingjarnir komu til Jeremía og spurðu hann, en hann skýrði þeim með öllu svo frá sem konungur hafði lagt fyrir. Þá gengu þeir rólegir burt frá honum, því að þetta hafði ekki orðið hljóðbært.

28 Og Jeremía sat í varðgarðinum allt til þess dags, er Jerúsalem var unnin.

39 Á níunda ríkisári Sedekía konungs í Júda, í tíunda mánuðinum, kom Nebúkadresar konungur í Babýlon og allur her hans til Jerúsalem, og settust um hana.

En á ellefta ríkisári Sedekía, í fjórða mánuðinum, níunda dag mánaðarins, var brotið skarð inn í borgina.

En er Jerúsalem var unnin, komu allir hershöfðingjar Babelkonungs og settust að í Miðhliðinu, þeir Nergalsareser, höfðingi í Símmagir, Nebúsarsekím hirðstjóri og margir aðrir höfðingjar Babelkonungs.

En er Sedekía Júdakonungur og allir hermennirnir sáu þetta, flýðu þeir og fóru um nóttina út úr borginni, veginn sem liggur út að konungsgarðinum, gegnum hliðið milli beggja múranna og héldu leiðina til Jórdandalsins.

En her Kaldea veitti þeim eftirför og náði Sedekía á Jeríkó-völlum. Tóku þeir hann og fluttu hann til Ribla í Hamathéraði til Nebúkadresars Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans.

Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía í Ribla fyrir augum hans. Sömuleiðis lét Babelkonungur drepa alla tignarmenn í Júda.

En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon.

Kaldear brenndu konungshöllina og hús lýðsins og rifu niður múra Jerúsalem.

En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með honum, og leifar lýðsins, þá er eftir voru, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon,

10 en af almúgamönnum, sem ekkert áttu, lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir í Júda og gaf þeim þann dag víngarða og akra.

11 En um Jeremía gaf Nebúkadresar Babelkonungur út svolátandi skipun fyrir milligöngu Nebúsaradans lífvarðarforingja:

12 "Tak hann og annast hann og gjör honum ekkert illt, heldur gjör við hann svo sem hann mælist til við þig!"

13 Þá sendu þeir Nebúsaradan lífvarðarforingi og Nebúsasban hirðstjóri og Nergalsareser hershöfðingi og allir yfirmenn Babelkonungs

14 menn og létu sækja Jeremía í varðgarðinn og seldu hann í hendur Gedalja Ahíkamssyni, Safanssonar, að hann færi með hann heim. Og þannig varð hann kyrr meðal lýðsins.

15 Meðan Jeremía sat innilokaður í varðgarðinum, hafði orð Drottins komið til hans:

16 Far og seg við Ebed-Melek Blálending: Svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Sjá, ég læt orð mín um ógæfu, en eigi um hamingju, koma fram á þessari borg, og þau skulu rætast fyrir augum þínum á þeim degi.

17 En ég skal frelsa þig á þeim degi _ segir Drottinn _ og þú skalt ekki seldur verða á vald mönnum þeim, er þú hræðist,

18 heldur skal ég láta þig komast undan og þú skalt ekki falla fyrir sverði, og þú skalt hljóta líf þitt að herfangi, af því að þú hefir treyst mér _ segir Drottinn.

40 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni, eftir að Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði látið hann lausan í Rama, er hann hafði flutt hann bundinn fjötrum ásamt hinum herteknu frá Jerúsalem og Júda, er flytjast áttu til Babýlon.

Lífvarðarforinginn lét sækja Jeremía og sagði við hann: "Drottinn, Guð þinn, hótaði þessum stað þessari ógæfu

og lét hana fram koma, og Drottinn gjörði eins og hann hafði hótað, því að þér syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð eigi hans raustu, og fyrir því hefir yður þetta að höndum borið.

Og sjá, nú leysi ég fjötrana af höndum þínum. Ef þér þóknast að koma með mér til Babýlon, þá kom þú og ég skal ala önn fyrir þér. En ef þér þóknast ekki að koma með mér til Babýlon, þá lát það ógjört. Sjá þú, allt landið liggur opið fyrir þér. Hvert sem þér líst gott og rétt að fara, þangað mátt þú fara.

En ef þér þóknast að vera um kyrrt, skalt þú fara til Gedalja Ahíkamssonar, Safanssonar, er Babelkonungur hefir skipað yfir Júdaborgir, og ver með honum meðal lýðsins, eða far hvert sem þér þóknast að fara." Og lífvarðarforinginn fékk honum uppeldi og gjafir og lét hann í brott fara.

Og Jeremía fór til Mispa til Gedalja Ahíkamssonar, og var með honum meðal lýðsins, þeirra er eftir voru í landinu.

Og er allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti, og menn þeirra, fréttu, að Babelkonungur hefði skipað Gedalja Ahíkamsson landstjóra og að hann hefði falið umsjá hans menn og konur og börn og þá af almúga landsins, er eigi voru herleiddir til Babýlon,

fóru þeir til Mispa á fund Gedalja, þeir Ísmael Netanjason, Jóhanan Kareason, Seraja Tanhúmetsson, synir Efaí frá Netófa, og Jesanja, sonur Maakatítans, og menn þeirra.

Vann Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, þeim eið og mönnum þeirra og sagði: "Óttist eigi að vera Kaldeum lýðskyldir. Verið kyrrir í landinu og þjónið Babelkonungi, og mun yður vel vegna.

10 Og sjá, ég verð kyrr í Mispa til þess að taka á móti þeim Kaldeum, er til vor kunna að koma, en safnið þér uppskeru af víni, ávöxtum og olíu og látið í ílát yðar og verið kyrrir í borgum yðar, er þér hafið tekið til eignar."

11 Sömuleiðis fréttu allir Júdamenn, sem voru í Móab og hjá Ammónítum og í Edóm og í öllum öðrum löndum, að Babelkonungur hefði skilið leifar eftir af Júda og að hann hefði sett Gedalja Ahíkamsson, Safanssonar, yfir þá.

12 Sneru þeir því aftur frá öllum þeim stöðum, þangað sem þeir höfðu hraktir verið, og komu til Júda, til Gedalja í Mispa, og þeir söfnuðu mjög mikilli uppskeru af víni og ávöxtum.

13 Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem enn voru úti á landi, fóru til Mispa á fund Gedalja

14 og sögðu við hann: "Veist þú að Baalis Ammónítakonungur hefir sent Ísmael Netanjason til þess að ráða þér bana?" En Gedalja Ahíkamsson trúði þeim ekki.

15 Og Jóhanan Kareason sagði við Gedalja á laun í Mispa: "Leyf mér að fara og drepa Ísmael Netanjason, og enginn maður skal verða þess vís! Hví skal hann ráða þér bana og allir Júdamenn tvístrast, þeir er til þín hafa safnast, og leifar Júda verða að engu?"

16 En Gedalja Ahíkamsson sagði við Jóhanan Kareason: "Þú skalt ekki gjöra það, því að þú talar lygar um Ísmael."

41 En á sjöunda mánuði kom Ísmael Netanjason, Elísamasonar, af konungsættinni, og tíu menn með honum til Gedalja Ahíkamssonar í Mispa, og þeir mötuðust þar með honum í Mispa.

Og Ísmael Netanjason og tíu mennirnir, sem með honum voru, spruttu upp og myrtu Gedalja, er Babelkonungur hafði sett yfir landið,

svo og alla Júdamenn, er með honum voru í Mispa, og þá Kaldea, er þar voru.

En á öðrum degi frá því er Gedalja var myrtur og áður en nokkur varð þess vís,

komu menn frá Sikem, frá Síló og frá Samaríu, áttatíu manns, með skornu skeggi og rifnum klæðum og skinnsprettum á líkamanum. Höfðu þeir með sér matfórnir og reykelsi til þess að bera fram í musteri Drottins.

Gekk Ísmael Netanjason út í móti þeim frá Mispa, og var hann sígrátandi, er hann gekk. Og er hann mætti þeim, sagði hann við þá: "Komið inn til Gedalja Ahíkamssonar!"

En jafnskjótt og þeir voru komnir inn í borgina, brytjaði hann þá niður og kastaði þeim í gryfju.

En meðal þeirra voru tíu menn, sem sögðu við Ísmael: "Deyð oss eigi, því að vér eigum niðurgrafnar birgðir úti á akrinum, hveiti og bygg og olíu og hunang." Þá hætti hann við og drap þá ekki ásamt bræðrum þeirra.

En gryfjan, sem Ísmael kastaði í öllum líkum þeirra manna, er hann drap, var stóra gryfjan, sem Asa konungur hafði gjöra látið til varnar gegn Basa Ísraelskonungi. Hana fyllti Ísmael Netanjason vegnum mönnum.

10 Því næst flutti Ísmael allar leifar lýðsins, sem voru í Mispa, konungsdæturnar og allan lýðinn, sem eftir var í Mispa, sem Nebúsaradan lífvarðarforingi hafði sett Gedalja Ahíkamsson yfir _ þá flutti Ísmael Netanjason burt hertekna og hélt af stað til þess að fara yfir til Ammóníta.

11 En er Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, fréttu öll þau illvirki, er Ísmael Netanjason hafði framið,

12 tóku þeir alla menn sína og lögðu af stað til þess að berjast við Ísmael Netanjason, og varð fundur þeirra við stóru tjörnina hjá Gíbeon.

13 En er allur lýðurinn, sem var með Ísmael, sá Jóhanan Kareason og alla hershöfðingjana, sem með honum voru, gladdist hann,

14 og allur lýðurinn, sem Ísmael hafði flutt hertekinn frá Mispa, sneri við og hvarf aftur og gekk í lið með Jóhanan Kareasyni.

15 En Ísmael Netanjason komst undan Jóhanan við áttunda mann og fór til Ammóníta.

16 Því næst tók Jóhanan Kareason og allir hershöfðingjarnir, sem með honum voru, allar leifar lýðsins, er Ísmael Netanjason hafði flutt herteknar frá Mispa, eftir að hann hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, menn, konur og börn og geldinga, er hann hafði flutt aftur frá Gíbeon,

17 og þeir lögðu af stað og námu staðar í Gerút-Kimham, sem er hjá Betlehem, til þess að halda þaðan áfram ferðinni til Egyptalands,

18 til þess að komast undan Kaldeum, sem þeir óttuðust, af því að Ísmael Netanjason hafði drepið Gedalja Ahíkamsson, er Babelkonungur hafði sett yfir landið.