Add parallel Print Page Options

11 Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.

Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.

Fyrir trú skiljum vér, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.

Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð betri fórn en Kain, og fyrir trú fékk hann þann vitnisburð, að hann væri réttlátur, er Guð bar vitni um fórn hans. Með trú sinni talar hann enn, þótt dauður sé.

Fyrir trú var Enok burt numinn, að eigi skyldi hann dauðann líta. "Ekki var hann framar að finna, af því að Guð hafði numið hann burt." Áður en hann var burt numinn, hafði hann fengið þann vitnisburð, "að hann hefði verið Guði þóknanlegur."

En án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.

Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.

Fyrir trú hlýddi Abraham, er hann var kallaður, og fór burt til staðar, sem hann átti að fá til eignar. Hann fór burt og vissi ekki hvert leiðin lá.

Fyrir trú settist hann að í hinu fyrirheitna landi eins og útlendingur og hafðist við í tjöldum, ásamt Ísak og Jakob, er voru samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti.

10 Því að hann vænti þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn, þeirrar, sem Guð er smiður að og byggingarmeistari.

11 Fyrir trú öðlaðist Abraham kraft til að eignast son, og þó var Sara óbyrja og hann kominn yfir aldur. Hann treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið.

12 Þess vegna kom út af honum, einum manni, og það mjög ellihrumum, slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni og sandkorn á sjávarströnd, er ekki verður tölu á komið.

13 Allir þessir menn dóu í trú, án þess að hafa öðlast fyrirheitin. Þeir sáu þau álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.

14 Þeir, sem slíkt mæla, sýna með því, að þeir eru að leita eigin ættjarðar.

15 Hefðu þeir nú átt við ættjörðina, sem þeir fóru frá, þá hefðu þeir haft tíma til að snúa þangað aftur.

16 En nú þráðu þeir betri ættjörð, það er að segja himneska. Þess vegna blygðast Guð sín ekki fyrir þá, að kallast Guð þeirra, því að borg bjó hann þeim.

17 Fyrir trú fórnfærði Abraham Ísak, er hann var reyndur. Og Abraham, sem fengið hafði fyrirheitin, var reiðubúinn að fórnfæra einkasyni sínum.

18 Við hann hafði Guð mælt: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."

19 Hann hugði, að Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja upp frá dauðum. Þess vegna má svo að orði kveða, að hann heimti hann aftur úr helju.

20 Fyrir trú blessaði Ísak þá Jakob og Esaú einnig um ókomna tíma.

21 Fyrir trú blessaði Jakob báða sonu Jósefs, er hann var að dauða kominn og "laut fram á stafshúninn og baðst fyrir".

22 Fyrir trú minntist Jósef við ævilokin á brottför Ísraelssona og gjörði ráðstöfun fyrir beinum sínum.

23 Fyrir trú leyndu foreldrar Móse honum í þrjá mánuði eftir fæðingu hans, af því að þau sáu, að sveinninn var fríður, og þau létu eigi skelfast af skipun konungsins.

24 Fyrir trú hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós,

25 og kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.

26 Hann taldi vanvirðu Krists meiri auð en fjársjóðu Egyptalands, því að hann horfði fram til launanna.

27 Fyrir trú yfirgaf hann Egyptaland og óttaðist ekki reiði konungsins, en var öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega.

28 Fyrir trú hélt hann páska og lét rjóða blóðinu á húsin, til þess að eyðandi frumburðanna skyldi ekki snerta þá.

29 Fyrir trú gengu þeir gegnum Rauðahafið sem um þurrt land, og er Egyptar freistuðu þess, drukknuðu þeir.

30 Fyrir trú hrundu múrar Jeríkóborgar, er menn höfðu gengið í kringum þá í sjö daga.

31 Fyrir trú var það, að skækjan Rahab fórst ekki ásamt hinum óhlýðnu, þar sem hún hafði tekið vinsamlega móti njósnarmönnunum.

32 Hvað á ég að orðlengja framar um þetta? Mig mundi skorta tíma, ef ég færi að segja frá Gídeon, Barak, Samson og Jefta, og af Davíð, Samúel og spámönnunum.

33 Fyrir trú unnu þeir sigur á konungsríkjum, iðkuðu réttlæti, öðluðust fyrirheit. Þeir byrgðu gin ljóna,

34 slökktu eldsbál, komust undan sverðseggjum. Þeir urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir, gjörðust öflugir í stríði og stökktu fylkingum óvina á flótta.

35 Konur heimtu aftur sína framliðnu upprisna. Aðrir voru pyndaðir og þágu ekki lausn til þess að þeir öðluðust betri upprisu.

36 Aðrir urðu að sæta háðsyrðum og húðstrokum og þar á ofan fjötrum og fangelsi.

37 Þeir voru grýttir, sagaðir í sundur, höggnir með sverði. Þeir ráfuðu í gærum og geitskinnum, alls vana, aðþrengdir og illa haldnir.

38 Og ekki átti heimurinn slíka menn skilið. Þeir reikuðu um óbyggðir og fjöll og héldust við í hellum og gjótum.

39 En þó að allir þessir menn fengju góðan vitnisburð fyrir trú sína, hlutu þeir þó eigi fyrirheitið.

40 Guð hafði séð oss fyrir því sem betra var: Án vor skyldu þeir ekki fullkomnir verða.

12 Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.

Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.

Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.

Í baráttu yðar við syndina hafið þér ekki enn þá staðið í gegn, svo að blóð hafi runnið.

Og þér hafið gleymt áminningunni, sem ávarpar yður eins og syni: Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu Drottins, og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig.

Því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og hirtir harðlega hvern þann son, er hann að sér tekur.

Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðirinn ekki agar?

En séuð þér án aga, sem allir hafa fyrir orðið, þá eruð þér þrælbornir og ekki synir.

Enn er það, að vér bjuggum við aga jarðneskra feðra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum vér þá ekki miklu fremur vera undirgefnir föður andanna og lifa?

10 Feður vorir öguðu oss um fáa daga, eftir því sem þeim leist, en oss til gagns agar hann oss, svo að vér fáum hlutdeild í heilagleika hans.

11 Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.

12 Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.

13 Látið fætur yðar feta beinar brautir, til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði, en verði heilt.

14 Stundið frið við alla menn og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið.

15 Hafið gát á, að enginn missi af Guðs náð, að engin beiskjurót renni upp, sem truflun valdi, og margir saurgist af.

16 Gætið þess, að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur, eins og Esaú, sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn.

17 Þér vitið, að það fór líka svo fyrir honum, að hann var rækur gjör, þegar hann síðar vildi öðlast blessunina, þó að hann grátbændi um hana. Hann fékk ekki færi á að iðrast.

18 Þér eruð ekki komnir til fjalls, sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris

19 og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir, sem hana heyrðu, báðust undan því að meira væri til sín talað.

20 Því að þeir þoldu ekki það, sem fyrir var skipað: "Þó að það sé ekki nema skepna, sem kemur við fjallið, skal hún grýtt verða."

21 Svo ógurlegt var það, sem fyrir augu bar, að Móse sagði: "Ég er mjög hræddur og skelfdur."

22 Nei, þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla,

23 til hátíðarsamkomu og safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, dómara allra, og til anda réttlátra, sem fullkomnir eru orðnir,

24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins, sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.

25 Gætið þess, að þér hafnið ekki þeim sem talar. Þeir, sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu, komust ekki undan. Miklu síður munum vér undan komast, ef vér gjörumst fráhverfir honum, er guðlega bendingu gefur frá himnum.

26 Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: "Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn."

27 Orðin: "Enn einu sinni", sýna, að það, sem bifast, er skapað og hverfur, til þess að það standi stöðugt, sem eigi bifast.

28 Þar sem vér því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum vér þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta.

29 Því að vor Guð er eyðandi eldur.

13 Bróðurkærleikurinn haldist.

Gleymið ekki gestrisninni, því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita.

Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama.

Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.

Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: "Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig."

Því getum vér öruggir sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?

Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.

Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.

Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum. Það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki mataræði. Þeir, sem sinntu slíku, höfðu eigi happ af því.

10 Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því.

11 Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar.

12 Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu.

13 Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.

14 Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.

15 Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.

16 En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.

17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.

18 Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.

19 Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.

20 En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála,

21 hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

22 Ég bið yður, bræður, að þér takið vel þessum áminningarorðum. Fáort hef ég ritað yður.

23 Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefur verið látinn laus og ásamt honum mun ég heimsækja yður, komi hann bráðum.

24 Berið kveðju öllum leiðtogum yðar og öllum heilögum. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju.