Add parallel Print Page Options

13 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, spá þú gegn spámönnum Ísraels, þeim er spá, og seg við spámennina, sem spá frá eigin brjósti: Heyrið orð Drottins!

Svo segir Drottinn Guð: Vei hinum heimsku spámönnum, sem fara eftir hugarburði sjálfra sín og því, er þeir hafa ekki séð.

Spámenn þínir, Ísrael, eru sem refir í rústabrotum.

Þér hafið ekki gengið fram í vígskörðin og þér hafið engan virkisgarð hlaðið í kringum Ísraels hús, til þess að standast í stríðinu á degi Drottins.

Þeir sáu hégómasýnir og fóru með lygispádóma, þeir er sögðu: ,Drottinn segir,` þótt Drottinn hefði ekki sent þá, og væntu síðan að orðin mundu rætast.

Eru það ekki hégómasýnir, sem þér hafið séð, og lygispádómar, sem þér hafið farið með og segið þó: ,Drottinn segir,` þótt ég hafi eigi talað?

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Með því að þér talið hégóma og sjáið lygar, þá skal ég láta yður kenna á því _ segir Drottinn Guð.

Og hönd mín skal vera upp í móti þeim spámönnum, sem sjá hégómasýnir og fara með lygispádóma. Þeir skulu eigi vera í félagi þjóðar minnar og eigi vera ritaðir á skrá Ísraels húss, og inn í Ísraelsland skulu þeir ekki koma, og þannig skuluð þér kannast við, að ég er Drottinn.

10 Fyrir þá sök og vegna þess að þeir hafa leitt lýð minn í villu með því að segja: ,Heill!` þar sem engin heill var, og þegar þeir hlóðu vegg, riðu þeir kalki á hann,

11 þá seg þú kölkurunum, _ því hann skal hrynja: Sjá, ég mun láta koma steypiregn, sem skolar honum burt, haglsteinar skulu niður falla og stormbylur á skella.

12 Þá hrynur veggurinn. Mun þá ekki verða við yður sagt: ,Hvar er nú kalkið, er þér riðuð á vegginn?`

13 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Í heift minni skal ég láta stormbyl á skella, og dynjandi steypiregn skal á koma vegna reiði minnar, og haglsteinar vegna heiftar minnar til algjörðrar tortímingar.

14 Ég skal brjóta niður vegginn, sem þér hafið kalkað, og bylta honum til jarðar, svo að undirstaða hans komi í ljós. Og hann mun hrynja, og þér munuð verða á milli og viðurkenna, að ég er Drottinn.

15 Og ég vil úthella allri reiði minni yfir vegginn og yfir þá, sem riðu kalki á hann, og ég mun segja við yður: Horfinn er veggurinn og horfnir eru þeir, sem riðu hann kalki,

16 spámenn Ísraels, sem spá fyrir Jerúsalem og þykjast sjá heillasýnir henni til handa, þar sem þó engin heill er _ segir Drottinn Guð.

17 En þú, mannsson, snú nú augliti þínu gegn dætrum þjóðar þinnar, þeim er spá eftir eigin hugboði, og spá þú móti þeim

18 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Vei þeim, sem sauma bindi fyrir alla úlnliði og búa til skýlur fyrir höfuð manna, hvers vaxtar sem er, til þess að veiða sálir. Hvort ætlið þér að veiða sálir hjá þjóð minni og halda lífinu í sálum yður til handa?

19 Þér vanhelgið mig hjá þjóð minni fyrir nokkra hnefa af byggi og nokkra brauðbita til þess að deyða sálir, sem ekki eiga að deyja, og halda lífinu í sálum, sem ekki eiga að lifa, með því að ljúga að þjóð minni, sem hlustar á lygar.

20 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal hafa hendur á bindum yðar, þeim er þér veiðið með sálir, og ég skal slíta þau af armleggjum yðar og láta lausar sálir þær, er þér veiðið, sem væru þær fuglar.

21 Og ég skal slíta sundur skýlur yðar og frelsa lýð minn úr yðar höndum, svo að þeir séu ekki lengur veiðifang í yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn.

22 Vegna þess að þér hrellið hjarta hins ráðvanda með lygum, þar sem ég vildi þó eigi hafa hrellt hann, og af því að þér styrkið hendur hins óguðlega, til þess að hann snúi sér ekki frá sinni vondu breytni og forði lífi sínu,

23 þess vegna skuluð þér ekki framar sjá hégómasýnir og ekki framar fara með lygispádóma. Ég vil frelsa lýð minn af yðar höndum, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn."

14 En til mín komu nokkrir af öldungum Ísraels og settust niður frammi fyrir mér.

Þá kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, þessir menn hafa skipað skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og sett ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig. Ætti ég þá að láta þá ganga til frétta við mig?

Fyrir því tala þú til þeirra og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Hver sá af Ísraelsmönnum, sem skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa, þrátt fyrir hans mörgu skurðgoð,

til þess að taka um hjartað í Ísraelsmönnum, er gjörst hafa mér ókunnugir fyrir öll skurðgoð sín.

Seg því við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Snúið við og snúið yður frá skurðgoðum yðar og snúið augliti yðar burt frá öllum svívirðingum yðar.

Því að sérhver sá af Ísraelsmönnum og af útlendingum þeim, er dveljast meðal Ísraelsmanna, er gjörist mér fráhverfur og skipar skurðgoðum sínum til hásætis í hjarta sínu og setur ásteytingarstein misgjörðar sinnar upp fyrir framan sig og fer þó til spámanns til þess að láta hann spyrja mig fyrir sig, honum skal ég, Drottinn, sjálfur svör gefa.

Ég vil snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gjöra hann að tákni og orðtaki og uppræta hann úr þjóð minni, til þess að þér viðurkennið, að ég er Drottinn.

En láti spámaðurinn tæla sig og flytji hann spámæli, þá hefi ég, Drottinn, tælt þann spámann, og ég mun rétta út hönd mína móti honum og afmá hann úr þjóð minni Ísrael.

10 Og þeir skulu báðir bera sekt sína: Þeir skulu vera jafnsekir hvor um sig, sá er til frétta gengur og spámaðurinn,

11 til þess að Ísraelsmenn villist ekki framar frá mér og saurgi sig ekki framar á alls konar glæpum, heldur skulu þeir vera mín þjóð, og ég skal vera þeirra Guð _ segir Drottinn Guð."

12 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

13 "Mannsson, ef land syndgar móti mér, með því að bregða trúnaði, og ég rétti út hönd mína gegn því og brýt sundur staf brauðsins fyrir því og sendi hungur í það og eyði þar mönnum og fénaði,

14 og þótt í því væru þessir þrír menn: Nói, Daníel og Job, þá mundu þeir þó aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína _ segir Drottinn Guð.

15 Ef ég léti óargadýr fara yfir landið og þau eyddu það að mönnum, svo að það yrði auðn, sem enginn færi um vegna dýranna,

16 og þessir þrír menn væru í því, _ svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skyldu þeir hvorki fá bjargað sonum né dætrum. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér, en landið skyldi verða auðn.

17 Eða ef ég léti sverð geisa yfir þetta land og segði: Sverðið skal fara yfir landið! og eyddi í því mönnum og skepnum,

18 og þessir þrír menn væru í því, _ svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, hvorki mundu þeir fá bjargað sonum né dætrum, heldur mundu þeir aðeins fá bjargað sjálfum sér.

19 Eða ef ég sendi drepsótt inn í þetta land og jysi yfir það blóðugri heift minni, til þess að eyða í því mönnum og skepnum,

20 og Nói, Daníel og Job væru í því, _ svo sannarlega sem Drottinn Guð lifir, skyldu þeir hvorki fá bjargað syni né dóttur. Þeir mundu aðeins fá bjargað sjálfum sér fyrir ráðvendni sína.

21 Þó segir Drottinn Guð svo: Jafnvel þótt ég sendi fjóra mína vondu refsidóma, sverð, hungur, óargadýr og drepsótt, yfir Jerúsalem til þess að eyða í henni mönnum og skepnum,

22 þá skal þó hópur eftir verða, sem af kemst, þeir er fara út með sonu og dætur. Þeir munu koma út til yðar, og þér munuð sjá breytni þeirra og gjörðir þeirra og huggast yfir ógæfu þeirri, er ég hefi látið koma yfir Jerúsalem, yfir öllu því, er ég hefi látið koma yfir hana.

23 Og þeir munu hugga yður, er þér sjáið breytni þeirra og gjörðir þeirra, og þér munuð sjá, að ég hefi ekkert gjört án orsaka af öllu því, er ég hefi í henni gjört _ segir Drottinn Guð."

15 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

"Mannsson, hvað hefir vínviðurinn fram yfir allan annan við, teinungurinn, sem er á meðal skógartrjánna?

Verður af honum tekinn efniviður til smíða, eða fæst úr honum snagi, til þess að hengja á alls konar verkfæri?

Nei, hann er hafður til eldsneytis. Þegar eldurinn hefir brennt báða enda hans, og sé miðjan sviðnuð, hvert gagn er þá að honum til efniviðar?

Meðan hann enn er heill, verður ekkert úr honum smíðað, því síður að nú verði nokkuð úr honum gjört, þegar eldurinn hefir brennt hann og hann er sviðnaður.

Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Eins og vínviðinn meðal skógartrjánna, sem ég hefi ætlað til eldsneytis, svo vil ég fara með Jerúsalembúa.

Ég skal snúa augliti mínu gegn þeim: Þeir hafa komist úr eldinum, og eldurinn skal eyða þeim, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, þegar ég sný augliti mínu gegn þeim.

Og ég gjöri landið að auðn, af því að þeir hafa brugðið trúnaði við mig _ segir Drottinn Guð."