Add parallel Print Page Options

Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem.

Aumasti hégómi, segir prédikarinn, aumasti hégómi, allt er hégómi!

Hvaða ávinning hefir maðurinn af öllu striti sínu, er hann streitist við undir sólinni?

Ein kynslóðin fer og önnur kemur, en jörðin stendur að eilífu.

Og sólin rennur upp, og sólin gengur undir og hraðar sér til samastaðar síns, þar sem hún rennur upp.

Vindurinn gengur til suðurs og snýr sér til norðurs, hann snýr sér og snýr sér og fer aftur að hringsnúast á nýjan leik.

Allar ár renna í sjóinn, en sjórinn verður aldrei fullur, þangað sem árnar renna, þangað halda þær ávallt áfram að renna.

Allt er sístritandi, enginn maður fær því með orðum lýst, augað verður aldrei satt af að sjá, og eyrað verður aldrei mett af að heyra.

Það sem hefir verið, það mun verða, og það sem gjörst hefir, það mun gjörast, og ekkert er nýtt undir sólinni.

10 Sé nokkuð til, er um verði sagt: sjá, þetta er nýtt _ þá hefir það orðið fyrir löngu, á tímum sem á undan oss voru.

11 Forfeðranna minnast menn eigi, og ekki verður heldur eftirkomendanna, sem síðar verða uppi, minnst meðal þeirra, sem síðar verða.

12 Ég, prédikarinn, var konungur yfir Ísrael í Jerúsalem.

13 Ég lagði allan hug á að rannsaka og kynna mér með hyggni allt það, er gjörist undir himninum: Það er leiða þrautin, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á.

14 Ég hefi séð öll verk, sem gjörast undir sólinni, og sjá: Allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi.

15 Hið bogna getur ekki orðið beint, og það sem skortir verður eigi talið.

16 Ég hugsaði með sjálfum mér: Sjá, ég hefi aflað mér meiri og víðtækari speki en allir þeir, er ríkt hafa yfir Jerúsalem á undan mér, og hjarta mitt hefir litið speki og þekkingu í ríkum mæli.

17 Og er ég lagði allan hug á að þekkja speki og að þekkja flónsku og heimsku, þá komst ég að raun um, að einnig það var að sækjast eftir vindi.

18 Því að mikilli speki er samfara mikil gremja, og sá sem eykur þekking sína, eykur kvöl sína.

Ég sagði við sjálfan mig: Jæja þá, reyndu gleðina og njóttu gæða lífsins! En sjá, einnig það er hégómi.

Um hláturinn sagði ég: hann er vitlaus! og um gleðina: hverju fær hún til vegar komið?

Mér kom til hugar að gæða líkama mínum á víni _ en hjarta mitt skyldi stjórna öllu viturlega _ og að halda fast við heimskuna, uns ég sæi, hvað gott væri fyrir mennina að gjöra undir himninum alla ævidaga þeirra.

Ég gjörði stórvirki: Ég reisti mér hús, ég plantaði mér víngarða,

ég gjörði mér jurtagarða og aldingarða og gróðursetti þar alls konar aldintré,

ég bjó mér til vatnstjarnir til þess að vökva með vaxandi viðarskóg,

ég keypti þræla og ambáttir, og ég átti heimafædd hjú. Ég átti og meiri hjarðir nauta og sauða en allir þeir, sem verið höfðu á undan mér í Jerúsalem.

Ég safnaði mér og silfri og gulli og fjársjóðum frá konungum og löndum, ég fékk mér söngmenn og söngkonur og það sem er yndi karlmannanna: fjölda kvenna.

Og ég varð mikill og meiri öllum þeim, er verið höfðu í Jerúsalem á undan mér. Einnig speki mín var kyrr hjá mér.

10 Og allt það sem augu mín girntust, það lét ég eftir þeim. Ég neitaði ekki hjarta mínu um nokkra gleði, því að hjarta mitt hafði ánægju af allri fyrirhöfn minni, og þetta var hlutdeild mín af allri fyrirhöfn minni.

11 En er ég leit á öll verk mín, þau er hendur mínar höfðu unnið, og á þá fyrirhöfn, er ég hafði haft fyrir að gjöra þau, þá sá ég, að allt var hégómi og eftirsókn eftir vindi, og að enginn ávinningur er til undir sólinni.

12 Ég sneri mér að því að virða fyrir mér speki og flónsku og heimsku, _ því að hvað mun sá maður gjöra, er kemur eftir konunginn? Hann gjörir það sem menn hafa gjört fyrir löngu. _

13 Þá sá ég, að spekin hefir yfirburði yfir heimskuna eins og ljósið hefir yfirburði yfir myrkrið.

14 Vitur maður hefir augun í höfðinu, en heimskinginn gengur í myrkri. Jafnframt tók ég eftir því, að eitt og hið sama kemur fram við alla.

15 Og ég sagði við sjálfan mig: Hið sama sem kemur fram við heimskingjann, það kemur og fram við mig, og til hvers hefi ég þá orðið svo frábærlega vitur? Þá hugsaði ég í hjarta mínu, að einnig það væri hégómi.

16 Því að menn minnast ekki hins vitra að eilífu, frekar en heimskingjans, því að allir verða þeir löngu gleymdir á komandi tímum, og deyr ekki jafnt vitur sem heimskur?

17 Þá varð mér illa við lífið, því að mér mislíkaði það, er gjörist undir sólinni, því að allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

18 Og mér varð illa við allt mitt strit, er ég streittist við undir sólinni, með því að ég verð að eftirskilja það þeim manni, er kemur eftir mig.

19 Og hver veit, hvort hann verður spekingur eða heimskingi? Og þó á hann að ráða yfir öllu striti mínu, er ég hefi streitst við og viturlega með farið undir sólinni _ einnig það er hégómi.

20 Þá hvarf ég að því að láta hjarta mitt örvænta yfir allri þeirri mæðu, er ég hafði átt í undir sólinni.

21 Því að hafi einhver unnið starf sitt með hyggindum, þekking og dugnaði, verður hann að selja það öðrum í hendur til eignar, sem ekkert hefir fyrir því haft. Einnig það er hégómi og mikið böl.

22 Hvað fær þá maðurinn fyrir allt strit sitt og ástundun hjarta síns, er hann mæðist í undir sólinni?

23 Því að allir dagar hans eru kvöl, og starf hans er armæða. Jafnvel á næturnar fær hjarta hans eigi hvíld. Einnig þetta er hégómi.

24 Það er ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu. En það hefi ég séð, að einnig þetta kemur af Guðs hendi.

25 Því að hver má eta eða neyta nokkurs án hans?

26 Því að þeim manni, sem honum geðjast, gefur hann visku, þekking og gleði, en syndaranum fær hann það starf að safna og hrúga saman til þess að selja það þeim í hendur, er Guði geðjast. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.

Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma, að gróðursetja hefir sinn tíma og að rífa það upp, sem gróðursett hefir verið, hefir sinn tíma,

að deyða hefir sinn tíma og að lækna hefir sinn tíma, að rífa niður hefir sinn tíma og að byggja upp hefir sinn tíma,

að gráta hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma,

að kasta steinum hefir sinn tíma og að tína saman steina hefir sinn tíma, að faðmast hefir sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefir sinn tíma,

að leita hefir sinn tíma og að týna hefir sinn tíma, að geyma hefir sinn tíma og að fleygja hefir sinn tíma,

að rífa sundur hefir sinn tíma og að sauma saman hefir sinn tíma, að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma,

að elska hefir sinn tíma og að hata hefir sinn tíma, ófriður hefir sinn tíma, og friður hefir sinn tíma.

Hvern ávinning hefir starfandinn af öllu striti sínu?

10 Ég virti fyrir mér þá þraut, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á.

11 Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.

12 Ég komst að raun um, að ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist.

13 En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.

14 Ég komst að raun um, að allt, sem Guð gjörir, stendur að eilífu, við það er engu að bæta, og af því verður ekkert tekið. Guð hefir gjört það svo, til þess að menn óttuðust hann.

15 Það sem er, var fyrir löngu, og það sem mun verða, hefir verið fyrir löngu, og Guð leitar aftur hins liðna.

16 Og enn fremur sá ég undir sólinni: Þar sem rétturinn átti að vera, þar var ranglæti, og þar sem réttlætið átti að vera, þar var ranglæti.

17 Ég sagði við sjálfan mig: Hinn ráðvanda og hinn óguðlega mun Guð dæma, því að hann hefir sett tíma öllum hlutum og öllum gjörðum.

18 Ég sagði við sjálfan mig: Það er mannanna vegna, til þess að Guð geti reynt þá, og til þess að þeir sjái, að þeir eru sjálfir ekki annað en skepnur.

19 Því að örlög mannanna og örlög skepnunnar _ örlög þeirra eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna, því að allt er hégómi.

20 Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.

21 Hver veit, hvort andi mannanna fer upp á við, en andi skepnunnar niður á við til jarðar?

22 Þannig sá ég, að ekkert betra er til en að maðurinn gleðji sig við verk sín, því að það er hlutdeild hans. Því að hver kemur honum svo langt, að hann sjái það sem verður eftir hans dag?

Og enn sá ég alla þá kúgun, sem viðgengst undir sólinni: Þarna streyma tár hinna undirokuðu, en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi, en enginn huggar þá.

Þá taldi ég hina framliðnu sæla, þá er fyrir löngu eru dánir, í samanburði við hina lifandi, þá er enn eru á lífi,

en sælli en þessa hvora tveggja þann, sem enn er ekki til orðinn og ekki hefir séð þau vondu verk, sem framin eru undir sólinni.

Og ég sá, að allt strit og dugnaður í framkvæmdum er ekki annað en öfund eins við annan. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

Heimskinginn spennir greipar og etur sitt eigið hold.

Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.

Og enn sá ég hégóma undir sólinni:

Maður stendur einn og enginn annar með honum, hann á hvorki son né bróður, og þó er enginn endir á öllu striti hans, og augu hans mettast ekki á auðlegð. En fyrir hvern er ég þá að stritast og fyrir hvern læt ég þá sál mína fara góðs á mis? Einnig þetta er hégómi og leið þraut.

Betri eru tveir en einn, með því að þeir hafa góð laun fyrir strit sitt.

10 Því að falli annar þeirra, þá getur hinn reist félaga sinn á fætur, en vei einstæðingnum, sem fellur og enginn annar er til að reisa á fætur.

11 Sömuleiðis ef tveir sofa saman, þá er þeim heitt, en sá sem er einn, hvernig getur honum hitnað?

12 Og ef einhver ræðst á þann sem er einn, þá munu tveir geta veitt honum mótstöðu, og þrefaldan þráð er eigi auðvelt að slíta.

13 Betri er fátækur unglingur, sé hann vitur, heldur en gamall konungur, sé hann heimskur og þýðist eigi framar viðvaranir.

14 Því að hann gekk út úr dýflissunni og varð konungur, þótt hann hefði fæðst snauður í ríki annars.

15 Ég sá alla lifandi menn, þá er gengu undir sólinni, vera á bandi unglingsins, hins annars, þess er koma átti í hins stað.

16 Enginn endir var á öllu því fólki, á öllum þeim, er hann var fyrir. Þó glöddust eftirkomendurnir ekki yfir honum. Því að einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.

17 Haf gát á fæti þínum þegar þú gengur í Guðs hús, því að það er betra að koma þangað til þess að heyra, heldur en að heimskingjar færi sláturfórn; því að þeir vita ekkert og gjöra það sem illt er.