Add parallel Print Page Options

35 Síðan hélt Jósía Drottni páska í Jerúsalem, og var páskalambinu slátrað hinn fjórtánda fyrsta mánaðar.

Þá setti hann prestana til starfa þeirra og taldi hug í þá til þjónustu við musteri Drottins.

En við levítana, er fræddu allan Ísrael og helgaðir voru Drottni, sagði hann: "Setjið örkina helgu í musterið, það er Salómon, sonur Davíðs, Ísraelskonungur, lét reisa. Þér þurfið eigi framar að bera hana á öxlunum. Þjónið nú Drottni Guði yðar og lýð hans Ísrael.

Verið þá reiðubúnir eftir ættum yðar í flokkum yðar, samkvæmt reglugjörð Davíðs Ísraelskonungs og samkvæmt konungsbréfi Salómons sonar hans.

Skipið yður í helgidóminn eftir ættflokkum frænda yðar, leikmannanna, og fyrir hvern flokk skal vera ein sveit af levítaættum.

Slátrið síðan páskalambinu og helgið yður og tilreiðið það fyrir frændur yðar, svo að þér breytið samkvæmt boði Drottins fyrir Móse."

Jósía fékk leikmönnunum sauði og lömb og kið, allt til páskafórnar fyrir alla, er þar voru, þrjátíu þúsund að tölu, og þrjú þúsund naut. Voru þau úr eign konungs.

En höfuðsmenn hans færðu sjálfviljagjafir handa lýðnum og prestunum og levítunum. Hilkía, Sakaría og Jehíel, höfuðsmenn yfir musteri Guðs, gáfu prestunum í páskafórn tvö þúsund og sex hundruð lömb og þrjú hundruð naut.

En Kananja og Semaja og Netaneel, bræður hans, svo og Hasabja, Jeíel og Jósabad, höfðingjar levíta, gáfu levítum til páskafórnar fimm þúsund lömb og fimm hundruð naut.

10 Var svo þjónustunni fyrir komið, og gengu prestarnir á sinn stað, svo og levítar eftir flokkum sínum samkvæmt boði konungs.

11 Var síðan páskalambinu slátrað, og stökktu prestarnir blóðinu úr hendi sinni, en levítarnir flógu.

12 Og þeir tóku brennifórnina frá til þess að fá hana ættflokkum leikmannanna, til þess að þeir skyldu færa hana Drottni, svo sem fyrir er mælt í Mósebók, og svo gjörðu þeir og við nautin.

13 Síðan steiktu þeir páskalambið við eld, svo sem lög stóðu til, suðu helgigjafirnar í pottum og kötlum og skálum, og færðu tafarlaust hverjum leikmanni.

14 En síðan matreiddu þeir handa sér og prestunum, því að prestarnir, niðjar Arons, voru að færa brennifórnir og feit stykki fram á nótt, og matreiddu levítarnir því handa sér og prestunum, niðjum Arons.

15 Og söngvararnir, niðjar Asafs, voru á sínum stað eftir boði Davíðs, Asafs, Hemans og Jedútúns, sjáanda konungs, og hliðverðir voru við hvert hlið. Þurftu þeir eigi að fara frá starfi sínu, því að frændur þeirra, levítarnir, matbjuggu fyrir þá.

16 Var þannig allri þjónustu Drottins komið fyrir þann dag, er menn héldu páska og færðu brennifórnir á altari Drottins, að boði Jósía konungs.

17 Þannig héldu Ísraelsmenn, þeir er viðstaddir voru, páska í þann tíma, svo og hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga.

18 En engir slíkir páskar höfðu haldnir verið í Ísrael frá því á dögum Samúels spámanns, og engir af Ísraelskonungum höfðu haldið páska, svo sem Jósía konungur gjörði og prestarnir og levítarnir og allir Júda- og Ísraelsmenn, þeir er viðstaddir voru, og Jerúsalembúar.

19 Á átjánda ríkisári Jósía voru páskar þessir haldnir.

20 Eftir allt þetta, er Jósía hafði komið musterinu aftur í lag, fór Nekó Egyptalandskonungur herför til þess að heyja orustu hjá Karkemis við Efrat. Þá fór Jósía út í móti honum.

21 En hann gjörði menn á fund hans og lét segja honum: "Hvað þurfum við að eigast við, Júdakonungur? Nú kem ég eigi í móti þér, heldur í móti mínum forna fjanda, og Guð hefir boðið mér að flýta mér. Freista þú eigi fangs við guðinn, sem með mér er, svo að hann tortími þér ekki."

22 En Jósía vildi eigi hörfa undan honum, heldur klæddist dularbúningi til þess að berjast við hann, og hlýddi eigi á orð Nekós, er þó voru af Guðs munni, og fór til bardaga á Megiddóvöllum.

23 En bogmennirnir skutu á Jósía konung. Þá mælti konungur við þjóna sína: "Komið mér burt héðan, því að ég er sár mjög."

24 Tóku þá þjónar hans hann af vagninum og óku honum á næsta vagni hans, og er þeir komu með hann til Jerúsalem, þá dó hann og var grafinn í gröfum feðra sinna. Allir Júdamenn og Jerúsalembúar hörmuðu Jósía,

25 og Jeremía orti harmljóð eftir Jósía, og allir söngmenn og söngkonur hafa talað um Jósía í harmljóðum sínum fram á þennan dag. Og menn gjörðu þau að ákvæði fyrir Ísrael, og eru þau rituð í harmljóðunum.

26 Það sem meira er að segja um Jósía og góðverk hans, er voru samkvæm því, sem ritað er í lögmáli Drottins,

27 svo og saga hans frá upphafi til enda, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga.

36 Landslýðurinn tók Jóahas Jósíason og gjörði hann að konungi í Jerúsalem eftir föður hans.

Jóahas var tuttugu og þriggja ára að aldri, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði ríkti hann í Jerúsalem.

En Egyptalandskonungur rak hann frá ríki, til þess að hann skyldi eigi framar ríkja í Jerúsalem, og lagði skattgjald á landið, hundrað talentur silfurs og tíu talentur gulls.

Og Egyptalandskonungur gjörði Eljakím bróður hans að konungi yfir Júda og Jerúsalem, og breytti nafni hans í Jójakím. En Jóahas bróður hans tók Nekó og flutti til Egyptalands.

Jójakím var tuttugu og fimm ára að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, Guðs síns.

Gegn honum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför og batt hann eirfjötrum til þess að flytja hann til Babýlon.

Af áhöldum musteris Drottins flutti Nebúkadnesar og nokkuð til Babýlon og lét þau í höll sína í Babýlon.

En það sem meira er að segja um Jójakím og svívirðingar hans, er hann aðhafðist, og annað illt, er fannst í fari hans, það er ritað í bók Ísraels- og Júdakonunga. Og Jójakín sonur hans tók ríki eftir hann.

Jójakín var átta vetra gamall, þá er hann varð konungur, og þrjá mánuði og tíu daga ríkti hann í Jerúsalem. Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins.

10 En að ári liðnu sendi Nebúkadnesar konungur og lét flytja hann til Babýlon, ásamt verðmætum áhöldum úr musteri Drottins, en gjörði Sedekía bróður hans að konungi yfir Júda og Jerúsalem.

11 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem.

12 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, Guðs síns, hann auðmýkti sig eigi fyrir Jeremía spámanni, er talaði í nafni Drottins.

13 Sedekía rauf þá trúnaðareiða, er Nebúkadnesar konungur hafði látið hann vinna sér við Guð. En hann þverskallaðist og herti hjarta sitt, svo að hann sneri sér eigi til Drottins, Guðs Ísraels.

14 Þá sýndu og allir höfðingjar prestanna og lýðsins mikla ótrúmennsku með því að drýgja allar sömu svívirðingarnar og heiðingjarnir, og saurguðu svo musteri Drottins, það er hann hafði helgað í Jerúsalem.

15 Og Drottinn, Guð feðra þeirra, sendi þeim stöðugt áminningar fyrir sendiboða sína, því að hann vildi þyrma lýð sínum og bústað sínum.

16 En þeir smánuðu sendiboða Guðs, fyrirlitu orð hans og gjörðu gys að spámönnum hans, uns reiði Drottins við lýð hans var orðin svo mikil, að eigi mátti við gjöra.

17 Hann lét Kaldeakonung fara herför gegn þeim, og drap hann æskumenn þeirra með sverði í helgidómi þeirra. Þyrmdi hann hvorki æskumönnum né ungmeyjum, öldruðum né örvasa _ allt gaf Guð honum á vald.

18 Og öll áhöld Guðs húss, stór og smá, svo og fjársjóðu Drottins húss og fjársjóðu konungs og höfðingja hans _ allt flutti hann til Babýlon.

19 Þeir brenndu musteri Guðs, rifu niður Jerúsalem-múra, lögðu eld í allar hallir í henni, svo að allt verðmætt í henni týndist.

20 Og þá sem komist höfðu undan sverðinu, herleiddi hann til Babýloníu, og urðu þeir þjónar hans og sona hans, uns Persaríki náði yfirráðum,

21 til þess að rætast skyldi orð Drottins fyrir munn Jeremía: "Þar til er landið hefir fengið hvíldarár sín bætt upp, alla þá stund, sem það var í eyði, naut það hvíldar, uns sjötíu ár voru liðin."

22 En á fyrsta ríkisári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn Kýrusi Persakonungi því í brjóst _ til þess að orð Drottins fyrir munn Jeremía rættust _, að láta boð út ganga um allt ríki sitt, og það í konungsbréfi, svolátandi boðskap: