Add parallel Print Page Options

22 Og Davíð mælti: "Þetta sé hús Drottins Guðs, og þetta sé altari fyrir brennifórnir Ísraels."

Og Davíð bauð að stefna saman útlendingum þeim, er voru í Ísraelslandi, og hann setti steinhöggvara til þess að höggva til steina, til þess að reisa af musteri Guðs.

Davíð dró og að afar mikið af járni í nagla á hliðhurðirnar og í spengurnar, og svo mikið af eiri, að eigi varð vegið,

og sedrustré, svo að eigi varð tölu á komið, því að Sídoningar og Týrverjar færðu Davíð afar mikið af sedrustrjám.

Davíð hugsaði með sér: "Salómon sonur minn er ungur og óþroskaður, en musterið, er Drottni á að reisa, á að vera afar stórt, til frægðar og prýði um öll lönd. Ég ætla því að viða að til þess." Og Davíð viðaði afar miklu að fyrir andlát sitt.

Síðan kallaði hann Salómon son sinn, og fól honum að reisa musteri Drottni, Guði Ísraels.

Og Davíð mælti við Salómon: "Sonur minn! Ég hafði í hyggju að reisa musteri nafni Drottins, Guðs míns.

En orð Drottins kom til mín, svolátandi: Þú hefir úthellt miklu blóði og háð miklar orustur. Þú skalt eigi reisa musteri nafni mínu, því að miklu blóði hefir þú hellt til jarðar fyrir augliti mínu.

En þér mun sonur fæðast. Hann mun verða kyrrlátur maður, og ég mun veita honum ró fyrir öllum fjandmönnum hans allt um kring, því að Salómon skal hann heita, og ég mun veita frið og kyrrð í Ísrael um hans daga.

10 Hann skal reisa musteri nafni mínu, hann skal vera mér sonur og ég honum faðir, og ég mun staðfesta konungsstól hans yfir Ísrael að eilífu.

11 Drottinn sé nú með þér, sonur minn, svo að þú verðir auðnumaður og reisir musteri Drottins, Guðs þíns, eins og hann hefir um þig heitið.

12 Veiti Drottinn þér aðeins hyggindi og skilning og skipi þig yfir Ísrael, og að þú megir varðveita lögmál Drottins, Guðs þíns.

13 Þá munt þú auðnumaður verða, ef þú varðveitir setninga þá og boðorð og breytir eftir þeim, er Drottinn lagði fyrir Móse um Ísrael. Ver þú hughraustur og öruggur! Óttast ekki og ver hvergi hræddur.

14 Sjá, þrátt fyrir þrautir mínar hefi ég dregið að til musteris Drottins hundrað þúsund talentur gulls, milljón talentur silfurs, og svo mikið af eiri og járni, að eigi verður vegið, því að afar mikið er af því. Viða og steina hefi ég einnig aflað, og mátt þú þar enn við auka.

15 Með þér er og margt starfsmanna, steinhöggvarar, steinsmiðir og trésmiðir og alls konar hagleiksmenn til alls konar smíða

16 af gulli, silfri, eiri og járni, er eigi verður tölu á komið. Upp nú, og tak til starfa og Drottinn sé með þér."

17 Og Davíð bauð öllum höfðingjum Ísraels að liðsinna Salómon syni sínum og mælti:

18 "Drottinn Guð yðar er með yður og hefir veitt yður frið allt um kring, því að hann hefir selt frumbyggja landsins mér á vald, og landið er undirokað fyrir augliti Drottins og fyrir augliti lýðs hans.

19 Beinið þá hjörtum yðar og hug yðar að því að leita Drottins, Guðs yðar. Takið yður til og reisið helgidóm Drottins Guðs, svo að þér getið flutt sáttmálsörk Drottins og hin helgu áhöld Guðs í musterið, er reisa á nafni Drottins."

23 Þá er Davíð var gamall orðinn og saddur lífdaga, gjörði hann Salómon son sinn að konungi yfir Ísrael.

Og hann stefndi saman öllum höfðingjum Ísraels, prestunum og levítunum.

Levítarnir voru taldir, þrítugir og þaðan af eldri, og höfðatala þeirra var þrjátíu og átta þúsund karlmenn.

"Af þeim skulu tuttugu og fjögur þúsund vera fyrir verkum við hús Drottins, sex þúsund skulu vera embættismenn og dómarar,

fjögur þúsund hliðverðir, og fjögur þúsund skulu lofa Drottin með áhöldum þeim, er ég hefi látið gjöra til þess að vegsama með," sagði Davíð.

Davíð skipti þeim í flokka eftir þeim Gerson, Kahat og Merarí, Levísonum.

Til Gersonsniðja töldust Laedan og Símeí.

Synir Laedans voru: Jehíel, er var fyrir þeim, Setam og Jóel, þrír alls.

Synir Símeí voru: Selómít, Hasíel og Haran, þrír alls. Voru þeir ætthöfðingjar Laedansættar.

10 Og synir Símeí: Jahat, Sína, Jeús og Bería. Þessir voru synir Símeí, fjórir alls.

11 Var Jahat fyrir þeim, þá Sína, en Jeús og Bería áttu eigi margt barna, svo að þeir töldust ein ætt, einn flokkur.

12 Synir Kahats: Amram, Jísehar, Hebron og Ússíel, fjórir alls.

13 Synir Amrams: Aron og Móse. En Aron var greindur frá hinum, til þess að hann skyldi verða vígður sem háheilagur ásamt sonum sínum, um aldur og ævi, til þess að þeir skyldu brenna reykelsi frammi fyrir Drottni, þjóna honum og lofa nafn hans um aldur og ævi.

14 Og að því er snertir guðsmanninn Móse, þá voru synir hans taldir til Levíkynkvíslar.

15 Synir Móse voru Gersóm og Elíeser.

16 Sonur Gersóms: Sebúel höfðingi.

17 En sonur Elíesers var Rehabja höfðingi. Aðra sonu átti Elíeser eigi, en synir Rehabja voru afar margir.

18 Sonur Jísehars: Selómít höfðingi.

19 Synir Hebrons: Jería höfðingi, annar Amarja, þriðji Jehasíel, fjórði Jekameam.

20 Synir Ússíels: Míka höfðingi, annar Jissía.

21 Synir Merarí: Mahlí og Músí. Synir Mahlí: Eleasar og Kís.

22 En Eleasar dó svo, að hann átti enga sonu, heldur dætur einar, og tóku þeir Kíssynir, frændur þeirra, þær sér að konum.

23 Synir Músí voru: Mahlí, Eder og Jeremót, þrír alls.

24 Þessir eru þeir Levíniðjar eftir ættum þeirra, ætthöfðingjar þeir, er taldir voru af þeim, eftir nafnatölu og höfða, er höfðu það starf á hendi að þjóna í musteri Drottins, tvítugir og þaðan af eldri.

25 Davíð mælti: "Drottinn, Guð Ísraels, hefir veitt lýð sínum hvíld, og býr nú að eilífu í Jerúsalem.

26 Levítarnir þurfa því ekki lengur að bera búðina og öll þau áhöld, er að starfi hennar lúta." (

27 Því að eftir síðustu fyrirmælum Davíðs voru levítar taldir, tvítugir og þaðan af eldri).

28 Embætti þeirra er að aðstoða Aronsniðja, gegna þjónustu við musteri Drottins, hafa umsjón með forgörðunum og klefunum og ræstingu á öllum hinum helgu munum, og gegna störfunum við hús Guðs,

29 annast um raðsettu brauðin, hveitimjölið í matfórnirnar, hin ósýrðu flatbrauð, pönnuna og hið samanhrærða, og hvers konar mæli og stiku,

30 og að koma fram á hverjum morgni til þess að lofa og vegsama Drottin, og eins á kveldin,

31 og að færa Drottni hverja brennifórn á hvíldardögum, tunglkomudögum og löghátíðum, allar þær, sem ákveðið er að stöðugt skuli færa Drottni.

32 Hafa þeir störf á hendi við samfundatjaldið og störf við helgidóminn og störf hjá Aronsniðjum, frændum sínum, við þjónustuna í musteri Drottins.

24 Aronsniðjar höfðu og flokkaskipun fyrir sig. Synir Arons voru: Nadab, Abíhú, Eleasar og Ítamar.

En Nadab og Abíhú dóu á undan föður sínum og áttu eigi sonu, og urðu svo þeir Eleasar og Ítamar prestar.

Og þeir Davíð og Sadók af Eleasarsniðjum og Ahímelek af Ítamarsniðjum skiptu þeim niður í starfsflokka eftir embættum þeirra.

En það kom í ljós, að af Eleasarsniðjum voru fleiri höfðingjar en af Ítamarsniðjum. Fyrir því skiptu menn þeim svo, að af Eleasarsniðjum urðu sextán ætthöfðingjar, en átta af Ítamarsniðjum.

Og hvorum tveggja skiptu menn eftir hlutkesti, því að helgidómshöfðingjar og Guðs höfðingjar voru af niðjum Eleasars og af niðjum Ítamars.

Og Semaja Netaneelsson ritari, einn af levítum, skráði þá í viðurvist konungs og höfðingjanna og Sadóks prests og Ahímeleks Abjatarssonar og ætthöfðingja prestanna og levítanna. Var ein ætt tekin frá af Eleasar og ein af Ítamar.

Fyrsti hluturinn féll á Jójaríb, annar á Jedaja,

þriðji á Harím, fjórði á Seórím,

fimmti á Malkía, sjötti á Mijamín,

10 sjöundi á Hakkos, áttundi á Abía,

11 níundi á Jesúa, tíundi á Sekanja,

12 ellefti á Eljasíb, tólfti á Jakím,

13 þrettándi á Húppa, fjórtándi á Jesebeab,

14 fimmtándi á Bilga, sextándi á Immer,

15 seytjándi á Hesír, átjándi á Happísses,

16 nítjándi á Pelashja, tuttugasti á Jeheskel,

17 tuttugasti og fyrsti á Jakín, tuttugasti og annar á Gamúl,

18 tuttugasti og þriðji á Delaja, tuttugasti og fjórði á Maasja.

19 Er það starfskvöð þeirra að fara inn í musteri Drottins, eftir þeim reglum, er Aron forfaðir þeirra hafði sett, samkvæmt því, er Drottinn, Guð Ísraels, hafði boðið honum.

20 En að því er snertir aðra niðja Leví, þá voru af Amramsniðjum Súbael, af Súbaelsniðjum Jehdeja,

21 af Rehabja, af Rehabjaniðjum Jissía höfðingi,

22 af Jíseharítum Selómót, af Selómótsniðjum Jahat,

23 en af niðjum Hebrons: Jería höfðingi, annar Amarja, þriðji Jehasíel, fjórði Jekameam.

24 Niðjar Ússíels voru: Míka, af niðjum Míka var Samír.

25 Bróðir Míka var Jissía, af niðjum Jissía var Sakaría.

26 Niðjar Merarí voru Mahlí og Músí og niðjar Jaasía, sonar hans.

27 Niðjar Merarí frá Jaasía syni hans voru: Sóham, Sakkúr og Íbrí.

28 Frá Mahlí var Eleasar kominn. Hann átti eigi sonu.

29 Frá Kís: Synir Kís: Jerahmeel.

30 Niðjar Músí voru: Mahlí, Eder og Jerímót. Þessir voru niðjar levíta eftir ættum þeirra.

31 Þeir vörpuðu og hlutkesti, eins og frændur þeirra, Aronsniðjar, í viðurvist Davíðs konungs og Sadóks og Ahímeleks og ætthöfðingja prestanna og levítanna, ætthöfðingjarnir eins og yngri frændur þeirra.

28 Því sagði Jesús: "Þegar þér hefjið upp Mannssoninn, munuð þér skilja, að ég er sá sem ég er, og að ég gjöri ekkert af sjálfum mér, heldur tala ég það eitt, sem faðirinn hefur kennt mér.

29 Og sá sem sendi mig, er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan, því ég gjöri ætíð það sem honum þóknast."

30 Þegar hann mælti þetta, fóru margir að trúa á hann.

31 Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: "Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir

32 og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa."

33 Þeir svöruðu honum: "Vér erum niðjar Abrahams og höfum aldrei verið nokkurs manns þrælar. Hvernig getur þú þá sagt: ,Þér munuð verða frjálsir`?"

34 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Hver sem syndina drýgir, er þræll syndarinnar.

35 En þrællinn dvelst ekki um aldur í húsinu, sonurinn dvelst þar um aldur og ævi.

36 Ef sonurinn gjörir yður frjálsa, munuð þér sannarlega verða frjálsir.

37 Ég veit, að þér eruð niðjar Abrahams. Þó leitist þér við að lífláta mig, því að orð mitt fær ekki rúm hjá yður.

38 Ég tala það, sem ég hef séð hjá föður mínum, og þér gjörið það, sem þér hafið heyrt hjá föður yðar."

39 Þeir svöruðu honum: "Faðir vor er Abraham." Jesús segir við þá: "Ef þér væruð börn Abrahams, munduð þér vinna verk Abrahams.

40 En nú leitist þér við að lífláta mig, mann sem hefur sagt yður sannleikann, sem ég heyrði hjá Guði. Slíkt gjörði Abraham aldrei.

41 Þér vinnið verk föður yðar." Þeir sögðu við hann: "Vér erum ekki hórgetnir. Einn föður eigum vér, Guð."

42 Jesús svaraði: "Ef Guð væri faðir yðar, munduð þér elska mig, því frá Guði er ég út genginn og kominn. Ekki er ég sendur af sjálfum mér. Það er hann, sem sendi mig.

43 Hví skiljið þér ekki mál mitt? Af því að þér getið ekki hlustað á orð mitt.

44 Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.

45 En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki.

46 Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki?

47 Sá sem er af Guði, heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki, vegna þess að þér eruð ekki af Guði."

48 Gyðingar svöruðu honum: "Er það ekki rétt, sem vér segjum, að þú sért Samverji og hafir illan anda?"

49 Jesús ansaði: "Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn, en þér smánið mig.

50 Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til, sem leitar hans og dæmir.

51 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð, skal aldrei að eilífu deyja."

52 Þá sögðu Gyðingar við hann: "Nú vitum vér, að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir, og þú segir, að sá sem varðveitir orð þitt, skuli aldrei að eilífu deyja.

53 Ert þú meiri en faðir vor, Abraham? Hann dó, og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?"

54 Jesús svaraði: "Ef ég vegsama sjálfan mig, er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá, sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar.

55 Og þér þekkið hann ekki, en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann, væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans.

56 Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn, og hann sá hann og gladdist."

57 Nú sögðu Gyðingar við hann: "Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur, og hefur séð Abraham!"

58 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist, er ég."

59 Þá tóku þeir upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og fór út úr helgidóminum.

Read full chapter