Add parallel Print Page Options

Nú er því engin fordæming fyrir þá, sem tilheyra Kristi Jesú.

Lögmál lífsins anda hefur í Kristi Jesú frelsað þig frá lögmáli syndarinnar og dauðans.

Það sem lögmálinu var ógerlegt, að því leyti sem það mátti sín einskis fyrir holdinu, það gjörði Guð. Með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni, dæmdi Guð syndina í manninum.

Þannig varð réttlætiskröfu lögmálsins fullnægt hjá oss, sem lifum ekki eftir holdi, heldur eftir anda.

Því að þeir sem láta stjórnast af holdinu, hyggja á það sem holdsins er, en þeir, sem láta stjórnast af andanum, hyggja á það sem andans er.

Hyggja holdsins er dauði, en hyggja andans líf og friður.

Hyggja holdsins er fjandskapur gegn Guði, með því að hún lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki.

Þeir, sem eru holdsins menn, geta ekki þóknast Guði.

En þér eruð ekki holdsins menn, heldur andans menn, þar sem andi Guðs býr í yður. En hafi einhver ekki anda Krists, þá er sá ekki hans.

10 Ef Kristur er í yður, þá er líkaminn að sönnu dauður vegna syndarinnar, en andinn veitir líf vegna réttlætisins.

11 Ef andi hans, sem vakti Jesú frá dauðum, býr í yður, þá mun hann, sem vakti Krist frá dauðum, einnig gjöra dauðlega líkami yðar lifandi með anda sínum, sem í yður býr.

12 Þannig erum vér, bræður, í skuld, ekki við holdið að lifa að hætti holdsins.

13 Því að ef þér lifið að hætti holdsins, munuð þér deyja, en ef þér deyðið með andanum gjörðir líkamans, munuð þér lifa.

14 Því að allir þeir, sem leiðast af anda Guðs, þeir eru Guðs börn.

15 En þér hafið ekki fengið anda, sem gjörir yður að þrælum að lifa aftur í hræðslu, heldur hafið þér fengið anda, sem gefur yður barnarétt. Í þeim anda köllum vér: "Abba, faðir!"

16 Sjálfur andinn vitnar með vorum anda, að vér erum Guðs börn.

17 En ef vér erum börn, þá erum vér líka erfingjar, og það erfingjar Guðs, en samarfar Krists, því að vér líðum með honum, til þess að vér einnig verðum vegsamlegir með honum.

18 Ég lít svo á, að ekki séu þjáningar þessa tíma neitt í samanburði við þá dýrð, sem á oss mun opinberast.

19 Því að sköpunin þráir, að Guðs börn verði opinber.

20 Sköpunin var undirorpin fallvaltleikanum, ekki sjálfviljug, heldur vegna hans, sem varp henni undir hann,

21 í von um að jafnvel sjálf sköpunin muni verða leyst úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis Guðs barna.

22 Vér vitum, að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa.

23 En ekki einungis hún, heldur og vér, sem höfum frumgróða andans, jafnvel vér stynjum með sjálfum oss meðan vér bíðum þess, að Guð gefi oss barnarétt og endurleysi líkami vora.

24 Því að í voninni erum vér hólpnir orðnir. Von, er sést, er ekki von, því að hver vonar það, sem hann sér?

25 En ef vér vonum það, sem vér sjáum ekki, þá bíðum vér þess með þolinmæði.

26 Þannig hjálpar og andinn oss í veikleika vorum. Vér vitum ekki, hvers vér eigum að biðja eins og ber, en sjálfur andinn biður fyrir oss með andvörpum, sem ekki verður orðum að komið.

27 En hann, sem hjörtun rannsakar, veit hver er hyggja andans, að hann biður fyrir heilögum eftir vilja Guðs.

28 Vér vitum, að þeim, sem Guð elska, samverkar allt til góðs, þeim sem kallaðir eru samkvæmt ákvörðun Guðs.

29 Því að þá, sem hann þekkti fyrirfram, hefur hann og fyrirhugað til þess að líkjast mynd sonar síns, svo að hann sé frumburður meðal margra bræðra.

30 Þá sem hann fyrirhugaði, þá hefur hann og kallað, og þá sem hann kallaði, hefur hann og réttlætt, en þá sem hann réttlætti, hefur hann einnig vegsamlega gjört.

31 Hvað eigum vér þá að segja við þessu? Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?

32 Hann sem þyrmdi ekki sínum eigin syni, heldur framseldi hann fyrir oss alla, hví skyldi hann ekki líka gefa oss allt með honum?

33 Hver skyldi ásaka Guðs útvöldu? Guð sýknar.

34 Hver sakfellir? Kristur Jesús er sá, sem dáinn er. Og meira en það: Hann er upprisinn, hann er við hægri hönd Guðs og hann biður fyrir oss.

35 Hver mun gjöra oss viðskila við kærleika Krists? Mun þjáning geta það eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?

36 Það er eins og ritað er: Þín vegna erum vér deyddir allan daginn, erum metnir sem sláturfé.

37 Nei, í öllu þessu vinnum vér fullan sigur fyrir fulltingi hans, sem elskaði oss.

38 Því að ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar,

39 hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.

Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki. Samviska mín vitnar það með mér, upplýst af heilögum anda,

að ég hef hryggð mikla og sífellda kvöl í hjarta mínu.

Ég gæti óskað, að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi, ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn,

Ísraelsmenn. Þeir fengu sonarréttinn, dýrðina, sáttmálana, löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin.

Þeim tilheyra og feðurnir, og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður um aldir. Amen.

Það er ekki svo sem Guðs orð hafi brugðist. Því að ekki eru allir þeir Ísraelsmenn, sem af Ísrael eru komnir.

Ekki eru heldur allir börn Abrahams, þótt þeir séu niðjar hans, heldur: "Afkomendur Ísaks munu taldir verða niðjar þínir."

Það merkir: Ekki eru líkamlegir afkomendur hans Guðs börn, heldur teljast fyrirheitsbörnin sannir niðjar.

Því að þetta orð er fyrirheit: "Í þetta mund mun ég aftur koma, og þá skal Sara hafa son alið."

10 Og ekki nóg með það. Því var líka svo farið með Rebekku. Hún var þunguð að tveim sveinum af eins manns völdum, Ísaks föður vors.

11 Nú, til þess að það stæði stöðugt, að ákvörðun Guðs um útvalningu væri óháð verkunum og öll komin undir vilja þess, er kallar,

12 þá var henni sagt, áður en sveinarnir voru fæddir og áður en þeir höfðu aðhafst gott eða illt: "Hinn eldri skal þjóna hinum yngri."

13 Eins og ritað er: "Jakob elskaði ég, en Esaú hataði ég."

14 Hvað eigum vér þá að segja? Er Guð óréttvís? Fjarri fer því.

15 Því hann segir við Móse: "Ég mun miskunna þeim, sem ég vil miskunna, og líkna þeim, sem ég vil líkna."

16 Það er því ekki komið undir vilja mannsins né áreynslu, heldur Guði, sem miskunnar.

17 Því er í Ritningunni sagt við Faraó: "Einmitt til þess hóf ég þig, að ég fengi sýnt mátt minn á þér og nafn mitt yrði boðað um alla jörðina."

18 Svo miskunnar hann þá þeim, sem hann vill, en forherðir þann, sem hann vill.

19 Þú munt nú vilja segja við mig: "Hvað er hann þá að ásaka oss framar? Hver fær staðið gegn vilja hans?"

20 Hver ert þú, maður, að þú skulir deila á Guð? Hvort mundi smíðisgripurinn segja við smiðinn: "Hví gjörðir þú mig svona?"

21 Eða hefur ekki leirkerasmiðurinn leirinn á valdi sínu, svo að hann megi gjöra úr sama deiginu ker til sæmdar og annað til vansæmdar?

22 En ef nú Guð, sem vildi sýna reiði sína og auglýsa mátt sinn, hefur með miklu langlyndi umborið ker reiðinnar, sem búin eru til glötunar,

23 og ef hann hefur gjört það til þess að auglýsa ríkdóm dýrðar sinnar á kerum miskunnarinnar, sem hann hafði fyrirfram búið til dýrðar?

24 Slík ker erum vér, sem hann hefur kallað, ekki aðeins úr flokki Gyðinga, heldur og úr flokki heiðingja.

25 Eins og hann líka segir hjá Hósea: Lýð, sem ekki var minn, mun ég kalla minn, og þá elskaða, sem ekki var elskuð,

26 og á þeim stað, þar sem við þá var sagt: þér eruð ekki minn lýður, þar munu þeir verða kallaðir synir Guðs lifanda.

27 En Jesaja hrópar yfir Ísrael: "Þótt tala Ísraels sona væri eins og sandur sjávarins, þá skulu leifar einar frelsaðar verða.

28 Drottinn mun gjöra upp reikning sinn á jörðunni, binda enda á hann og ljúka við hann í skyndi,"

29 og eins hefur Jesaja sagt: "Ef Drottinn hersveitanna hefði ekki látið oss eftir niðja, værum vér orðnir eins og Sódóma, vér værum líkir Gómorru."

30 Hvað eigum vér þá að segja? Heiðingjarnir, sem ekki sóttust eftir réttlæti, hafa öðlast réttlæti, _ réttlæti, sem er af trú.

31 En Ísrael, sem vildi halda lögmál er veitt gæti réttlæti, náði því ekki.

32 Hvers vegna? Af því að þeir ætluðu sér að réttlætast með verkum, ekki af trú. Þeir hnutu um ásteytingarsteininn,

33 eins og ritað er: Sjá ég set í Síon ásteytingarstein og hrösunarhellu. Sérhver, sem á hann trúir, mun ekki verða til skammar.

10 Bræður, það er hjartans ósk mín og bæn til Guðs, að þeir megi hólpnir verða.

Það ber ég þeim, að þeir eru kappsfullir Guðs vegna, en ekki með réttum skilningi.

Með því þeir þekkja ekki réttlæti Guðs og leitast við að koma til vegar eigin réttlæti, hafa þeir ekki gefið sig undir réttlæti Guðs.

En Kristur er endalok lögmálsins, svo að nú réttlætist sérhver sá, sem trúir.

Því að Móse ritar um réttlætið, sem lögmálið veitir: "Sá maður, sem breytir eftir lögmálinu, mun lifa fyrir það."

En réttlætið af trúnni mælir þannig: "Seg þú ekki í hjarta þínu: Hver mun fara upp í himininn?" _ það er: til að sækja Krist ofan, _

eða: "Hver mun stíga niður í undirdjúpið?" _ það er: til að sækja Krist upp frá dauðum.

Hvað segir það svo? "Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu." Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum.

Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn _ og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða.

10 Með hjartanu er trúað til réttlætis, en með munninum játað til hjálpræðis.

11 Ritningin segir: "Hver sem trúir á hann, mun ekki til skammar verða."

12 Ekki er munur á Gyðingi og grískum manni, því að hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla þá sem ákalla hann;

13 því að "hver sem ákallar nafn Drottins, mun hólpinn verða."

14 En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki?

15 Og hver getur prédikað, nema hann sé sendur? Svo er og ritað: "Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu."

16 En þeir hlýddu ekki allir fagnaðarerindinu. Jesaja segir: "Drottinn, hver trúði því, sem vér boðuðum?"

17 Svo kemur þá trúin af boðuninni, en boðunin byggist á orði Krists.

18 En ég spyr: Hafa þeir ekki heyrt? Jú, vissulega, "raust þeirra hefur borist út um alla jörðina og orð þeirra til endimarka heimsbyggðarinnar."

19 Og ég spyr: Hvort skildi Ísrael það ekki? Fyrst segir Móse: "Vekja vil ég yður til afbrýði gegn þjóð, sem ekki er þjóð, egna vil ég yður til reiði gegn óviturri þjóð."

20 Og Jesaja er svo djarfmáll að segja: "Ég hef látið þá finna mig, sem leituðu mín ekki. Ég er orðinn augljós þeim, sem spurðu ekki að mér."

21 En við Ísrael segir hann: "Allan daginn breiddi ég út hendur mínar móti óhlýðnum og þverbrotnum lýð."