Add parallel Print Page Options

43 Lát mig ná rétti mínum, Guð, berst fyrir málefni mínu gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.

Því að þú ert sá Guð, sem er mér vígi, hví hefir þú útskúfað mér? hví verð ég að ganga um harmandi, kúgaður af óvinum?

Send ljós þitt og trúfesti þína, þau skulu leiða mig, þau skulu fara með mig til fjallsins þíns helga, til bústaðar þíns,

svo að ég megi inn ganga að altari Guðs, til Guðs minnar fagnandi gleði, og lofa þig með gígjuhljómi, ó Guð, þú Guð minn.

Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð, því að enn mun ég fá að lofa hann, hjálpræði auglitis míns og Guð minn.

44 Til söngstjórans. Kóraítamaskíl.

Guð, með eyrum vorum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáð þeirri, er þú drýgðir á dögum þeirra, frá því, er þú gjörðir forðum daga.

Þú stökktir burt þjóðum, en gróðursettir þá, þú lékst lýði harðlega, en útbreiddir þá.

Eigi unnu þeir landið með sverðum sínum, og eigi hjálpaði armleggur þeirra þeim, heldur hægri hönd þín og armleggur þinn og ljós auglitis þíns, því að þú hafðir þóknun á þeim.

Þú einn ert konungur minn, ó Guð, bjóð út hjálp Jakobsætt til handa.

Fyrir þína hjálp rekum vér fjandmenn vora undir, og fyrir þitt nafn troðum vér mótstöðumenn vora fótum.

Ég treysti eigi boga mínum, og sverð mitt veitir mér eigi sigur,

heldur veitir þú oss sigur yfir fjandmönnum vorum og lætur hatursmenn vora verða til skammar.

Af Guði hrósum vér oss ætíð og lofum nafn þitt að eilífu. [Sela]

10 Og þó hefir þú útskúfað oss og látið oss verða til skammar og fer eigi út með hersveitum vorum.

11 Þú lætur oss hörfa undan fjandmönnum, og hatursmenn vorir taka herfang.

12 Þú selur oss fram sem fénað til slátrunar og tvístrar oss meðal þjóðanna.

13 Þú selur lýð þinn fyrir gjafverð, tekur ekkert verð fyrir hann.

14 Þú lætur oss verða til háðungar nágrönnum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.

15 Þú gjörir oss að orðskvið meðal lýðanna, lætur þjóðirnar hrista höfuðið yfir oss.

16 Stöðuglega stendur smán mín mér fyrir sjónum, og skömm hylur auglit mitt,

17 af því ég verð að heyra spott og lastmæli og horfa á óvininn og hinn hefnigjarna.

18 Allt þetta hefir mætt oss, og þó höfum vér eigi gleymt þér og eigi rofið sáttmála þinn.

19 Hjarta vort hefir eigi horfið frá þér né skref vor beygt út af vegi þínum,

20 en samt hefir þú kramið oss sundur á stað sjakalanna og hulið oss niðdimmu.

21 Ef vér hefðum gleymt nafni Guðs vors og fórnað höndum til útlendra guða,

22 mundi Guð eigi verða þess áskynja, hann sem þekkir leyndarmál hjartans?

23 En þín vegna erum vér stöðugt drepnir, erum metnir sem sláturfé.

24 Vakna! Hví sefur þú, Drottinn? Vakna, útskúfa oss eigi um aldur!

25 Hví hylur þú auglit þitt, gleymir eymd vorri og kúgun?

26 Sál vor er beygð í duftið, líkami vor loðir við jörðina.

27 Rís upp, veit oss lið og frelsa oss sakir miskunnar þinnar.

45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.

Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.

Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.

Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.

Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.

Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.

Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.

Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.

Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.

10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.

11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,

12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.

13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."

14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.

15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.

16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.

17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.

18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.

49 Fyrir kvenraddir. Til söngstjórans. Kóraítasálmur.

Heyrið þetta, allar þjóðir, hlustið á, allir heimsbúar,

bæði lágir og háir, jafnt ríkir sem fátækir!

Munnur minn talar speki, og ígrundun hjarta míns er hyggindi.

Ég hneigi eyra mitt að spakmæli, ræð gátu mína við gígjuhljóm.

Hví skyldi ég óttast á mæðudögunum, þá er hinir lævísu óvinir mínir umkringja mig með illsku,

þeir sem reiða sig á auðæfi sín og stæra sig af sínu mikla ríkidæmi.

Enginn maður fær keypt bróður sinn lausan né greitt Guði lausnargjald fyrir hann.

Lausnargjaldið fyrir líf þeirra mundi verða of hátt, svo að hann yrði að hætta við það að fullu,

10 ætti hann að halda áfram að lifa ævinlega og líta ekki í gröfina.

11 Nei, hann sér, að vitrir menn deyja, að fífl og fáráðlingar farast hver með öðrum og láta öðrum eftir auðæfi sín.

12 Grafir verða heimkynni þeirra að eilífu, bústaðir þeirra frá kyni til kyns, jafnvel þótt þeir hafi kennt lendur við nafn sitt.

13 Maðurinn í allri sinni vegsemd stenst ekki, hann verður jafn skepnunum sem farast.

14 Svo fer þeim sem eru þóttafullir, og þeim sem fylgja þeim og hafa þóknun á tali þeirra. [Sela]

15 Þeir stíga niður til Heljar eins og sauðahjörð, dauðinn heldur þeim á beit, og hinir hreinskilnu drottna yfir þeim, þá er morgnar, og mynd þeirra eyðist, Hel verður bústaður þeirra.

16 En mína sál mun Guð endurleysa, því að hann mun hrífa mig úr greipum Heljar. [Sela]

17 Óttast þú ekki, þegar einhver verður ríkur, þegar dýrð húss hans verður mikil,

18 því að hann tekur ekkert af því með sér, þegar hann deyr, auður hans fer ekki niður þangað á eftir honum.

19 Hann telur sig sælan meðan hann lifir: "Menn lofa þig, af því að þér farnast vel."

20 _ Hann verður þó að fara til kynslóðar feðra sinna, sem aldrei að eilífu sjá ljósið.

21 Maðurinn í vegsemd, en hyggindalaus, verður jafn skepnunum sem farast.

84 Til söngstjórans. Á gittít. Kóraíta-sálmur.

Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna.

Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði.

Jafnvel fuglinn hefir fundið hús, og svalan á sér hreiður, þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn!

Sælir eru þeir, sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. [Sela]

Sælir eru þeir menn, sem finna styrk hjá þér, er þeir hugsa til helgigöngu.

Er þeir fara gegnum táradalinn, umbreyta þeir honum í vatnsríka vin, og haustregnið færir honum blessun.

Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.

Drottinn, Guð hersveitanna, heyr bæn mína, hlýð til, þú Jakobs Guð. [Sela]

10 Guð, skjöldur vor, sjá og lít á auglit þíns smurða!

11 Því að einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.

12 Því að Drottinn Guð er sól og skjöldur, náð og vegsemd veitir Drottinn. Hann synjar þeim engra gæða, er ganga í grandvarleik.

13 Drottinn hersveitanna, sæll er sá maður, sem treystir þér.

85 Til söngstjórans. Kóraíta-sálmur.

Þú hefir haft þóknun á landi þínu, Drottinn, snúið við hag Jakobs,

þú hefir fyrirgefið misgjörð lýðs þíns, hulið allar syndir þeirra. [Sela]

Þú hefir dregið að þér alla bræði þína, látið af heiftarreiði þinni.

Snú þér til vor aftur, þú Guð hjálpræðis vors, og lát af gremju þinni í gegn oss.

Ætlar þú að vera oss reiður um eilífð, láta reiði þína haldast við frá kyni til kyns?

Vilt þú eigi láta oss lifna við aftur, svo að lýður þinn megi gleðjast yfir þér?

Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt!

Ég vil hlýða á það sem Guð Drottinn talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra, er snúa hjarta sínu til hans.

10 Já, hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann, og vegsemdir munu búa í landi voru.

11 Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast.

12 Trúfesti sprettur upp úr jörðunni, og réttlæti lítur niður af himni.

13 Þá gefur og Drottinn gæði, og land vort veitir afurðir sínar.

14 Réttlæti fer fyrir honum, og friður fylgir skrefum hans.

87 Kóraíta-sálmur. Ljóð.

Drottinn grundvallaði borg sína á heilögum fjöllum, hann elskar hlið Síonar framar öllum bústöðum Jakobs.

Dýrlega er talað um þig, þú borg Guðs. [Sela]

Ég nefni Egyptaland og Babýlon vegna játenda minna þar, hér er Filistea og Týrus, ásamt Blálandi, einn er fæddur hér, annar þar.

En Síon kallast móðirin, hver þeirra er fæddur í henni, og hann, Hinn hæsti, verndar hana.

Drottinn telur saman í þjóðaskránum, einn er fæddur hér, annar þar. [Sela]

Og menn syngja eins og þeir er stíga dans: "Allar uppsprettur mínar eru í þér."