Add parallel Print Page Options

26 Þegar Jesús hafði lokið öllum þessum orðum, sagði hann við lærisveina sína:

"Þér vitið, að eftir tvo daga eru páskar. Þá verður Mannssonurinn framseldur til krossfestingar."

Æðstu prestarnir og öldungar lýðsins söfnuðust nú saman í höll æðsta prestsins, er Kaífas hét,

og réðu með sér að handsama Jesú með svikum og taka hann af lífi.

En þeir sögðu: "Ekki á hátíðinni, annars verður uppþot með lýðnum."

En Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa.

Kom þá til hans kona og hafði alabastursbuðk með dýrum smyrslum og hellti yfir höfuð honum, þar sem hann sat að borði.

Við þessa sjón urðu lærisveinarnir gramir og sögðu: "Til hvers er þessi sóun?

Þetta hefði mátt selja dýru verði og gefa fátækum."

10 Jesús varð þess vís og sagði við þá: "Hvað eruð þér að angra konuna? Gott verk gjörði hún mér.

11 Fátæka hafið þér jafnan hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.

12 Þegar hún hellti þessum smyrslum yfir líkama minn, var hún að búa mig til greftrunar.

13 Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindi þetta verður flutt, um heim allan, mun þess og getið verða, sem hún gjörði, til minningar um hana."

14 Þá fór einn þeirra tólf, Júdas Ískaríot að nafni, til æðstu prestanna

15 og sagði: "Hvað viljið þér gefa mér fyrir að framselja yður Jesú?" En þeir greiddu honum þrjátíu silfurpeninga.

16 Upp frá þessu leitaði hann færis að framselja hann.

17 Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: "Hvar vilt þú, að vér búum þér páskamáltíðina?"

18 Hann mælti: "Farið til ákveðins manns í borginni, og segið við hann: ,Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum."`

19 Lærisveinarnir gjörðu sem Jesús bauð þeim og bjuggu til páskamáltíðar.

20 Um kvöldið sat hann til borðs með þeim tólf.

21 Og er þeir mötuðust, sagði hann: "Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig."

22 Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: "Ekki er það ég, herra?"

23 Hann svaraði þeim: "Sá sem dýfði hendi í fatið með mér, mun svíkja mig.

24 Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst."

25 En Júdas, sem sveik hann, sagði: "Rabbí, ekki er það ég?" Jesús svaraði: "Þú sagðir það."

26 Þá er þeir mötuðust, tók Jesús brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: "Takið og etið, þetta er líkami minn."

27 Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: "Drekkið allir hér af.

28 Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.

29 Ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags, er ég drekk hann nýjan með yður í ríki föður míns."

30 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins.

31 Þá segir Jesús við þá: "Á þessari nóttu munuð þér allir hneykslast á mér, því að ritað er: ,Ég mun slá hirðinn, og sauðir hjarðarinnar munu tvístrast.`

32 En eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu."

33 Þá segir Pétur: "Þótt allir hneykslist á þér, skal ég aldrei hneykslast."

34 Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Á þessari nóttu, áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér."

35 Pétur svarar: "Þótt ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér." Eins töluðu allir lærisveinarnir.

36 Þá kemur Jesús með þeim til staðar, er heitir Getsemane, og hann segir við lærisveinana: "Setjist hér, meðan ég fer og biðst fyrir þarna."

37 Hann tók með sér þá Pétur og báða sonu Sebedeusar. Og nú setti að honum hryggð og angist.

38 Hann segir við þá: "Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið með mér."

39 Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: "Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt."

40 Hann kemur aftur til lærisveinanna og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: "Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund?

41 Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt."

42 Aftur vék hann brott annað sinn og bað: "Faðir minn, ef eigi verður hjá því komist, að ég drekki þennan kaleik, þá verði þinn vilji."

43 Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra.

44 Þá fór hann enn frá þeim og baðst fyrir þriðja sinn með sömu orðum og fyrr.

45 Og hann kom til lærisveinanna og sagði við þá: "Sofið þér enn og hvílist? Sjá, stundin er komin og Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna.

46 Standið upp, förum! Í nánd er sá, er mig svíkur."

47 Meðan hann var enn að tala, kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum mikill flokkur frá æðstu prestunum og öldungum lýðsins, og höfðu þeir sverð og barefli.

48 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: "Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum."

49 Hann gekk beint að Jesú og sagði: "Heill, rabbí!" og kyssti hann.

50 Jesús sagði við hann: "Vinur, hví ertu hér?" Þá komu hinir, lögðu hendur á Jesú og tóku hann.

51 Einn þeirra, sem með Jesú voru, greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað.

52 Jesús sagði við hann: "Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.

53 Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?

54 Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?"

55 Á þeirri stundu sagði Jesús við flokkinn: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum.

56 En allt verður þetta til þess, að ritningar spámannanna rætist." Þá yfirgáfu hann lærisveinarnir allir og flýðu.

57 Þeir sem tóku Jesú höndum, færðu hann til Kaífasar, æðsta prests, en þar voru saman komnir fræðimennirnir og öldungarnir.

58 Pétur fylgdi honum álengdar, allt að garði æðsta prestsins. Þar gekk hann inn og settist hjá þjónunum til að sjá, hver yrði endir á.

59 Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu ljúgvitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann,

60 en fundu ekkert, þótt margir ljúgvottar kæmu. Loks komu tveir

61 og sögðu: "Þessi maður sagði: ,Ég get brotið niður musteri Guðs og reist það aftur á þrem dögum."`

62 Þá stóð æðsti presturinn upp og sagði: "Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?"

63 En Jesús þagði. Þá sagði æðsti presturinn við hann: "Ég særi þig við lifandi Guð, segðu oss: Ertu Kristur, sonur Guðs?"

64 Jesús svarar honum: "Þú sagðir það. En ég segi yður: Upp frá þessu munuð þér sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himins."

65 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: "Hann guðlastar, hvað þurfum vér nú framar votta við? Þér heyrðuð guðlastið.

66 Hvað líst yður?" Þeir svöruðu: "Hann er dauðasekur."

67 Og þeir hræktu í andlit honum og slógu hann með hnefunum, en aðrir börðu hann með stöfum

68 og sögðu: "Spáðu nú, Kristur, hver var að slá þig?"

69 En Pétur sat úti í garðinum. Þar kom að honum þerna ein og sagði: "Þú varst líka með Jesú frá Galíleu."

70 Því neitaði hann svo allir heyrðu og sagði: "Ekki veit ég, hvað þú ert að fara."

71 Hann gekk út í fordyrið. Þar sá hann önnur þerna og sagði við þá, sem þar voru: "Þessi var með Jesú frá Nasaret."

72 En hann neitaði sem áður og sór þess eið, að hann þekkti ekki þann mann.

73 Litlu síðar komu þeir, er þar stóðu, og sögðu við Pétur: "Víst ertu líka einn af þeim, enda segir málfæri þitt til þín."

74 En hann sór og sárt við lagði, að hann þekkti ekki manninn. Um leið gól hani.

75 Og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt: "Áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér." Og hann gekk út og grét beisklega.

14 Nú voru tveir dagar til páska og hátíðar ósýrðu brauðanna. Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu handsamað Jesú með svikum og tekið hann af lífi.

En þeir sögðu: "Ekki á hátíðinni, þá gæti orðið uppþot með lýðnum."

Hann var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa, og sat að borði. Þá kom þar kona og hafði alabastursbuðk með ómenguðum, dýrum nardussmyrslum. Hún braut buðkinn og hellti yfir höfuð honum.

En þar voru nokkrir, er gramdist þetta, og þeir sögðu sín á milli: "Til hvers er þessi sóun á smyrslum?

Þessi smyrsl hefði mátt selja fyrir meira en þrjú hundruð denara og gefa fátækum." Og þeir atyrtu hana.

En Jesús sagði: "Látið hana í friði! Hvað eruð þér að angra hana? Gott verk gjörði hún mér.

Fátæka hafið þér jafnan hjá yður og getið gjört þeim gott, nær þér viljið, en mig hafið þér ekki ávallt.

Hún gjörði það, sem í hennar valdi stóð. Hún hefur fyrirfram smurt líkama minn til greftrunar.

Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindið verður flutt, um heim allan, mun og getið verða þess, sem hún gjörði, til minningar um hana."

10 Júdas Ískaríot, einn þeirra tólf, fór þá til æðstu prestanna að framselja þeim hann.

11 Þegar þeir heyrðu það, urðu þeir glaðir við og hétu honum fé fyrir. En hann leitaði færis að framselja hann.

12 Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna, þegar menn slátruðu páskalambinu, sögðu lærisveinar hans við hann: "Hvert vilt þú, að vér förum og búum þér páskamáltíðina?"

13 Þá sendi hann tvo lærisveina sína og sagði við þá: "Farið inn í borgina, og ykkur mun mæta maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum,

14 og þar sem hann fer inn, skuluð þið segja við húsráðandann: ,Meistarinn spyr: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?`

15 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum og til reiðu. Hafið þar viðbúnað fyrir oss."

16 Lærisveinarnir fóru, komu inn í borgina og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.

17 Um kvöldið kom hann með þeim tólf.

18 Þegar þeir sátu að borði og mötuðust sagði Jesús: "Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig, einn sem með mér etur."

19 Þeir urðu hryggir við og sögðu við hann, einn af öðrum: "Ekki er það ég?"

20 Hann svaraði þeim: "Það er einn þeirra tólf. Hann dýfir í sama fat og ég.

21 Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst."

22 Þá er þeir mötuðust, tók hann brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf þeim og sagði: "Takið, þetta er líkami minn."

23 Og hann tók kaleik, gjörði þakkir og gaf þeim, og þeir drukku af honum allir.

24 Og hann sagði við þá: "Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga.

25 Sannlega segi ég yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins til þess dags, er ég drekk hann nýjan í Guðs ríki."

26 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins.

27 Og Jesús sagði við þá: "Þér munuð allir hneykslast, því að ritað er: Ég mun slá hirðinn, og sauðirnir munu tvístrast.

28 En eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu."

29 Þá sagði Pétur: "Þótt allir hneykslist, geri ég það aldrei."

30 Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Nú í nótt, áður en hani galar tvisvar, muntu þrisvar afneita mér."

31 En Pétur kvað enn fastar að: "Þó að ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér." Eins töluðu þeir allir.

32 Þeir koma til staðar, er heitir Getsemane, og Jesús segir við lærisveina sína: "Setjist hér, meðan ég biðst fyrir."

33 Hann tók með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes. Og nú setti að honum ógn og angist.

34 Hann segir við þá: "Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið."

35 Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll til jarðar og bað, að sú stund færi fram hjá sér, ef verða mætti.

36 Hann sagði: "Abba, faðir! allt megnar þú. Tak þennan kaleik frá mér! Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt."

37 Hann kemur aftur og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: "Símon, sefur þú? Gastu ekki vakað eina stund?

38 Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt."

39 Aftur vék hann brott og baðst fyrir með sömu orðum.

40 Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra. Og ekki vissu þeir, hvað þeir ættu að segja við hann.

41 Í þriðja sinn kom hann og sagði við þá: "Sofið þér enn og hvílist? Nú er nóg. Stundin er komin. Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna.

42 Standið upp, förum! Sá er í nánd, er mig svíkur."

43 Um leið, meðan hann var enn að tala, kemur Júdas, einn þeirra tólf, og með honum flokkur manna frá æðstu prestunum, fræðimönnunum og öldungunum, og höfðu þeir sverð og barefli.

44 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: "Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum og færið brott í tryggri vörslu."

45 Hann kemur, gengur beint að Jesú og segir: "Rabbí!" og kyssti hann.

46 En hinir lögðu hendur á hann og tóku hann.

47 Einn þeirra, er hjá stóðu, brá sverði, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað.

48 Þá sagði Jesús við þá: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig?

49 Daglega var ég hjá yður í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum. En ritningarnar hljóta að rætast."

50 Þá yfirgáfu hann allir lærisveinar hans og flýðu.

51 En maður nokkur ungur fylgdist með honum. Hann hafði línklæði eitt á berum sér. Þeir vildu taka hann,

52 en hann lét eftir línklæðið og flýði nakinn.

53 Nú færðu þeir Jesú til æðsta prestsins. Þar komu saman allir æðstu prestarnir, öldungarnir og fræðimennirnir.

54 Pétur fylgdi honum álengdar, allt inn í garð æðsta prestsins. Þar sat hann hjá þjónunum og vermdi sig við eldinn.

55 Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu vitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann, en fundu eigi.

56 Margir báru þó ljúgvitni gegn honum, en framburði þeirra bar ekki saman.

57 Þá stóðu nokkrir upp og báru ljúgvitni gegn honum og sögðu:

58 "Vér heyrðum hann segja: ,Ég mun brjóta niður musteri þetta, sem með höndum er gjört, og reisa annað á þrem dögum, sem ekki er með höndum gjört.` "

59 En ekki bar þeim heldur saman um þetta.

60 Þá stóð æðsti presturinn upp og spurði Jesú: "Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?"

61 En hann þagði og svaraði engu. Enn spurði æðsti presturinn hann: "Ertu Kristur, sonur hins blessaða?"

62 Jesús sagði: "Ég er sá, og þér munuð sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma í skýjum himins."

63 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: "Hvað þurfum vér nú framar votta við?

64 Þér heyrðuð guðlastið. Hvað líst yður?" Og þeir dæmdu hann allir sekan og dauða verðan.

65 Þá tóku sumir að hrækja á hann, þeir huldu andlit hans, slógu hann með hnefunum og sögðu við hann: "Spáðu!" Eins börðu þjónarnir hann.

66 Pétur var niðri í garðinum. Þar kom ein af þernum æðsta prestsins

67 og sá, hvar Pétur var að orna sér. Hún horfir á hann og segir: "Þú varst líka með manninum frá Nasaret, þessum Jesú."

68 Því neitaði hann og sagði: "Ekki veit ég né skil, hvað þú ert að fara." Og hann gekk út í forgarðinn, [en þá gól hani.]

69 Þar sá þernan hann og fór enn að segja við þá, sem hjá stóðu: "Þessi er einn af þeim."

70 En hann neitaði sem áður. Litlu síðar sögðu þeir, er hjá stóðu enn við Pétur: "Víst ertu einn af þeim, enda ertu Galíleumaður."

71 En hann sór og sárt við lagði: "Ég þekki ekki þennan mann, sem þér talið um."

72 Um leið gól hani annað sinn, og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt við hann: "Áður en hani galar tvisvar muntu þrisvar afneita mér." Þá fór hann að gráta.