Add parallel Print Page Options

23 Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna:

"Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear.

Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.

Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.

Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.

Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum,

láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.

En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður.

Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum.

10 Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.

11 Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.

12 Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [

14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.]

15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.

16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.`

17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið?

18 Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.`

19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina?

20 Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er.

21 Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr.

22 Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr.

23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

24 Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!

25 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs.

26 Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.

27 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.

28 Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.

29 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hlaðið upp grafir spámannanna og skreytið leiði hinna réttlátu

30 og segið: Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra, hefðum vér ekki átt hlut með þeim í lífláti spámannanna.

31 Þannig vitnið þér sjálfir um yður, að þér eruð synir þeirra, sem myrtu spámennina.

32 Nú skuluð þér fylla mæli feðra yðar.

33 Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?

34 Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.

35 Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.

36 Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.

37 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.

38 Hús yðar verður í eyði látið.

39 Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ,Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins."`

20 Svo bar við einn dag, er hann var að kenna lýðnum í helgidóminum og flutti fagnaðarerindið, að æðstu prestarnir og fræðimennirnir ásamt öldungunum gengu til hans

og sögðu: "Seg þú oss, með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver hefur gefið þér þetta vald?"

Hann svaraði þeim: "Ég vil og leggja spurningu fyrir yður. Segið mér:

Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?"

Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: "Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki?

Ef vér svörum: Frá mönnum, mun allur lýðurinn grýta oss, því að hann er sannfærður um, að Jóhannes sé spámaður."

Þeir kváðust því ekki vita, hvaðan hún væri.

Jesús sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta."

Og hann tók að segja lýðnum dæmisögu þessa: "Maður nokkur plantaði víngarð og seldi hann vínyrkjum á leigu, fór síðan úr landi til langdvala.

10 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna, að þeir fengju honum hlut af ávexti víngarðsins, en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan.

11 Aftur sendi hann annan þjón. Þeir börðu hann einnig og svívirtu og sendu burt tómhentan.

12 Og enn sendi hann hinn þriðja, en þeir veittu honum einnig áverka og köstuðu honum út.

13 Þá sagði eigandi víngarðsins: ,Hvað á ég að gjöra? Ég sendi son minn elskaðan. Má vera, þeir virði hann.`

14 En er vínyrkjarnir sáu hann, báru þeir saman ráð sín og sögðu: ,Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.`

15 Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við þá?

16 Hann mun koma, tortíma vínyrkjum þessum og fá öðrum víngarðinn." Þegar þeir heyrðu þetta, sögðu þeir: "Verði það aldrei."

17 Jesús horfði á þá og mælti: "Hvað merkir þá ritning þessi: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn?

18 Hver sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja."

19 Fræðimennirnir og æðstu prestarnir vildu leggja hendur á hann á sömu stundu, en óttuðust lýðinn. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögu þessari.

20 Þeir höfðu gætur á honum og sendu njósnarmenn, er létust vera einlægir. Þeir áttu að hafa á orðum hans, svo að þeir mættu framselja hann í hendur og á vald landstjórans.

21 Þeir spurðu hann: "Meistari, vér vitum, að þú talar og kennir rétt og gjörir þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika.

22 Leyfist oss að gjalda keisaranum skatt eða ekki?"

23 En hann merkti flærð þeirra og sagði við þá:

24 "Sýnið mér denar. Hvers mynd og yfirskrift er á honum?" Þeir sögðu: "Keisarans."

25 En hann sagði við þá: "Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er."

26 Og þeir gátu ekki haft neitt á orðum hans í viðurvist lýðsins, en undruðust svar hans og þögðu.

27 Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

28 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, að deyi maður kvæntur, en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.

29 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus.

30 Gekk þá annar bróðirinn

31 og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö, og létu þeir engin börn eftir sig, er þeir dóu.

32 Síðast dó og konan.

33 Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana."

34 Jesús svaraði þeim: "Börn þessarar aldar kvænast og giftast,

35 en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast.

36 Þeir geta ekki heldur dáið framar, þeir eru englum jafnir og börn Guðs, enda börn upprisunnar.

37 En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ,Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`

38 Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir."

39 Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: "Vel mælt, meistari."

40 En þeir þorðu ekki framar að spyrja hann neins.

41 Hann sagði við þá: "Hvernig geta menn sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?

42 Davíð segir sjálfur í sálmunum: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar,

43 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.

44 Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?"

45 Í áheyrn alls lýðsins sagði hann við lærisveina sína:

46 "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.

47 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."

21 Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna.

Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga.

Þá sagði hann: "Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir.

Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína."

Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús:

"Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."

En þeir spurðu hann: "Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?"

Hann svaraði: "Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og ,Tíminn er í nánd!` Fylgið þeim ekki.

En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis."

10 Síðan sagði hann við þá: "Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki,

11 þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.

12 En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns.

13 Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar.

14 En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast,

15 því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið.

16 Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir.

17 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns,

18 en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar.

19 Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.

20 En þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd.

21 Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.

22 Því þetta eru refsingardagar, þá er allt það rætist, sem ritað er.

23 Vei þeim, sem þungaðar eru, og þeim sem börn hafa á brjósti á þeim dögum, því að mikil neyð mun þá verða í landinu og reiði yfir lýð þessum.

24 Þeir munu falla fyrir sverðseggjum og herleiddir verða til allra þjóða, og Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.

25 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný.

26 Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast.

27 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð.

28 En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd."

29 Hann sagði þeim og líkingu: "Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám.

30 Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd.

31 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.

32 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.

33 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.

34 Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður

35 eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.

36 Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum."

37 Á daginn var hann að kenna í helgidóminum, en fór og dvaldist um nætur á Olíufjallinu, sem svo er nefnt.

38 Og allt fólkið kom árla á morgnana til hans í helgidóminn að hlýða á hann.