Add parallel Print Page Options

22 Þá svaraði Elífas frá Teman og sagði:

Vinnur maðurinn Guði gagn? Nei, sjálfum sér vinnur vitur maður gagn.

Er það ábati fyrir hinn Almáttka, að þú ert réttlátur, eða ávinningur, að þú lifir grandvöru lífi?

Er það vegna guðsótta þíns, að hann refsar þér, að hann dregur þig fyrir dóm?

Er ekki vonska þín mikil og misgjörðir þínar óþrjótandi?

Því að þú tókst veð af bræðrum þínum að ástæðulausu og færðir fáklædda menn úr flíkum þeirra.

Þú gafst ekki hinum örmagna vatn að drekka, og hinum hungraða synjaðir þú brauðs.

En hinn voldugi átti landið, og virðingarmaðurinn bjó í því.

Ekkjur lést þú fara burt tómhentar, og armleggir munaðarleysingjanna voru brotnir sundur.

10 Fyrir því eru snörur allt í kringum þig, og fyrir því skelfir ótti þig skyndilega!

11 Eða sér þú ekki myrkrið og vatnaflauminn, sem hylur þig?

12 Er ekki Guð himinhár? og lít þú á hvirfil stjarnanna, hve hátt þær gnæfa!

13 Og þú segir: "Hvað veit Guð? Getur hann dæmt gegnum skýsortann?

14 Skýin skyggja á hann, svo að hann sér ekki, og hann gengur á himinhvelfingunni."

15 Ætlar þú að halda fortíðar leið, þá er ranglátir menn hafa farið?

16 Þeir er kippt var burt fyrir tímann og grundvöllur þeirra skolaðist burt sem straumur,

17 þeir er sögðu við Guð: "Vík frá oss! og hvað gæti hinn Almáttki gjört fyrir oss?"

18 og það þó hann fyllti hús þeirra blessun. _ Hugarfar óguðlegra sé fjarri mér!

19 Hinir réttlátu sjá það og gleðjast, og hinn saklausi gjörir gys að þeim:

20 "Vissulega er andstæðingur vor að engu orðinn, og eldurinn hefir eytt leifum þeirra."

21 Vingast þú við Guð, þá muntu vera í friði, við það mun blessun yfir þig koma.

22 Tak á móti kenning af munni hans, og fest þér orð hans í hjarta.

23 Ef þú snýr þér til hins Almáttka, auðmýkir þig, ef þú rekur ranglætið langt burt frá tjaldi þínu _

24 já, varpaðu gullinu í duftið og skíragullinu ofan í lækjamölina! _

25 þá skal hinn Almáttki vera gull þitt, vera þér hið skærasta silfur.

26 Já, þá munt þú hafa yndi af hinum Almáttka og lyfta augliti þínu til Guðs.

27 Biðjir þú til hans, bænheyrir hann þig, og heit þín munt þú greiða.

28 Og áformir þú eitthvað, mun þér heppnast það, og birta skína yfir vegu þína.

29 Þegar þeir liggja niður á við, þá kallar þú "Upp á við!" og hinum auðmjúka hjálpar hann.

30 Hann bjargar jafnvel þeim, sem ekki er saklaus, já, hann bjargast fyrir hreinleik handa þinna.

23 Þá svaraði Job og sagði:

Enn sem fyrr munu kveinstafir mínir verða taldir uppreisn, hönd Guðs hvílir þungt á andvörpum mínum.

Ég vildi að ég vissi, hvernig ég ætti að finna hann, hvernig ég gæti komist fram fyrir dómstól hans!

Þá mundi ég útskýra málið fyrir honum og fylla munn minn sönnunum.

Ég mundi fá að vita, hverju hann svaraði mér, og heyra hvað hann segði við mig.

Mundi hann deila við mig í mikilleik máttar síns? Nei, hann mundi veita mér óskipta athygli.

Þá mundi hreinskilinn maður þreyta málsókn við hann, og ég mundi að eilífu losna við dómara minn.

En fari ég í austur, þá er hann þar ekki, og í vestur, þar verð ég hans eigi var.

Þótt hann hafist að í norðri, þá sé ég hann ekki, og sveigi hann á leið til suðurs, fæ ég ekki litið hann.

10 En hann veit, hvernig breytni mín hefir verið, ef hann prófaði mig, mundi ég reynast sem gull.

11 Fótur minn hefir þrætt spor hans, ég hefi haldið veg hans og eigi hneigt af leið.

12 Frá skipun vara hans hefi ég ekki vikið, hefi varðveitt í brjósti mér orð munns hans.

13 En hann er samur við sig _ hver aftrar honum? Ef hann girnist eitthvað, gjörir hann það.

14 Já, hann framkvæmir það, er hann hefir ætlað mér, og mörgu slíku býr hann yfir.

15 Þess vegna skelfist ég auglit hans. Hugleiði ég það, hræðist ég hann.

16 Já, Guð hefir gjört mig hugdeigan, og hinn Almáttki skotið mér skelk í bringu.

17 Því að það er ekki vegna ógæfunnar, að ég stend örþrota, né vegna sjálfs mín, þótt niðdimman hylji mig.

24 Hvers vegna eru ekki hegningartímar geymdir af hinum Almáttka,

og hví sjá þeir ekki daga hans, sem á hann trúa? Menn færa landamerki úr stað, ræna hjörðum og halda þeim á beit.

Asna munaðarleysingjanna reka menn burt og taka uxa ekkjunnar að veði.

Þeir hrinda hinum fátæku út af veginum, hinir bágstöddu í landinu verða allir að fela sig.

Já, sem skógarasnar á öræfum ganga þeir út til starfa sinna, leitandi að fæðu, eyðimörkin veitir þeim brauð handa börnunum.

Á akrinum uppskera þeir fóður sitt og fara í eftirleit í víngarði hins óguðlega.

Naktir liggja þeir um nætur, klæðlausir, og hafa enga ábreiðu í kuldanum.

Þeir eru gagndrepa af fjallaskúrunum, og hælislausir faðma þeir klettinn.

Menn slíta föðurleysingjana af brjóstinu og taka veð af hinum bágstöddu.

10 Naktir ganga þeir, klæðlausir, og hungraðir bera þeir kornbundin.

11 Í olífugörðum annarra pressa þeir olíu, troða vínlagarþrór og kveljast af þorsta.

12 Úr borgunum heyrast stunur deyjandi manna, sálir hinna drepnu hrópa á hefnd, en Guð gefur ekki gaum að óhæfunni.

13 Slíkir menn eru ljósfjendur orðnir, þeir þekkja ekki vegu hans og halda sig ekki á stigum hans.

14 Með morgunsárinu fer morðinginn á fætur og drepur hinn volaða og snauða, og á nóttunni læðist þjófurinn.

15 Og auga hórkarlsins bíður eftir rökkrinu, og hann segir: "Ekkert auga sér mig," og dregur skýlu fyrir andlitið.

16 Í myrkrinu brjótast þeir inn í hús, á daginn loka þeir sig inni, þeir þekkja ekki ljósið.

17 Því að öllum er þeim niðamyrkrið morgunn, því að þeir eru nákunnugir skelfingum niðamyrkursins.

18 Fljótt berst hann burt með straumnum, bölvaður verður erfðahluti hans í landinu, hann snýr eigi framar á leið til víngarðanna.

19 Þurrkur og hiti hrífa snjóvatnið burt, Hel þann, er svo hefir syndgað.

20 Móðurskautið gleymir honum, ormarnir gæða sér á honum. Hans er eigi framar minnst, og ranglætið verður brotið sundur eins og tré,

21 hann sem rændi óbyrjuna, er ekki fæddi, og enga velgjörð sýndi ekkjunni.

22 En Guð heldur samt hinum volduga við með mætti sínum, slíkur maður rís aftur upp, þótt hann væri tekinn að örvænta um lífið.

23 Guð veitir honum að lifa óhultur, og hann er studdur, og augu hans vaka yfir vegum hans.

24 Hátt standa þeir, en eftir stundarkorn eru þeir horfnir. Þeir hníga, þeir eru hrifnir burt eins og allir aðrir og sviðnir af eins og höfuð kornaxins.

25 Og ef það er eigi svo, _ hver vill þá sanna, að ég sé lygari, og gjöra ræðu mína að engu?

11 En postularnir og bræðurnir í Júdeu heyrðu, að heiðingjarnir hefðu einnig tekið við orði Guðs.

Þegar Pétur kom upp til Jerúsalem, deildu umskurnarmennirnir á hann og sögðu:

"Þú hefur farið inn til óumskorinna manna og etið með þeim."

En Pétur sagði þeim þá alla söguna frá rótum og mælti:

"Ég var að biðjast fyrir í borginni Joppe og sá, frá mér numinn, sýn, hlut nokkurn koma niður, eins og stór dúkur væri látinn síga á fjórum skautum frá himni, og hann kom til mín.

Ég starði á hann og hugði að og sá þá ferfætt dýr jarðar, villidýr, skriðdýr og fugla himins,

og ég heyrði rödd segja við mig: ,Slátra nú, Pétur, og et!`

En ég sagði: ,Nei, Drottinn, engan veginn, því að aldrei hefur neitt vanheilagt né óhreint komið mér í munn.`

Í annað sinn sagði rödd af himni: ,Eigi skalt þú kalla það vanheilagt, sem Guð hefur lýst hreint!`

10 Þetta gjörðist þrem sinnum, og aftur var allt dregið upp til himins.

11 Samstundis stóðu þrír menn við húsið, sem ég var í, sendir til mín frá Sesareu.

12 Og andinn sagði mér að fara með þeim hiklaust. Þessir sex bræður urðu mér einnig samferða, og vér gengum inn í hús mannsins.

13 Hann sagði oss, hvernig hann hefði séð engil standa í húsi sínu, er sagði: ,Send þú til Joppe og lát sækja Símon, er kallast Pétur.

14 Hann mun orð til þín mæla, og fyrir þau munt þú hólpinn verða og allt heimili þitt.`

15 En þegar ég var farinn að tala, kom heilagur andi yfir þá, eins og yfir oss í upphafi.

16 Ég minntist þá orða Drottins, er hann sagði: ,Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda.`

17 Fyrst Guð gaf þeim nú sömu gjöf og oss, er vér tókum trú á Drottin Jesú Krist, hvernig var ég þá þess umkominn að standa gegn Guði?"

18 Þegar þeir heyrðu þetta, stilltust þeir, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Guð hefur þá einnig gefið heiðingjunum afturhvarf til lífs."

19 Þeir, sem dreifst höfðu vegna ofsóknarinnar, sem varð út af Stefáni, fóru allt til Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu. En Gyðingum einum fluttu þeir orðið.

20 Nokkrir þeirra voru frá Kýpur og Kýrene, og er þeir komu til Antíokkíu, tóku þeir einnig að tala til Grikkja og boða þeim fagnaðarerindið um Drottin Jesú.

21 Og hönd Drottins var með þeim, og mikill fjöldi tók trú og sneri sér til Drottins.

22 Og fregnin um þá barst til eyrna safnaðarins í Jerúsalem, og þeir sendu Barnabas til Antíokkíu.

23 Þegar hann kom og sá verk Guðs náðar, gladdist hann, og hann áminnti alla um að halda sér fast við Drottin af öllu hjarta.

24 Því hann var góður maður, fullur af heilögum anda og trú. Og mikill fjöldi manna gafst Drottni.

25 Þá fór hann til Tarsus að leita Sál uppi.

26 Þegar hann hafði fundið hann, fór hann með hann til Antíokkíu. Þeir voru síðan saman heilt ár í söfnuðinum og kenndu fjölda fólks. Í Antíokkíu voru lærisveinarnir fyrst kallaðir kristnir.

27 Á þessum dögum komu spámenn frá Jerúsalem til Antíokkíu.

28 Einn þeirra, Agabus að nafni, steig fram, og af gift andans sagði hann fyrir, að mikil hungursneyð mundi koma yfir alla heimsbyggðina. Kom það fram á dögum Kládíusar.

29 En lærisveinarnir samþykktu þá, að hver þeirra skyldi eftir efnum senda nokkuð til hjálpar bræðrunum, sem bjuggu í Júdeu.

30 Þetta gjörðu þeir og sendu það til öldunganna með þeim Barnabasi og Sál.