Add parallel Print Page Options

51 Svo segir Drottinn: Sjá, ég vek upp eyðandi storm gegn Babýlon og gegn íbúum Kaldeu.

Ég sendi vinsara gegn Babýlon, að þeir vinsi hana og tæmi land hennar. Þegar þeir umkringja hana á óheilladegi,

skal enginn benda boga sinn né reigja sig í pansara sínum. Hlífið ekki æskumönnum hennar, helgið banni allan her hennar,

svo að vegnir menn falli í landi Kaldea og sverði lagðir hnígi á strætum hennar,

af því að land þeirra er fullt af sekt gegn Hinum heilaga í Ísrael. En Ísrael og Júda eru ekki yfirgefin af Guði sínum, Drottni allsherjar.

Flýið út úr Babýlon og hver og einn forði lífi sínu. Látið eigi tortíma yður vegna misgjörða hennar. Því að það er hefndartími Drottins, hann endurgeldur henni eins og hún hefir til unnið.

Babýlon var gullbikar í hendi Drottins, er gjörði alla jörðina drukkna. Af víni hennar drukku þjóðirnar, fyrir því létu þjóðirnar sem þær væru óðar.

Sviplega er Babýlon fallin og sundurmoluð. Kveinið yfir henni! Sækið smyrsl við kvölum hennar, má vera að hún verði læknuð.

"Vér ætluðum að lækna Babýlon, en hún var ólæknandi. Yfirgefið hana, og förum hver til síns lands, því að refsidómur sá, er yfir hana gengur, nær til himins og gnæfir við ský."

10 Drottinn hefir leitt í ljós vort réttláta málefni, komið, vér skulum kunngjöra í Síon verk Drottins, Guðs vors!

11 Fægið örvarnar, takið á yður skjölduna! Drottinn hefir vakið hugmóð Medíukonunga, því að fyrirætlan hans er miðuð gegn Babýlon til þess að eyða hana. Því að það er hefnd Drottins, hefnd fyrir musteri hans.

12 Reisið merki gegn Babýlonsmúrum! Aukið vörðinn! Skipið verði! Setjið launsátur! Því að Drottinn hefir ákveðið og framkvæmir það, er hann hefir hótað Babýlonsbúum.

13 Þú, sem býr við hin miklu vötn, auðug að fjársjóðum, endadægur þitt er komið, lífdagar þínir taldir.

14 Drottinn allsherjar sver við sjálfan sig: Þótt ég hefði fyllt þig mönnum, eins og engisprettum, munu menn þó hefja siguróp yfir þér.

15 Hann, sem gjört hefir jörðina með krafti sínum, skapað heiminn af speki sinni og þanið út himininn af hyggjuviti sínu, _

16 þegar hann þrumar, svarar vatnagnýr í himninum, _ þegar hann lætur ský upp stíga frá endimörkum jarðar og gjörir leiftur til þess að búa rás regninu og hleypir vindinum út úr forðabúrum hans,

17 þá stendur sérhver maður undrandi og skilur þetta ekki, og sérhver gullsmiður skammast sín fyrir líkneski sitt, því að hin steyptu líkneski hans eru tál, og í þeim er enginn andi.

18 Hégómi eru þau, háðungar-smíði, þegar hegningartími þeirra kemur, er úti um þau.

19 En hlutdeild Jakobs er ekki þeim lík, heldur er hann skapari alls, og Ísrael er hans eignarkynkvísl. Drottinn allsherjar er nafn hans.

20 Þú varst mér hamar, hervopn, að ég gæti molað sundur með þér þjóðir og eytt með þér konungsríki,

21 að ég gæti molað sundur með þér hesta og reiðmenn, að ég gæti molað sundur með þér vagna og þá, sem í þeim óku,

22 að ég gæti molað sundur með þér karla og konur, að ég gæti molað sundur með þér gamla og unga, að ég gæti molað sundur með þér æskumenn og meyjar,

23 að ég gæti molað sundur með þér hirða og hjarðir, að ég gæti molað sundur með þér akurmenn og sameyki þeirra, að ég gæti molað sundur með þér jarla og landstjóra!

24 Ég endurgeld Babel og öllum íbúum Kaldeu allt það illt, er þeir hafa gjört Síon að yður áhorfandi _ segir Drottinn.

25 Sjá, ég ætla að finna þig, þú Skaðræðisfjall _ segir Drottinn _ þú sem skaðræði vannst allri jörðinni, og ég útrétti hönd mína gegn þér og velti þér ofan af hömrunum og gjöri þig að brenndu fjalli.

26 Úr þér skulu menn ekki sækja hornsteina, né undirstöðusteina, heldur skalt þú verða að eilífri auðn _ segir Drottinn.

27 Reisið merki á jörðinni! Þeytið lúðurinn meðal þjóðanna! Vígið þjóðir móti henni! Kallið móti henni konungsríki Ararats, Minní og Askenas! Skipið herforingja móti henni! Færið fram hesta, líka byrstum engisprettum!

28 Vígið þjóðir móti henni, konunga Medíu, jarla hennar og landstjóra og allt land ríkis þeirra.

29 Þá nötrar jörðin og bifast, því að fyrirætlanir Drottins gegn Babýlon rætast, með því að hann gjörir Babýlon að auðn, svo að enginn býr þar.

30 Kappar Babýlons hætta við að berjast, þeir halda kyrru fyrir í virkjunum, hreysti þeirra er þorrin, þeir eru orðnir að konum. Menn hafa lagt eld í híbýli hennar, slagbrandar hennar eru brotnir.

31 Hlaupasveinn hleypur móti hlaupasveini og sendiboði móti sendiboða til þess að boða Babelkonungi að borg hans sé unnin öllumegin,

32 brýrnar teknar, sefmýrarnar brenndar í eldi og hermennirnir skelfdir.

33 Já, svo segir Drottinn allsherjar, Ísraels Guð: Dóttirin Babýlon líkist láfa á þeim tíma, þá er hann er troðinn. Innan skamms kemur og uppskerutími fyrir hana.

34 "Nebúkadresar Babelkonungur hefir etið oss, hefir eytt oss, hann gjörði úr oss tómt ílát. Hann svalg oss eins og dreki, kýldi vömb sína og rak oss burt úr unaðslandi voru!"

35 "Það ofbeldi og sú misþyrming, sem ég hefi orðið fyrir, komi yfir Babýlon," segi Síonbúar, og "blóð mitt komi yfir íbúa Kaldeu," segi Jerúsalem.

36 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég tek að mér málefni þitt og læt þig ná rétti þínum. Ég þurrka upp vatn Babýlons og læt uppsprettu hennar þorna.

37 Og hún skal verða að grjóthrúgu, að sjakalabæli, að skelfing og háði, enginn skal þar búa.

38 Þeir öskra allir eins og ung ljón, gnöllra eins og ljónshvolpar.

39 En þegar græðgihitinn er kominn í þá, vil ég búa þeim veislu og gjöra þá drukkna, til þess að þeir verði kátir. Því næst skulu þeir sofna eilífum svefni og ekki vakna framar! _ segir Drottinn.

40 Ég læt þá hníga sem lömb til slátrunar, sem hrúta ásamt höfrum.

41 Hversu varð Sesak unnin og tekin, hún er fræg var um víða veröld! Hversu er Babýlon orðin að skelfingu meðal þjóðanna!

42 Sjórinn gekk yfir Babýlon, hún huldist gnýjandi bylgjum hans.

43 Borgir hennar urðu að auðn, að þurru landi og heiði. Enginn maður mun framar búa þar né nokkurt mannsbarn fara þar um.

44 Ég vitja Bels í Babýlon og tek út úr munni hans það, er hann hefir gleypt, og eigi skulu þjóðir framar streyma til hans. Babýlonsmúr hrynur einnig.

45 Far út úr henni, lýður minn, og hver og einn forði lífi sínu undan hinni brennandi reiði Drottins.

46 Látið ekki hugfallast og verðið ekki hræddir við tíðindin, sem heyrast í landinu. Þessi tíðindi koma þetta árið og því næst önnur tíðindi annað árið: ofbeldi er framið í landinu, og drottnari rís mót drottnara.

47 Fyrir því, sjá, þeir dagar koma, að ég vitja skurðgoða Babýlons, og þá mun allt land hennar verða til skammar og allir vegnir menn hennar falla inni í henni.

48 Þá mun himinn og jörð og allt, sem í þeim er, hlakka yfir Babýlon, því að úr norðri brjótast eyðendurnir inn yfir hana _ segir Drottinn.

49 Babýlon verður að falla vegna hinna vegnu manna af Ísrael, eins og vegnir menn hafa orðið að falla um alla jörðina vegna Babýlon.

50 Þér, sem undan sverðinu hafið komist, haldið þér áfram, standið ekki við. Minnist Drottins í fjarlægð og hafið Jerúsalem í huga.

51 Vér erum orðnir til skammar, því að vér urðum varir við fyrirlitningu, blygðun hylur auglit vor, því að útlendir menn hafa brotist inn yfir helgidóma musteris Drottins.

52 Fyrir því, sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég vitja skurðgoða hennar, og sverði lagðir menn skulu stynja í öllu landi hennar.

53 Þó að Babýlon hefji sig til himins og þó að hún gjöri vígi sitt svo hátt, að það verði ókleift, þá munu þó frá mér koma eyðendur yfir hana _ segir Drottinn.

54 Heyr! Neyðarkvein frá Babýlon og mikil eyðilegging úr landi Kaldea!

55 Já, Drottinn eyðir Babýlon og upprætir úr henni hinn mikla hávaða. Bylgjur þeirra gnýja eins og stór vötn, gjallandi kveður við óp þeirra.

56 Því að eyðandi kemur yfir hana, yfir Babýlon, og kappar hennar verða teknir höndum og bogar þeirra brotnir, því að Drottinn er Guð endurgjaldsins, hann endurgeldur áreiðanlega.

57 Ég gjöri drukkna höfðingja hennar og vitringa, jarla hennar og landstjóra og kappa hennar. Þeir skulu sofna eilífum svefni og eigi vakna framar _ segir konungurinn. Drottinn allsherjar er nafn hans.

58 Svo segir Drottinn allsherjar: Hinn víði Babýlonsmúr skal rifinn verða til grunna og hin háu borgarhlið hennar brennd í eldi, _ já, lýðir vinna fyrir gýg og þjóðir leggja á sig erfiði fyrir eldinn!

59 Skipunin sem Jeremía spámaður lagði fyrir Seraja Neríason, Mahasejasonar, þá er hann fór í erindum Sedekía Júdakonungs til Babýlon, á fjórða ári ríkisstjórnar hans. En Seraja var herbúðastjóri.

60 En Jeremía skrifaði alla þá ógæfu, er koma mundi yfir Babýlon, í eina bók _ allar þessar ræður, sem ritaðar eru um Babýlon.

61 Jeremía sagði við Seraja: "Þá er þú kemur til Babýlon, þá sjá til, að þú lesir upp öll þessi orð,

62 og seg: ,Drottinn, þú hefir sjálfur hótað þessum stað að afmá hann, svo að enginn byggi framar í honum, hvorki menn né skepnur, því að eilífri auðn skal hún verða.`

63 Og þegar þú hefir lesið bók þessa til enda, þá bind þú við hana stein og kasta þú henni út í Efrat,

64 og seg: ,Svo skal Babýlon sökkva og ekki rísa upp aftur, vegna þeirrar ógæfu, er ég læt yfir hana koma!"` Hér lýkur orðum Jeremía.

52 Sedekía var tuttugu og eins árs að aldri, þá er hann varð konungur, og ellefu ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Hamútal Jeremíadóttir og var frá Líbna.

Hann gjörði það sem illt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Jójakím.

Vegna reiði Drottins fór svo fyrir Jerúsalem og Júda, að hann varpaði þeim burt frá augliti sínu. Sedekía brá trúnaði við Babelkonung,

og á níunda ríkisári hans, á tíunda degi hins tíunda mánaðar, kom Nebúkadresar Babelkonungur með allan her sinn til Jerúsalem, og þeir settust um hana og reistu hervirki hringinn í kringum hana.

Varð borgin þannig í umsátri fram á ellefta ríkisár Sedekía konungs.

Í fjórða mánuðinum, á níunda degi mánaðarins, er hungrið tók að sverfa að borginni og landslýður var orðinn vistalaus,

þá var brotið skarð inn í borgina. Og konungur og allir hermennirnir flýðu og fóru út úr borginni um nóttina gegnum hliðið milli beggja múranna, sem er hjá konungsgarðinum, þótt Kaldear umkringdu borgina, og héldu leiðina til sléttlendisins.

Her Kaldea veitti konungi eftirför og náði Sedekía á Jeríkóvöllum, er allur her hans hafði tvístrast burt frá honum.

Tóku þeir konung höndum og fluttu hann til Ribla í Hamat-héraði til Babelkonungs. Hann kvað upp dóm hans.

10 Lét Babelkonungur drepa sonu Sedekía fyrir augum hans. Sömuleiðis lét hann drepa alla höfðingja Júda í Ribla.

11 En Sedekía lét hann blinda og binda eirfjötrum. Síðan lét Babelkonungur flytja hann til Babýlon og setja í fangelsi, og var hann þar til dauðadags.

12 En í fimmta mánuði, á tíunda degi mánaðarins _ það er á nítjánda ríkisári Nebúkadresars Babelkonungs _ kom Nebúsaradan lífvarðarforingi, vildarþjónn Babelkonungs, til Jerúsalem

13 og brenndi musteri Drottins og konungshöllina og öll hús í Jerúsalem, og öll hús stórmennanna brenndi hann í eldi.

14 En allur Kaldeaher, sá er var með lífvarðarforingjanum, reif niður alla múrana umhverfis Jerúsalem.

15 En leifar lýðsins, þá er eftir voru í borginni, og liðhlaupana, þá er hlaupist höfðu í lið með Babelkonungi, og þá sem eftir voru af iðnaðarmönnum, herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi til Babýlon.

16 En af almúga landsins lét Nebúsaradan lífvarðarforingi nokkra verða eftir sem víngarðsmenn og akurkarla.

17 Eirsúlurnar, er voru við musteri Drottins, og undirstöðupallana og eirhafið, er voru í musteri Drottins, brutu Kaldear sundur og fluttu allan eirinn til Babýlon.

18 Og katlana, eldspaðana, skarbítana, ádreifingarskálarnar, bollana og öll eiráhöldin, er notuð voru við guðsþjónustuna, tóku þeir.

19 Þá tók og lífvarðarforinginn katlana, eldpönnurnar, ádreifingarskálarnar, pottana, ljósastikurnar, bollana, kerin _ allt sem var af gulli og silfri.

20 Súlurnar tvær, hafið og undirstöðupallana, er Salómon konungur hafði gjöra látið í musteri Drottins _ eirinn úr öllum þessum áhöldum varð eigi veginn.

21 En hvað súlurnar snertir, þá var önnur súlan átján álnir á hæð, og tólf álna langan þráð þurfti til að ná utan um hana, en hún var fjögra fingra þykk, hol að innan.

22 En ofan á henni var súlnahöfuð af eiri og var það fimm álnir á hæð. Riðið net og granatepli voru umhverfis höfuðið, allt af eiri, og eins var á hinni súlunni.

23 En granateplin voru níutíu og sex, þau er út sneru. Öll granateplin voru hundrað á riðna netinu allt um kring.

24 Og lífvarðarforinginn tók Seraja höfuðprest og Sefanía annan prest og þröskuldsverðina þrjá.

25 Og úr borginni tók hann hirðmann einn, er skipaður var yfir hermennina, og sjö menn af þeim, er daglega litu auglit konungs, er fundust í borginni, og ritara hershöfðingjans, þess er bauð út landslýðnum, og sextíu manns af sveitafólki, því er fannst í borginni.

26 Þessa menn tók Nebúsaradan lífvarðarforingi og flutti þá til Ribla til Babelkonungs.

27 En Babelkonungur lét drepa þá í Ribla í Hamat-héraði. Þannig var Júda herleiddur úr landi sínu.

28 Þetta var mannfólkið, sem Nebúkadresar herleiddi: Sjöunda árið 3023 Júdabúa,

29 átjánda ríkisár Nebúkadresars 832 sálir úr Jerúsalem.

30 Tuttugasta og þriðja ríkisár Nebúkadresars herleiddi Nebúsaradan lífvarðarforingi 745 sálir af Júdabúum. Alls voru það 4600 sálir.

31 Og á þrítugasta og sjöunda útlegðarári Jójakíns Júdakonungs, í tólfta mánuðinum, tuttugasta og fimmta dag mánaðarins, náðaði Evíl-Meródak Babelkonungur _ árið sem hann kom til ríkis _ Jójakín Júdakonung og tók hann út úr dýflissunni.

32 Og hann talaði vingjarnlega við hann og setti stól hans ofar stólum hinna konunganna, sem hjá honum voru í Babýlon.

33 Og hann fór úr bandingjafötum sínum og borðaði stöðuglega með honum, meðan hann lifði.

Nú hafði fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og jarðneskan helgidóm.

Tjaldbúð var gjörð, hin fremri, og í henni voru bæði ljósastikan, borðið og skoðunarbrauðin, og heitir hún "hið heilaga".

En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð, sem hét "hið allrahelgasta".

Þar var reykelsisaltari úr gulli og sáttmálsörkin, sem öll var gulli búin. Í henni var gullkerið með manna í, stafur Arons, sem laufgast hafði, og sáttmálsspjöldin.

En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar og breiddu vængina yfir náðarstólinn. En um þetta hvað fyrir sig á nú ekki að ræða.

Þessu er þannig komið fyrir. Prestarnir ganga stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og annast þjónustu sína.

Inn í hina innri gengur æðsti presturinn einn, einu sinni á ári, ekki án blóðs. Það ber hann fram vegna sjálfs sín og fyrir syndir lýðsins, sem drýgðar hafa verið af vangá.

Með því sýnir heilagur andi, að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin enn stendur.

Hún er ímynd þess tíma, sem nú er. Hér eru fram bornar gjafir og fórnir, sem megna ekki að færa þeim, sem innir þjónustuna af hendi, vissu um að vera fullkominn.

10 Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli, ásamt reglum um mat og drykk og ýmiss konar þvotta, sem mönnum eru á herðar lagðar allt til tíma viðreisnarinnar.

11 En Kristur er kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð, sem ekki er með höndum gjörð, það er að segja er ekki af þessari sköpun.

12 Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar.

13 Ef blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gjörst, helgar til ytri hreinleika,

14 hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig sem lýtalausa fórn fyrir Guði.

15 Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleifð, sem heitið var.

16 Arfleiðsluskrá tekur ekki gildi fyrr en sá er dáinn, er hana gjörði.

17 Hún er óhagganleg, þegar um látna er að ræða, en er í engu gildi meðan arfleiðandi lifir.

18 Þess vegna var ekki heldur hinn fyrri sáttmáli vígður án blóðs.

19 Þegar Móse hafði kunngjört gjörvöllum lýðnum öll boðorð lögmálsins, þá tók hann blóð kálfanna og hafranna ásamt vatni og skarlatsrauðri ull og ísópi og stökkti bæði á sjálfa bókina og allan lýðinn

20 og mælti: "Þetta er blóð sáttmálans, sem Guð lét gjöra við yður."

21 Sömuleiðis stökkti hann blóðinu á tjaldbúðina og öll áhöldin við helgiþjónustuna.

22 Og samkvæmt lögmálinu er það nálega allt, sem hreinsast með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.

23 Það var því óhjákvæmilegt, að eftirmyndir þeirra hluta, sem á himnum eru, yrðu hreinsaðar með slíku. En sjálft hið himneska krefst betri fórna en þessara.

24 Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.

25 Og ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð.

26 Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni.

27 Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm,

28 þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.