Add parallel Print Page Options

Ég vil kveða kvæði um ástvin minn, ástarkvæði um víngarð hans. Ástvinur minn átti víngarð á frjósamri hæð.

Hann stakk upp garðinn og tíndi grjótið úr honum, hann gróðursetti gæðavínvið í honum, reisti turn í honum miðjum og hjó þar einnig út vínlagarþró, og hann vonaði að garðurinn mundi bera vínber, en hann bar muðlinga.

Dæmið nú, þér Jerúsalembúar og Júdamenn, milli mín og víngarðs míns!

Hvað varð meira að gjört við víngarð minn en ég hafði gjört við hann? Hví bar hann muðlinga, þegar ég vonaði að hann mundi bera vínber?

En nú vil ég kunngjöra yður, hvað ég ætla að gjöra við víngarð minn: Rífa þyrnigerðið, svo að hann verði etinn upp, brjóta niður múrvegginn, svo að hann verði troðinn niður.

Og ég vil gjöra hann að auðn, hann skal ekki verða sniðlaður og ekki stunginn upp, þar skulu vaxa þyrnar og þistlar, og skýjunum vil ég um bjóða, að þau láti enga regnskúr yfir hann drjúpa.

Víngarður Drottins allsherjar er Ísraels hús, og Júdamenn ástkær plantan hans. Hann vonaðist eftir rétti, en sjá, manndráp; eftir réttvísi, en sjá, neyðarkvein.

Vei þeim, sem bæta húsi við hús og leggja akur við akur, uns ekkert landrými er eftir og þér búið einir í landi.

Drottinn allsherjar mælir í eyra mér: Í sannleika skulu mörg hús verða að auðn, mikil og fögur hús verða mannlaus.

10 Því að tíu plóglönd í víngarði skulu gefa af sér eina skjólu og ein tunna sæðis eina skeppu.

11 Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni.

12 Gígjur, hörpur, bumbur og hljóðpípur kveða við, og vínið flóir við samdrykkjur þeirra, en gjörðum Drottins gefa þeir eigi gaum, og það, sem hann hefir með höndum, sjá þeir ekki.

13 Fyrir því mun lýður minn fyrr en af veit fara í útlegð, og tignarmennirnir kveljast af hungri og svallararnir vanmegnast af þorsta.

14 Fyrir því vex græðgi Heljar og hún glennir ginið sem mest hún má, og skrautmenni landsins og svallarar, hávaðamennirnir og gleðimennirnir steypast niður þangað.

15 Og mannkind skal beygjast og maðurinn lægjast og augu dramblátra verða niðurlút.

16 En Drottinn allsherjar mun háleitur verða í dóminum og hinn heilagi Guð sýna heilagleik í réttvísi.

17 Lömb munu ganga þar á beit eins og á afrétti, og hinar auðu lendur ríkismannanna munu geitur upp eta.

18 Vei þeim, sem draga refsinguna í böndum ranglætisins og syndagjöldin eins og í aktaugum,

19 þeim er segja: "Flýti hann sér og hraði verki sínu, svo að vér megum sjá það, komi nú ráðagjörð Hins heilaga í Ísrael fram og rætist, svo að vér megum verða varir við."

20 Vei þeim, sem kalla hið illa gott og hið góða illt, sem gjöra myrkur að ljósi og ljós að myrkri, sem gjöra beiskt að sætu og sætt að beisku.

21 Vei þeim, sem vitrir eru í augum sjálfra sín og hyggnir að eigin áliti.

22 Vei þeim, sem kappar eru í víndrykkju og öflugar hetjur í því að byrla áfengan drykk,

23 þeim sem sýkna hinn seka fyrir mútur og svipta hina réttlátu rétti þeirra.

24 Fyrir því, eins og eldsloginn eyðir stráinu og heyið hnígur í bálið, svo skal rót þeirra fúna og blóm þeirra feykjast sem ryk, af því að þeir hafa hafnað lögmáli Drottins allsherjar og fyrirlitið orð Hins heilaga í Ísrael.

25 Þess vegna bálaðist reiði Drottins í gegn lýð hans, og hann rétti út hönd sína móti honum og laust hann, og fjöllin skulfu og líkin lágu sem sorp á strætum. Allt fyrir það linnir ekki reiði hans og hönd hans er enn þá útrétt.

26 Drottinn reisir hermerki fyrir fjarlæga þjóð og blístrar á hana frá ystu landsálfu, og sjá, hún kemur fljót og frá.

27 Enginn er þar móður og engum skrikar fótur, enginn blundar né tekur á sig náðir, engum þeirra losnar belti frá lendum, og ekki slitnar skóþvengur nokkurs þeirra.

28 Örvar þeirra eru hvesstar og allir bogar þeirra bentir. Hófarnir á hestum þeirra eru sem tinna og vagnhjól þeirra sem vindbylur.

29 Öskur þeirra er sem ljónsöskur, þeir öskra sem ung ljón. Þeir grenja, grípa herfangið og hafa það á burt, og enginn fær bjargað.

30 Á þeim degi munu þeir koma grenjandi í móti þjóðinni eins og ólgandi brim. Ef horft er yfir landið, er þar skelfilegt myrkur, og dagsbirtan er myrkvuð af dimmum skýjum.

Árið sem Ússía konungur andaðist sá ég Drottin sitjandi á háum og gnæfandi veldistóli, og slóði skikkju hans fyllti helgidóminn.

Umhverfis hann stóðu serafar. Hafði hver þeirra sex vængi. Með tveimur huldu þeir ásjónur sínar, með tveimur huldu þeir fætur sína og með tveimur flugu þeir.

Og þeir kölluðu hver til annars og sögðu: "Heilagur, heilagur, heilagur er Drottinn allsherjar, öll jörðin er full af hans dýrð."

Við raust þeirra, er þeir kölluðu, skulfu undirstöður þröskuldanna og húsið varð fullt af reyk.

Þá sagði ég: "Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, Drottin allsherjar."

Einn serafanna flaug þá til mín. Hann hélt á glóandi koli, sem hann hafði tekið af altarinu með töng,

og hann snart munn minn með kolinu og sagði: "Sjá, þetta hefir snortið varir þínar. Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína."

Þá heyrði ég raust Drottins. Hann sagði: "Hvern skal ég senda? Hver vill vera erindreki vor?" Og ég sagði: "Hér er ég, send þú mig!"

Og hann sagði: "Far og seg þessu fólki: Hlýðið grandgæfilega til, þér skuluð þó ekkert skilja, horfið á vandlega, þér skuluð þó einskis vísir verða!

10 Gjör þú hjarta þessa fólks tilfinningarlaust og eyru þess daufheyrð og afturloka augum þess, svo að þeir sjái ekki með augum sínum, heyri ekki með eyrum sínum og skilji ekki með hjarta sínu, að þeir mættu snúa sér og læknast."

11 Og ég sagði: "Hversu lengi, Drottinn?" Hann svaraði: "Þar til er borgirnar standa í eyði óbyggðar og húsin mannlaus og landið verður gjöreytt."

12 Drottinn mun reka fólkið langt í burt og eyðistaðirnir verða margir í landinu.

13 Og þótt enn sé tíundi hluti eftir í því, skal hann og verða eyddur. En eins og rótarstúfur verður eftir af terpentíntrénu og eikinni, þá er þau eru felld, svo skal og stúfur þess verða heilagt sæði.

Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú, heilsar hinum heilögu, sem eru í Efesus, þeim sem trúa á Krist Jesú.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists, sem í Kristi hefur blessað oss með hvers konar andlegri blessun í himinhæðum.

Áður en heimurinn var grundvallaður hefur hann útvalið oss í Kristi, til þess að vér værum heilagir og lýtalausir fyrir honum. Í kærleika sínum

ákvað hann fyrirfram að veita oss sonarrétt í Jesú Kristi. Sá var vilji hans og velþóknun

til vegsemdar dýrð hans og náð, sem hann lét oss í té í sínum elskaða syni.

Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra.

Svo auðug er náð hans, sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi.

Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun,

10 sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.

11 Í honum höfum vér þá líka öðlast arfleifðina, eins og oss var fyrirhugað samkvæmt fyrirætlun hans, er framkvæmir allt eftir ályktun vilja síns,

12 til þess að vér, sem áður höfum sett von vora til Krists, skyldum vera dýrð hans til vegsemdar.

13 Í honum eruð og þér, eftir að hafa heyrt orð sannleikans, fagnaðarerindið um sáluhjálp yðar og tekið trú á hann og verið merktir innsigli heilags anda, sem yður var fyrirheitið.

14 Hann er pantur arfleifðar vorrar, að vér verðum endurleystir Guði til eignar, dýrð hans til vegsemdar.

15 Eftir að hafa heyrt um trú yðar á Drottin Jesú og um kærleika yðar til allra heilagra,

16 hef ég þess vegna ekki heldur látið af að þakka fyrir yður, er ég minnist yðar í bænum mínum.

17 Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann.

18 Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu,

19 og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn,

20 sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum,

21 ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi.

22 Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu.

23 En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu.