Add parallel Print Page Options

32 Jakob fór leiðar sinnar. Mættu honum þá englar Guðs.

Og er Jakob sá þá, mælti hann: "Þetta eru herbúðir Guðs." Og hann nefndi þennan stað Mahanaím.

Jakob gjörði sendimenn á undan sér til Esaú bróður síns til Seír-lands, Edómhéraðs.

Og hann bauð þeim og sagði: "Segið svo herra mínum Esaú: ,Svo segir þjónn þinn Jakob: Ég hefi dvalið hjá Laban og verið þar allt til þessa.

Og ég hefi eignast uxa, asna og sauði, þræla og ambáttir, og sendi ég nú til herra míns að láta hann vita það, svo að ég megi finna náð í augum þínum."`

Sendimennirnir komu aftur til Jakobs og sögðu: "Vér komum til Esaú bróður þíns. Hann er sjálfur á leiðinni á móti þér og fjögur hundruð manns með honum."

Þá varð Jakob mjög hræddur og kvíðafullur. Og hann skipti mönnunum, sem með honum voru, og sauðunum, nautunum og úlföldunum í tvo flokka.

Og hann hugsaði: "Þó að Esaú ráðist á annan flokkinn og strádrepi hann, þá getur samt hinn flokkurinn komist undan."

Og Jakob sagði: "Guð Abrahams föður míns og Guð Ísaks föður míns, Drottinn, þú sem sagðir við mig: ,Hverf heim aftur til lands þíns og til ættfólks þíns, og ég mun gjöra vel við þig,` _

10 ómaklegur er ég allrar þeirrar miskunnar og allrar þeirrar trúfesti, sem þú hefir auðsýnt þjóni þínum. Því að með stafinn minn einn fór ég þá yfir Jórdan, en nú á ég yfir tveim flokkum að ráða.

11 Æ, frelsa mig undan valdi bróður míns, undan valdi Esaú, því að ég óttast hann, að hann komi og höggvi oss niður sem hráviði.

12 Og þú hefir sjálfur sagt: ,Ég mun vissulega gjöra vel við þig og gjöra niðja þína sem sand á sjávarströndu, er eigi verður talinn fyrir fjölda sakir."`

13 Og hann var þar þá nótt. Og hann tók gjöf handa Esaú bróður sínum af því, sem hann hafði eignast:

14 tvö hundruð geitur og tuttugu geithafra, tvö hundruð ásauðar og tuttugu hrúta,

15 þrjátíu úlfaldahryssur með folöldum, fjörutíu kýr og tíu griðunga, tuttugu ösnur og tíu ösnufola.

16 Og hann fékk þetta í hendur þjónum sínum, hverja hjörð út af fyrir sig, og mælti við þjóna sína: "Farið á undan mér og látið vera bil á milli hjarðanna."

17 Og þeim, sem fyrstur fór, bauð hann á þessa leið: "Þegar Esaú bróðir minn mætir þér og spyr þig og segir: ,Hvers maður ert þú og hvert ætlar þú að fara og hver á þetta, sem þú rekur á undan þér?`

18 þá skaltu segja: ,Þjónn þinn Jakob á það. Það er gjöf, sem hann sendir herra mínum Esaú. Og sjá, hann er sjálfur hér á eftir oss."`

19 Á sömu leið bauð hann hinum öðrum og þriðja og öllum þeim, sem hjarðirnar ráku, og mælti: "Þannig skuluð þér tala við Esaú, þegar þér hittið hann.

20 Og þér skuluð einnig segja: ,Sjá, þjónn þinn Jakob kemur sjálfur á eftir oss."` Því að hann hugsaði: "Ég ætla að blíðka hann með gjöfinni, sem fer á undan mér. Því næst vil ég sjá hann. Vera má, að hann taki mér þá blíðlega."

21 Þannig fór gjöfin á undan honum, en sjálfur var hann þessa nótt í herbúðunum.

22 Og Jakob lagði af stað um nóttina og tók báðar konur sínar og báðar ambáttir sínar og ellefu sonu sína og fór yfir Jabbok á vaðinu.

23 Og hann tók þau og fór með þau yfir ána. Og hann fór yfir um með allt, sem hann átti.

24 Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp.

25 Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann.

26 Þá mælti hinn: "Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún." En hann svaraði: "Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig."

27 Þá sagði hann við hann: "Hvað heitir þú?" Hann svaraði: "Jakob."

28 Þá mælti hann: "Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur."

29 Og Jakob spurði hann og mælti: "Seg mér heiti þitt." En hann svaraði: "Hvers vegna spyr þú mig að heiti?" Og hann blessaði hann þar.

30 Og Jakob nefndi þennan stað Peníel, "því að ég hefi," kvað hann, "séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi."

31 Og er hann fór frá Penúel, rann sólin upp. Var hann þá haltur í mjöðminni.

32 Fyrir því eta Ísraelsmenn allt til þessa dags ekki sinina, sem er ofan á augnakarlinum, því að hann hitti mjöðm Jakobs þar sem sinin er undir.

33 Jakob hóf upp augu sín og sá Esaú koma og með honum fjögur hundruð manns. Skipti hann þá börnunum niður á Leu og Rakel og báðar ambáttirnar.

Og hann lét ambáttirnar og þeirra börn vera fremst, þá Leu og hennar börn, og Rakel og Jósef aftast.

En sjálfur gekk hann á undan þeim og laut sjö sinnum til jarðar, uns hann kom fast að bróður sínum.

Þá hljóp Esaú á móti honum og faðmaði hann, lagði hendur um háls honum og kyssti hann, og þeir grétu.

Og Esaú leit upp og sá konurnar og börnin og mælti: "Hvernig stendur á þessu fólki, sem með þér er?" Og hann svaraði: "Það eru börnin, sem Guð hefir af náð sinni gefið þjóni þínum."

Þá gengu fram ambáttirnar og börn þeirra og hneigðu sig.

Þá gekk og Lea fram og börn hennar og hneigðu sig, og síðan gengu Jósef og Rakel fram og hneigðu sig.

Esaú mælti: "Hvað skal allur þessi hópur, sem ég mætti?" Jakob svaraði: "Að ég megi finna náð í augum herra míns."

Þá mælti Esaú: "Ég á nóg. Eig þú þitt, bróðir minn!"

10 En Jakob sagði: "Eigi svo. Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá þigg þú gjöfina af mér, því að þegar ég sá auglit þitt, var sem ég sæi Guðs auglit, og þú tókst náðarsamlega á móti mér.

11 Ég bið þig, að þú þiggir gjöf mína, sem þér var færð, því að Guð hefir verið mér náðugur og ég hefi allsnægtir." Og hann lagði að honum, svo að hann þá gjöfina.

12 Þá mælti Esaú: "Tökum okkur nú upp og höldum áfram, og skal ég fara á undan þér."

13 En hann svaraði honum: "Þú sér, herra minn, að börnin eru þróttlítil og að í ferðinni eru lambær og kýr með kálfum, og ræki ég þær of hart einn dag, þá mundi öll hjörðin drepast.

14 Fari herra minn á undan þjóni sínum, en ég mun halda á eftir í hægðum mínum, eins og fénaðurinn getur farið, sem ég rek, og eins og börnin geta farið, uns ég kem til herra míns í Seír."

15 Þá mælti Esaú: "Þá vil ég þó láta eftir hjá þér nokkra af þeim mönnum, sem með mér eru." Hann svaraði: "Hver þörf er á því? Lát mig aðeins finna náð fyrir augum herra míns."

16 Síðan fór Esaú þann sama dag leiðar sinnar heim aftur til Seír.

17 Og Jakob hélt áfram til Súkkót og byggði sér hús, og handa fénaði sínum gjörði hann laufskála. Fyrir því heitir staðurinn Súkkót.

18 Jakob kom heill á hófi til Síkemborgar, sem er í Kanaanlandi, er hann kom frá Mesópótamíu, og hann sló tjöldum fyrir utan borgina.

19 Hann keypti landspilduna, sem hann hafði tjaldað á, af sonum Hemors, föður Síkems, fyrir hundrað silfurpeninga.

20 Og hann reisti þar altari og kallaði það El-elóhe-Ísrael.

34 Dína dóttir Leu, er hún hafði fætt Jakob, gekk út að sjá dætur landsins.

Þá sá Síkem hana, sonur Hevítans Hemors, höfðingja landsins, og hann tók hana og lagðist með henni og spjallaði hana.

Og hann lagði mikinn ástarhug á Dínu, dóttur Jakobs, og hann elskaði stúlkuna og talaði vinsamlega við hana.

Síkem kom að máli við Hemor föður sinn og mælti: "Tak mér þessa stúlku fyrir konu."

En Jakob hafði frétt, að hann hefði svívirt Dínu dóttur hans, en með því að synir hans voru úti í haga með fénað hans, þá lét hann kyrrt vera, þar til er þeir komu heim.

Þá gekk Hemor, faðir Síkems, út til Jakobs til þess að tala við hann.

Og synir Jakobs komu heim úr haganum, er þeir heyrðu þetta. Og mennirnir styggðust og urðu stórreiðir, því að hann hafði framið óhæfuverk í Ísrael, er hann lagðist með dóttur Jakobs, og slíkt hefði aldrei átt að fremja.

Þá talaði Hemor við þá og mælti: "Síkem sonur minn hefir mikla ást á dóttur yðar. Ég bið að þér gefið honum hana fyrir konu.

Mægist við oss, gefið oss yðar dætur og takið yður vorar dætur

10 og staðnæmist hjá oss, og landið skal standa yður til boða. Verið hér kyrrir og farið um landið og takið yður bólfestu í því."

11 Og Síkem sagði við föður hennar og bræður: "Ó, að ég mætti finna náð í augum yðar. Hvað sem þér til nefnið, það skal ég greiða.

12 Krefjist af mér svo mikils mundar og morgungjafar sem vera skal, og mun ég greiða það, er þér til nefnið, en gefið mér stúlkuna fyrir konu."

13 Þá svöruðu synir Jakobs þeim Síkem og Hemor föður hans, og töluðu með undirhyggju, af því að hann hafði svívirt Dínu systur þeirra,

14 og sögðu við þá: "Eigi megum vér þetta gjöra, að gefa systur vora óumskornum manni, því að það væri oss vanvirða.

15 Því aðeins viljum vér gjöra að yðar vilja, að þér verðið eins og vér, með því að láta umskera allt karlkyn meðal yðar.

16 Þá skulum vér gefa yður vorar dætur og taka yðar dætur oss til handa og búa hjá yður, svo að vér verðum ein þjóð.

17 En viljið þér eigi láta að orðum vorum og umskerast, þá tökum vér dóttur vora og förum burt."

18 Og Hemor og Síkem, syni Hemors, geðjaðist vel tal þeirra.

19 Og sveinninn lét ekki á því standa að gjöra þetta, því að hann elskaði dóttur Jakobs. En hann var talinn maður ágætastur í sinni ætt.

20 Hemor og Síkem sonur hans komu í hlið borgar sinnar og töluðu við borgarmenn sína og sögðu:

21 "Þessir menn bera friðarhug til vor. Látum þá setjast að í landinu og fara allra sinna ferða um það, því að nóg er landrýmið á báðar hendur handa þeim. Dætur þeirra munum vér taka oss fyrir konur og gefa þeim dætur vorar.

22 En því aðeins vilja mennirnir gjöra að vorum vilja og búa vor á meðal, svo að vér verðum ein þjóð, að vér látum umskera allt karlkyn meðal vor, eins og þeir eru umskornir.

23 Hjarðir þeirra, fjárhlutur þeirra og allur fénaður þeirra, verður það ekki vor eign? Gjörum aðeins að vilja þeirra, svo að þeir staðnæmist hjá oss."

24 Og þeir létu að orðum Hemors og Síkems sonar hans, allir sem gengu út um hlið borgar hans, og allt karlkyn lét umskerast, allir þeir, sem gengu út um hlið borgar hans.

25 En svo bar til á þriðja degi, er þeir voru sjúkir af sárum, að tveir synir Jakobs, þeir Símeon og Leví, bræður Dínu, tóku hvor sitt sverð og gengu inn í borgina, sem átti sér einskis ills von, og drápu þar allt karlkyn.

26 Drápu þeir einnig Hemor og son hans Síkem með sverðseggjum og tóku Dínu úr húsi Síkems og fóru síðan burt.

27 Synir Jakobs réðust að hinum vegnu og rændu borgina, af því að þeir höfðu svívirt systur þeirra.

28 Sauði þeirra, naut þeirra og asna, og allt, sem var í borginni, og það, sem var í högunum, tóku þeir.

29 Og öll auðæfi þeirra, öll börn þeirra og konur tóku þeir að herfangi og rændu, sömuleiðis allt, sem var í húsunum.

30 Jakob sagði við Símeon og Leví: "Þið hafið stofnað mér í ógæfu með því að gjöra mig illa þokkaðan af landsmönnum, af Kanaanítum og Peresítum. Nú með því að ég er liðfár, munu þeir safnast saman á móti mér og vinna sigur á mér. Verð ég þá afmáður, ég og mitt hús."

31 En þeir svöruðu: "Átti hann þá að fara með systur okkar eins og skækju?"