Add parallel Print Page Options

43 Þá leiddi hann mig að hliðinu, sem vissi til austurs,

og sjá, þá kom dýrð Ísraels Guðs úr austri, og var að heyra sem nið mikilla vatna, og landið var uppljómað af dýrð hans.

Og sú sýn, sem ég sá, var eins og sýnin, er ég sá, þá er hann kom til þess að eyða borgina, og sem sýnin, er ég sá við Kebarfljótið. Og ég féll fram á ásjónu mína.

Og dýrð Drottins fór nú inn í musterið um hliðið, sem til austurs vissi.

Kraftur andans hóf mig upp og færði mig inn í innri forgarðinn, og sjá, musterið var fullt af dýrð Drottins.

Og ég heyrði einhvern tala til mín úr musterinu, og stóð þó maðurinn enn hjá mér,

og hann sagði við mig: "Mannsson, þetta er staður hásætis míns og þetta er skör fóta minna, hér vil ég búa meðal Ísraelsmanna að eilífu. Og Ísraelsmenn skulu eigi framar flekka mitt heilaga nafn, hvorki þeir né konungar þeirra, með hórdómi sínum og líkum konunga sinna,

með því að þeir settu þröskuld sinn hjá mínum þröskuldi og dyrastafi sína hjá mínum dyrastaf, svo að ekki var nema veggurinn milli mín og þeirra. Og þannig flekkuðu þeir mitt heilaga nafn með svívirðingum sínum, þeim er þeir frömdu, svo að ég tortímdi þeim í reiði minni.

Nú munu þeir láta hórdóm sinn og lík konunga sinna vera langt í burtu frá mér, og ég mun búa meðal þeirra að eilífu.

10 En þú, mannsson, lýs þú musterinu fyrir Ísraelsmönnum, til þess að þeir blygðist sín fyrir misgjörðir sínar.

11 Og þegar þeir blygðast sín fyrir allt það, sem þeir hafa framið, þá skalt þú draga upp musterið og skipulag þess, útgangana úr því og inngangana í það og alla lögun þess og kunngjöra þeim allar tilskipanir og lagafyrirmæli um það, og skrifa þú það upp fyrir augum þeirra, til þess að þeir athugi alla lögun þess og öll ákvæði um það og fari eftir þeim.

12 Þetta er ákvæðið um musterið: Efst uppi á fjallinu skal allt svæði þess hringinn í kring teljast háheilagt. Sjá, þetta er ákvæðið um musterið."

13 Þetta er mál altarisins að álnatali, alinin talin ein alin og þverhönd: Umgjörðin niður við jörðina skal vera álnar há og álnar breið og brúnin út á röndinni hringinn í kring spannarbreið. Og þetta er hæð altarisins:

14 Frá umgjörðinni niður við jörðina upp að neðri stallinum tvær álnir og breiddin ein alin, og frá minni stallinum upp á meiri stallinn fjórar álnir og breiddin ein alin.

15 Og eldstæðið var fjórar álnir, og upp af eldstæðinu gengu hornin fjögur.

16 Og eldstæðið var tólf álna langt og tólf álna breitt, ferhyrningur með fjórum jöfnum hliðum.

17 Og meiri stallurinn var fjórtán álna langur og fjórtán álna breiður á hliðarnar fjórar, og brúnin í kringum hann hálf alin og umgjörðin um hann ein alin hringinn í kring. En þrepin upp að altarinu vissu í austur.

18 Og hann sagði við mig: "Mannsson, svo segir Drottinn Guð: Þetta eru ákvæðin um altarið þann dag, er það er albúið, svo að á því verði fórnað brennifórn og blóði stökkt á það.

19 Þá skalt þú fá ungan uxa til syndafórnar levítaprestunum, sem eru af ætt Sadóks og mega nálgast mig, _ segir Drottinn Guð _ til þess að þjóna mér.

20 Þú skalt taka nokkuð af blóði hans og ríða því á fjögur horn altarisins, og á fjórar hyrningar stallanna og á umgjörðina hringinn í kring og syndhreinsa það og friðþægja fyrir það.

21 Síðan skalt þú taka syndafórnaruxann og láta brenna hann hjá varðhúsi musterisins fyrir utan helgidóminn.

22 Annan daginn skalt þú færa gallalausan geithafur í syndafórn, til þess að altarið verði syndhreinsað með honum, eins og það var syndhreinsað með uxanum.

23 Þegar þú hefir lokið syndhreinsuninni, skaltu leiða fram ungan uxa, gallalausan, og hrút af hjörðinni gallalausan.

24 Skalt þú leiða þá fram fyrir Drottin, og skulu prestarnir dreifa salti á þá og fórna þeim í brennifórn Drottni til handa.

25 Sjö daga samfleytt skalt þú daglega fórna hafri í syndafórn, og auk þess skal fórna ungum uxa og hrút af hjörðinni, báðum gallalausum.

26 Sjö daga skulu menn þiggja altarið í frið og hreinsa það og vígja það.

27 Og er þeir hafa fullnað dagana, þá skulu prestarnir áttunda daginn og þaðan í frá fórna á altarinu brennifórnum yðar og heillafórnum, og ég vil taka yður náðarsamlega, segir Drottinn Guð."

44 Hann leiddi mig nú aftur út að ytra hliði helgidómsins, því er til austurs vissi. Það var lokað.

Og Drottinn sagði við mig: "Þetta hlið skal vera lokað og ekki opnað verða. Enginn maður skal inn um það ganga, því að Drottinn, Ísraels Guð, hefir inn um það gengið. Fyrir því skal það lokað vera.

Þó má landshöfðinginn setjast þar niður til þess að eta fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni. Skal hann fara inn um forsal hliðsins og fara út aftur sama veg."

Því næst leiddi hann mig að norðurhliðinu fyrir framan framhlið musterisins. Sá ég þá, hversu dýrð Drottins fyllti musteri Drottins, og ég féll fram á ásjónu mína.

En Drottinn sagði við mig: "Mannsson, legg þér á hjarta, sjá með augum þínum og hlýð með eyrum þínum á allt það, sem ég segi þér um öll ákvæði viðvíkjandi musteri Drottins og um allar þær tilskipanir, er það snerta, og gæt vandlega að inngöngunni í musterið og öllum útgöngum úr helgidóminum.

Seg við hina þverúðarfullu, við Ísraelsmenn: Svo segir Drottinn Guð: Nú hafið þér, Ísraelsmenn, nógu lengi framið allar yðar svívirðingar,

þar sem þér leidduð inn útlenda menn, óumskorna bæði á hjarta og á holdi, að þeir væru í helgidómi mínum, til þess að vanhelga musteri mitt, þegar þér færðuð mér mat minn, mör og blóð, og rufuð þannig sáttmála minn ofan á allar svívirðingar yðar.

Þér hafið eigi annast þjónustu helgidóma minna, heldur settuð þér þá til þess að annast þjónustuna í helgidómi mínum.

Svo segir Drottinn Guð: Enginn útlendur maður, óumskorinn bæði á hjarta og holdi, má inn í helgidóm minn koma _ enginn af þeim útlendingum, sem búa meðal Ísraelsmanna.

10 Levítarnir fjarlægðu sig frá mér, þá er Ísrael fór villur vegar. Með því að þeir villtust burt frá mér og eltu falsguði sína, skulu þeir gjöld taka fyrir misgjörð sína.

11 Þeir skulu gegna þjónustu í helgidómi mínum sem varðflokkar við hlið musterisins og sem musterisþjónar. Þeir skulu slátra brennifórninni og sláturfórninni fyrir lýðinn og standa frammi fyrir þeim til þess að þjóna þeim.

12 Af því að þeir þjónuðu þeim frammi fyrir skurðgoðum þeirra og urðu Ísraelsmönnum fótakefli til hrösunar, fyrir því hefi ég hafið hönd mína gegn þeim, _ segir Drottinn Guð _ og þeir skulu taka gjöld fyrir misgjörð sína.

13 Þeir skulu ekki nálgast mig til þess að veita mér prestþjónustu og nálgast alla helgidóma mína, hina háheilögu, heldur skulu þeir bera vanvirðu sína og taka gjöld fyrir þær svívirðingar, sem þeir frömdu.

14 Ég vil setja þá til þess að gegna þjónustu við musterið, til þess að annast það að öllu leyti og allt, sem þar er að gjöra.

15 En levítaprestarnir, niðjar Sadóks, þeir er ræktu þjónustu helgidóms míns, þá er Ísraelsmenn villtust frá mér, þeir skulu nálgast mig til þess að þjóna mér, og þeir skulu ganga fram fyrir mig til þess að færa mér mör og blóð _ segir Drottinn Guð.

16 Þeir skulu ganga inn í helgidóm minn og þeir skulu nálgast borð mitt til að þjóna mér, og þeir skulu rækja þjónustu mína.

17 Og er þeir ganga inn í hlið innri forgarðsins, skulu þeir klæðast línklæðum. Ekkert ullarfat skulu þeir á sér bera, þá er þeir gegna þjónustu í hliðum innri forgarðsins og þar innar af.

18 Þeir skulu hafa ennidúka af líni um höfuð sér og línbrækur um lendar sér. Eigi skulu þeir gyrðast neinu, er svita veldur.

19 En þegar þeir ganga út í ytri forgarðinn til lýðsins, skulu þeir fara úr þeim klæðum, er þeir gegna þjónustu í, og leggja þau í herbergi helgidómsins og fara í önnur klæði, svo að þeir helgi ekki lýðinn með klæðum sínum.

20 Þeir skulu ekki raka höfuð sín, né láta hárið flaka, heldur hafa stýft hár.

21 Vín skal enginn prestur drekka, þegar hann gengur inn í innri forgarðinn.

22 Enga ekkju né þá konu, sem við mann er skilin, mega þeir taka sér að eiginkonu, heldur aðeins meyjar af ætt Ísraelsmanna. Þó mega þeir kvongast ekkju, sé hún ekkja eftir prest.

23 Þeir skulu kenna lýð mínum að gjöra greinarmun á heilögu og óheilögu og fræða hann um muninn á óhreinu og hreinu.

24 Og þeir skulu standa frammi til þess að dæma í deilumálum manna. Eftir mínum lögum skulu þeir dæma þá, og boðorða minna og ákvæða skulu þeir gæta á öllum löghátíðum mínum og halda helga hvíldardaga mína.

25 Eigi mega þeir koma nærri líki, svo að þeir saurgist af, nema sé lík föður eða móður, sonar eða dóttur, bróður eða systur, sem ekki hefir verið manni gefin, á því mega þeir saurga sig.

26 Og eftir að hann er hreinn orðinn, skulu honum taldir sjö dagar.

27 Og daginn sem hann gengur aftur inn í helgidóminn, inn í innri forgarðinn til þess að gegna þjónustu í helgidóminum, skal hann fram bera syndafórn sína _ segir Drottinn Guð.

28 Óðal skulu þeir ekkert fá. Ég er óðal þeirra. Og ekki skuluð þér gefa þeim fasteign í Ísrael, ég er fasteign þeirra.

29 Þeir skulu hafa uppeldi sitt af matfórnum, syndafórnum og sektarfórnum, og allt, sem er banni helgað í Ísrael, skal tilheyra þeim.

30 Og hið besta af öllum frumgróða, hvers kyns sem er, og allar fórnir, hvers kyns sem eru af öllu því, er þér færið að fórnargjöf, skal tilheyra prestunum. Þér skuluð og gefa prestunum hið besta af deigi yðar til þess að leiða blessun niður yfir hús yðar.

31 Prestarnir mega ekki eta neitt sjálfdautt né það, sem dýrrifið er, hvort heldur er fugl eða fénaður.

45 Þegar þér skiptið landinu með hlutkesti til arfleifðar, skuluð þér gefa Drottni fórnargjöf af því, heilaga landspildu, 25.000 álna á lengd og 20.000 álna á breidd. Skal hún heilög vera innan takmarka sinna í allar áttir.

(Þar af skal falla undir helgidóminn ferhyrndur flötur, fimm hundruð álna á hvern veg, og fimmtíu álna teigur skal vera kringum hann.)

Af þessum mælda reit skalt þú mæla spildu 25.000 álna langa og 10.000 álna breiða. Á henni skal helgidómurinn, hinn háheilagi, standa.

Það er helgigjöf í jarðeign. Skal hún tilheyra prestunum, þeim er gegna þjónustu við helgidóminn og nálgast mega Drottin til að þjóna honum. Skal það vera húsastæði handa þeim og tilheyra helgidóminum sem heilagt svæði.

Og 25.000 álna löng landspilda og 10.000 álna breið skal falla undir levítana, þá er þjónustu gegna við musterið, sem þeirra land fyrir borgir til þess að búa í.

Og sem fasteign borgarinnar skuluð þér tiltaka 5.000 álna breiða spildu og 25.000 álna langa, jafnlanga hinni heilögu fórnargjöf. Skal hún vera eign allra Ísraelsmanna.

En handa landshöfðingjanum skuluð þér tiltaka landshluta beggja vegna við helguðu landspilduna og borgarreitinn, meðfram hinni helguðu landspildu og meðfram borgarreitnum, vestanmegin til vesturs og austanmegin til austurs, og skal hann vera jafnlangur einum erfðahluta ættkvíslanna og ná frá vesturtakmörkum til austurtakmarka landsins.

Þetta skal vera landeign hans í Ísrael, svo að höfðingjar mínir veiti eigi framar þjóð minni yfirgang, heldur fái Ísraelsmönnum landið eftir ættkvíslum þeirra.

Svo segir Drottinn Guð: Látið yður nægja þetta, þér Ísraels höfðingjar! Látið af ofríki og yfirgangi, en iðkið rétt og réttlæti! Látið af að reka þjóð mína af eignum hennar! _ segir Drottinn Guð.

10 Þér skuluð hafa rétta vog, rétta efu og rétta bat.

11 Efa og bat skulu vera jafnar að máli, svo að bat taki tíunda part gómers og sömuleiðis efa tíunda part gómers. Eftir gómer skal hvort tveggja mælast.

12 Sikill skal vera tuttugu gerur. Fimm siklar skulu vera réttir fimm og tíu siklar réttir tíu. Fimmtíu siklar skulu vera í mínu.

13 Þetta er fórnargjöfin, sem þér skuluð gefa: 1/6 efu af hverjum gómer hveitis og 1/6 efu af hverjum gómer byggs.

14 Og ákvæðið um olífuolíuna er þetta: 1/10 úr bat af hverju kór (því að tíu bat eru í einu kór).

15 Enn fremur einn sauð af hjörðinni, af hverjum tveim hundruðum, sem fórnargjöf frá öllum kynkvíslum Ísraels til matfórnar, brennifórnar og heillafórnar, til þess að friðþægja fyrir þá _ segir Drottinn Guð.

16 Allur landslýðurinn skal vera skyldur til að færa landshöfðingjanum í Ísrael þessa fórnargjöf.

17 En landshöfðinginn skal vera skyldur að leggja til brennifórnir, matfórn og dreypifórn á hátíðum, tunglkomum og hvíldardögum við allar hátíðasamkomur Ísraelsmanna. Hann skal láta fram bera syndafórnina og matfórnina og brennifórnina og heillafórnirnar til þess að friðþægja fyrir Ísraelsmenn.

18 Svo segir Drottinn Guð: Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú taka ungan uxa gallalausan og syndhreinsa helgidóminn.

19 Og presturinn skal taka af blóði syndafórnarinnar og ríða á dyrastafi musterisins og á fjóra hyrninga altarisstallanna og á dyrastafi hliðsins að innri forgarðinum.

20 Og eins skalt þú gjöra á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar vegna þeirra, sem af vangá eða fákænsku kynnu að hafa misgjört eitthvað, og þannig skuluð þér þiggja musterið í frið.

21 Á fjórtánda degi hins fyrsta mánaðar skuluð þér halda páskahátíðina, í sjö daga skulu etin ósýrð brauð.

22 Og á þeim degi skal landshöfðinginn láta bera fram uxa í syndafórn fyrir sig og allan landslýðinn.

23 Og sjö daga hátíðarinnar skal hann láta fram bera sem brennifórn Drottni til handa sjö uxa og sjö hrúta gallalausa, á hverjum degi þessa sjö daga, svo og daglega geithafur í syndafórn.

24 Og sem matfórn skal hann láta fram bera efu með hverjum uxa og efu með hverjum hrút, og olíu, hín með hverri efu.

25 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, á hátíðinni, skal hann í sjö daga láta fram bera jafnmikið þessu, bæði syndafórn og brennifórn og matfórn og olíu.