Add parallel Print Page Options

36 Og skulu þeir Besalel og Oholíab og allir hugvitsmenn, er Drottinn hefir gefið hugvit og kunnáttu, svo að þeir bera skyn á, hvernig gjöra skal allt það verk, er að helgidómsgjörðinni lýtur, gjöra allt eins og Drottinn hefir boðið."

Móse lét þá kalla Besalel og Oholíab og alla hugvitsmenn, er Drottinn hafði gefið hugvit, alla þá, sem af fúsum huga gengu að verkinu til að vinna það.

Tóku þeir við af Móse öllum gjöfunum, sem Ísraelsmenn höfðu fram borið til framkvæmda því verki, er að helgidómsgjörðinni laut. En þeir færðu honum á hverjum morgni eftir sem áður gjafir sjálfviljuglega.

Þá komu allir hugvitsmennirnir, sem störfuðu að helgidómsgjörðinni í smáu og stóru, hver frá sínu verki, sem þeir voru að vinna,

og sögðu við Móse á þessa leið: "Fólkið leggur til miklu meira en þörf gjörist til að vinna það verk, sem Drottinn hefur boðið að gjöra."

Þá bauð Móse að láta þetta boð út ganga um herbúðirnar: "Enginn, hvorki karl né kona, skal framar hafa nokkurn starfa með höndum í því skyni að gefa til helgidómsins." Lét fólkið þá af að færa gjafir.

Var þá gnógt verkefni fyrir þá til alls þess, er gjöra þurfti, og jafnvel nokkuð afgangs.

Gjörðu nú allir hugvitsmenn meðal þeirra, er að verkinu unnu, tjaldbúðina af tíu dúkum. Voru þeir gjörðir af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, og listofnir kerúbar á.

Hver dúkur var tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir dúkarnir jafnir að máli.

10 Fimm dúkarnir voru tengdir saman hver við annan, og eins voru hinir fimm dúkarnir tengdir saman hver við annan.

11 Þá voru gjörðar lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni. Eins var gjört á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni.

12 Fimmtíu lykkjur voru gjörðar á öðrum dúknum, og eins voru gjörðar fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem var í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar stóðust á hver við aðra.

13 Þá voru gjörðir fimmtíu krókar af gulli og dúkarnir tengdir saman hver við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin varð ein heild.

14 Því næst voru gjörðir dúkar af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu.

15 Hver dúkur var þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir ellefu dúkarnir jafnir að máli.

16 Þá voru tengdir saman fimm dúkar sér og sex dúkar sér,

17 og síðan búnar til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar.

18 Þá voru gjörðir fimmtíu eirkrókar til að tengja saman tjaldið, svo að það varð ein heild.

19 Þá var enn gjört þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum.

20 Því næst voru gjörð þiljuborðin í tjaldbúðina. Voru þau af akasíuviði og stóðu upp og ofan.

21 Var hvert borð tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd.

22 Á hverju borði voru tveir tappar, báðir sameinaðir. Var svo gjört á öllum borðum tjaldbúðarinnar.

23 Og þannig voru borðin í tjaldbúðina gjörð: Tuttugu borð í suðurhliðina,

24 og fjörutíu undirstöður af silfri voru búnar til undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sín fyrir hvorn tappa.

25 Og í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina, voru gjörð tuttugu borð

26 og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð.

27 Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, voru gjörð sex borð.

28 Og tvö borð voru gjörð í búðarhornin á afturgaflinum.

29 Voru þau tvöföld að neðan og héldu sömuleiðis fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig var þeim háttað hvorum tveggja á báðum hornunum.

30 Borðin voru átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði.

31 Því næst voru gjörðar slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar

32 og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri.

33 Þá var gjörð miðsláin og látin liggja á miðjum borðunum alla leið, frá einum enda til annars.

34 Og voru borðin gulllögð, en hringarnir á þeim, sem slárnar gengu í, gjörðir af gulli. Slárnar voru og gulllagðar.

35 Þá var fortjaldið gjört af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Var það til búið með listvefnaði og kerúbar á.

36 Til þess voru gjörðir fjórir stólpar af akasíuviði. Voru þeir gulllagðir og naglarnir í þeim af gulli, en undir stólpana voru steyptar fjórar undirstöður af silfri.

37 Dúkbreiða var og gjörð fyrir dyr tjaldsins, af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofin,

38 svo og fimm stólparnir er henni fylgdu og naglarnir í þeim. Voru stólpahöfuðin gulllögð og hringrandir þeirra, en fimm undirstöðurnar undir þeim voru af eiri.

37 Besalel gjörði örkina af akasíuviði. Var hún hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð.

Og hann lagði hana skíru gulli innan og utan og gjörði umhverfis á henni brún af gulli.

Og hann steypti til arkarinnar fjóra hringa af gulli til að festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin.

Þá gjörði hann stengur af akasíuviði og gulllagði þær,

smeygði síðan stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera mátti örkina.

Þá gjörði hann lok af skíru gulli. Var það hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd.

Og hann gjörði tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði gjörði hann þá á hvorum tveggja loksendanum.

Var annar kerúbinn á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Gjörði hann kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess.

En kerúbarnir breiddu út vængina uppi yfir, svo að þeir huldu lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra sneru hvort í móti öðru; að lokinu sneru andlit kerúbanna.

10 Þá gjörði hann borðið af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð.

11 Lagði hann það skíru gulli og gjörði umhverfis á því brún af gulli.

12 Umhverfis það gjörði hann lista þverhandar breiðan og bjó til brún af gulli umhverfis á listanum.

13 Og hann steypti til borðsins fjóra hringa af gulli og setti hringana í fjögur hornin, sem voru á fjórum fótum borðsins.

14 Voru hringarnir fast uppi við listann, svo að í þá yrði smeygt stöngunum til þess að bera borðið.

15 Og hann gjörði stengurnar af akasíuviði og gulllagði þær, svo að bera mátti borðið.

16 Þá bjó hann til ílátin, er á borðinu skyldu standa, föt þau, er því tilheyrðu, skálar og ker, og bolla þá, er til dreypifórnar eru hafðir, _ af skíru gulli.

17 Hann gjörði ljósastikuna af skíru gulli. Með drifnu smíði gjörði hann ljósastikuna, stétt hennar og legg. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, voru samfastir henni.

18 Og sex álmur lágu út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar.

19 Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo var á öllum sex álmunum, sem út gengu frá ljósastikunni.

20 Og á sjálfri ljósastikunni voru fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm:

21 einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo var undir sex álmunum, er út gengu frá ljósastikunni.

22 Knapparnir og álmurnar voru samfastar henni. Allt var það gjört með drifnu smíði af skíru gulli.

23 Og hann gjörði lampa hennar sjö og ljósasöx þau og skarpönnur, er henni fylgdu af skíru gulli.

24 Af einni talentu skíragulls gjörði hann hana með öllum áhöldum hennar.

25 Þá gjörði hann reykelsisaltarið af akasíuviði. Það var álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það.

26 Og hann lagði það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og hann gjörði brún af gulli á því allt í kring.

27 Og hann gjörði á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin, á báðum hliðum þess, til að smeygja í stöngum til að bera það á.

28 Og stengurnar gjörði hann af akasíuviði og gulllagði þær.

29 Hann bjó og til hina helgu smurningarolíu og hreina ilmreykelsið á smyrslarahátt.

38 Þá gjörði hann brennifórnaraltarið af akasíuviði. Það var fimm álna langt og fimm álna breitt, ferhyrnt og þriggja álna hátt.

Og hann gjörði hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn voru áföst við það _, og hann eirlagði það.

Og hann gjörði öll áhöld, sem altarinu skyldu fylgja: kerin, eldspaðana, fórnarskálirnar, soðkrókana og eldpönnurnar. Öll áhöld þess gjörði hann af eiri.

Enn fremur gjörði hann um altarið eirgrind, eins og riðið net, fyrir neðan umgjörð þess undir niðri allt upp að miðju þess.

Og hann steypti fjóra hringa í fjögur horn eirgrindarinnar til að smeygja í stöngunum.

En stengurnar gjörði hann af akasíuviði og eirlagði þær.

Og hann smeygði stöngunum í hringana á hliðum altarisins til að bera það á. Hann gjörði það af borðum, holt að innan.

Því næst gjörði hann eirkerið með eirstétt úr speglum kvenna þeirra, er gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins.

Hann gjörði forgarðinn þannig: Á suðurhliðinni voru tjöld fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng,

10 með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim voru af silfri.

11 Á norðurhliðinni voru og hundrað álna tjöld með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri.

12 Að vestanverðu voru fimmtíu álna löng tjöld með tíu stólpum og tíu undirstöðum, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri.

13 Og að austanverðu, mót uppkomu sólar, voru fimmtíu álna tjöld.

14 Voru fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum,

15 og hins vegar, báðumegin við forgarðshliðið, sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum.

16 Öll tjöld umhverfis forgarðinn voru úr tvinnaðri baðmull,

17 undirstöðurnar undir stólpunum af eiri, naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim af silfri og stólpahöfuðin silfurlögð, en á öllum stólpum forgarðsins voru hringrandir af silfri.

18 Dúkbreiðan fyrir hliði forgarðsins var glitofin af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, tuttugu álna löng og fimm álna há eftir dúkbreiddinni, eins og tjöld forgarðsins voru.

19 Og þar til heyrðu fjórir stólpar og fjórar undirstöður af eiri, en naglarnir í þeim voru af silfri, stólpahöfuðin silfurlögð og hringrandirnar á þeim af silfri.

20 Og allir hælarnir til tjaldbúðarinnar og forgarðsins hringinn í kring voru af eiri.

21 Þetta er kostnaðarreikningur tjaldbúðarinnar, sáttmálsbúðarinnar, sem gjörður var að boði Móse með aðstoð levítanna af Ítamar, syni Arons prests.

22 En Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl gjörði allt það, sem Drottinn hafði boðið Móse,

23 og með honum var Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl; hann var hagur á steingröft, listvefnað og glitvefnað af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull.

24 Allt það gull, sem haft var til smíðisins við alla helgidómsgjörðina og fært var að fórnargjöf, var tuttugu og níu talentur og sjö hundruð og þrjátíu siklar eftir helgidóms siklum.

25 Silfrið, sem þeir af söfnuðinum, er í manntali voru, lögðu til, var hundrað talentur og seytján hundruð sjötíu og fimm siklar eftir helgidóms siklum,

26 hálfsikill á mann, það er hálfur sikill eftir helgidóms sikli, á hvern þann, er talinn var í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, og voru það sex hundruð og þrjú þúsund, fimm hundruð og fimmtíu manns.

27 Hundrað talenturnar af silfri voru hafðar til að steypa úr undirstöður til helgidómsins og undirstöður til fortjaldsins, hundrað undirstöður úr hundrað talentum, ein talenta í hverja undirstöðu.

28 Af seytján hundruð sjötíu og fimm siklunum gjörði hann naglana í stólpana, silfurlagði stólpahöfuðin og bjó til hringrandir á þá.

29 Fórnargjafa-eirinn var sjötíu talentur og tvö þúsund og fjögur hundruð siklar.

30 Af honum gjörði hann undirstöðurnar til samfundatjalds-dyranna, eiraltarið, eirgrindina, sem því fylgdi, og öll áhöld altarisins,

31 undirstöðurnar til forgarðsins allt í kring, undirstöðurnar til forgarðshliðsins, alla hæla til tjaldbúðarinnar og alla hæla til forgarðsins allt í kring.

23 Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna:

"Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear.

Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.

Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.

Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.

Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum,

láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.

En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður.

Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum.

10 Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.

11 Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.

12 Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [

14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.]

15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.

16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.`

17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið?

18 Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.`

19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina?

20 Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er.

21 Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr.

22 Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr.

Read full chapter