Add parallel Print Page Options

Er Ísbóset sonur Sáls frétti, að Abner væri dauður í Hebron, féllust honum hendur, og allur Ísrael varð óttasleginn.

Ísbóset sonur Sáls hafði tvo menn hjá sér, foringja fyrir ránsflokkum. Hét annar þeirra Baana, en hinn Rekab. Þeir voru synir Rimmóns frá Beerót, af kynþætti Benjamíns, því að Beerót telst með Benjamín.

En Beerótbúar voru flúnir til Gittaím, og hafa þeir verið þar sem hjábýlingar fram á þennan dag.

Jónatan, sonur Sáls, átti son lama á báðum fótum. Hann var fimm vetra gamall, þegar fregnin kom um Sál og Jónatan frá Jesreel. Þá tók fóstra hans hann og flýði, en í ofboðinu, er hún flýði, féll hann og varð lami. Hann hét Mefíbóset.

Synir Rimmóns frá Beerót, þeir Rekab og Baana, lögðu af stað og komu, þá er heitast var dags, í hús Ísbósets. Hafði hann þá lagt sig um miðdegið.

En stúlkan, sem dyranna gætti, hafði verið að hreinsa hveiti, og hafði hana syfjað og var hún sofandi. Þeir Rekab og Baana bróðir hans læddust því inn.

Og er þeir komu inn í húsið, þá lá Ísbóset í hvílu sinni í svefnhúsi sínu. En þeir báru vopn á hann og unnu á honum og hjuggu af honum höfuðið. Því næst tóku þeir höfuð hans og héldu áfram alla nóttina veginn yfir Jórdandalinn.

Og þeir færðu Davíð í Hebron höfuðið af Ísbóset og mæltu við konunginn: "Hér er höfuð Ísbósets, sonar Sáls, óvinar þíns, sem sat um líf þitt. Drottinn hefir nú látið herra mínum, konunginum, verða hefndar auðið á Sál og niðjum hans."

Davíð svaraði Rekab og Baana bróður hans, þeim sonum Rimmóns frá Beerót, og mælti til þeirra: "Svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er frelsað hefir líf mitt úr öllum nauðum:

10 Þann mann, sem færði mér tíðindin: ,Sjá, Sál er dauður!` og hugðist færa mér gleðitíðindi, hann lét ég handtaka og drepa í Siklag og galt honum þann veg sögulaunin.

11 Og þegar illir menn nú hafa myrt saklausan mann í hvílu sinni í hans eigin húsi, skyldi ég þá ekki miklu fremur krefjast blóðs hans af ykkar hendi og afmá ykkur af jörðinni?"

12 Síðan bauð Davíð sveinum sínum að drepa þá. Þeir gjörðu svo og hjuggu af þeim hendur og fætur og hengdu þá upp hjá tjörninni í Hebron. En höfuð Ísbósets tóku þeir og jörðuðu það í gröf Abners í Hebron.

Allar ættkvíslir Ísraels komu til Davíðs í Hebron og sögðu: "Sjá, vér erum hold þitt og bein!

Þegar um langa hríð, á meðan Sál var konungur yfir oss, hefir þú verið fyrir Ísrael, bæði þegar hann lagði af stað í stríð og þegar hann kom heim. Auk þess hefir Drottinn við þig sagt: ,Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar Ísraels, og þú skalt vera höfðingi yfir Ísrael!"`

Allir öldungar Ísraels komu til konungsins í Hebron, og Davíð konungur gjörði við þá sáttmála í Hebron, frammi fyrir augliti Drottins, og þeir smurðu Davíð til konungs yfir Ísrael.

Þrjátíu ára gamall var Davíð, þá er hann varð konungur, og fjörutíu ár ríkti hann.

Í Hebron ríkti hann sjö ár og sex mánuði yfir Júda, og í Jerúsalem ríkti hann þrjátíu og þrjú ár yfir öllum Ísrael og Júda.

Konungur og menn hans fóru til Jerúsalem í móti Jebúsítum, sem bjuggu í því héraði. Jebúsítar sögðu við Davíð: "Þú munt eigi komast hér inn, heldur munu blindir menn og haltir reka þig burt." Með því áttu þeir við: "Davíð mun ekki komast hér inn."

En Davíð tók vígið Síon, það er Davíðsborg.

Davíð sagði á þeim degi: "Hver sem vill vinna sigur á Jebúsítum, skal fara um göngin til þess að komast að ,þeim höltu og blindu`, sem Davíð hatar í sálu sinni." Þaðan er komið máltækið: "Blindir og haltir komast ekki inn í musterið."

Því næst settist Davíð að í víginu, og nefndi hann það Davíðsborg. Hann reisti og víggirðingar umhverfis, frá Milló og þaðan inn á við.

10 Og Davíð efldist meir og meir, og Drottinn, Guð allsherjar, var með honum.

11 Híram, konungur í Týrus, gjörði menn á fund Davíðs og sendi honum sedrustré, trésmiði og steinhöggvara, og reistu þeir höll handa Davíð.

12 Og Davíð kannaðist við, að Drottinn hefði staðfest konungdóm hans yfir Ísrael og eflt konungsríki hans fyrir sakir þjóðar sinnar Ísraels.

13 Davíð tók sér enn hjákonur og konur í Jerúsalem, eftir að hann var farinn burt frá Hebron, og Davíð fæddust enn synir og dætur.

14 Þetta eru nöfn þeirra sona, sem honum fæddust í Jerúsalem: Sammúa, Sóbab, Natan, Salómon,

15 Jíbhar, Elísúa, Nefeg, Jafía,

16 Elísama, Eljada og Elífelet.

17 Þegar Filistar heyrðu að Davíð væri smurður til konungs yfir Ísrael, lögðu þeir af stað að leita Davíðs. Og er Davíð frétti það, fór hann ofan í fjallvígið.

18 Og Filistar komu og dreifðu sér um Refaímdal.

19 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin og sagði: "Á ég að fara móti Filistum? Munt þú gefa þá í hendur mér?" Drottinn svaraði Davíð: "Far þú, því að ég mun vissulega gefa Filista í hendur þér."

20 Þá fór Davíð til Baal Perasím. Og Davíð vann þar sigur á þeim og sagði: "Drottinn hefir skolað burt óvinum mínum fyrir mér, eins og þegar vatn ryður sér rás." Fyrir því var sá staður nefndur Baal Perasím.

21 En þeir létu þar eftir skurðgoð sín, og Davíð og menn hans tóku þau.

22 Filistar komu aftur og dreifðu sér um Refaímdal.

23 Þá gekk Davíð til frétta við Drottin, og hann svaraði: "Far þú eigi í móti þeim. Far þú í bug og kom að baki þeim og ráð á þá fram undan bakatrjánum.

24 Og þegar þú heyrir þyt af ferð í krónum bakatrjánna, þá skalt þú hraða þér, því að þá fer Drottinn fyrir þér til þess að ljósta her Filista."

25 Og Davíð gjörði eins og Drottinn bauð honum og vann sigur á Filistum frá Geba alla leið til Geser.

Davíð safnaði enn saman öllu einvalaliði í Ísrael, þrjátíu þúsund manns.

Síðan tók Davíð sig upp og lagði af stað með allt það lið, sem hjá honum var, til Baala í Júda til þess að flytja þaðan örk Guðs, sem kennd er við nafn Drottins allsherjar, hans sem situr uppi yfir kerúbunum.

Og þeir óku örk Guðs á nýjum vagni og tóku hana úr húsi Abínadabs, því er stóð á hæðinni, og stýrðu þeir Ússa og Ahjó, synir Abínadabs, vagninum.

Ússa gekk með örk Guðs, en Ahjó gekk fyrir örkinni.

Og Davíð og allt Ísraels hús dansaði fyrir Drottni af öllum mætti, með söng, gígjum, hörpum, bumbum, bjöllum og skálabumbum.

En er þeir komu að þreskivelli Nakóns, greip Ússa hendinni í örk Guðs og hélt fast í hana, því að slakað hafði verið á taumhaldinu við akneytin.

Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ússa, og Guð laust hann þar, af því að hann hafði gripið hendi sinni í örkina, og dó hann þar hjá örk Guðs.

En Davíð féll það þungt, að Drottinn hafði lostið Ússa svo hart, og hefir þessi staður verið nefndur Peres Ússa allt fram á þennan dag.

Davíð varð hræddur við Drottin á þeim degi og sagði: "Hvernig má þá örk Drottins komast til mín?"

10 Og Davíð vildi ekki flytja örk Drottins til sín í Davíðsborg, heldur sneri hann með hana til húss Óbeð Edóms í Gat.

11 Og örk Drottins var síðan í húsi Óbeð Edóms í Gat þrjá mánuði, og Drottinn blessaði Óbeð Edóm og allt hans hús.

12 En er Davíð konungi komu þau tíðindi: "Drottinn hefir blessað hús Óbeð Edóms og allt, sem hann á, sakir Guðs arkar," þá lagði Davíð af stað og sótti örk Guðs í hús Óbeð Edóms og flutti hana til Davíðsborgar með fögnuði.

13 Og er þeir, sem báru örk Drottins, höfðu gengið sex skref, fórnaði hann nauti og alikálfi.

14 Og Davíð dansaði af öllum mætti fyrir Drottni, og var Davíð þá gyrtur línhökli.

15 Og Davíð og allt Ísraels hús flutti örk Drottins upp með fagnaðarópi og lúðurhljómi.

16 En er örk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann, og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa fyrir Drottni, fyrirleit hún hann í hjarta sínu.

17 Þeir fluttu örk Drottins inn og settu hana á sinn stað í tjaldi því, sem Davíð hafði reisa látið yfir hana, og Davíð færði brennifórnir frammi fyrir Drottni og heillafórnir.

18 Og er Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnirnar, blessaði hann lýðinn í nafni Drottins allsherjar.

19 Hann úthlutaði og öllu fólkinu, öllum múg Ísraels, bæði körlum og konum, hverjum fyrir sig einni brauðköku, einu kjötstykki og einni rúsínuköku. Síðan fór allur lýðurinn burt, hver heim til sín.

20 En er Davíð kom heim til þess að heilsa fólki sínu, gekk Míkal, dóttir Sáls, á móti honum og mælti: "Tígulegur var Ísraelskonungurinn í dag, þar sem hann beraði sig í dag í augsýn ambátta þjóna sinna, eins og þegar einhver af argasta skrílnum berar sig!"

21 Þá sagði Davíð við Míkal: "Fyrir Drottni vil ég dansa. Hann hefir tekið mig fram yfir föður þinn og fram yfir allt hans hús og skipað mig höfðingja yfir lýð Drottins, yfir Ísrael, og fyrir Drottni vil ég leika

22 og lítillækka mig enn meir en þetta og líta smáum augum á sjálfan mig. En með ambáttunum, sem þú talaðir um, hjá þeim mun ég verða vegsamlegur."

23 Míkal, dóttir Sáls, var barnlaus til dauðadags.

Svo bar til, þá er konungur sat í höll sinni _ en Drottinn hafði þá veitt honum frið fyrir öllum óvinum hans allt í kring _,

að konungur sagði við Natan spámann: "Sjá, ég bý í höll af sedrusviði, en örk Guðs býr undir tjalddúk."

Natan svaraði konungi: "Far þú og gjör allt, sem þér er í hug, því að Drottinn er með þér."

En hina sömu nótt kom orð Drottins til Natans, svohljóðandi:

"Far og seg þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn: Ætlar þú að reisa mér hús til að búa í?

Ég hefi ekki búið í húsi, síðan ég leiddi Ísraelsmenn út af Egyptalandi, allt fram á þennan dag, heldur ferðaðist ég í tjaldi og búð.

Alla þá stund, er ég hefi um farið meðal Ísraelsmanna, hefi ég þá sagt nokkurt orð í þá átt við nokkurn af dómurum Ísraels, er ég setti til að vera hirða lýðs míns, Ísraels: ,Hví reisið þér mér ekki hús af sedrusviði?`

Nú skalt þú svo segja þjóni mínum Davíð: Svo segir Drottinn allsherjar: Ég tók þig úr haglendinu, frá hjarðmennskunni, og setti þig höfðingja yfir lýð minn, Ísrael.

Ég hefi verið með þér í öllu, sem þú hefir tekið þér fyrir hendur, og upprætt alla óvini þína fyrir þér. Ég mun gjöra nafn þitt sem nafn hinna mestu manna, sem á jörðinni eru,

10 og fá lýð mínum Ísrael stað og gróðursetja hann þar, svo að hann geti búið á sínum stað og geti verið öruggur framvegis. Níðingar skulu ekki þjá hann framar eins og áður,

11 frá því er ég setti dómara yfir lýð minn Ísrael, og ég vil veita þér frið fyrir öllum óvinum þínum. Og Drottinn boðar þér, að hann muni reisa þér hús.

12 Þegar ævi þín er öll og þú leggst hjá feðrum þínum, mun ég hefja son þinn eftir þig, þann er frá þér kemur, og staðfesta konungdóm hans.

13 Hann skal reisa hús mínu nafni, og ég mun staðfesta konungsstól hans að eilífu.

14 Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur, svo að þótt honum yfirsjáist, þá mun ég hirta hann með manna vendi og manns barna höggum,

15 en miskunn mína mun ég ekki frá honum taka, eins og ég tók hana frá fyrirrennara þínum.

16 Hús þitt og ríki skal stöðugt standa fyrir mér að eilífu. Hásæti þitt skal vera óbifanlegt að eilífu."

17 Natan flutti Davíð öll þessi orð og sagði honum sýn þessa alla.

18 Þá gekk Davíð konungur inn og settist niður frammi fyrir Drottni og mælti: "Hver er ég, Drottinn Guð, og hvað er hús mitt, að þú skulir hafa leitt mig til þessa?

19 Og þér nægði það eigi, Drottinn Guð, heldur hefir þú og fyrirheit gefið um hús þjóns þíns langt fram í aldir, og það meira að segja á mannlegan hátt, Drottinn Guð.

20 En hvað má Davíð enn við þig mæla? Þú þekkir sjálfur þjón þinn, Drottinn Guð!

21 Sakir þjóns þíns og að þínum vilja hefir þú gjört þetta, að boða þjóni þínum alla þessa miklu hluti.

22 Fyrir því ert þú mikill, Drottinn Guð, því að enginn er sem þú, og enginn er Guð nema þú samkvæmt öllu því, er vér höfum heyrt með eyrum vorum.

23 Og hvaða þjóð önnur á jörðinni jafnast við þína þjóð, Ísrael, að Guð hafi framgengið og endurleyst hana sér að eignarlýð og aflað sér frægðar? Þú gjörðir fyrir þá þessa miklu hluti og hræðilegu, að stökkva burt þjóðum og guðum þeirra undan þínu fólki, sem þú hafðir endurleyst af Egyptalandi.

24 Þú hefir gjört lýð þinn Ísrael að þínum lýð um aldur og ævi, og þú, Drottinn, gjörðist Guð þeirra.

25 Og lát þú, Drottinn Guð, fyrirheit það, er þú hefir gefið um þjón þinn og um hús hans, stöðugt standa um aldur og ævi, og gjör þú svo sem þú hefir heitið.

26 Þá mun nafn þitt mikið verða að eilífu og hljóða svo: Drottinn allsherjar, Guð yfir Ísrael _ og hús þjóns þíns Davíðs mun stöðugt standa fyrir þér.

27 Því að þú, Drottinn allsherjar, Guð Ísraels, hefir birt þjóni þínum þetta: ,Ég mun reisa þér hús.` Fyrir því hafði þjónn þinn djörfung til að bera þessa bæn fram fyrir þig.

28 Og nú, Drottinn Guð, þú ert Guð og þín orð eru sannleikur, og þú hefir gefið þjóni þínum þetta dýrlega fyrirheit.

29 Virst þú nú að blessa hús þjóns þíns, svo að það sé til að eilífu fyrir þínu augliti. Því að þú, Drottinn Guð, hefir fyrirheit gefið, og fyrir blessun þína mun hús þjóns þíns blessað verða að eilífu."