Add parallel Print Page Options

11 Þá söfnuðust allir Ísraelsmenn til Davíðs í Hebron og sögðu: "Sjá, vér erum hold þitt og bein!

Þegar um langa hríð, meðan Sál var konungur, hefir þú verið fyrir Ísrael, bæði þegar hann lagði af stað í stríð og þegar hann kom heim. Auk þess hefir Drottinn, Guð þinn, við þig sagt: ,Þú skalt vera hirðir þjóðar minnar Ísraels, og þú skalt vera höfðingi yfir þjóð minni Ísrael!"`

Þá komu allir öldungar Ísraels til konungsins í Hebron, og Davíð gjörði við þá sáttmála í Hebron, frammi fyrir augliti Drottins, og þeir smurðu Davíð til konungs yfir Ísrael eftir orði Drottins fyrir munn Samúels.

Og Davíð og allur Ísrael fór til Jerúsalem, það er Jebús, og þar voru Jebúsítar landsbúar.

Þá sögðu Jebúsbúar við Davíð: "Þú munt eigi komast hér inn!" En Davíð tók vígið Síon, það er Davíðsborg.

Þá mælti Davíð: "Hver sá, er fyrstur vinnur sigur á Jebúsítum, skal verða höfuðsmaður og herforingi!" Gekk þá fyrstur upp Jóab Serújuson og varð höfuðsmaður.

Því næst settist Davíð að í víginu, fyrir því nefndu menn það Davíðsborg.

Og hann víggirti borgina allt í kring, frá Milló og alla leið umhverfis, en aðra hluta borgarinnar hressti Jóab við.

Og Davíð efldist meir og meir, og Drottinn allsherjar var með honum.

10 Þessir eru helstir kappar Davíðs, er öfluglega studdu hann til konungstignar, ásamt öllum Ísrael, til þess að gjöra hann að konungi samkvæmt boði Drottins til Ísraels.

11 Og þetta er talan á köppum Davíðs: Jasóbeam Hakmóníson, höfðingi þeirra þriggja. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum í einu.

12 Honum næstur er Eleasar Dódóson, Ahóhíti. Hann var meðal kappanna þriggja.

13 Hann var með Davíð í Pas Dammím, en Filistar höfðu safnast þar saman til orustu. En þar var akurspilda, alsprottin byggi. En er fólkið flýði fyrir Filistum,

14 námu þeir staðar í spildunni miðri, náðu henni og unnu sigur á Filistum. Veitti Drottinn þannig mikinn sigur.

15 Einu sinni fóru þrír af höfðingjunum þrjátíu til Davíðs í hamrinum, í Adúllamvíginu, en her Filista lá í herbúðum í Refaímdal.

16 Þá var Davíð í víginu, en varðsveit Filista var þá í Betlehem.

17 Þá þyrsti Davíð og sagði: "Hver vill sækja mér vatn í brunninn í Betlehem, sem er þar við hliðið?"

18 Þá brutust þeir þrír gegnum herbúðir Filista, jusu vatn úr brunninum í Betlehem, sem er þar við hliðið, tóku það og færðu Davíð. En Davíð vildi ekki drekka það, heldur dreypti því Drottni til handa

19 og mælti: "Guð minn láti það vera fjarri mér að gjöra slíkt. Ætti ég að drekka blóð þessara manna, er hættu lífi sínu, því að með því að hætta lífi sínu sóttu þeir það." Og hann vildi ekki drekka það. Þetta gjörðu kapparnir þrír.

20 Abísaí, bróðir Jóabs, var fyrir þeim þrjátíu. Hann veifaði spjóti sínu yfir þrjú hundruð vegnum og var frægur meðal þeirra þrjátíu.

21 Af þeim þrjátíu var hann í heiðri hafður og var foringi þeirra, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki.

22 Benaja Jójadason, hraustmenni, frægur fyrir afreksverk sín, var frá Kabseel. Hann drap báða sonu Aríels frá Móab. Hann sté ofan í brunn og drap þar ljón einn dag, er snjóað hafði.

23 Hann drap og egypskan mann tröllaukinn, fimm álna háan. Egyptinn hafði spjót í hendi, digurt sem vefjarrif, en hann fór á móti honum með staf, reif spjótið úr hendi Egyptans og drap hann með hans eigin spjóti.

24 Þetta gjörði Benaja Jójadason. Hann var frægur meðal kappanna þrjátíu.

25 Af þeim þrjátíu var hann í heiðri hafður, en til jafns við þá þrjá komst hann ekki. Davíð setti hann yfir lífvörð sinn.

26 Og hraustu kapparnir voru: Asahel, bróðir Jóabs, Elhanan Dódóson frá Betlehem,

27 Sammót frá Harór, Heles frá Palon,

28 Íra Íkkesson frá Tekóa, Abíeser frá Anatót,

29 Sibbekaí frá Húsa, Ílaí frá Ahó,

30 Maharaí frá Netófa, Heled Baanason frá Netófa,

31 Íttaí Ríbaíson frá Gíbeu í Benjamíns ættkvísl, Benaja frá Píraton,

32 Húraí frá Nahale Gaas, Abíel frá Araba,

33 Asmavet frá Bahúrím, Eljahba frá Saalbón,

34 Hasem frá Gíson, Jónatan Sageson frá Harar,

35 Ahíam Sakarsson frá Harar, Elífal Úrsson,

36 Hefer frá Mekera, Ahía frá Palon,

37 Hesró frá Karmel, Naaraí Esbaíson,

38 Jóel, bróðir Natans, Míbhar Hagríson,

39 Selek Ammóníti, Nahraí frá Beerót, skjaldsveinn Jóabs Serújusonar,

40 Íra frá Jattír, Gareb frá Jattír,

41 Úría Hetíti, Sabad Ahlaíson,

42 Adína Sísason, niðji Rúbens, höfðingi Rúbensniðja, og þrjátíu manns með honum,

43 Hanan Maakason og Jósafat frá Meten,

44 Ússía frá Astera, Sama og Jeíel Hótamssynir frá Aróer,

45 Jedíael Simríson og Jóha Tísíti, bróðir hans,

46 Elíel frá Mahanaím og Jeríbaí og Jósavja Elnaamssynir og Jítma Móabíti,

47 Elíel, Óbeð og Jaasíel frá Mesóbaja.

12 Þessir eru þeir, er komu til Davíðs í Siklag, er hann var landflótta fyrir Sál Kíssyni. Voru og þeir meðal kappanna, er veittu honum vígsgengi.

Höfðu þeir boga að vopni og voru leiknir að slöngva steinum með hægri og vinstri hendi og að skjóta örvum af boga: Af frændum Sáls, af Benjamínítum:

Ahíeser höfuðsmaður og Jóas, Hassemaasynir frá Gíbeu, Jesíel og Pelet Asmavetssynir, Beraka og Jehú frá Anatót,

Jismaja frá Gíbeon, kappi meðal þeirra þrjátíu og foringi þeirra þrjátíu, Jeremía, Jehasíel, Jóhanan og Jósabad frá Gedera,

Elúsaí, Jerímót, Bealja, Semarja og Sefatja frá Haríf,

Elkana, Jissía, Asareel, Jóeser og Jasóbeam Kóraítar,

Jóela og Sebadja Jeróhamssynir frá Gedór.

Af Gaðítum gengu kappar miklir, hermenn, búnir til bardaga, er skjöld báru og spjót, í lið með Davíð í fjallvíginu í eyðimörkinni. Voru þeir ásýndum sem ljón og fráir sem skógargeitur á fjöllum.

Var Eser höfðingi þeirra, annar var Óbadía, þriðji Elíab,

10 fjórði Mismanna, fimmti Jeremía,

11 sjötti Attaí, sjöundi Elíel,

12 áttundi Jóhanan, níundi Elsabad,

13 tíundi Jeremía, ellefti Makbannaí.

14 Þessir voru af niðjum Gaðs, og voru þeir hershöfðingjar. Var hinn minnsti þeirra einn saman hundrað manna maki, en hinn mesti þúsund.

15 Þessir voru þeir, er fóru yfir Jórdan í fyrsta mánuðinum, er hún flóði yfir alla bakka, og stökktu burt öllum dalbyggjum til austurs og vesturs.

16 En nokkrir af Benjamíns- og Júdaniðjum komu til Davíðs í fjallvígið.

17 Gekk Davíð þá út til þeirra, tók til máls og sagði við þá: "Ef þér komið til mín með friði til þess að veita mér lið, þá vil ég fúslega gjöra bandalag við yður, en ef þér komið til að svíkja mig í hendur óvinum mínum, þótt ég hafi ekkert illt aðhafst, þá sjái Guð feðra vorra það og hegni."

18 Þá kom andi yfir Amasaí, höfðingja fyrir hinum þrjátíu, og mælti hann: "Þínir erum vér, Davíð, og með þér, þú Ísaísonur. Heill, heill sé þér, og heill liðsmönnum þínum, því að Guð þinn hjálpar þér." Tók þá Davíð við þeim og gjörði þá að foringjum fyrir sveit sinni.

19 Af Manasse gengu í lið með Davíð, þá er hann fór með Filistum til bardaga við Sál _ þó liðsinntu þeir þeim ekki, því að höfðingjar Filista réðu ráðum sínum, sendu hann burt og sögðu: "Hann kynni að ganga í lið með Sál, herra sínum, og gæti það orðið vor bani" _

20 þegar hann kom til Siklag, þá gengu í lið með honum af Manasse: Adna, Jósabad, Jedíael, Míkael, Jósabad, Elíhú og Silletaí, þúsundhöfðingjar Manasse.

21 Veittu þessir Davíð lið gegn ræningjaflokkum, því að allir voru þeir kappar miklir, og urðu þeir foringjar í hernum.

22 Því að dag frá degi komu menn til liðs við Davíð, uns herinn var mikill orðinn sem guðsher.

23 Þetta er manntal á höfðingjum þeirra hertygjaðra manna, er komu til Davíðs í Hebron til þess að fá honum í hendur konungdóm Sáls eftir boði Drottins:

24 Júdamenn, er skjöld báru og spjót, voru 6.800 herbúinna manna.

25 Af Símeonsniðjum 7.100 hraustir hermenn.

26 Af Levíniðjum: 4.600

27 og auk þess Jójada, höfðingi Aronsættar, og 3.700 manns með honum.

28 Og Sadók, ungur maður, hinn mesti kappi. Voru 22 herforingjar í ætt hans.

29 Af Benjamínsniðjum, frændum Sáls, voru 3.000, en allt til þessa héldu flestir þeirra trúnað við ætt Sáls.

30 Af Efraímsniðjum 20.800 nafnkunnra manna í ættum sínum.

31 Af hálfri Manassekynkvísl 18.000 manna, er nafngreindir voru til þess að fara og taka Davíð til konungs.

32 Af Íssakarsniðjum, er báru skyn á tíðir og tíma, svo að þeir vissu, hvað Ísrael skyldi hafast að, 200 höfðingjar, og lutu allir frændur þeirra boði þeirra.

33 Af Sebúlon gengu í herinn 50.000 vígra manna, er höfðu alls konar hervopn, allir með einum huga til þess að hjálpa.

34 Af Naftalí fóru þúsund höfðingjar og með þeim 37.000 manna, er skjöld báru og spjót.

35 Af Dansniðjum 28.600 manna, er búnir voru til bardaga.

36 Af Asser gengu í herinn 40.000 vígra manna.

37 Af þeim hinumegin Jórdanar, af Rúbensniðjum, Gaðsniðjum og hálfri ættkvísl Manasse: 120.000 manna, með alls konar vopn til hernaðar.

38 Allir þessir hermenn, er skipaðir voru í fylkingu, komu samhuga til Hebron til þess að taka Davíð til konungs yfir allan Ísrael. Voru og allir aðrir Ísraelsmenn samhuga í því að taka Davíð til konungs.

39 Og þeir dvöldust þar þrjá daga hjá Davíð og neyttu matar og drykkjar, því að frændur þeirra höfðu búið þeim beina.

40 Auk þess færðu þeir, er bjuggu í nágrenni við þá, allt að Íssakar, Sebúlon og Naftalí, vistir á ösnum, úlföldum, múlum og nautum, mjölmat, fíkjukökur, rúsínukökur, vín, olíu og naut og sauði í ríkum mæli, því að gleði var í Ísrael.