Add parallel Print Page Options

Eftir þetta vann Davíð sigur á Filistum og braut þá undir sig og tók tauma höfuðstaðarins úr höndum Filista.

Hann vann og sigur á Móabítum og mældi þá með vað, það er að segja, hann lét þá leggjast niður á jörðina og mældi tvo vaði til lífláts og eina vaðlengd til að halda lífi. Þannig urðu Móabítar skattskyldir þegnar Davíðs.

Davíð vann og sigur á Hadadeser Rehóbssyni, konungi í Sóba, þá er hann fór leiðangur til að ná aftur ríki við Efrat.

Vann Davíð af honum eitt þúsund og sjö hundruð riddara og tuttugu þúsundir fótgönguliðs. Lét Davíð skera sundur hásinarnar á öllum stríðshestunum og hélt aðeins hestum fyrir hundrað stríðsvagna eftir.

Og er Sýrlendingar frá Damaskus komu til liðs við Hadadeser, konung í Sóba, þá felldi Davíð tuttugu og tvö þúsund manns af Sýrlendingum.

Og Davíð setti landstjóra á Sýrlandi, því er kennt er við Damaskus, og urðu Sýrlendingar skattskyldir þegnar Davíðs. Þannig veitti Drottinn Davíð sigur, hvert sem hann fór.

Davíð tók og hina gullnu skjöldu, er þjónar Hadadesers höfðu borið, og flutti þá til Jerúsalem.

Auk þess tók Davíð konungur afar mikið af eir í Beta og Berótaj, borgum Hadadesers.

Þegar Tóú, konungur í Hamat, frétti að Davíð hefði lagt að velli allan her Hadadesers,

10 þá sendi Tóú Hadóram son sinn á fund Davíðs konungs til þess að heilsa á hann og árna honum heilla, er hann hafði barist við Hadadeser og unnið sigur á honum _ því að Tóú átti í ófriði við Hadadeser _, og hafði hann með sér gripi af silfri, gulli og eiri.

11 Gripina helgaði Davíð konungur einnig Drottni, ásamt silfri því og gulli, er hann hafði helgað frá öllum þeim þjóðum, er hann hafði undirokað:

12 frá Edóm, Móab, Ammónítum, Filistum, Amalek og af herfangi Hadadesers Rehóbssonar, konungs í Sóba.

13 Davíð jók orðstír sinn, þá er hann sneri aftur og hafði unnið sigur á Sýrlendingum, með því að vinna sigur á Edómítum í Saltdalnum, átján þúsund manns.

14 Og hann setti landstjóra í Edóm. Um allt Edóm setti hann landstjóra, og þannig urðu allir Edómítar þegnar Davíðs. En Drottinn veitti Davíð sigur, hvert sem hann fór.

15 Davíð ríkti yfir öllum Ísrael og lét alla þjóð sína njóta laga og réttar.

16 Jóab Serújuson var fyrir hernum, og Jósafat Ahílúðsson var ríkisritari.

17 Sadók Ahítúbsson og Ahímelek Abjatarsson voru prestar og Seraja kanslari.

18 Benaja Jójadason var fyrir Kretum og Pletum, og synir Davíðs voru prestar.